Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Getur nokkuð gert þig viðskila við kærleika Guðs?

Getur nokkuð gert þig viðskila við kærleika Guðs?

Getur nokkuð gert þig viðskila við kærleika Guðs?

„Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:38, 39.

1. Á hvaða vegu birtist kærleikur Guðs daglega?

 GUÐ er kærleikur. Við finnum það dag hvern í því hvernig hann viðheldur lífi okkar. Loftið sem við öndum að okkur, vatnið sem við drekkum og maturinn sem við neytum eru allt merki um kærleika Guðs. Meira að segja veitist þetta bæði góðum og vondum, hvort sem þeir kunna að meta það eða ekki. Jesús bar vitni um það þegar hann sagði um himneskan föður sinn: „[Hann] lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matteus 5:45) Sérhver lifandi vera á jörðinni stendur í þakkarskuld við Guð fyrir lífið og viðhald þess. — Sálmur 145:15, 16.

2. Hvernig birtist hinn mikli kærleikur Jehóva til mannkynsins og hvernig sýndi Jesús að hann skildi hvað Jehóva vildi?

2 Kærleikur Guðs til manna gekk miklu lengra en aðeins að halda við hinu núverandi lífi sem fölnar eins og blóm og visnar eins og grasið. (1. Pétursbréf 1:24) Hann gerði ráðstöfun til að mannkynið gæti lifað eilíflega: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Þessi ráðstöfun kostaði bæði föðurinn og soninn mikið. Nóttina fyrir dauða sinn var Jesús í Getsemanegarðinum og féll fram og bað með slíkri ákefð að „sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.“ Á þessari erfiðu stund var Jesús minnugur þeirrar smánar sem hrúgað hafði verið á nafn Guðs og bað jafnvel um að bikarinn yrði frá honum tekinn. Hann bætti þó við: „Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ (Lúkas 22:44; Markús 14:36) Þótt Jesús væri í mikilli sálarangist var honum mikilvægast að gera það sem Jehóva vildi. Ekki einu sinni tilhugsunin um húðstrýkingu og hægfara dauða á kvalastaur gat gert hann viðskila við kærleika Guðs.

3. Hvaða orð Páls taka vottar Jehóva nútímans sér í munn og hvað hefur það í för með sér fyrir þá?

3 Vottar Jehóva feta í fótspor Jesú og hjá þeim gengur vilji Guðs líka fyrir öðru. „Ef Guð er með oss,“ segja þeir með orðum Páls postula, „hver er þá á móti oss? Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss.“ (Rómverjabréfið 8:31, 35, 37) Á þessari öld hefur oft verið gerður aðsúgur að vottum Jehóva, þeir hafa mátt þola barsmíð, verið ataðir tjöru og fiðri, limlestir, nauðgað, sveltir, myrtir af aftökusveitum og jafnvel hálshöggnir í fangabúðum nasista — allt vegna þess að þeir vildu ekki láta gera sig viðskila við kærleika Guðs.

4. Hvaða áhrif hefur neitun ungs manns á því að verða viðskila við kærleika Guðs á þig?

4 Fyrir 44 árum skrifaði ungur maður, vottur Jehóva, foreldrum sínum úr fangabúðum nasista. Hann sagði meðal annars:

 Klukkan er nú níu að morgni og í dag verð ég leiddur fyrir rétt. Ég þarf að bíða þess til klukkan 11:30. Ég skrifa þessar línur í einangrunarklefa í húsi herdómstólsins. Ég finn til svo mikils friðar að það er nánast ótrúlegt; en ég hef líka lagt allt í hendur Drottins svo að ég get beðið rólegur þessarar stundar og þolað hina stöðugu fjötra. Þeir sögðu ykkur að ég yrði ekki hlekkjaður. Lygar! Dag og nótt er ég hlekkjaður. Þeir eru leystir aðeins til að ég geti klæðst og afklæðst og gert hreint í klefanum . . .

