Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ráðvendni Jobs — hvers vegna svona einstök?

Ráðvendni Jobs — hvers vegna svona einstök?

Ráðvendni Jobs — hvers vegna svona einstök?

„Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“ — JOBSBÓK 27:5.

1. Hver var Job og hvernig vitum við að hann er sannsöguleg persóna?

 JOB er maður sem ber af í mannkynssögunni. Bæði var hann mjög auðugur og auk þess virtur sem miskunnsamur dómari og forystumaður. Biblían segir að hann hafi verið „meiri öllum austurbyggjum.“ (Jobsbók 1:3; 29:12-25) Hann er nefndur í sömu andránni og Nói og Daníel sem sérstaklega réttlátur maður. (Esekíel 14:14, 20) Biblían lýsir líka Job sem fordæmi kristnum mönnum til eftirbreytni og sýnir þannig að hann var sannsöguleg persóna. — Jakobsbréfið 5:11.

2. Hvernig getum við fundið út hvenær Satan reyndi Job?

2 Job bjó í Úslandi þar sem nú heitir Arabía. Þótt hann væri ekki Ísraelsmaður tilbað hann Jehóva, og Jehóva vakti athygli Satans á því. Þau orð Guðs að „enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur,“ gefa til kynna að enginn annar þjónn Guðs, sem orð fara af, hafi verið uppi á þeim tíma. (Jobsbók 1:8) Prófraunir Jobs hljóta því að hafa átt sér stað meðan fjarskyld ættmenni hans, Ísraelsmenn, voru í ánauð í Egyptalandi — einhvern tíma eftir dauða hins einstaklega ráðvanda Jósefs árið 1657 f.o.t. og áður en Móse gekk fram á sjónarsviðið sem ráðvandur maður.

3. Hver skrifaði Jobsbók og hvernig gat hann aflað sér upplýsinga?

3 Greinilega skrifaði Móse Jobsbók. En hvernig gat hann vitað af prófraunum Jobs? Nú, skömmu eftir að Móse neyddist til að flýja Egyptaland árið 1553 f.o.t. settist hann að í Midíanslandi, ekki fjarri Úslandi. (2. Mósebók 2:15–25; Postulasagan 2:23-30) Á þeim tíma voru að líða síðustu 140 æviár Jobs sem Jehóva blessaði hann með. (Jobsbók 42:16) Síðar, þegar Ísraelsmenn voru í grennd við Ús undir lok ferðar sinnar um eyðimörkina, kann Móse að hafa heyrt um síðustu æviár Jobs og dauða.

Takmörkuð þekking Jobs

4. (a) Hvaðan var vitneskja Jobs um Jehóva komin og hvers vegna var hann vafalaust í sambandi við afkomendur Abrahams og Ísaks? (b) Hvernig var Job svo ráðvandur maður að hann bar af?

4 Þegar Job var reyndur var þekking hans á Guði og tilgangi Guðs takmörkuð, því að engin bók Biblíunnar hafði enn verið skrifuð. Job hlýtur þó að hafa þekkt eitthvað til samskipta Jehóva við Abraham, Ísak, Jakob og Jósef. Job var greinilega afkomandi Nahors, bróður Abrahams, í gegnum Ús, frumgetinn son Nahors. Auk þess var Betúel bróðir Úss, en hann var faðir Rebekku, konu Ísaks, og langafi Jósefs. (1. Mósebók 22:20-23) Job mat vafalaust mikils hverja þá vitneskju sem hann hafði um viðskipti Jehóva við Abraham og afkomendur hans, og var mikið í mun að þóknast Jehóva. Job var því einstaklega ráðvandur maður, ámælislaus og sýndi Jehóva órjúfanlega tryggð.

5. Fyrir hvað er ráðvendni Jobs einkum sérstök?

5 Ekki löngu eftir dauða Jósefs í Egyptalandi varð ráðvendni Jobs að deiluatriði milli Jehóva Guðs og Satans á himnum. Job hafði þó enga hugmynd um þá deilu sem átti sér stað í kringum ráðvendni hans. Þekkingarleysi hans á því hvers vegna hann þjáðist gerir ráðvendni hans sérstaklega einstaka. En Jehóva lét Móse segja í smáatriðum frá deilunni um rávendni Jobs, öllum þjónum Guðs á síðari tímum til gagns.

