Guðrækileg virðing fyrir blóði
Guðrækileg virðing fyrir blóði
„Þess vegna vitna eg fyrir yður, daginn þennan í dag, að eg er hreinn af blóði allra.“ — POSTULASAGAN 20:26, Ísl. bi. 1912.
1. Hvernig endurspegla orð Páls í Postulasögunni 20:26 viðhorf Jehóva til blóðs?
ÞESSI orð hins kristna postula Páls lýsa heilnæmri virðingu fyrir blóði, lífsvökvanum. Síðar í þessari grein munum við athuga hvað Páll átti við með þessum orðum. En fyrst skulum við skoða hvað skapari dýra- og mannssála segir um blóðið. Við höfum þegar veitt athygli að Jehóva lítur á blóð sem heilagt, sem tákn lífsins. Þeir sem úthella blóði tilefnislaust eða kærulaust, þó sér í lagi mannsblóði, verða blóðsekir frammi fyrir Guði. En má ekki nota blóð með einhverjum hætti til gagns fyrir mannkynið?
2. (a) Hvers vegna var það dauðasynd í Ísrael að eta blóð? (b) Hvernig var það Ísraelsmönnum til gagns að halda þessi lög?
2 Í lögum Guðs til Ísraels um blóð sagði skýrum orðum: „Þér skuluð ekki neyta blóðs úr nokkru holdi, því að líf sérhvers holds, það er blóð þess. Hver sá, er þess neytir, skal upprættur verða.“ Það var dauðasynd af Ísraelsmönnum eða útlendingum þeirra á meðal að neyta blóðs, jafnvel til nauðsynlegrar næringar. Áður en þeir neyttu kjötsins urðu þeir að úthella blóðinu og hylja moldu, og þar með á táknrænan hátt að skila lífinu til Guðs. (3. Mósebók 17:13, 14) Þetta voru lög frá Guði. Með því að halda þau varðveittu Ísraelsmenn heilbrigt, andlegt samband við Jehóva, uppsprettu lífsins. Þeir nutu líka góðs af á ýmsa aðra vegu, meðal annars til verndar líkamlegri heilsu sinni.
Blóð Krists
3. (a) Hvers vegna er blóð Jesú sérstaklega ‚dýrmætt‘? (b) Hvernig vísa Hebresku ritningarnar til fórnar Jesú?
3 Jehóva hafði samt sem áður í huga ákveðna notkun blóðs sem hafði mikla þýðingu. Hún var sú að endurleysa mannkynið frá synd og dauða með „dýrmætu blóði Krists Jesú.“ Jafnvel „áður en veröldin var grundvölluð“ (þegar hin syndugu Adam og Eva eignuðust börn sem hægt var að endurleysa) vissi Jehóva fyrir hvernig hann myndi frelsa mannkynið. (1. Pétursbréf 1:18-20; Rómverjabréfið 6:22, 23) Það er „blóð Jesú, sonar hans, [sem] hreinsar oss af allri synd.“ (1. Jóhannesarbréf 1:7) Svo mikilvæg er þessi notkun blóðs að Guð lét skrá í Hebresku ritningarnar margar fyrirmyndir og táknmyndir um fullkomna fórn Jesú. — Hebreabréfið 8:1, 4, 5; Rómverjabréfið 15:4.
4. Hvaða fyrirmynd var gefin í sjónleiknum sem sagt er frá í 1. Mósebók 22. kafla?
4 Öldum áður en Jehóva gaf Ísraelsmönnum lögmálið bauð hann Abraham að fórna Ísrael á Móríafjalli. Guð sýndi þannig með dæmi hvernig hann myndi fórna eingetnum syni sínum, Jesú. Fúsleg undirgefni Ísaks í þessum mikla sjónleik táknaði hlýðni Jesú við vilja föður síns þegar hann úthellti lífsblóði sínu til forna. — 1. Mósebók 22:1-3, 9-14; Hebreabréfið 11:17-19; Filippíbréfið 2:8.
