Ráðvendni Jobs — hver getur líkt eftir henni?
Ráðvendni Jobs — hver getur líkt eftir henni?
„Vegi Guð mig á rétta vog, til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt!“ — JOBSBÓK 31:6.
1. Hvers vegna er gott að íhuga fordæmi Jobs og hvaða spurningum er varpað hér fram?
JOB var fullviss um ráðvendni sína svo að hann fagnaði því að Guð rannsakaði hann. Fordæmi hans getur verið mikil hvatning okkur nútímamönnum, einkum þegar Satan djöfullinn reynir í örvæntingu að brjóta ráðvendni allra sem þjóna Guði. (1. Pétursbréf 5:8) Lærisveininum Jakob var það ljóst og hann sagði: „Takið spámennina til fyrirmyndar, sem . . . hafa . . . liðið illt með þolinmæði,“ einkum Job. (Jakobsbréfið 5:10, 11) En hver getur líkt eftir ráðvendni Jobs? Getum við það? Á hvaða vegu gaf Job okkur fordæmi um það að varðveita ráðvendni?
2. (a) Hvað merkir nafnið Job? (b) Hvað ávannst með ráðvendni Jobs?
2 Nafnið Job merkir „skotspónn fjandskapar“ og það var greinilega réttnefni. En þegar Jehóva veitti Satan leyfi til að vinna Job tjón og tók skjólgarð verndar sinnar frá honum tókst Satan samt með engu móti að brjóta ráðvendni Jobs við Guð. (Jobsbók 1:1-2:10) Job svaraði þar með þeirri ögrun Satans að hann gæti snúið öllum frá Guði. (Orðskviðirnir 27:11) Með ráðvendni sinni var Job í reynd að lýsa yfir frammi fyrir öllum alheimi: ‚Satan, þú ert fyrirlitlegur lygari því að Jehóva er minn Guð og ég mun vera honum ráðvandur hvað sem fyrir mig kemur!‘ — Jobsbók 27:5.
Þeir sem líkjast Job
3. Hver naut verndar á himnum og hvaða spurninga var spurt viðvíkjandi honum?
3 Deilumálið milli Jehóva og Satans varðar allan alheiminn, þar á meðal hið andlega tilverusvið hefur verulega þýðingu. Þar á himnum, innan verndarskjólgarðs Jehóva, var hið fyrirheitna „sæði“ sem Guð ætlaði að láta fullna sinn dýrlega tilgang. (1. Mósebók 3:15) Myndi það líkja eftir ráðvendni Jobs ef ‚verndarskjólgarðurinn‘ væri frá því tekinn? Myndi það sýna að fullkominn maður, eins og Adam hafði verið, gæti varðveitt fullkomna ráðvendni við Guð? (1. Korintubréf 15:45) Satan bjó sig undir að láta þetta „sæði“ ganga í gegnum erfiðustu prófraun hvenær sem það birtist á jörðinni.
4. (a) Hver varð aðalskotspónn fjandskapar Satans og hvernig vitum við að Guð tók vernd sína frá honum? (b) Hvað fékk Jesús Jehóva í hendur með ráðvendni sinni?
4 Jesús Kristur var það „sæði“ sem sent var frá himnum. Satan beindi því allri athygli sinni að honum, hann var sá sem fjandskapur Satans beindist fyrst og fremst að. Sem merki um að Jehóva hefði tekið frá honum skjólgarð verndar sinnar hrópaði Kristur á kvalastaurnum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Matteus 27:46; Sálmur 22:2) Þótt Jesú væri fullljóst að Guð hefði tekið frá honum vernd sína ‚syndgaði hann ekki né átaldi Guð heimskulega‘ frekar en Job. (Jobsbók 1:22) Hann líkti eftir Job og varðveitti fullkomna ráðvendni við Guð og sannaði þar með að ‚enginn væri hans líki á jörðu.‘ (Jobsbók 1:8) Í Jesú hefur Jehóva Guð því fullkomið og eilíft svar við falskæru Satans þess efnis að Guð geti ekki átt mann á jörðinni sem sýni honum trúfesti undir erfiðustu prófraunum.