Deilan um ráðvendni Jobs

6. (a) Hvernig kom það fram á samkomu á himnum að deila væri milli Guðs og Satans? (b) Hvernær upphófst þetta deilumál og hvað fólst í því?

6 Jobsbók dregur huluna frá því sem ósýnilegt er og leyfir okkur að sjá englana ganga til fundar við Jehóva Guð á himnum. Þar minnir Jehóva Satan, sem einnig er viðstaddur, á að ‚enginn sé Jobs líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.‘ (Jobsbók 1:8) Ljóst er að deila stendur yfir sem tengist ráðvendni Jobs. En það er ekkert nýtt. Þetta deilumál kom upp þegar Satan fékk Adam og Evu til að snúa baki við Guði, þegar hann sagði í reynd: ‚Gefðu mér bara tækifæri; þá get ég snúið öllum frá þér.‘ — 1. Mósebók 3:1-6.

7. Hvað varð Satan að færa fram til að skýra ráðvendni Jobs og hvernig skoraði hann á Guð?

7 Á þessum fundi á himnum er óhjákvæmilegt fyrir Satan að koma með sína skýringu á því hvers vegna Job sé ráðvandur. „Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt?“ spyr hann. „Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? . . . En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ — Jobsbók 1:9-11.

8. (a) Hvernig brást Jehóva við áskorun Satans? (b) Hvaða áföll leiddi Satan yfir Job?

8 Jehóva tekur áskorun Satans. Hann treystir fullkomlega ráðvendni Jobs og svarar: „Sjá, veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína.“ (Jobsbók 1:12) Satan bíður ekki boðanna að ráðast gegn Job. Sabear í ránsför taka 1000 naut Jobs og 500 ösnur. Þeir drepa alla sveinana nema einn. Næst lætur Satan falla eld af himni og eyða 7000 sauðum Jobs og þeim sem gæta þeirra. Aðeins einn mannanna kemst undan. Síðan lætur Satan þrjá flokka Kaldea ræna 3000 úlföldum Jobs og drepa alla sveinana nema einn. Að síðustu sendir Satan hvassviðri svo að húsið, þar sem hin tíu börn Jobs halda veislu, fellur og þau farast. Þeir sem lifa hörmungarnar af koma síðan hver á fætur öðrum til að flytja Job ótíðindin. — Jobsbók 1:13-19.

9. Hvað gerði ógæfu Jobs sérlega þungbæra en hvernig brást hann samt við henni?

9 Hvílík ógæfa! Jafnvel þótt Job hefði skilið hvað olli henni hefði hún verið þungbær. En hann skildi það ekki. Hann vissi ekki að hann var þungamiðjan í deilu á himnum, og að Jehóva notaði hann til að sýna að til væri fólk sem héldi fast við ráðvendni sína, þrátt fyrir óréttmætar þjáningar sem Satan leiddi yfir það. Job er harmi sleginn og heldur jafnvel að Guð sé á einhvern hátt valdur að tjóni hans. Samt segir hann: „[Jehóva] gaf og [Jehóva] tók, lofað veri nafn [Jehóva].“ Já, „í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega.“ — Jobsbók 1:20-22.

10. (a) Hvers fór Satan á leit þessu næst og hvers vegna var Jehóva fús til að leyfa það? (b) Hvaða afleiðingar hafði hið hörmulega ástand Jobs fyrir hann?

10 Hvílík auðmýking fyrir Satan að vera á öðrum fundi englanna við Jehóva minntur á þetta um Job: „Enn þá er hann staðfastur í ráðvendni sinni“! En Satan gefst ekki upp. Nú ögrar hann Guði með því að fái hann tækifæri til að snerta Job sjálfan muni Job formæla Guði upp í opið geðið. Jehóva treystir að ráðvendni Jobs nái jafnvel þetta langt og gefur leyfi sitt, þó með því skilyrði að Satan megi ekki taka líf hans. Satan ‚slær því Job illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja.‘ (Jobsbók 2:1-8) Svo illa er komið fyrir Job að ættingjar hans og vinir forðast hann og fyrrverandi kunningjar gera gys að honum. — Jobsbók 12:4; 17:6; 19:13-19; 30:1, 10-12.

