Upprisa Jesú Krists — enginn uppspuni
Upprisa Jesú Krists — enginn uppspuni
GETUR hugsast að frásagnir Biblíunnar af upprisu Jesú séu hreinn uppspuni? Nýverið sagði blaðið International Herald Tribune frá athugunum rithöfundar að nafni Pinchas Lapide en hann er Gyðingur. Niðurstaða hans var sú að upprisan væri enginn hugarburður.
Allmörg atriði leiddu Lapide að þessari niðurstöðu. Til að mynda segja guðspjöllin frá því að þrjár konur hafi komið til grafar Jesú og séð að hún var tóm. Til forna voru konur hins vegar „taldar ófærar um að gefa gildan vitnisburð,“ segir í frétt blaðsins. Lærisveinar Jesú trúðu reyndar ekki konunum! Því er mjög ólíklegt að slík saga hafi verið búin til að yfirlögðu ráði.
Lapide lætur líka getið hinna örvandi áhrifa sem upprisa Jesú hafði á lærisveina hans. Á augabragði breyttust þeir úr huglitlum hópi, sem hafði yfirgefið Jesú, í „sjálfsöruggt trúboðssamfélag, sannfært um hjálpræði sitt.“ Blaðið Tribune hefur eftir Lapide: „Engin sýn eða skynvilla getur skýrt svo stórkostlega umbreytingu.“
Að lokum er að nefna þá fullyrðingu að lærisveinar Jesú hafi einfaldlega stolið líkama hans. Lapide svarar því þannig: „Geta svindlarar látið pína sig og ofsækja í nafni blekkingar og dáið glaðir fyrir hana sem píslarvottar?“ Þótt Lapide játi ekki trú á Jesú sem Messías er hann í litlum vafa um að það sem engill tilkynnti fyrir 2000 árum er sannleikur: ‚Kristur er risinn upp.‘ — Matteus 28:6.