5. (a) Hverju heldur Satan áfram? (b) Hvað gerði Satan þegar honum var varpað niður af himnum?
5 En Satan nægir ekki þetta svar og því ásakar hann stöðugt andlega bræður Jesú sem ásamt Jesú mynda „sæði“ skipulags Guðs sem líkt er við eiginkonu. Þegar Biblían lýsir stofnsetningu Guðsríkis á himnum segir hún um Satan: „Niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.“ En Satan gerir meira en að ákæra; hann gerir hörkulega árás! Biblían segir að ‚drekinn‘ Satan hafi, eftir að honum var varpað niður af himnum, ‚reiðst konunni og farið burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.‘ — Opinberunarbókin 12:7-12, 17.
6. (a) Hverjir ganga fram fyrir skjöldu í prédikunarstarfinu og hverjir hafa gengið í lið með þeim? (b) Hvað reynir Satan að gera þeim öllum?
6 ‚Aðrir afkomendur konunnar‘ eru þeir smurðir vottar Jehóva sem eftir eru á jörðinni núna. Þeir ganga fram fyrir skjöldu í að bera „vitnisburð Jesú“ og boða heiminum að hann sé nú krýndur konungur og muni brátt binda enda á þetta rangláta heimskerfi. (Matteus 24:14; Daníel 2:44) En þeir eru hvergi nærri einir í því starfi! Mikill múgur rúmlega þriggja milljóna manna hefur slegist í lið með þeim í að mynda sameinað skipulag ráðvandra manna sem nær út um allan heiminn. Allir þessir ráðvöndu menn eru líka skotspónn linnulausra ofsókna Satans, og himneskur faðir þeirra, Jehóva, hefur yndi af ráðvendni þeirra. — 2. Tímóteusarbréf 3:12; Orðskviðirnir 27:11.
7. Hverju megum við treysta andspænis árásum Satans?
7 Það er sannarlega alvarlegt íhugunarefni að Satan skuli í illsku beina athygli sinni að okkur sem reynum að varðveita ráðvendni við Guð, alveg eins og hann gerði gagnvart Job. Við þurfum samt sem áður ekki að missa kjarkinn. Hvers vegna? Vegna þess að „[Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur“ og ‚mun ekki sleppa af okkur hendinni né yfirgefa okkur.‘ (Jakobsbréfið 5:11; 5. Mósebók 31:6) Já, Jehóva mun styðja við bakið á okkur. Hann er „skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 2:7) Það merkir þó ekki að Jehóva muni ekki leyfa að við séum reynd. Það mun hann gera eins og hann leyfði að Job væri reyndur. En „Guð er trúr,“ benti Páll postuli á, „og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ — 1. Korintubréf 10:13.
Þegar prófraun ber að garði
8. Hvaða gagn getum við haft af fordæmi Jobs?
8 Fordæmi Jobs í ráðvendni getur styrkt okkur sérstaklega þegar við okkur blasa erfiðar prófraunir. Job var svo þjáður að hann óskaði þess að hann gæti dáið og legið í Séol, sameiginlegri gröf mannkynsins. (Jobsbók 14:13) Sumir hafa haft svipaða tilfinningu og sagst geta skilið Job þegar hann var sem þjáðastur. Kannski hefur þér líka einhvern tíma liðið þannig. Það að lesa um þjáningar hans getur jafnast á við hvatningu frá vini sem hefur gengið í gegnum enn þyngri prófraun en við sjálf höfum þolað. Vitneskjan um að einhver annar hefur verið þolgóður og skilur okkur er tvímælalaust hjálp til að varðveita þolgæði.
