Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varastu að misbeita valdi þínu

Varastu að misbeita valdi þínu

Varastu að misbeita valdi þínu

„Að óttast [Jehóva] er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn — það hata ég.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 8:13.

1. Hvernig meðal annars reynist hið ófullkomna mannshjarta svikult?

 EIGINGJÖRN misbeiting valds er tvímælalaust eitt þeirra vondu verka sem Jehóva Guð hatar. Orð hans varar okkur við þessari tilhneigingu ófullkominna manna, því að hann skilur eðli mannshjartans. Við lesum: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það? Ég, [Jehóva], er sá, sem rannsaka hjartað, prófa nýrun, og það til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans, eftir ávexti verka hans.“ — Jeremía 17:9, 10.

2. Hver eru oft áhrif valds á þá sem með það fara?

2 Af ærnu tilefni varar orð Guðs okkur við því að misbeita valdi. Tilhneigingin til að misnota vald er slík að enskur fræðimaður sagði einu sinni: „Allt vald spillir og algert vald spillir algerlega.“ Hann bætti við: „Af öllu því sem auvirðir og mannskemmir er vald algengasta og virkasta aflið.“ Að sjálfsögðu þarf vald ekki að vera spillandi, eins og við höfum séð í greininni á undan, en hættan er fyrir hendi.

3. Á hvaða sviðum mannlegra samskipta er hægt að misbeita valdi og hvers vegna getur það gerst?

3 Hverjir þurfa að vera á verði gegn því að misbeita valdi? Nánast allir! Í nær öllum mannlegum samskiptum kemur upp sú staða að einn maður hefur yfirburði yfir annan sökum efna, lærdóms, krafta, stöðu, persónutöfra eða annars. Því meiri sem yfirburðirnir eru, þeim mun sterkari er freistingin til að nota þá í eigingjörnum tilgangi. Hvers vegna? Vegna þess að „hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans.“ (1. Mósebók 8:21) Já, hið ófullkomna mannshjarta er „svikult,“ brögðótt, hneigt til þess sem illt er. — Jeremía 17:9.

Kristnir öldungar

4. Hvaða ráð gaf Jetró Móse sem sýna að freisting er því samfara að fá vald í hendur?

4 Lítum fyrst á öldungana, umsjónarmennina í kristna söfnuðinum. Þegar við hugsum um þær kröfur, sem eru gerðar til þeirra, rifjast upp fyrir okkur orð Jetrós við Móse varðandi það að velja menn til umsjónar yfir þúsund, hundrað, fimmtíu og tíu. „Þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna.“ (2. Mósebók 18:21) Slíkum mönnum væri treystandi til að fara með umsjón. Þeir myndu ekki misnota sér aðstöðu sína samfara umsjónarstarfinu því að guðhræðsla felur í sér að hata hið illa. Slíkir menn myndu hata rangfenginn ávinning í stað þess að keppa eftir honum eða elska hann.

5. Hvers vegna eiga heilræðin í 1. Pétursbréfi 5:2, 3 svo vel við og hvernig má heimfæra þau?

5 Pétri postula var ljós hættan á því að öldungar misnotuðu sér vald sitt, og því gaf hann umsjónarmönnum í kristna söfnuðinum þessi ráð: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pétursbréf 5:2, 3) Að gæta hjarðar Guðs sakir óheiðarlegs ávinnings væri misnotkun valds. Að drottna yfir hjörðinni væri að misnota sér valdastöðu sína í eigingjörnum tilgangi. Öldungur getur til dæmis haft mjög ákveðnar skoðanir um hvernig fjölskylda hans eigi að klæðast. Hann þarf þó að gæta þess að reyna ekki að þröngva slíkum persónulegum skoðunum upp á hjörðina; þá væri hann að drottna yfir henni.

6. Hvernig gætu öldungar gerst sekir um að hygla ættingjum?

6 Ef öldungar eru ekki varkárir gætu þeir gerst sekir um það að draga taum ættmenna á ýmsum sviðum. Slík misbeiting valds á sér langa sögu og voru páfar og aðrir kirkjulegir embættismenn illræmdir fyrir að hygla ættingjum sínum, einkum bræðra- eða systrabörnum, trúarlega eða efnalega. Nikulás III páfi var sérlega illræmdur fyrir að hygla ættmennum sínum og því oft nefndur „ættfaðir“ slíkra hátta. Séu kristnir öldungar ekki mjög gætnir gætu þeir látið fjölskyldubönd í stað andlegra meginreglna hafa ótilhlýðileg áhrif á sig. Öldungi nokkrum var mjög í mun að sonur hans hlyti meðmæli sem umsjónarmaður þótt aðrir í öldungaráðinu væru ekki sama sinnis. Faðirinn fluttist síðan til annars safnaðar. Nokkrum árum síðar var sonurinn enn ekki orðinn öldungur. Ljóst er að faðirinn hafði látið blóðbönd hafa áhrif á sig.