5. Með hvaða hætti fólst djúp andleg merking í fórnum Móselaganna?
5 Móselögmálið gaf líka „skugga hins góða, sem er í vændum,“ vísaði fram til fórnar Jesú í þágu mannkyns. Lögmálið heimilaði aðeins að blóð væri notað með einum hætti — þegar Jehóva væru færðar dýrafórnir. Þessar fórnir voru ekki innantómur helgisiður heldur þrungnar djúpri, andlegri merkingu. Í smáatriðum voru þær fyrirmynd um fórn Jesú og allt sem hún myndi koma til leiðar. — Hebreabréfið 10:1; Kólossubréfið 2:16, 17.
6. Endurlausn hvaða tveggja hópa táknuðu fórnir friðþægingardagsins? Með hvaða hætti?
6 Meðferð Arons á fórnum friðþægingardagsins táknaði til dæmis hvernig hinn mikli æðsti prestur, Jesús, notar verðgildi síns eigin, dýrmæta lífsblóðs til að veita hjálpræði, fyrst prestlegu „húsi“ 144.000 smurðra kristinna manna til að hægt sé að eigna þeim réttlæti og þeir geti fengið erfðahlut sem konungar og prestar með honum á himnum. Næst var færð fórn í þágu „lýðsins“ sem táknaði hvernig Jesús leysir alla þá menn sem erfa munu eilíft líf hér á jörðinni. Nú þegar er „mikill múgur“ þessara manna talinn réttlátur til björgunar úr hinni yfirvofandi miklu þrengingu. Það stafar af því að þeir „hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins,“ og sýna trú sína með því að veita Guði heilaga þjónustu. — 3. Mósebók 16:6, 15, 18-22; Hebreabréfið 9:11, 12; Opinberunarbókin 14:1, 4; 7:4, 9, 14, 15.
7. Hvernig getum við glaðst yfir uppfyllingu þessara fornu fyrirmynda?
7 ‚Lífið er í blóðinu.‘ Blóð Jesú var fullkomið svo að fórn hans veitir fullkomið líf öllum sem iðka trú. Við getum fagnað því að þessar fornu fyrirmyndir hafa ræst í kærleiksríkri fórn Jesú. — 3. Mósebók 17:14; Postulasagan 20:28.
Blóð — siðferðilegt málefni
8, 9. (a) Lýsið hinni undursamlegu starfsemi blóðsins í grófum dráttum. (b) Hvernig getum við sýnt guðrækilega virðingu fyrir því hvernig við erum úr garði gerð, líkt og Davíð?
8 Gerð blóðsins lýsir undraverðri visku. Þróunarsinnar, sem enn hefur ekki tekist að útskýra upphaf lífsins, vilja telja okkur trú um að lífsblóð okkar hafi þróast einhvern veginn. Það er harla ótrúlegt!
9 Okkar margbrotna blóð gegnir stórkostlegu hlutverki. Það flytur súrefni og næringarefni, sem viðhalda lífi okkar, út um líkamann allan. Það flytur burt úrgangsefni. Það ber með sér hvít blóðkorn til að berjast gegn sjúkdómum og blóðflögur sem gera við smáar og stórar skemmdir. Það á þátt í að stjórna líkamshitanum. Blóð hvers manns er einstakt fyrir hann einan og hafa erfðafræðingar á Englandi jafnvel talað um að nota „kjarnsýrufingraför,“ fundin úr blóðsýnum, til að leita uppi afbrotamenn. Blóð er eitt líffæri af mörgum sem kom Davíð til að syngja: „[Jehóva], þú rannsakar og þekkir mig. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður.“ — Sálmur 139:1, 14.
10. (a) Hverjum ber að ákveða hvernig má nota blóð? (b) Hvaða skýr fyrirmæli gaf Guð Nóa og Ísrael? (c) Hvaða dæmi sýnir að blóð er heilagt jafnvel í neyðartilfelli?