 12:35. Nú er allt afstaðið. Í ljósi þess að ég hélt fast við neitun mína [við kröfu þeirra um að hætta tilbeiðslu sinni á Jehóva Guði] var ég dæmdur til dauða. Ég hlustaði á og síðan, eftir að hafa mælt orðin „Vertu trúr allt til dauða“ og nokkur önnur af orðum Drottins, var allt afstaðið. En hafið ekki áhyggjur af því. Yfir mér er slíkur friður, slík ró að þið getið tæpast ímyndað ykkur. . . . Þessi friður, þessi gleði sem kom yfir mig þegar í réttarsalnum, sem heimurinn getur aldrei skilið, varð enn sterkari og yfirþyrmandi þegar ég kom aftur inn í klefann . . . Grátið ekki. . . . Þetta er það besta sem ég get gefið ykkur og öllum ástkærum bræðrum mínum í dag, síðasta sunnudaginn fyrir aftöku mína (ég verð hálshöggvinn), en þann dag er ég óhlekkjaður. *

‚Hann mun styrkja ykkur og gera öfluga‘

5, 6. Hvaða orð Páls og Péturs eru hughreystandi fyrir þá sem gangast undir erfiðar prófraunir vegna fastheldni sinnar við kærleika Guðs?

5 Þessi ungi maður var gerður viðskila við lífið en ekki við kærleika Guðs. Í aldanna rás hafa áþekk ódæðisverk verið unnin á vottum Jehóva. Að þjónar Guðs skuli hafa getað þolað slíkar ofsóknir, jafnvel dauða, er ekki þeim sjálfum að þakka heldur krafti Guðs. „Guð er trúr,“ fullvissar Páll postuli okkur, „og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Jafnvel í prófraunum hafa trúfastir vottar Jehóva nútímans getað sagt eins og Páll þegar hann var hnepptur í fangelsi: „Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:17.

6 Pétur postuli áminnir okkur um að vera á verði gegn djöflinum sem æðir um eins og öskrandi ljón í leit að þeim sem hann geti gleypt. Síðan segir hann: „En Guð allrar náðar, sem hefur kallað yður í Kristi til sinnar eilífu dýrðar, mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra.“ (1. Pétursbréf 5:8-10) Þegar við íhugum allan þennan stuðning Guðs er eitt ljóst: Kærleikur Guðs bregst aldrei; það er okkur en ekki honum að kenna ef við verðum viðskila við hann.

7. Hvaða aðferðum beitti Satan gegn Jesú og hvernig vísaði Jesús honum á bug?

7 Satan gerir ekki alltaf árás eins og öskrandi ljón. Oft kemur hann eins og lævís höggormur og jafnvel sem fráhverfur ‚ljósengill.‘ Hann hyggur á illt og við verðum að vera á verði til að hann sigri okkur ekki. Við þurfum að klæðast alvæpni Guðs ‚til að geta staðist vélabrögð djöfulsins.‘ (1. Mósebók 3:1; 2. Korintubréf 2:11; 11:13-15; Efesusbréfið 6:11) Í upphafi þjónustu Jesú kom Satan til hans og vitnaði í Ritninguna en heimfærði á rangan hátt í von um að geta freistað Jesú til rangrar breytni. Þrívegis freistaði hann Jesú og þrívegis mistókst honum. Jesús vísaði á bug rangfærslum Satans á Ritningunni með því að vitna sjálfur í hana og heimfæra rétt. Síðan sagði hann Satan að fara. En Satan vék aðeins frá honum „að sinni.“ — Lúkas 4:13; Matteus 4:3-11.

8, 9. Hvaða lævísar árásir gerði Satan síðar á Jesú og hvað sagði Páll að við ættum að gera til að vernda okkur?

8 Satan er þrautseigur. Hann kemur aftur og aftur í mismunandi gervi. Hann kom aftur til Jesú með hjálp klerka þess tíma. Jesús skildi það og sagði þeim hreinskilnislega: „Þér eigið djöfulinn að föður.“ Sumir þjóna jafnvel djöflinum óafvitandi. Pétur postuli gerði það þegar hann gaf Jesú ráð sem gengu þvert á vilja Jehóva þótt góður hugur fylgdi: „Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús áminnti Pétur harðlega: „Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar.“ (Jóhannes 8:44; Matteus 16:22, 23) Á líkan hátt getur vinnuveitandi, vinnufélagi, skólafélagi, vinur, ættingi, foreldri eða maki stundum þjónað markmiðum Satans án þess að vita af því. Við þurfum að vera stöðugt á verði til að ekkert fái veikt samband okkar við Jehóva.

9 Því er nauðsynlegt að ‚klæðast alvæpni Guðs til að við getum staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem við eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði heldur . . . við andaverur vonskunnar í himingeimnum.‘ — Efesusbréfið 6:11, 12.