9. Hvaða gagn höfum við af ráðvendni annarra?
9 Jehóva er þessi þörf okkar ljós og lét skrifa Jobsbók til að hjálpa okkur að varðveita ráðvendni eins og Job. (Rómverjabréfið 15:4; Jakobsbréfið 5:10, 11) Guð veit að einn hluti líkamans er háður öðrum þannig að trúfastir þjónar hans þarfnast líka hver annars. (1. Korintubréf 12:20, 26) Manst þú eftir mótinu „Ráðvandir menn“ sem milljónir lesenda þessa tímarits sóttu? Þeir sem voru þar muna vel hve þægileg tilfinning það var að vera í félagsskap svo margra sem höfðu það meginmarkmið í lífinu að varðveita ráðvendni við Guð. Hvílík hvatning viðstöddum til að varðveita ráðvendni að vita að þúsundir manna í kringum þá varðveita líka ráðvendni í erfiðum prófraunum — á vinnustað eða í skólanum! — 1. Pétursbréf 5:9.
10. (a) Hvernig er hægt að missa sjónar á réttu samhengi hlutanna? (b) Hvað fór Job að efast um?
10 Stundum getur þó svo farið að okkur takist ekki að varðveita heildarsýn okkar líkt og henti Job. Mjög þjáður og niðurdregin maður getur sagt við sjálfan sig: ‚Hvers vegna gerir Guð mér þetta? Hvers vegna leyfir hann að þetta gerist?‘ Hann getur jafnvel gengið svo langt að spyrja: ‚Hvaða gagn er í því að þjóna Guði?‘ Job gerði sér ekki ljóst hver væri valdur að þjáningum hans og tók að efast um að því fylgdi nokkur stundleg blessun að vera réttlátur, því að hinir góðu virtust þjást jafnmikið, ef ekki meira, en hinir vondu. (Jobsbók 9:22) Að sögn Elíhús sagði Job: „Hvaða gagn hefi ég af því, fremur en ef ég syndgaði?“ (Jobsbók 35:3) Við megum samt ekki sökkva okkur svo niður í eigin vandamál að við missum sjónar á réttu samhengi hlutanna og tökum að efast um gildi þess að þjóna Guði.
11. Hvernig leiðrétti Elíhú Job?
11 Elíhú veitti Job þá leiðréttingu sem hann þurfti, hjálpaði honum að sjá hlutina í réttu samhengi með því að benda á að Jehóva væri Job langtum æðri. (Jobsbók 35:4, 5) Elíhú benti á að óháð því sem fyrir kynni að koma ættum við aldrei að hugsa sem svo að Guð sé umhyggjulaus og að við getum illskast út í hann fyrir það sem við teljum ranglæti af hans hálfu. „Syndgir þú,“ spurði Elíhú Job, „hvað getur þú gjört honum? Og séu afbrot þín mörg, hvaða skaða gjörir þú honum?“ (Jobsbók 35:6) Já, ef þú reynir að illskast við Guð með því að snúa baki við vegum hans eða þjónustu ert þú einungis að baka sjálfum þér tjón, ekki Guði.
12. Hvaða áhrif hefur ráðvendni okkar á Guð?
12 Í hinn stað sýndi Elíhú fram á að Jehóva hefur ekki persónulegt gagn af því þótt við gerum það sem er rétt. Að sjálfsögðu hefur Guð ánægju af því að við varðveitum ráðvendni, en samt er hann á engan hátt háður tilbeiðslu okkar eins og kom fram í spurningu Elíhús til Jobs: „Sért þú ráðvandur, hvað gefur þú honum, eða hvað þiggur hann af þinni hendi?“ (Jobsbók 35:7) Guð gaf okkur lífið og hans vegna öndum við, hrærumst og erum til. Hann á allt! (Postulasagan 17:25; 1. Kroníkubók 29:14) Óguðleiki okkar eða réttlæti getur því ekki haft persónuleg áhrif á Guð. — Jobsbók 35:8.
Þegar við erum leiðrétt
13. (a) Hvernig brást Job við leiðréttingunni sem hann fékk? (b) Hvert er vandamál okkar allra?