10 Ætti ekki hinn réttláti skapari mannkynsins, hönnuður blóðsins, að hafa ákvörðunarvald um hvernig má nota þennan lífsvökva? (Jobsbók 36:3) Það hefur hann gert með ótvíræðum hætti. Hann sagði forföður okkar Nóa: „Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.“ (1. Mósebók 9:4) Og þegar hann endurtók lög sín fyrir Ísrael sagði hann skýrum orðum: „Þó skalt þú varast það grandgæfilega að neyta blóðsins, því að blóðið er lífið, og þú skalt ekki eta lífið með kjötinu. Þú skalt ekki neyta þess, þú skalt hella því á jörðina sem vatni.“ (5. Mósebók 12:23, 24) Enginn vafi leikur á að Davíð hafði þetta boðorð í huga þegar þrír af hermönnum hans hættu lífi sínu til að færa honum drykkjarvatn úr brunninum í Betlehem. Hann „dreypti því [Jehóva] til handa,“ hellti niður sem tákni um lífsblóð þeirra. (2. Samúelsbók 23:15-17) Ekki einu sinni í neyð má virða að vettugi heilagleika blóðsins. — Sjá einnig 1. Samúelsbók 14:31-34.
Í kristna söfnuðinum
11, 12. (a) Hvaða ráð, sem leiðbeint var af andanum, skar úr um kenningaleg atriði á fyrstu öld? (b) Við hvað var neysla blóðs lögð að jöfnu? (c) Hvers vegna gildir einu hvort blóð er gefið í æð eða neytt með munninum?
11 Getur þú séð fyrir þér stórt herbergi í Jerúsalem á fyrstu öld? Þar eru samankomnir postular Jesú og aðrir öldungar kristna safnaðarins. Hvert er umræðuefni þeirra? Páll og Barnabas eru komnir frá Antíokkíu til að leggja fyrir þá vandamál sem komið er upp þar varðandi umskurn. Ráðið kemst að þeirri niðurstöðu að þeir sem nýlega hafa tekið kristna trú þurfi ekki að láta umskerast á holdinu. — Postulasagan 15:1, 2, 6, 13, 14, 19, 20.
12 Í niðurstöðu sinni dregur hið stjórnandi ráð þess tíma saman þær kröfur sem enn eru gerðar til kristinna manna. Það segir: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum [sem blóðið er í] og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir.“ (Postulasagan 15:28, 29) Skurðgoðadýrkun, neysla blóðs og saurlifnaður er því lagður að jöfnu trúarlega. Kristnir menn verða að halda sér frá öllu þessu til að viðhalda góðri andlegri heilsu og eiga hlut í uppfyllingu fyrirheita Guðs. Hvað blóð snertir gildir einu hvort þess er neytt um munninn eða því er dælt í æð. Tilgangurinn er sá sami — að viðhalda og næra líkamann. Eins og hið stjórnandi ráð lét skýrt í ljós er það brot á lögum Guðs að halda sér ekki frá blóði.
13. (a) Hvaða aukin vernd hefur það verið fyrir votta Jehóva að halda sér frá blóði? (b) Hvernig hafa önnur lög Guðs verið fólki hans til verndar?
13 Hinn öri vöxtur ónæmistæringar, lifrarbólgu og annarra sjúkdóma, sem berast með blóðgjöfum, gefur til kynna að góð líkamsheilsa er oft samfara því að halda lög Guðs. Á biblíutímanum gaf Guð Ísrael nákvæm lög um mataræði, sóttkvíun, hollustuhætti og hreinlæti sem hæfði vel eyðimerkurlífi þeirra. (3. Mósebók 11:2-8; 13:2-5; 5. Mósebók 23:10-13) Með því að halda þessar reglur bæði varðveittu Ísraelsmenn náið andlegt samband við Guð sinn og voru auk þess verndaðir fyrir þeim sjúkdómum sem hrjáðu nágranna þeirra. Það var ekki fyrr en á síðustu öld að læknar fóru að gera sér grein fyrir viskunni að baki sumra þessara laga. Mörgum er nú að verða ljóst að lög Guðs um blóð eru skynsamleg.