Tak syndarinnar á hinu fallna holdi

10. Hvað merkir orðið „synd“ og hvaða verk myndu gera okkur viðskila við kærleika Guðs?

10 Satan gerir atlögu þar sem við erum veikust fyrir. Hann beitir sér því sérstaklega að tilhneigingu holdsins til syndar. (Sálmur 51:7) Það er gríska orðið hamartia sem þýtt er synd. Hamartano er samstofna sögn sem hefur grunnmerkinguna „að missa marks.“ (Rómverjabréfið 3:9, NW Ref. bi., neðanmálsathugasemd) Því meira sem við missum marks og mistekst að halda boðorð Guðs, þeim mun fjarlægari verðum við kærleika Guðs því að „í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Hjúskaparbrot, saurlífi, óeðlilegar kynferðisathafnir, drykkjutúrar, taumlausar veislur, óheftar holdlegar girndir, afbrýðisemi, reiðiköst og efnishyggjuágirnd — allt slíkt gerir okkur viðskila við kærleika Guðs og „þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.“ — Galatabréfið 5:19-21.

11. Hvernig getur synd náð tökum á okkur smám saman og með hvaða afleiðingum?

11 Kvikmyndir, bækur, leikrit og sjónvarpsþættir, oft kryddaðir efnishyggju, sjálfsdýrkun og siðleysi, hvetja til taumlauss nautnalifnaðar. Fyrsta syndin gerir þá næstu auðveldari, sú þriðja og fjórða fylgja í kjölfarið og brátt eru menn komnir á fulla ferð út í veraldarhyggju. Að lokum verða þeir sem ‚elska munaðarlífið meira en Guð‘ uppteknir af að ‚leggja á ráðin um girndir holdins.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:4; Rómverjabréfið 13:14, NW) Bæði ungir og aldnir sveiflast út í hringiðu syndarinnar og samviska þeirra verður algerlega brennimerkt. „Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.“ — Efesusbréfið 4:19; 1. Tímóteusarbréf 4:2.

12. Hvaða ritningargreinar sýna vald syndarinnar yfir okkur og hvernig harmaði Páll það?

12 Þeir sem eru ráðnir í að verða ekki viðskila við kærleika Guðs verða að styrkja sig gegn taki syndarinnar á hinu fallna holdi. Þetta er öflugur óvinur eins og Biblían undirstrikar aftur og aftur: „Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.“ ‚Þeir eru allir undir synd.‘ „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ „Látið . . . ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar.“ „Þér eruð þjónar þess, sem þér hlýðið.“ „Laun syndarinnar er dauði.“ ‚Allt er hneppt undir vald syndarinnar.‘ (Jóhannes 8:34; Rómverjabréfið 3:9, 23; 6:12, 16, 23; Galatabréfið 3:22) Páll var „seldur undir syndina,“ ‚hertekinn undir lögmál syndarinnar‘ og hann sagði harmandi: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég ekki vil, það gjöri ég.“ (Rómverjabréfið 7:14, 19, 23) Hann segir því: „Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?“ Síðan kemur hið fagnandi svar: „Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.“ — Rómverjabréfið 7:24, 25.

13, 14. (a) Á hvaða hátt erum við frelsuð undan syndinni? (b) Hvernig getum við varðveitt okkur í kærleika Krists?

13 Þar til Kristur Jesús kom ‚ríkti syndin í dauðanum.‘ (Rómverjabréfið 5:14, 17, 21) En með dauða Jesú og upprisu var konunginum synd steypt af stóli fyrir þá sem tóku við ástríkri gjöf Guðs, syni hans. Hann bjargaði okkur frá syndum okkar, þvoði þær af okkur, hreinsaði okkur af þeim, losaði okkur frá þeim og þurrkaði þær algerlega út. (Matteus 1:21; Postulasagan 3:19; 22:16; 2. Pétursbréf 1:9; 1. Jóhannesarbréf 1:7; Opinberunarbókin 1:5) Því ættu ekki aðeins Páll postuli heldur allir sem iðka trú á úthellt blóð Krists Jesú að færa Guði þakkir, með milligöngu Jesú Krists, Drottins okkar, fyrir að opna okkur leiðina til lausnar undan hinum ömurlega þrældómi holdsins við synd og dauða.

14 Því er brýnt ekki aðeins að forðast aðskilnað við kærleika Guðs heldur líka að varðveita sig í kærleika Krists. Aðferðin til að vera nátengdur Jesú er sú sama og að vera nálægur Guði. Jesús benti á það og sagði: „Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni. Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ — Jóhannes 15:9, 10.

