Stilltu þér upp í röð ráðvandra þjóna Jehóva
Stilltu þér upp í röð ráðvandra þjóna Jehóva
„En ég geng fram í grandvarleik . . . í söfnuðunum vil ég lofa [Jehóva].“ — SÁLMUR 26:11, 12.
1, 2. (a) Hvernig hafa sum trúfélög kristna heimsins aflað sér fylgjenda? (b) Hvaða kennsluaðferð beitti Jesús? (Matteus 11:28-30)
ÁRIÐ 1985 létu 189.800 manns skírast til tákns um að þeir hefðu vígt sig til að þjóna Jehóva sem kristnir vottar hans. Það samsvarar að meðaltali 520 á dag. Hvað fékk allt þetta fólk til að ákveða að láta skírast? Sótti það fjöldasamkomur, hlustaði á vakningarprédikara og tók síðan ákvörðun byggða á tilfinningahita augnabliksins um að þjóna Kristi? Þannig gengur það fyrir sig hjá sumum hópum innan trúarhreyfingar mótmælenda. En er það með þeim hætti sem Kristur vinnur sér fylgi?
2 Þegar við skoðum vandlega opinbera prédikun Jesú finnum við engin dæmi þess að hann hafi spilað á tilfinningar fólks. Höfðaði hann til áheyrenda sinna með hrífandi sálmasöng? Beitti hann sálfræðinni til að vekja sektarkennd með áheyrendum sínum svo að þeir yrðu örlátir á fé? Nei, með kennslu sinni fékk hann fólk til að hugsa. Þar eð flestir áheyrenda hans voru Gyðingar höfðu þeir þegar nokkurn þekkingargrunn í Hebresku ritningunum. Hann gat fengið þá til að rökhugsa út af þeirri þekkingu til að þeir þekktu hann sem Messías. — Matteus 5.-7. kafli; Lúkas 13:10-21.
3. Hvernig vitum við að Páll spilaði ekki á tilfinningar áheyrenda sinna þegar hann kenndi?
3 Á líkan hátt höfðaði Páll til skynsemi áheyrenda sinna — þótt sumir álitu hann ekki sérlega góðan ræðumann. (Postulasagan 20:7-9; 2. Korintubréf 10:10; 11:6) Hann skrifaði: „Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. . . . Takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ — Rómverjabréfið 12:1, 2.
4. Hvað þarf að gera áður en fólk getur látið skírast sem vottar Jehóva?
4 Eins er það núna að þeir sem taka þá alvarlegu ákvörðun að láta skíra sig niðurdýfingarskírn hafa numið Ritninguna og hugleitt kröfur hennar gaumgæfilega. (Postulasagan 17:11, 12) Ákvörðun þeirra er hvorki tekin í fljótræði né af tilfinningalegum orsökum sprottin. Áður en þeir eru teknir til skírnar hafa þeir sótt reglulega kristnar samkomur í því augnamiði að afla sér nákvæmrar þekkingar um Jehóva Guð og tilgang hans fyrir milligöngu Krists Jesú. (Hebreabréfið 10:25) Þeir hafa líka tekið reglulega þátt í hinni kristnu þjónustu, sagt öðrum frá fagnaðarboðskapnum um ríkið. (Postulasagan 5:42; 1. Korintubréf 9:16) Síðan, á síðustu vikunum fyrir skírn sína, fara þeir með nokkrum öldungum safnaðarins yfir liðlega 120 spurningar viðvíkjandi kristnum kenningum og breytni, og athuga hundruð ritningarstaða sem þeim eru tengdar. Allt þetta gera þeir fyrir skírn sína til að vera viðurkenndir sem ráðvandir þjónar Jehóva. — Postulasagan 8:34-36. *
Skírnin skiptir máli
5. Í hóp með hverjum er sá að stilla sér sem lætur skírast?
5 Hvaða áfanga er náð með því að láta skírast? Í fyrsta lagi tekur einstaklingurinn stöðu við hlið þess manns sem mesta ráðvendni hefur sýnt á jörðinni — Krists Jesú. Hann gaf sjálfur fordæmið með því að láta skírast þegar hann var um þrítugt. (Lúkas 3:21-23) Síðar bauð hann fylgjendum sínum að kenna mönnum og skíra út um allan heim. (Matteus 28:19, 20) En átti hann við með því að lærisveinar hans ættu að skíra hvern sem verkast vildi, án tillits til þess hvernig menn breyttu?
6, 7. (a) Hvers er krafist af sönnum fylgjanda Krists? (b) Hvað felst í heilagleika?