14. Hvaða lækningu og blessun gátu Ísraelsmenn hlotið þegar þeir hlýddu?
14 Þegar Ísraelsmenn hlýddu lögum Guðs lét hann rætast á þeim þetta fyrirheit: „Ef þú hlýðir gaumgæfilega raust [Jehóva] Guðs þíns og gjörir það, sem rétt er fyrir honum, gefur gaum boðorðum hans og heldur allar skipanir hans, þá vil ég engan þann sjúkdóm á þig leggja, sem ég lagði á Egypta, því að ég er [Jehóva], græðari þinn.“ Það sem enn mikilvægara var; hlýðni hafði í för með sér að Ísraelsmenn áttu í vændum blessun Guðsríkis. — 2. Mósebók 15:26; 19:5, 6.
15. Hvaða nýlegt dæmi sýnir hvaða blessun er samfara því að hlýða reglum Guðs?
15 Vottar Jehóva kunna að meta það sem læknavísindi okkar tíma gera fyrir fólk. Þegar til dæmis hryðjuverkamaður sprengdi í loft upp Ríkissal í grennd við Sydney í Ástralíu á síðasta ári og yfir 50 særðir vottar voru fluttir í flýti á næsta sjúkrahús, voru þeir þakklátir fyrir að læknar skyldu hafa við hendina nægan vökva annan en blóð til að gefa þeim í æð. Allir hinna særðu lifðu af. Þeir gátu verið þakklátir fyrir að þessar vökvagjafir voru í samræmi við lög Jehóva. Auk þess átti enginn þeirra á hættu að fá sjúkdóma sem geta borist með blóði.
„Hreinn af blóði allra“
16. Hvaða viðhorf ættum við að hafa til helgrar þjónustu, líkt og Páll?
16 En við skulum nú aftur beina augum okkar að fyrstu öldinni. Um sjö ár eru liðin síðan Páll og Barnabas heyrðu Jakob lýsa banninu við skurðgoðadýrkun, neyslu blóðs og saurlifnaði. Á því tímabili hefur Páll farið í tvær trúboðsferðir um Litlu-Asíu og til Austur-Evrópu. Núna, á för sinni heim aftur um Míletus, getur hann talað við öldungana í Efesus sem hafa komið þar til fundar við hann. Hann minnir þá á að hann hafi ekki hlíft sér meðal þeirra og ‚þjónað Drottni í allri auðmýkt með tárum og í raunum.‘ Erum við nú á tímum jafnfórnfús í að leggja okkur alla fram í þjónustu Jehóva? Það ættum við að vera. — Postulasagan 20:17-19.
17. Hvernig ættum við að inna þjónustu okkar af hendi í líkingu við Pál?
17 Hvernig hafði Páll innt þessa þjónustu af hendi? Hann bar vitni hvar sem hann fann fólk, einkum þó á heimilum þess, og án tillits til trúarlegs uppruna þess. Hann hlífði sér ekki við að fræða þessa öldunga og vafalaust höfðu þeir farið með honum þegar hann kenndi „opinberlega og í heimahúsum.“ Þeir höfðu ekki verið einir um að njóta góðs af kostgæfri þjónustu Páls, því að hann hafði ‚vitnað rækilega bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin Jesú.‘ Erum við rækileg í því að sjá um að borið sé vitni fyrir alls konar fólki og farið í hvert hús? — Postulasagan 20:20, 21; Opinberunarbókin 14:6, 7.
18. (a) Hvernig ætti sál okkar að tengjast þjónustu Guðs eins og var hjá Páli? (b) Hvernig ættum við að ganga fram þegar álagið vex?
18 Orðið „rækilega“ birtist líka í því sem Páll segir næst: „Ég tel sál mín alls ekki dýrmæta ef ég aðeins má fullna hlaup mitt og þá þjónustu sem ég hef fengið frá Drottni Jesú, að bera rækilega vitni um fagnaðarerndið um óverðskuldaða náð Guðs.“ (Postulasagan 20:24, NW) Hann taldi sál sína eða líf einskis virði ef hann fullnaði ekki þjónustu sína. Hugsum við þannig um okkar þjónustu? Eftir því sem líður á hina síðustu daga og streita, ofsóknir og sjúkdómar hrjá okkur eða aldurinn færist yfir, höfum við þá enn sams konar anda og Páll í að gera rækilega leit að ‚verðugum‘ heimilum? — Matteus 10:12, 13; 2. Tímóteusarbréf 2:3, 4; 4:5, 7.