11. Hvaða áfall þurfti Job líka að þola og hvers vegna er ráðvendni hans í gegnum alla erfiðleika sína svona einstök?

11 Þá ríður nýtt áfall yfir! Trú konu Jobs brestur. Hún segir við hann: „Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!“ Hann svarar henni: „Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig taka hinu vonda?“ Og frásagan segir að „í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.“ (Jobsbók 2:9, 10) Þegar við höfum í huga að ástæðan fyrir þjáningum Jobs var honum hulin er ráðvendni hans einstök!

Árás úr annarri átt

12. (a) Hverjir voru þeir sem komu til að hughreysta Job? (b) Hvernig notaði Satan þessa menn til að reyna Job enn frekar?

12 En Satan er ekki af baki dottinn. Hann teflir fram þrem mönnum sem eiga að teljast vitrir og annaðhvort þekktu Job persónulega eða þann orðstír, sem af honum fór, að hann væri „meiri öllum austurbyggjum.“ Sýnilega voru þeir töluvert eldri en Job. (Jobsbók 1:3; 15:10; 32:6) Tveir þeirra eru fjarskyldir attingjar hans. Elífas Temaníti er afkomandi Abrahams í gegnum Teman, sonarson Esaús, og Bildad Súíti er kominn af Súa, syni Abrahams. (Jobsbók 2:11; 1. Mósebók 36:15; 25:2) Um ætt Sófars er ekki vitað. Að því er virðist koma þessir þrír menn til að hughreysta Job, en í raun notar Satan þá til að reyna að grafa undan ráðvendni hans. Á svipaðan hátt og þeir sem yfirheyra fanga í pólitískum tilgangi þykjast stundum vera vinir, reyna að grafa undan hollustu þeirra og snúa þeim gegn stjórnvöldum, eins vonaðist Satan til að „huggarar“ hans myndu snúa Job gegn Guði. — Jobsbók 16:2, 3.

13. (a) Hvað gerðu aðkomumennirnir fyrst eftir komu sína? (b) Hvaða stefnu mörkuðu þeir þegar þeir tóku til máls?

13 Fyrstu sjö dagana og sjö næturnar eftir komu sína sitja gestirnir hljóðir og fylgjast með óbærilegum kvölum Jobs og auðmýkingu. (Jobsbók 2:12, 13) Elífas, sem bersýnilega er elstur, tekur að lokum til máls og markar stefnu og tón þess sem síðan snýst í þriggja umferða kappræðu. Ræða Elífasar, svo og ræður félaga hans sem á eftir fara, er aðallega ásakanir. Eftir að hver þeirra hefur lokið máli sínu hrekur Job rök þeirra. Sófar tekur ekki þátt í þriðju umferð kappræðnanna; telur sennilega að hann hafi engu við að bæta. Sófar flytur því aðeins tvær ræður en Elífas og Bildad þrjár hvor.

14. Hvers konar rökum beittu þremenningarnir gegn Job og hvernig beitti Satan svipuðum aðferðum gegn Jesú?

14 Ræða Elífasar er lengri og hann er ögn mildari í máli en hinir. Bildad er naprari og Sófar enn hvassari. Rök þeirra eru lævíslega hugsuð til að ná þeim tilgangi Satans að brjóta ráðvendni Jobs. Þeir fara oft rétt með staðreyndir en ranglega með heimfærslu og umgjörð. Satan beitti sömu brögðum gegn Jesú. Hann vitnaði í ritningarstað sem segir að englar Guðs verndi þjóna hans fyrir tjóni, og bauð Jesú að sanna að hann væri sonur Guðs með því að henda sér fram af musterinu. (Matteus 4:5-7; Sálmur 91:11, 12) Um langan tíma þurfti Job að verjast svipuðum röksemdum runnum frá Satan.