7, 8. Hvaða dæmi sýna hve hættulegt það er öldungum að hygla ættingjum sínum?

7 Önnur mynd þess að misbeita valdi með því að draga taum ættmenna birtist í því þegar öldungar grípa ekki til aðgerða vegna rangrar breytni ættingja sinna. (Samanber 1. Samúelsbók 2:22-25, 30-35.) Fyrir fáeinum árum varð uppvíst um grófa rangsleitni í nokkrum söfnuðum í miðhluta Bandaríkjanna. Enn skemmra er síðan svipað kom í ljós í nokkrum söfnuðum í Evrópu. Fjöldi ungmenna hafði gerst sekur um siðleysi, fíkniefnanotkun og því um líkt. Allmörg þeirra voru börn öldunga sem sumir hverjir bersýnilega sáu í gegnum fingur við þau. Þegar uppvíst varð um þetta voru allmargir þessara öldunga látnir víkja fyrir að hafa misnotað sér stöðu sína sem öldungar, eða öllu heldur að hafa brugðist því að fara rétt með vald sitt.

8 Stundum virðist tilhneiging í þessa átt þegar öldungar eða safnaðarþjónar sjá um atriði á samkomu með þátttöku áheyrenda. Nauðsynlegt er að varast hlutdrægni við slíkar aðstæður. Fjölskyldan getur verið samstarfsfús með því að gera sér far um að gefa athugasemdir þegar aðrir bjóða sig ekki fram, en síður þegar margir aðrir bjóðast til að gefa athugasemdir.

Farandumsjónarmenn

9. Hvað er símonska og hvers vegna er slík misbeiting valds nefnd því nafni?

9 Kristnir menn sem gegna ábyrgðarstörfum, einkum farandumsjónarmenn á vegum Varðturnsfélagsins, þurfa að gæta þess að gerast ekki sekir, annaðhvort vísvitandi eða óafvitandi, um það sem nefnt hefur verið símonska. Orð þetta er dregið af Símoni þeim sem nefndur er í Postulasögunni 8:9-24, en hann bauð postulunum fé ef þeir vildu leggja hendur yfir hann svo að hann hlyti heilagan anda. Lúkas segir svo frá: „Pétur svaraði: ‚Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé. Eigi átt þú skerf né hlut í þessu, því að hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði. Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið [Jehóva], að þér mætti fyrirgefast hugsun hjarta þíns.‘ “ Þessi iðja var líka mikið stunduð af embættismönnum rómversk-kaþólsku kirkjunnar á liðnum árum og öldum. Alfræðibók segir að „þessi glæpur hafi verið mjög algengur í kirkjunni á 11. og 12. öld.“

10, 11. Hvernig gætu öldungar orðið símonsku að bráð?

10 Hvernig gætu þjónar Jehóva syndgað með líkum hætti? Séu þeir ekki gætnir gætu þeir haft tilhneigingu til að mæla með að ákveðinn öldungur flytti atriði á svæðismóti eða umdæmismóti í þakklætisskyni fyrir gestrisni hans eða gjafmildi. Meira að segja eru örfá dæmi um að öldungur hafi gefið farandumsjónarmanni væna gjöf og samtímis ýjað að því hvort hann kæmi til greina við úthlutun vissra sérréttinda. Svo virðist sem þeir hafi ekki gert sig ánægða með að vera eins og ‚hinn minnsti,‘ og láta heilagan anda um að starfa með þeim sem gegndu ábyrgðarstörfum í tengslum við útnefningar. (Lúkas 9:48) Undir slíkum kringumstæðum hefur þessum gjöfum verið hafnað og þar með sett gott fordæmi um að misnota sér ekki vald. Öll slík dæmi sýna hversu vandlega öldungar, sem gegna sérstökum ábyrgðarstörfum, þurfa að gæta þess að forðast símonsku!