13 Hvernig brást Job við leiðréttingunni sem hann fékk, fyrst frá Elíhú og síðan Jehóva sjálfum? Hann tók við henni, iðraðist „í dufti og ösku.“ (Jobsbók 42:6) Já, Job auðmýkti sig, viðurkenndi villu sína. Þykir okkur ekki slík auðmýkt aðdáunarverð? En hvað um okkur sjálf? Jafnvel þótt við séum staðföst og ráðvönd eins og Job hættir okkur öllum til að gera mistök og komast á einn eða annan hátt úr jafnvægi. (Jakobsbréfið 3:2; Galatabréfið 2:11-14) Hvað eigum við að gera þegar einhver, sem kannski er yngri en við líkt og Elíhú, vekur athygli okkar á mistökum eða ófullkomleika? — Jobsbók 32:4.
14. (a) Hver er almenn tilhneiging manna þegar þeir fá leiðréttingu? (b) Hvað getur stuðlað að mistökum og hvaða fordæmi gaf Job okkur þegar hann var leiðréttur?
14 Það er ekki alltaf auðvelt að taka á móti leiðréttingu. (Hebreabréfið 12:11; Orðskviðirnir 3:11, 12) Við höfum tilhneigingu til að reyna að réttlæta okkur. Eins og Job höfum við kannski ekki gert eða sagt neitt rangt af ásettu ráði. Tilefni okkar kann að hafa verið gott, en vera má að við höfum talað án þess að þekkja alla málavexti, skilja þá til fulls eða sýna næga tillitssemi. Kannski báru orð okkar vott um örlítið kynþátta- eða þjóðernisstolt eða ósveigjanleika sem ekki átti sér stuðning í Ritningunni. Kannski er athygli okkar vakin á því að orð okkar hafi fyrst og fremst verið persónulegar skoðanir, hafi sært aðra í þeim mæli að andlegu hugarfari þeirra sé stefnt í voða. Þegar við erum leiðrétt, munum við þá, eins og Job, viðurkenna að við höfum „talað án þess að skilja“ og ‚taka orð okkar aftur‘? — Jobsbók 42:3, 6.
Treystum Guði, ekki auðæfum
15. Hvernig vitum við að Job treysti ekki á auðæfi sín?
15 Bildad lét á sér skilja að Job hefði gleymt Guði og að traust hans beindist nú að einhverju öðru. (Jobsbók 8:13, 14) En þótt Job hefði verið blessaður með miklum auði treysti hann ekki á hann. Það raskaði ráðvendni hans ekki hið minnsta þótt hann missti allar eigur sínar. (Jobsbók 1:21) Í lokavörn sinni sagði Job: „Hafi ég gjört gullið að athvarfi mínu og nefnt skíragullið fulltrúa minn, hafi ég glaðst yfir því, að auður minn var mikill, og að hönd mín aflaði svo ríkulega . . . það hefði líka verið hegningarverð synd, því að þá hefði ég afneitað Guði á hæðum.“ — Jobsbók 31:24-28.
16. (a) Hvaða rannsókn ættum við að gera á sjálfum okkur? (b) Hverju lofar Guð þeim sem treysta honum?
16 Hvað um okkur? Hvert beinum við trausti okkar — til Jehóva eða efnislegra eigna? Ef við værum vegin á rétta vog, eins og Job vildi vera, myndi þá Guð finna okkur ráðvönd í þessu máli? Er æðsta markmið okkar í lífinu í raun og sannleika það að framganga ráðvandir fyrir augliti Jehóva til að gefa Jehóva svar við ögrunum Satans? Beinist hugur okkar kannski fyrst og fremst að því að fullnægja eigin löngunum í skemmtun og eignir? Gott er ef við getum verið eins og Job og glatt hjarta Jehóva með því að treysta honum, en ekki hugsað of mikið um sjálfa okkur eða þau efnislegu gæði sem hægt er að eignast! Ef við treystum á Jehóva, látum hans hagsmuni ganga fyrir, heitir hann að sleppa aldrei af okkur hendinni né yfirgefa okkur. — Matteus 6:31-33; Hebreabréfið 13:5, 6.