15. Hverja sagði Elífas vera orsök erfiðleika Jobs?

15 Í inngangsræðu sinni heldur Elífas því fram að erfiðleikar Jobs séu endurgjald Guðs vegna synda hans. „Hver er sá, er farist hafi saklaus?“ spyr hann. „Að því, er ég hefi séð: Þeir sem plægðu rangindi og sáðu óhamingju, þeir einir hafa uppskorið það.“ (Jobsbók 4:7, 8) Elífas heldur því síðan fram að Guð treysti ekki þjónum sínum. „Sjá, þjónum sínum treystir hann ekki,“ segir Elífas, „og hjá englum sínum finnur hann galla, hvað þá hjá þeim, sem búa í leirhúsum.“ — Jobsbók 4:18, 19.

16. Hvernig fylgdi Bildad árás Elífasar eftir og hvaða ósanngjarna líkingu notaði hann?

16 Bildad fylgir árásinni eftir. „Ef þú ert hreinn og einlægur,“ segir hann, „þá mundi [Guð] þegar vakna til að sinna þér og endurreisa bústað þíns réttlætis.“ Bildad bendir á að pappírssefið og störin þorna upp og deyja, vanti þau vatnið, og segir réttilega að ‚svo fari fyrir hverjum þeim sem gleymir Guði.‘ Það er hins vegar alrangt af honum að heimfæra þessa líkingu upp á Job og bæta svo við: „Von hins guðlausa verður að engu“! — Jobsbók 8:6, 11-13.

17. Hverju hélt Sófar fram?

17 Sófar talar af enn meiri sannfæringarkrafti. ‚Ó að Guð myndi tala og segja þér hvað honum finnst,‘ segir hann í reynd. ‚Guð veit hvað þú hefur gert. Hann refsar þér miklu vægar en þú verðskuldar. Hreinsaðu þig af syndum þínum og snúðu baki við allri vonsku þinni; þá munt þú njóta öryggis og margra vina.‘ — Jobsbók 11:4-6, 14-20.

18. Hvernig héldu þremenningarnir áfram árásum sínum á Job í annarri umferð kappræðunnar?

18 Í annarri umferð kappræðnanna heldur Elífas áfram árásum sínum á ráðvendni Jobs. ‚Guð treystir ekki einu sinni englunum, og þaðan af síður einhverjum á borð við þig! Óguðlegur maður á alltaf í erfiðleikum.‘ (Jobsbók 15:14-16, 20) Bildad fyrtist við staðföst andmæli Jobs gegn rökum þeirra og segir í reynd: ‚Ljós þitt verður slökkt. Sérhver minning um tilvist þína mun hverfa. Þannig fer fyrir þeim sem gleyma Guði.‘ (Jobsbók 18:5, 12, 13, 17-21) Sófar hefur óbeint orð á hinni fyrri velsæld Jobs og spyr: ‚Veist þú ekki að fögnuður óguðlegra er skammær og gleði guðlausra varir aðeins örskotsstund? Himinninn afhjúpar misgjörð óguðlegra.‘ — Jobsbók 20:4, 5, 26-29.

19. (a) Hvernig metur Guð ráðvendni mannsins að sögn Elífasar? (b) Hvernig lauk Bildad árásunum á Job?

19 Í þriðju umferð orðadeilunnar spyr Elífas: ‚Getur maðurinn unnið Guði gagn? Væri það Guði einhver ávinningur þótt þú lifir grandvöru lífi? Snúðu þér til Guðs,‘ segir hann, ‚vingastu við hann, þá mun hann blessa þig.‘ (Jobsbók 22:2, 3, 21-23) Bildad lýkur árásarhrinunni. ‚Hvaða jarðarbúi getur haldið því fram að hann sé hreinn?‘ spyr hann. ‚Guð er svo dýrlegur að jafnvel tunglið og stjörnurnar eru minna en ekkert í samanburði við hann. Hvað þá maðurinn sem er ekki annað en ormur í augsýn hans!‘ — Jobsbók 25:2-6.

Vörn Jobs og leiðrétting

20. (a) Hvernig svaraði Job því að þjáningar hans væru refsing frá Guði fyrir syndir? (b) Í hverju var Job staðráðinn og hvernig vitum við að ráðvendni hans skipti Guð máli?