11 Stundum geta farandumsjónarmenn þurft að gefa öldungi skýrar og ákveðna leiðbeiningar eða áminningu. Ef farandumsjónarmaður hefur hins vegar oft fengið gjafir frá öldungi eða orðið gestrisni hans aðnjótandi gæti hann átt erfitt með að gefa honum hrein og bein heilræði. Lætur hann eigingirni koma í veg fyrir að hann gegni skyldu sinni og gefi nauðsynleg ráð? Lætur hann andlegan hag bræðra sinna ganga fyrir efnislegum hag sjálfs sín? Já, mun hann leitast við að þóknast Guði eða mönnum? — Galatabréfið 1:10.

Innan fjölskyldunnar

12. Hvers vegna þurfa eiginmenn að gæta þess að beita valdi sínu rétt?

12 Innan fjölskyldunnar þarf hver og einn líka að gæta þess að misnota sér ekki aðstöðu sína eða vald. Eiginmanni gæti hætt til að vera gerræðislegur, eigingjarn og ónæmur fyrir tilfinningum annarra í fjölskyldunni, sökum þess að hann er hinn sterkasti eða fyrirvinna fjölskyldunnar. Páll leggur á það þunga áherslu að eiginkonur ættu að vera mönnum sínum undirgefnar. Í sömu andránni segir hann eiginmönnum að elska konur sínar eins og eigin líkama og vera fúsir til að deyja fyrir þær eins og Kristur dó fyrir söfnuðinn. (Efesusbréfið 5:25-33) Slík ráð ættu að verka sem hemill á að eiginmaður misbeiti valdi sínu eða aðstöðu. Eftir að Pétur postuli hefur hvatt eiginkonur til að vera mönnum sínum undirgefnar áminnir hann eiginmennina: „Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker, og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ Já, eiginmenn vera að gæta þess að fara rétt með vald sitt ef þeir vilja eiga gott samband við Jehóva Guð. — 1. Pétursbréf 3:7.

13. (a) Hvaða einkenni kvenna misnota eiginmenn stundum? (b) Hvernig hafa eigingjarnar eiginkonur stundum misbeitt valdi sínu og hvaða fyrirmæli Biblíunnar hafa þær brotið?

13 Sagt hefur verið að það hjónanna sem elskar heitar sé upp á náð og miskunn hins komið. Nokkur sannleikur virðist vera í því. Kærleikur kvenna er yfirleitt djúpstæðari en kærleikur karla — kærleikur er þeim þýðingarmeiri — og margir eiginmenn misnota sér það í eigingirni. Eiginkonur hafa hins vegar stundum verið tregar til að láta mönnum sínum í té það sem skylt er, þegar óskir þeirra eru ekki virtar. Sumar konur hafa jafnvel neitað mönnum sínum alveg um hjúskaparréttinn. Því miður hefur þetta stundum stuðlað að því að eiginmaður fremdi hjúskaparbrot. Öll slík vöntun á að fara eftir ráðum Páls í 1. Korintubréfi 7:3-5 er líka eigingjörn misbeiting valds.

14. Hvað bendir til að sumir foreldrar misbeiti valdi sínu yfir börnunum?

14 Sú staðreynd að börn eiga að hlýða foreldrum sínum í Drottni gefur foreldrunum, einkum feðrunum, vald yfir þeim. Hvernig beita þeir því valdi? Hugsunarlaust, tilfinningalaust, án samúðarskilnings? Margir feður í heiminum, svo og sumar mæður, gera það og vinna börnum sínum mikið tjón. Að sögn tímaritsins World Health, janúar-febrúar 1984, er „að finna í sérhverju þjóðfélagi börn sem hefur verið misþyrmt“ og „svo virðist sem sífellt fleiri börnum sé misþyrmt, þau misnotuð, barin eða yfirgefin, og enginn heimshluti er undanskilinn.“ Önnur skýrsla segir að misþyrmingar á börnum hafi meira en tvöfaldast í Bandaríkjunum síðastliðin tíu ár. Allt slíkt er misbeiting valds. Jafnvel kristnir foreldrar, sem ekki kæmi til hugar að misþyrma barni, gætu gerst sekir um illa meðferð á því í vissum skilningi. Það má sjá af eftirfarandi leiðbeiningum Páls: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndum [Jehóva].“ „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ — Efesusbréfið 6:4; Kólossubréfið 3:21.

15, 16. Hvernig geta börn gerst sek um að misbeita valdi sínu og hvers krefst það af foreldrum?

