Unglingar sem gleðja hjarta Jehóva
Unglingar sem gleðja hjarta Jehóva
„Gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 27:11.
1. Hvernig hefur breytni okkar áhrif á foreldra okkar og skapara?
HVORT sem þú gerir þér það ljóst eða ekki skiptir máli hvernig þú lifir lífinu. Til dæmis skiptir það foreldra þína máli. „Vitur sonur gleður föður sinn,“ segir Biblían, „en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.“ (Orðskviðirnir 10:1; 23:24, 25) En meira máli skiptir þó að það getur annaðhvort glatt eða hryggt skapara okkar, Jehóva Guð, hvernig þú lifir lífinu. „Vertu vitur, sonur minn,“ áminnir Jehóva, „og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ — Orðskviðirnir 27:11.
2. Hvaða deilumál vakti Satan upp og hvernig snertir það okkur?
2 Sá sem smánar Jehóva er auðvitað Satan djöfullinn. Í Edengarðinum hleypti Satan af stað deilumáli sem krafðist svars frá Guði. Þegar djöflinum tókst, að því er virðist auðveldlega, að fá Evu og síðar Adam til að brjóta lög Guðs var hann að ögra Jehóva. Í reynd fullyrti Satan: ‚Gefðu mér bara tækifæri; þá get ég snúið öllum frá þér.‘ (Jobsbók 1:6-12) Þess vegna lét Jehóva skrá hvatninguna hér á undan um að sonur hans gefi honum í hendur ‚svar‘ til að hrekja ásökun Satans.
3. Hvers vegna á innileg beiðni Jehóva sérstaklega við Jesú, og hverjir aðrir hafa líka glatt hjarta Guðs?
3 En hver er sá „sonur“ sem Jehóva fyrst og fremst ávarpar hér? Jesús Kristur er sonur Guðs í sérstökum skilningi, því að hann er eingetinn sonur hans. (Jóhannes 1:14) Auk Adams, sem brást skapara sínum, er Jesús auk þess eini fullkomni maðurinn sem verið hefur hér á jörð, og því eini maðurinn sem verið hefur fær um að sanna í fullkomnum skilningi að hægt sé að varðveita trúfesti við Guð. (1. Korintubréf 15:45) Innileg beiðni Jehóva beindist því einkum til Jesú. Og Jesús brást ekki föður sínum. Með trúfesti sinni gaf Jesús Guði svar í hendur gegn rembilegri fullyrðingu Satans um að menn myndu ekki þjóna honum trúfastir ef þeir væru reyndir. (Hebreabréfið 2:14; 12:2) Allir sem munu ríkja með Kristi á himnum hafa líka glatt hjarta Jehóva með því að vera honum trúfastir allt til dauða. — Opinberunarbókin 2:10.
4. Hvað ættir þú að íhuga þegar þú hugleiðir hvernig þú ætlar að verja lífi þínu?
4 En hvað um okkur sem nú lifum, þeirra á meðal ykkur unglingana? Blandist þið inni í deiluna um hvort menn séu Guði trúfastir eða ekki? Svo sannarlega! (Sálmur 147:11; 148:12, 13) Þið hafið kannski ekki hugleitt að með breytni ykkar styðjið þið annaðhvort málstað Guðs eða Satans. Annaðhvort gleðjið þið Jehóva eða Satan. Í raun má líta svo á að boði Jehóva eða beiðni sé líka beint til þín persónulega: „Vertu vitur, sonur minn, [eða dóttir], og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Er það ekki verðugt markmið að keppa að því að gleðja hjarta skapara þíns?
Hvers vegna það er viturlegt
5. Hvers vegna er viturlegt að gleðja hjarta Jehóva?
5 Veittu því athygli að Jehóva hvetur: „Vertu vitur.“ Hvers vegna erum við vitur þegar við gleðjum hjarta Jehóva? Vegna þess að Jehóva er ástríkur faðir sem vill okkur aðeins hið besta, og allt sem hann biður okkur um er okkur til góðs. Í Jesaja 48:17, 18 segir: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“
6. (a) Hvað sýnir að Jehóva vill að þú njótir þess að lifa? (b) Hvaða afleiðingar getur þú ekki umflúið?