6 Pétur postuli sýnir okkur hvaða viðhorf við eigum að hafa. Hann skrifar: „Verðið . . . sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: ‚Verið heilagir, því ég er heilagur.‘ “ (1. Pétursbréf 1:15, 16) Hvað merkir það fyrir vígðan kristinn mann að vera „heilagur“?
7 Samkvæmt orðabók W. E. Vines, Expository Dictionary of New Testament Words, merkir gríska orðið hagios (þýtt „heilagur“) „aðgreindur . . . og, notað í Ritningunni í sinni siðferðilegu og andlegu merkingu, aðgreindur frá synd og þar með helgaður Guði.“ Annar fræðimaður í grísku segir að það feli í sér að vera „guðlegur.“ Þetta setur þeim sem vilja láta skírast sem sannkristnir menn háleitan staðal. Það er staðall ráðvendninnar, og ráðvendni er ‚óhagganleg fastheldni við siðferðislögmál‘ — hjá kristnum mönnum við lögmál Krists. — Jóhannes 17:17-19; 18:36, 37.
8. (a) Hvaða hegðunarstaðall gilti í frumkristna söfnuðinum? (b) Hefur kristni heimurinn fylgt þeim staðli? Nefndu staðbundin dæmi því til stuðnings.
8 Hinn sannkristni söfnuður hefur alltaf lagt þunga áherslu á það að varðveita ráðvendni og halda skipulaginu hreinu. Páll fyrirskipaði frumkristnum mönnum: „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni. . . . ‚Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi.‘ “ (1. Korintubréf 5:9-13; 2. Jóhannesarbréf 10, 11) Hafa klerkar kristna heimsins krafist þess að sóknarbörn þeirra héldu sér við þennan háa staðal ráðvendninnar? Kristni heimurinn viðurkennir — annaðhvort sem virka eða óvirka meðlimi — menn sem fremja reglulega alls kyns grófar syndir og glæpi. Biblían heimilar hvergi slíka undanlátsemi. — Samanber Jeremía 8:5, 6, 10.
9. Hvað fær marga til að vígja sig og skírast?
9 Það er einmitt þessi hái staðall meðal votta Jehóva sem veldur því að þeir sem unna sannleika og ráðvendni finna hvöt hjá sér til að vígja sig alvöldum Drottni alheimsins, Jehóva Guði. (Habakkuk 3:18, 19) Þeir sjá þann greinilegan mun sem er á hegðun fólks innan veraldlegra trúarbragða og votta Jehóva. Að vísu álítur þorri manna hreina guðsdýrkun vera fyrir neðan virðingu sína. (1. Pétursbréf 4:3, 4) Samt sem áður snúa þeir sem elska ráðvendni sér til sannleikans í þúsundatali. Þeir sýna að þeir elska Guð og staðla hans þegar þeir bjóða sig fram til vatnsskírnar. — Samanber Markús 1:10; Jóhannes3:23; Postulasöguna 8:36.
Ráðvendni byggð á kærleika og þolgæði
10. Hvers krefst það af kristnum manni að varðveita ráðvendni?
10 Það kostar eitthvað að vera ráðvandur. Jesús undirstrikaði það þegar hann bauð fólki að verða fylgjendur sínir. „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Markús 8:34) Að varðveita kristna ráðvendni hefur í för með sér prófraunir og fórnir sem eiga sér sömu orsök og var hjá Kristi — við eigum sameiginlegan óvin, Satan. (Efesusbréfið 6:11, 12) Því krefst það þolgæði að fylgja Jesú stöðuglega. Að vígja sig Guði er því alvarleg ákvörðun sem ekki má taka í stundarhrifningu. Þó hefur það gerst að fáeinir hafa yfirgefið sannleikann nokkrum mánuðum eða árum eftir að þeir létu skírast. Hvernig getum við skýrt það?
11. Hver getur verið orsök þess að sumir hafa ekki varðveitt ráðvendni sína?
11 Vera má að sumir hafi látið tilfinningar en ekki skynsemi og rök leiða sig til skírnar. Aðrir bjuggust kannski við skjótum ávinningi og vígðu sig til skamms tíma og af eigingjörnum hvötum. En hver sem ástæðan var rofnaði hið sterka samband við Jehóva. Þeir einblíndu ekki á fyrirmynd sína, Jesú Krist. (Hebreabréfið 12:1, 2) Þar af leiðandi dvínaði kærleikur þeirra til Jehóva og ráðvendni þeirra var skammlíf. Og hvers vegna er kærleikur svona mikilvægt atriði? Vegna þess að hann er eini trausti grundvöllur varanlegrar vígslu til Jehóva. — Markús 12:30, 31; 1. Jóhannesarbréf 4:7, 8, 16; 5:3.