19. Hvers vegna gat Páll sagt: „Ég er hreinn af blóði allra“?
19 Páll bjóst ekki við að sjá þessa öldunga í Efesus aftur. Með fullu trúartrausti gat hann þó sagt þeim: „Þess vegna vitna eg fyrir yður, daginn þennan í dag, að eg er hreinn af blóði allra.“ Hvernig þá? Páll hafði ekki úthellt blóði í hernaði. Hann hafði ekki neytt blóðs. Hins vegar hafði hann haft brennandi áhuga á lífi fólks sem blóð þess táknaði. Hann vildi ekki sjá það týna lífi á dómsdegi Guðs vegna þess að hann hefði ekki borið rækilega vitni. Hann hafði ekki hlíft sér við að boða þessum öldungum og öðrum „allt Guðs ráð.“ — Postulasagan 20:26, 27, Ísl. bi. 1912.
20. (a) Hvaða ábyrgð ættum við að inna af hendi núna í samræmi við endurtekna aðvörun Jehóva til Esekíels? (b) Hvað mun það hafa í för með sér fyrir okkur og þá sem hlusta á okkur?
20 Eftir því sem ‚þrengingin mikla‘ nálgast verður brýnni þörfin á að boða allt Guðs ráð. Ástandið er svipað og var fyrir um það bil 2600 árum þegar eyðing vofði yfir Jerúsalem. Orð Jehóva kom til spámannsins Esekíels svohljóðandi: „Mannsson, ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni. Ef ég segi við hinn óguðlega: ‚Þú skalt deyja!‘ og þú varar hann ekki við og segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við óguðlegri breytni hans, til þess að bjarga lífi hans, þá mun hinn óguðlegi að vísu deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.“ (Esekíel 3:17-21; 33:7-9) Smurðir þjónar Jehóva og ‚mikill múgur‘ félaga þeirra bera svipaða ábyrgð nú á dögum. Vitnisburður okkar ætti að vera rækilegur. Þá getum við bjargast á hefndardegi Guðs ásamt þeim sem hlusta á okkur. — Jesaja 26:20, 21; 1. Tímóteusarbréf 4:16; Opinberunarbókin 7:9, 14, 15.
21. Á hvaða vegu getum við sýnt guðrækilega virðingu fyrir blóði og með hvaða árangri?
21 Í öllu sem varðar kristið hlutleysi, að halda okkur frá blóði, gefa rækilegan vitnisburð og iðka trú á dýrmæta fórn Jesú skulum við hvert og eitt vera staðráðin í að hlýða öllu ráði Guðs. Þá getum við átt hlut í dýrlegri uppfyllingu Sálms 33:10-12: „[Jehóva] ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna, en ráð [Jehóva] stendur stöðugt um aldur. . . . Sæl er sú þjóð er á [Jehóva] að Guði.“
Hvert er svar þitt?
◻ Hver er eina notkun blóðs sem veitir varanlega blessun?
◻ Hvaða gagn höfum við af því að halda okkur frá blóði?
◻ Hvernig getum við haldið okkur ‚hreinum af blóði allra manna‘?
◻ Hvaða fordæmi um rækilegan vitnisburð ættum við að fylgja?
[Spurningar]
[Innskot á blaðsíðu 31]
Tímaritið The Wall Street Journal birti þann 20. mars 1986 grein undir fyrirsögninni: „Blóðbankar ekki óhultir fyrir ónæmistæringu.“ Í byrjun greinarinnar segir: „Blóðbirgðir Bandaríkjanna eru ekki eins öruggar og blóðbankarnir vilja telja okkur trú um. Blóðgjafir geta verið ein af helstu leiðunum til að útbreiða ónæmistæringu meðal almennings utan áhættuhópanna sem nú eru. Mótefnismælingar, sem notaðar eru til að skyggna blóð, geta ekki tryggt að allt sýkt blóð finnist. Það sem verra er, forstöðumenn blóðbanka eru tregir til að gera ráðstafanir sem myndu gera blóðgjafir hættuminni.“