6 Eins og ástríkur faðir vill Jehóva að þú njótir til fulls hinnar dýrmætu gjafar sem lífið er. Þess vegna segir hann: „Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast.“ Eins og sjá má af aðvöruninni, sem fylgir, er þetta auðvitað ekki hvatning um að gera hvaðeina sem þig langar til: „En vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.“ (Prédikarinn 11:9) Já, ekki er hægt að umflýja afleiðingar verka sinna; þú þarft að standa Guði reikningsskap fyrir það sem þú gerir. Sú regla gildir alltaf að „það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ — Galatabréfið 6:7.
7, 8. (a) Hvernig getur þú umflúið gremju og ógæfu? (b) Hvenær eru æska og morgunroði lífsins hégómi?
7 Því bætir Jehóva við: „Og hrind gremju [eða tilefni áhyggna] burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.“ (Prédikarinn 11:10) Að sjálfsögðu er viturlegt að forðast athafnir sem valda þér gremjulegum og erfiðum vandamálum síðar. Auðvitað munu sumir halda því fram að þú sért að missa af einhverju — að þú hafir ekki ‚lifað lífinu‘ nema þú hafir drukkið þig drukkinn, haft kynmök án þess að vera í hjónabandi eða gert eitthvað til að sýna „dirfsku“ þína. En það eru heimskuleg rök! „Það var svo sannarlega ekki þess virði,“ sagði ungur skólanemi grátandi eftir að hafa gerst sekur um siðleysi. „Mér hefur liðið illa æ síðan.“
8 Það er því viturt af ykkur unglingunum að hlýða ráði Guðs um að forðast sérhvert tilefni áhyggna eða eftirsjár eins og þeir sem lifa glæfralegu eða eigingjörnu lífi. Ritgerðahöfundur á 17. öld sagði: „Langstærstur hluti manna ver fyrstu æviárum sínum þannig að þau síðustu verða ömurleg.“ Þetta er bæði satt og mjög hryggilegt! Þegar unglingur sólundar kröftum sínum og hæfileikum á þann veg að síðari æviár hans verða erfiðari fyrir vikið, þá eru æska og morgunroði lífsins sannarlega hégómi! (Orðskviðirnir 22:3) Vertu því vitur! Hlýddu áminningunni: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ — Prédikarinn 12:1.
9. Hvaða blessun mun það vera fyrir þig að muna eftir Jehóva á unglingsárunum?
9 Með því að minnast Jehóva á unglingsárunum vinnur þú sjálfum þér mikið gagn. Ekki aðeins munt þú forðast vandamál og erfiðleika síðar meir heldur líka njóta nú þegar hamingju og lífsfyllingar í því að þjóna skapara þínum. Auk þess ert þú með því að safna þér fjársjóðum á himnum sem þú munt njóta góðs af um alla eilífð. (Matteus 6:19-21) Ef þú manst eftir Jehóva núna með því að gera vilja hans, þá mun hann minnast þín og umbuna þér með því „sem hjarta þitt girnist“ — hamingjuríku, eilífu lífi í paradís! — Sálmur 37:4; 133:3; Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 21:3, 4.
Elskar þú Jehóva?
10. (a) Hvers vegna má ákvörðun þín um að þjóna Guði ekki byggjast á kaldrifjaðri umhyggju um eigin hag? (b) Hvers óskar Jehóva enn fremur af okkur?
10 Ákvörðun þín um að þjóna Jehóva má þó ekki byggjast á kaldrifjaðri umhyggju um eigin hag. Satan er svo slóttugur óvinur að ef þú hugsar aðeins um eigin hag mun honum einhvern tíma takast að höfða til einhverrar eigingjarnrar tilhneigingar og fá þig til að hætta að þjóna Jehóva. Jehóva býður þér því ekki aðeins að vera vitur; hann höfðar líka til þess að þú helgir þig honum. Jesús sagði: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu.“ (Matteus 22:37) Veist þú hvað það merkir að elska Jehóva af öllu hjarta?