Reiknaðu kostnaðinn við að vera ráðvandur
12. Hvað er viturlegt að gera áður en til skírnar kemur?
12 Jesús hvatti ekki lærisveina sína til að fylgja sér í blindni án þess að reikna kostnaðinn samfara því. Hann ráðlagði: „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ Já, hygginn maður vegur og metur vandlega hvaða stefnu hann skuli taka í framtíðinni. Hann verður að vera viss um hvaða hvatir búi að baki áður en hann tekur á sig þá ábyrgð sem tengd er kristinni vígslu og skírn. Og Jesús sýndi fram á hvað það gæti falið í sér þegar hann lauk máli sínu svo: „Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.“ — Lúkas 14:28-33.
13. Ef kjarninn í kennslu Jesú er kærleikur, hvað átti hann þá við þegar hann talaði um að ‚hata‘ ættingja sína? (Matteus 22:37-40)
13 Vígsla til Jehóva kallar á óskipta ráðvendni í því að gera vilja Guðs. Aldrei má leyfa öðrum manni eða nokkru sem við eigum að tengjast okkur sterkari böndum en binda okkur Guði. Þess vegna sagði Jesús: „Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“ (Lúkas 14:26) Hvað átti Jesús við þegar hann talaði um að hata nánustu ættingja sína og sjálfan sig? Hann hafði kennt fylgjendum sínum að elska jafnvel óvini sína; hvað fólst þá í sögninni ‚að hata‘ eins og hann notaði hana hér? (Lúkas 6:27, 35) ‚Að hata‘ felur hér í sér að elska í minna mæli. — Samanber Matteus 12:46-50.
14. Hvernig geta vinir og ættingjar brugðist við þegar einhver gerist vottur Jehóva? (Jóhannes 15:18, 19)
14 Þegar maður verður kristinn vottur Jehóva kemst hann skyndilega að raun um hverjir sannir vinir hans eru. Kannski snúa sumir jafnvel við honum bakinu af því að hann hefur sagt skilið við sína fyrri trú, jafnvel þótt þeir iðki í raun enga trú sjálfir. En Jesús hét því að hver slíkur missir yrði bættur. Hann sagði: „Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, . . . og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ — Markús 10:29, 30.
15. Hvers vegna líta sumir niður á votta Jehóva?
15 Í sumum tilvikum getur vígsla og ráðvendni haft í för með sér virðingarmissi annarra. (1. Korintubréf 4:12, 13) Af hverju skyldi það stafa? Af því að nú ert þú farinn að iðka trú sem ekki er talin „virðuleg.“ (Samanber Markús 2:15, 16.) Þegar allt kemur til alls telst það ekki virðingarvert að ‚ganga hús úr húsi og angra fólk með því að tala um trú sína.‘ Það er ekki virðingarvert að fara í fangelsi frekar en að víkja frá hlutleysi sínu í málum sem varða þjóðernishyggju og föðurlandsást. (Jóhannes 18:36) Það er ekki virðingarvert að neita að láta gefa sér blóð, vegna þess að samviskan er þjálfuð af Biblíunni — þótt ónæmistæringarplágan hafi komið sumum til að hugsa sig um aftur í tengslum við það mál. — Samanber Postulasöguna 15:28, 29; 17:6, 7; 24:5.
16. Hvernig fáum við hjálp til að varðveita ráðvendni?
16 Jafnvel þótt vegur kristinnar ráðvendni sé mjór og erfiður yfirferðar stendur okkur alltaf hjálp til boða. (Matteus 7:13, 14) Þess vegna gat Páll sagt: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ (Filippíbréfið 4:13) Og við getum fengið þennan styrk með því að vera staðföst í bæn, nema orð Guðs og hafa samfélag við kristna söfnuðinn. Sem skírðir, ráðvandir menn viljum við vera trúfastir og drottinhollir, þökk sé þeim krafti sem Guð gefur. — Efesusbréfið 4:11-13; 6:18; Sálmur 119:105.
Blessunin samfara ráðvendni
17. Til hvaða blessunar getur skírnin leitt?
17 Vígsla og skírn hefur í för með sér margvíslega blessun. Meðal annars opnar hún möguleika á umfangsmeiri og víðtækari þjónustu. Sá sem er skírður getur þjónað sem aðstoðarbrautryðjandi, og það getur í sumum tilvikum verið undanfari reglulegs eða sérbrautryðjandastarfs, trúboðsstarfs, þjónustu sem farandhirðir eða umdæmishirðir eða Betelþjónustu. (Sjá rammann á blaðsíðu 22.) Skírðir bræður eiga möguleika á að þjóna öðrum sem safnaðarþjónar og, þegar tímar líða, sem öldungar. En til að hljóta þessa blessun þarf að uppfylla sömu frumkröfu — varðveita ráðvendni. — 1. Tímóteusarbréf 3:1-10.