20 Þrátt fyrir sínar hræðilegu þjáningar lætur Job aldrei eitt andartak undan villandi rökum kvalara sinna. Ef kvalir eru refsing frá Guði fyrir syndir, spyr hann, „hvers vegna lifa hinir óguðlegu, verða gamlir, já, magnast að krafti?“ (Jobsbók 21:7-13) Og gagnstætt því sem ákærendur Jobs segja metur Jehóva mikils ráðvanda menn sem svara þeirri fullyrðingu Satans að hann geti snúið öllum frá Guði. (Orðskviðirnir 27:11; Sálmur 41:13) Job er viss um ráðvendni sína og segir: „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“ (Jobsbók 27:5) Nei, hann hefur ekkert gert til að verðskulda það sem yfir hann hefur komið.

21. Hvað sagði Elíhú fölskum huggurum Jobs og hvaða þarfa leiðréttingu veitti hann Job?

21 Hinn ungi Elíhú fylgist af athygli með þessari löngu kappræðu og gefur gaum hverju orði. Loks talar hann og segir hinum fölsku ákærendum Jobs að ekkert, sem þeir hafi sagt, hafi sannað Job syndara. (Jobsbók 32:11, 12) Síðan beinir hann máli sínu til Jobs og segir: „En þú hefir sagt í eyru mér, og ég heyrði hljóm orðanna: ‚Hreinn er ég, laus við afbrot, saklaus er ég, og hjá mér er engin misgjörð. En Guð reynir að finna tilefni til fjandskapar við mig og ætlar að ég sé óvinur hans.‘ . . . Sjá, í þessu hefir þú rangt fyrir þér.“ (Jobsbók 33:8-13; 6:29; 13:24, 27; 19:6-8) Já, Job var of mikið í mun að réttlæta sjálfan sig. Þrátt fyrir það hallmælti hann aldrei Guði og glataði ekki trausti sínu á að Guð myndi gera það sem rétt væri.

22. (a) Hvernig brást Job við eftir að hafa hlýtt á Jehóva? (b) Hvers krafðist Guð af fölskum huggurum Jobs og hver urðu málalokin fyrir Job?

22 Í sömu mund og Elíhú lýkur máli sínu magnast upp stormviðri og Jehóva sjálfur talar úr stormviðrinu: „Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs með óskynsamlegum orðum? Gyrð þú lendar þínar . . . þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.“ Eftir að hafa hlýtt á Jehóva játar Job að hann hafi talað í fljótfærni, án fullrar þekkingar og iðrast „í dufti og ösku.“ Jehóva fordæmir síðan Elífas og félaga hans tvo og gefur Job fyrirmæli um að biðja fyrir þeim. Síðan reisir hann Job við, blessar hann með sjö sonum og þrem fögrum dætrum og tvöfalt meiri búpeningi en hann átti fyrir. Job lifir í 140 ár til viðbótar og deyr „gamall og saddur lífdaga.“ — Jobsbók 38:1-4; 42:1-17.

23. Hvaða áhrif ætti ráðvendni Jobs að hafa á okkur?

23 Job var sannarlega einstakur maður sökum ráðvendni sinnar! Hann hafði engan möguleika á að vita að hann væri skotspónn Satans og illra ásakana hans. Það undirstrikar ráðvendni hans enn meir, því að jafnvel þótt hann héldi að allar þjáningar hans væru frá Guði vildi hann samt ekki afneita Guði né formæla honum. Hvílík lexía fyrir okkur, því að við vitum hvaðan prófraunir ráðvendni okkar koma! Sannarlega ættum við að finna hjá okkur hvöt til að líkja eftir fordæmi Jobs og ganga fram í verki Jehóva, óháð því hvað óvinur Guðs kann að leiða yfir okkur.

Getur þú svarað?

◻ Af hverju er ráðvendni Jobs svo einstök?

◻ Hverjir sóttu Job heim og hvað vonaðist Satan til að þeim tækist?

◻ Hvaða rökum beittu þremenningarnir gegn Job?

◻ Hvað færði Job fram sér til varnar en hvernig var hann leiðréttur?

◻ Hver urðu málalokin og hvernig ætti það að snerta okkur?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 11]

Satan sendi þrjá „huggara“ til að snúa Job frá Guði.