11. (a) Hvað merkir það að gefa Jehóva hjarta þitt? (b) Hvernig sýnir reynsla Jósefs að rétt hvöt í hjartanu getur knúið okkur til að gera vilja Guðs?
11 Hjartað táknar þitt innsta eðli, hvatir þínar, viðhorf, innstu tilfinningar og hugsun. Að elska Jehóva af öllu hjarta merkir því að elska hann innilega, og að framar öllu öðru í lífinu sé það ásetningur þinn að gleðja hjarta hans með því að gefa honum í hendur svar við frýjunarorðum Satans. Slíkur ásetningur og djúpur kærleikur og umhyggja fyrir Guði verður þér sterk hvöt til að gera vilja hans, jafnvel þótt það virðist lokkandi að gera eitthvað annað. Hinn ungi Jósef bar slíkan kærleika til Jehóva. Þegar hefðarkona heimtaði að hann leggðist með henni svaraði hann: „Hvernig skyldi ég . . . aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ — 1. Mósebók 39:7-9.
12. (a) Hvernig sýnir þú að þú hefur gefið Jehóva hjarta þitt? (b) Hvaða spurningar ættir þú að íhuga ef þú hefur ekki gefið Jehóva hjarta þitt?
12 Þú sýnir að þú elskar Jehóva af öllu hjarta þegar þú snýrð þér til hans í bæn og segir honum að þú viljir tilheyra honum, að þú viljir þjóna honum að eilífu. Með þeim hætti vígir þú þig Jehóva. Hefur þú gert það? Ef ekki, hver er þá ástæðan? Hvað heldur aftur af þér? Ert þú nógu gamall til að skilja hið mikla deilumál milli Jehóva og Satans? Vilt þú gleðja hjarta Jehóva? Satan vill sannarlega ekki að þú elskir Jehóva af öllu hjarta. Hann vill að þú gerir í eigingirni „það sem þér sýnist.“ Hvorn ætlar þú að gleðja — Jehóva eða Satan? Hugleiddu það alvarlega.
13. Ef þú ert vígður og skírður, hvaða spurninga ættir þú að spyrja þig?
13 Ef þú hefur vígt þig Guði og gefið tákn um það með niðurdýfingarskírn, sýnir þá lífsstefna þín að hjarta þitt tilheyri Guði? Hvert beinist áhugi þinn og tilfinningar? Að því að eignast nýjan bíl? Að þéna peninga til að geta keypt þér föt eða hljómflutningstæki? Hagsmunir hvors ganga fyrir — þínir eigin eða Jehóva? Hefur þú í sannleika farið eftir innilegri beiðni Jehóva um að gefa honum hjarta þitt?
14. (a) Hvaða verðmætan hæfileika hefur ungt fólk? (b) Hvers vegna er það hryggilegt þegar ungt fólk man ekki eftir skapara sínum?
14 Þótt þeir sem eldri eru búi yfir meiri reynslu og yfirleitt líka ríkari visku, ræður ungt fólk yfir verðmætum eiginleika sem það getur notað til að þóknast Guði. „Krafturinn er ágæti ungra manna,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 20:29) Notaðu þennan kraft núna. Mundu eftir skapara þínum „áður en vondu dagarnir koma,“ ellin, þegar líkaminn veiklast og líffærin gefa sig. Það er hryggilegt þegar maður hefur ekki munað eftir skapara sínum á unglingsárunum og hefur því ekkert í ellinni sem mælir með honum við Guð! Það er „aumasti hégómi!“ (Prédikarinn 12:1-8) Því er viturlegt af þér að muna eftir skapara þínum meðan þú býrð yfir styrk og krafti. Ef þú þjónar Guði í trúfesti mun hann minnast þín með hagstæðum dómi, hann mun veita þér eilíft líf. — Hebreabréfið 6:10-12; Prédikarinn 12:13, 14.