Hættan á að leiðast burt

15. Í hvaða hættu erum við öll og hvað verðum við að gera til að forðast hana?

15 Glataðu ekki þessu frelsi undan fjötrum syndar og dauða með því að láta þig berast burt. Það getur gerst svo hægt að við veitum því ekki athygli. Eins og Galatabréfið 6:1 segir: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann [áður en hann verður þess var], þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ Jafnvel sá sem ræður öðrum heilt þarf að ‚hafa gát á sjálfum sér.‘ Við erum öll í svo mikilli hættu. „Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.“ — Hebreabréfið 2:1.

16, 17. Hve auðvelt er að berast afleiðis andlega og hvað ættum við að gera til að forðast það?

16 Að berast afleiðis gerist áreynslulaust. Þess vegna er það svo auðvelt og svo hættulegt í andlegu tilliti. Menn geta verið orðnir viðskila við kærleika Guðs áður en þeir taka eftir því. Það er líkt og með sauð sem verður viðskila við hjörðina. Hvernig villist hann? Fjárhirðir segir: ‚Það gerist þegar hann er á beit. Hann sér fallegan grastopp nokkra metra til hliðar og fer þangað til að kroppa hann. Síðan kemur hann auga á annan topp í þriggja metra fjarlægð og fer þangað til að kroppa. Þriðji toppurinn virðist mjög freistandi og sauðurinn fer þangað til að bíta. Á skammri stundu er hann kominn langt frá hjörðinni. Hann hefur kroppað sig burt frá henni.‘

17 Eins er það með þann sem berst afleiðis andlega. Það byrjar kannski nógu sakleysislega með fáeinum efnislegum hlutum, veraldlegum félagsskap eða vangaveltum viðvíkjandi nokkrum ritningarstöðum. En hægt og hægt fjarlægist einstaklingurinn hjörð Guðs og innan tíðar er hann orðinn viðskila við söfnuðinn og kærleika Guðs. Sá sem þannig fer fyrir hlýðir ekki hvatningu Páls: „Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa.“ — 2. Korintubréf 13:5.

18, 19. Hvernig getum við látið djöfulinn flýja frá okkur og hvernig nálægjum við okkur Guði?

18 „Standið gegn djöflinum,“ er okkur sagt, „og þá mun hann flýja yður.“ Með því að bregða af leikni „sverði andans, sem er Guðs orð,“ getum við snúið lævísum árásum Satans í undanhald. Þannig fékk Jesús Satan til að forða sér í eyðimörkinni. Okkur er líka sagt: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ (Jakobsbréfið 4:7, 8; Efesusbréfið 6:17) Eins og sálmaritararnir ættum við með fastheldni við orð Guðs að halda okkur nálægt Guði. „Vitnisburður [Jehóva] er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.“ „Ég gef gætur að reglum þínum. Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. . . . Frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.“ — Sálmur 19:8; 119:95, 105, 157.

19 Með því að biðja, nema orð Guðs, elska bræður okkar og koma reglulega saman með þeim, með því að segja öðrum frá ríki Guðs — þannig nálægjum við okkur Guði og kærleika hans eins og hann birtist í Kristi Jesú Drottni okkar. — 1. Þessaloníkubréf 5:17; Rómverjabréfið 12:2; Hebreabréfið 10:24, 25; Lúkas 9:2.

20. Hvaða ásetningi lýsti Páll yfir sem vottar Jehóva nútímans tileinka sér?

20 Með kröftugri yfirlýsingu lét Páll í ljós ásetning allra trúfastra votta Jehóva á jörðinni núna. Hann sagði: „Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ — Rómverjabréfið 8:38, 39.

[Neðanmáls]

^ Varðturninn ensk útgáfa þann 1. ágúst 1945, bls. 237, 238.

Manst þú?

◻ Hvernig birtist kærleikur Jehóva í því hvernig hann viðheldur lífi okkar?

◻ Hvaða aðferðir hefur Satan reynt til að gera votta Jehóva viðskila við kærleika Guðs?

◻ Hvaða ritningargreinar lýsa þeim tökum sem syndin hefur á okkur, og hvernig má losna við þau?

◻ Hvers vegna er svo hættulegt að berast afleiðis og hvernig er hægt að forðast það?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Sauður fjarlægist hjörðina hægt og hægt þar til hann er týndur.