18. Hvaða áhrif ætti það að hafa á aðra að við skulum hafa vígt okkur?
18 Blessunin, sem vígsla og ráðvendni veitir, hefur einnig áhrif á aðra. Með því að fylgja sem nákvæmast fordæmi Krists verðum við betri eiginmenn, eiginkonur, feður og mæður. (1. Pétursbréf 2:21; Efesusbréfið 5:21-33; 6:4) Börn og unglingar byggja upp jákvætt samband við foreldra sína, kennara og safnaðaröldunga. (Títusarbréfið 2:6, 7) Sérhver skírður kristinn maður verður betri nágranni, verkamaður eða vinnuveitandi. (Matteus 22:39; Efesusbréfið 6:5-9; Títusarbréfið 2:9, 10) Allir kristnir menn ættu að hvetja og hressa aðra. Þar með líkja þeir eftir Jesú sem sagði: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matteus 11:29.
19. Hvaða önnur mikil blessun er því samfara að vígja sig Guði?
19 Friðsamlegt samband við skaparann er ein mikilvægasta blessunin sem veitist samfara vígslu og skírn. Það gefur síðan af sér hugarfrið. Í því sambandi gaf Páll þetta ráð: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.
20. (a) Á hverju byggist „friður Guðs“? (b) Hvaða tækifæri opnast þeim manni sem lætur skírast?
20 „Friður Guðs“ byggist á djúptækum skilningi á fordæmi og fórn Jesú. Þessi þekking á Kristi leiðir marga til ósvikinnar iðrunar og sinnaskipta; menn ‚snúa sér‘ frá syndinni. (Postulasagan 3:19, 20) Þar af leiðir að þeir sem vígðir eru taka undir með sálmaritaranum: „En ég geng fram í grandvarleik [ráðvendni, NW], . . . í söfnuðunum vil ég lofa [Jehóva].“ (Sálmur 26:11, 12) Sá sem lætur skírast í vatni til tákns um vígslu sína við Guð stillir sér upp í röð ráðvandra þjóna Jehóva um allan heim. (1. Pétursbréf 2:17) Hann ‚höndlar‘ líka „hið sanna líf,“ eilíft líf sem Jehóva hefur heitið í gegnum Krist Jesú. — 1. Tímóteusarbréf 6:19; Títusarbréfið 1:2.
[Neðanmáls]
^ Varðturninn (á ensku) þann 1. júní 1985, bls. 29-31, greinir frá viðeigandi undanfara skírnar og tveim spurningum sem skírnþegar eru beðnir að svara í lok skírnarræðunnar.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað var það sem dró frumkristna menn fyrst að sannleikanum sem Kristur og postular hans kenndu?
◻ Hvernig ber einstökum kristnum manni og söfnuðinum að vera heilagur?
◻ Á hverju þarf ráðvendni að byggjast?
◻ Hvað er fólgið í því að reikna út kostnaðinn við ráðvendni?
◻ Hvaða blessun fylgir því að varðveita ráðvendni?
[Spurningar]
[Rammagrein á blaðsíðu 16]
Sérréttindi í fullu starfi
Aðstoðarbrautryðjandi: Skírður boðberi sem ver minnst 60 stundum á mánuði til prédikunarstarfs.
Reglulegur brautryðjandi: Skírður boðberi sem ver að meðaltali 90 stundum á mánuði til prédikunarstarfs.
Sérbrautryðjandi: Skírður boðberi sem ver minnst 140 stundum á mánuði til þjónustunnar og þiggur smávægilegt framlag mánaðarlega til að standa straum af nauðsynlegustu útgjöldum. Sérbrautryðjendur eru venjulega sendir til einangraðra hópa eða smárra safnaða.
Gíleaðtrúboði: Skírður boðberi sem hlotið hefur þjálfun í biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, til þjónustu erlendis, og ver minnst 140 stundum á mánuði til þjónustunnar.
Farand- og umdæmishirðar: Öldungar sem ferðast milli safnaða og farandsvæða í þeim tilgangi að byggja bræðurna upp bæði í þjónustunni og á samkomum. Þeir verja miklum tíma til þjónustu á akrinum.
Betelþjónusta: Fullt starf við eitthvert af útibúum og prentsmiðjum Varðturnsfélagsins einhvers staðar í heiminum.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Skírn opnar leiðina . . .
[Mynd á blaðsíðu 15]
. . . til ráðvandrar þjónustu