Þau glöddu hjarta Guðs
15. Hvaða dæmi nefnir Biblían um ungt fólk sem notaði krafta sína í þjónustu Guðs?
15 Biblían er full frásagna af unglingum sem notuðu „ágæti“ sitt — kraft sinn — í þjónustu Guðs. Það voru ‚ungir menn‘ með snerpu sinni og fimi sem könnuðu fyrirheitna landið. (Jósúa 6:22, 23; 2:15, 16, 23) Davíð var sjálfur aðeins milli tvítugs og þrítugs þegar hann sendi „tíu sveina,“ unga menn, til að biðja Nabal um greiða. (1. Samúelsbók 25:4, 5) Hverjir unnu hið hættulega og erfiða verk þegar Gyðingar endurbyggðu Jerúsalemmúra undir stjórn Nehemía landstjóra? „Helmingur sveina minna [vann] að verkinu,“ segir Nehemía. „Hinn helmingur þeirra hélt á lensunum, skjöldunum, bogunum og pönsurunum.“ (Nehemía 4:16) Og þegar Guð sló Ananías og Saffíru, konu hans, til bana fyrir lygar sínar báru „ungu mennirnir“ þau út og greftruðu. — Postulasagan 5:5, 6, 10.
16. Hvaða andlega þjónustu veitti ungt fólk forðum daga?
16 Það gleður hjarta Jehóva þegar unglingar bjóða sig fram til hverrar þeirra þjónustu sem þörf er á hverjum tíma. En unglingar hafa átt þátt í andlegu starfi sem útheimtir meira en afl og þrek. „Ég er ungur að aldri,“ sagði Elíhú. Samt sem áður notaði Jehóva hann til að leiðrétta Job. (Jobsbók 32:4-6) Samúel var bara „ungur sveinn“ þegar hann tók að þjóna í tjaldbúð Jehóva í Síló. (1. Samúelsbók 2:18) Það var ‚ung stúlka‘ sem sagði óttalaust frá því hvað spámaður Jehóva gæti gert, þótt hún væri aðeins ambátt í húsi Naamans. (2. Konungabók 5:2-4) Þegar Jehóva fól Jeremía að vera spámaður sagði Jeremía: „Ég er enn svo ungur.“ (Jeremía 1:5, 6) Og ‚sveinarnir fjórir‘ — Daníel og þrír hebreskir vinir hans — báru af sem þjónar Jehóva í útlegðinni í Babýlon! (Daníel 1. og 3. kafli) Systursonur Páls, ‚ungur maður,‘ gekk hugrakkur til verks í þágu frænda síns. (Postulasagan 23:16-22) Og þá er að nefna Tímóteus sem frá blautu barnsbeini þekkti heilagar ritningar og notaði æsku sína til að þjóna Jehóva. — 2. Tímóteusarbréf 3:15; Filippíbréfið 2:19-23; 1. Korintubréf 4:17.
Gleddu hjarta Jehóva núna
17. Hvers vegna megum við vænta þess að finna ungt fólk sem þóknast Jehóva nú á dögum? Er slíkt fólk að finna?
17 Það eru ekki aðeins ungmenni fortíðarinnar sem hafa glatt Guð með trúfastri þjónustu sinni. „Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir.“ (Postulasagan 2:17; Jóel 2:28) Við megum því reikna með að finna, nú á síðustu dögum, fjölda kristinna ungmenna sem þóknast Jehóva. Sú er líka raunin! Þótt ungir vottar Jehóva séu ekki gallalausir fremur en nokkur annar, gera margir mjög vel í kristinni þjónustu. Þeim er umhugað að gleðja hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11; 3:1, 2.
18, 19. Hvaða verk þarf að vinna núna og hvers vegna er ungt fólk vel til fallið að vinna það?