15 Þótt það kunni í fyrstu að hljóma kynlega geta börn líka gerst sek um að misbeita valdi. Hvernig þá? Börn geta spilað á tilfinningar foreldranna og komið þeim til að breyta gegn betri vitund. Barn, sem veit að það verðskuldar flengingu, getur grátið svo sárt að móðir þess geti ekki fengið af sér að veita því verðskuldaða hirtingu. Kona, sem komist hefur vel áfram í fjármálaheiminum, gortar af því hvernig hún geti haft áhrif á viðskiptavini: „Konur eru fæddar með þennan hæfileika. Þið ættuð að sjá dætur mínar ráðskast með föður sinn.“

16 Samkvæmt frétt í dagblaði „er uggvænlegt hve ‚börnum í valdavímu‘ í Norður-Ameríku, sem ráða og ráðskast með líf foreldra sinna, hefur fjölgað mjög.“ Lausn vandans er hins vegar ekki fólginn í barnaráðgjöf heldur er hún í hendi foreldranna. Foreldrarnir verða að vera sameinaðir í afstöðu sinni gagnvart börnunum. Börn eru fljót að koma auga á það ef foreldrar eru ekki sammála, og tefla öðru foreldranna gegn hinu til að fá sínu fram. Foreldrar verða líka að vera óhagganlegir gagnvart því sem rétt er, en um leið að fullvissa börnin sín alltaf um ást sína. Kristnir foreldrar beita aga af sömu ástæðu og Jehóva, vegna þess að þeir elska börn sín. — Hebreabréfið 12:5, 6.

Undir öðrum kringumstæðum

17. Hvernig þurfa vinnuveitendur að varast valdbeitingu gegn starfsmönnum sínum?

17 Samband vinnuveitanda og launþega býður líka upp á að valdi sé misbeitt. Með það í huga ráðlagði Páll þrælaeigendum sem að sumu leyti samsvara vinnuveitendum, verkstjórum og forstjórum okkar tíma: „Og þér, sem eigið þræla, . . . hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit.“ (Efesusbréfið 6:9; Kólossubréfið 4:1) Kristnir menn, sem fara með stjórnarstörf í veraldlegum efnum, ættu að gæta þess að misbeita ekki valdi sínu. Bóas til forna er dæmi um mann sem hafði gott samband við þá sem unnu hjá honum. — Rutarbók 2:4.

18. Hvers þurfa ólofaðir bræður og systur að gæta til að gerast ekki sek um misbeitingu valds?

18 Nefna mætti aðdráttarafl milli kynjanna sem enn eitt svið þar sem kristnir menn þurfa að varast að misbeita valdi sínu. Að eðlisfari langar ungar systur gjarnan til að giftast og eignast börn. Þar af leiðandi eiga bræður stundum auðvelt með að leika sér að tilfinningum systra. Það er vissulega misbeiting valds. Páll ráðlagði Tímóteusi því að umgangast „aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika.“ Kristnum konum er hins vegar ráðlagt að ‚skrýða sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti.‘ Hvort sem þær eru giftar eða einhleypar ættu þær alltaf að temja sér ‚grandvara og skírlífa hegðun.‘ — 1. Tímóteusarbréf 2:9; 5:2; 1. Pétursbréf 3:2.

19. Hvaða eiginleika þurfum við að beita með vissri varúð, auk þess að sýna visku, réttvísi og kærleika?

19 Margt hefur verið sagt í biblíuritum okkar um það að kristnir menn láti visku Guðs leiða sig, ástundi réttvísi í öllum samskiptum við aðra og láti kærleika byggðan á meginreglum, agape, ráða gerðum sínum. Undanfarandi efni sýnir að allir þjónar Jehóva þurfa að gæta að því hvernig þeir beita því valdi sem þeir ráða yfir og aldrei misnota það. Orð Guðs sýnir sannarlega mikla visku í ráðum sínum þar að lútandi. Með því að taka til okkar slík ráð heiðrum við nafn Jehóva, erum öðrum til blessunar og öðlumst velvild Guðs.

Hverju manst þú eftir?

◻ Hvernig má segja að við höfum meðfædda tilhneigingu til að misnota vald?

◻ Hvers vegna þurfa öldungar að gæta þess að misnota ekki vald sitt?

◻ Hvernig gætu hjón misnotað vald sitt hvort gegn öðru?

◻ Hvað ættu bæði foreldrar og börn að forðast til að misbeita ekki valdi hvort gegn öðru?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 27]

Símon reyndi að nota auð sinn til að hafa áhrif á Pétur. Hvað getum við lært af þessari frásögu?

[Mynd á blaðsíðu 29]

Lætur þú barn þitt ráðskast með þig?