Siðferði
17. Hvað gáfu „huggarar“ Jobs í skyn en hvað sagði Job um siðferði sitt?
17 Falskir huggarar Jobs sökuðu hann ekki beinlínis um ranga breytni í siðferðismálum, en aftur og aftur gáfu þeir í skyn að hann væri sekur um einhverja leynda synd sem Guð væri að refsa honum fyrir. Sem efnaður maður og „meiri öllum austurbyggjum“ hafði Job tvímælalaust tækifæri til ástarævintýra utan hjónabands. (Jobsbók 1:3; 24:15) Aðrir þjónar Guðs, fyrir og eftir daga Jobs, féllu fyrir freistingum til siðleysis. (1. Mósebók 38:15-23; 2. Samúelsbók 11:1-5) Job bar hins vegar af sér sérhverja ásökun um slíka syndsemi og sagði: „Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar? Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu, og hafi ég staðið á hleri við dyr náunga míns, . . . slíkt væri óhæfa og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir.“ — Jobsbók 31:1, 9-11.
18. Hvers vegna er erfitt að halda siðferðislög Biblíunnar en hvers vegna er það okkur til hamingju ef við gerum það?
18 Kannski hefur engin önnur aðferð reynst Satan jafnárangursrík í að grafa undan ráðvendni þjóna Guðs en sú að tæla þá til siðleysis. (4. Mósebók 25. kafli) Getur þú líkt eftir ráðvendni Jobs með því að standa gegn öllum freistingum til siðleysis? Það er áskorun á ráðvendni þína í þessum kynóða heimi þar sem siðleysi er svo algengt. En hugsaðu um það hversu gott er að geta sagt eins og Job, þegar þú þarft að svara fyrir þig: ‚Guð mun viðurkenna sakleysi mitt‘! — Jobsbók 31:6.
Það sem getur hjálpað okkur
19. Hvað er nauðsynlegt til að hjálpa okkur að varðveita ráðvendni?
19 Það er ekki auðvelt að líkja eftir ráðvendni Jobs því að Satan leggur jafnhart að sér við að reyna að brjóta ráðvendni okkar og Jobs. Okkur er því lífsnauðsyn að klæðast alvæpni Guðs. (Efesusbréfið 6:10-18) Það felur í sér að hugsa alltaf um að þóknast Guði í öllu sem við eða fjölskyldur okkar gera, eins og Job. (Jobsbók 1:5) Því er biblíunám, reglulegt samfélag við trúbræður okkar og opinber játning trúarinnar okkur lífsnauðsyn. — 2. Tímóteusarbréf 2:15; Hebreabréfið 10:25; Rómverjabréfið 10:10.
20. (a) Hvaða von getur haldið okkur uppi í gegnum prófraunir? (b) Hvaða umbun ráðvendninnar, sem sálmaritarinn nefndi, getum við hlotið?
20 En það sem öðru fremur getur haldið okkur uppi í gegnum erfiðar prófraunir er hið sama og hélt Job uppi — það traust hans að þetta líf væri ekki allt og sumt. „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ spurði Job. Síðan svaraði hann: „Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér.“ (Jobsbók 14:13-15) Þetta sama, óhagganlega trúartraust á að Jehóva muni reisa upp trúfasta þjóna sína getur líka hjálpað okkur að standast hverja þá prófraun sem Satan leggur á okkur. (Hebreabréfið 6:10) Endur fyrir löngu skrifaði sálmaritarinn: „Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu.“ (Sálmur 41:13) Megi það vera sú hamingjuríka framtíð sem við öll hljótum — megi Jehóva halda okkur uppi og vernda að eilífu af því að við erum ráðvandir þjónar hans!
Getur þú svarað?
◻ Hverjir hafa líkst Job og hvað er líkt með þeim og honum?
◻ Hvað má læra af viðbrögðum Jobs við prófraununum?
◻ Hvernig brást Job við leiðréttingu og hvað getum við lært af því?
◻ Hvaða gott fordæmi gaf Job varðandi viðhorf til efnislegra hluta og siðferðis?
◻ Hvað getur hjálpað okkur að varðveita ráðvendni eins og Job?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hefur þú einhvern tíma, líkt og Job, efast um að því fylgdi nokkur blessun núna að varðveita ráðvendni?