18 Á síðustu dögum er það vilji Jehóva að gefinn sé mikill vitnisburður um Guðsríki um alla jörðina, og það kostar gífurlega vinnu. (Matteus 24:14) Reisa þarf ríkissali þar sem Guð er tilbeðinn, svo og stærri byggingar þar sem haldin eru svæðismót. Víða um heim er þörf aukins prentsmiðjuhúsnæðis til útgáfu biblíurita og stærra íbúðarhúsnæðis á Betelheimilum. Slíkar byggingarframkvæmdir kosta mikla vinnu eins og endurreisn borgarmúrsins á dögum Nehemía, og ungt fólk með krafta og þrek vinnur stóran hluta þessa verks.
19 Ungt fólk innir líka af hendi verulegan hluta þeirrar erfiðisvinnu sem þarf til að prenta, binda inn og senda út þúsundir tonna af biblíuritum ár hvert. Á aðalstöðvum votta Jehóva í New York, svo og á Varðturnsbúgörðunum, eru yfir 1400 ungmenni undir 25 ára aldri. Og þjónusta þeirra takmarkast ekki við líkamlega erfiðisvinnu á virkum dögum, því að um helgar taka þau þátt í prédikun hús úr húsi og kristnum samkomum í söfnuðunum. Með því gleðja þau hjarta Jehóva!
20. (a) Hvaða hlutdeild á ungt fólk í brautryðjandastarfi? (b) Hvaða spurninga ætti ungt fólk, sem enn er ekki í fullri þjónustu, að spyrja sig?
20 Í Bandaríkjunum starfa með þessum ungmennum yfir 12.700 í sama aldurshópi sem brautryðjendur. Í öðrum heimshlutum eru tugþúsundir ungmenna til viðbótar brautryðjendur. Ef þú ert ungur að aldri og enn ekki í fullri þjónustu, getur þú þá sett þér slíkt markmið sem lætur Jehóva skipa veigamestan sess í lífi þínu, í stað þess að hugsa einungis um að komast ef til vill í vellaunað starf, ganga í hjónaband og eignast börn? Skilur þú eðli hins mikla deilumáls? Þráir þú í sannleika að sjá nafn hins mikla skapara hreinsað af öllum óhróðri? Er þá ekki rétt af þér að gera allt sem þú getur í þjónustu Jehóva? Og hlýtur það ekki að fela í sér, í það minnsta fyrir mörg fleiri ykkar, að bjóða ykkur fram til að þjóna á Betel eða í brautryðjandastarfi?
21. (a) Hvaða boð frá Jehóva ættir þú að þiggja og hvernig? (b) Hvers vegna getum við treyst að mörg fleiri ungmenni muni svara boði Jehóva á sama hátt og Jesaja?
21 Hlustaðu! Jehóva býður þér, já, biður þig innilega að veita honum svar við smánarorðum Satans. Getur þú, eins og Jesaja, heyrt Jehóva spyrja: „Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?“ Hvers vegna ekki að svara eins og Jesaja: „Hér er ég, send þú mig!“ (Jesaja 6:8) Við erum vissir um að mörg fleiri úr hópi ykkar unga fólksins muni svara jákvætt, því að orð Guðs lofar: „Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. . . . kemur dögg æskuliðs þíns til þín.“ (Sálmur 110:3; 148:12, 13) Og þegar þú svarar jákvætt getur þú fagnað þeirri vitneskju að Jehóva fylgist með og hefur velþóknun á því sem þú gerir — að þú ert að gleðja hjarta Jehóva!
Upprifjun
◻ Hvers vegna skiptir það Jehóva máli hvernig við lifum lífinu?
◻ Hvers vegna er viturlegt að gleðja hjarta Jehóva?
◻ Hvernig getum við sýnt að við höfum gefið Jehóva hjarta okkar?
◻ Hverjir glöddu hjarta Jehóva til forna og hvernig?
◻ Hverjir gleðja hjarta Jehóva núna og hvernig?
[Spurningar]
[Innskot á blaðsíðu 26]
Þegar unglingar brjóta lög Guðs uppskera þeir síðar beiskan ávöxt.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Ungir menn glöddu hjarta Jehóva með því að hjálpa til við endurbyggingu Jerúsalemmúra.