Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlutlausir kristnir menn í blóði drifnum heimi

Hlutlausir kristnir menn í blóði drifnum heimi

Hlutlausir kristnir menn í blóði drifnum heimi

„Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn.“ — 1. MÓSEBÓK 9:6.

1. Hvaða þróun í heiminum frá 1914 vekur ugg?

 HEILUM hafsjó af blóði yfir hundrað milljóna manna hefur verið úthellt í styrjöldum frá 1914. Og hverjar eru framtíðarhorfurnar? Árið 1945 voru tvær japanskar borgir lagðar í rúst og 200.000 mannslíf þurrkuð út með nýju ógnarvopni. Sá atburður var upphaf nýrrar kenningar um gagnkvæma tortímingarvissu. Þessi kenning hefur verið notuð sem grundvöllur ógnunarjafnvægis sem byggt er á óhemjulegum birgðum kjarnorkuvopna — nógu miklum til að eyða öllu lífi á jörðinni mörgum sinnum. Kafbátar hafa borið þessi djöfullegu vopn út um heimshöfin, og nýlega hefur hættan aukist enn við það að stríðsógnunin skuli vera að ná út í geiminn líka. Jafnvel grundvöllur ógnunarjafnvægisins virðist vera að því kominn að bresta. Er einhver leið út úr þessari vitfirringu?

2. Hverju spáði Jesús um þessa tíma en um hvað fullvissar hann kristna menn?

2 Já, til er leið, en ekki sú sem þjóðirnar velja. Jesús spáði um þær ógöngur sem þær eru í núna: „Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast.“ Jesús lauk spádómi sínum með því að fullvissa kristna menn um að þeir sem héldu vöku sinni gætu ‚umflúið allt þetta, sem koma á.‘ — Lúkas 21:25, 26, 36.

Að stunda frið við Guð

3. (a) Hvernig þjóna þjóðirnar hagsmunum ‚guðs þessa heims‘? (b) Hvernig mun Jehóva útkljá deilumálið?

3 Þjóðirnar, einkum þær sem eru búnar kjarnorkuvopnum, sitja fastar í samkeppni um heimsyfirráð sem gæti hugsanlega endað með heimseyðingu. Það þjónar hagsmunum ‚guðs þessa heims.‘ Þjóðirnar „bera ráð sín saman gegn [Jehóva] og hans smurða,“ Kristi sem situr nú í hásæti á himnum. Þegar Jehóva gefur um það skipun mun Kristur mola þjóðirnar eins og með járnsprota. Þá mun rætast fyrirheitið: „Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar.“ — 2. Korintubréf 4:4; Sálmur 2:2, 6-9; Rómverjabréfið 16:20.

4. Hvernig getum við ástundað frið við Guð? (1. Pétursbréf 3:11)

4 Við ættum fyrir okkar leyti að vilja ástunda frið við þennan Guð. Hvernig getum við gert það? Meðal annars ættum við að vilja hafa sjónarmið Guðs varðandi heilagleika mannslífsins og hins dýrmæta lífsblóðs sem streymir um æðar okkar.

5. Hvaða dæmi sýna að Jehóva hefnir fyrir tilefnislausar blóðsúthellingar?

5 Jehóva er skapari mannsins og hinnar undursamlegu blóðrásar sem ber næringarefni út um mannslíkamann og heldur okkur lifandi. Guð ætlaðist aldrei til að mannsblóði yrði úthellt að ástæðulausu. Eftir að Kain framdi fyrsta morðið lýsti Jehóva yfir að blóð Abels hrópaði á hefnd. Síðar varð einn afkomenda Kains, Lamek, morðingi og sagði með skáldlegri andargift að yrði hann sjálfur drepinn skyldi þeirrar blóðskuldar hefnt. Smám saman spilltist heimurinn meir og meir og fylltist ofbeldi. Jehóva lét flóðið koma til að tortíma þeim fyrsta mannheimi. Aðeins fjölskylda hins friðsama Nóa bjargaðist, en nafn hans merkir „hvíld.“ — 1. Mósebók 4:8-12, 23, 24; 6:13; 7:1.

6. Hver eru lög Guðs varðandi blóð og fyrir hverja eru þau bindandi?

6 Jehóva tjáði þá Nóa skýran vilja sinn varðandi blóð. Hann lauk máli sínu með þessum orðum: „Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn.“ (1. Mósebók 9:3-6) Allt mannkyn er komið frá Nóa og þetta lagaboð Guðs undirstrikar því að allir menn, sem þrá velþóknun Guðs, séu bundnir af því. Sjötta boðorðið af þeim tíu sagði líka: „Þú skalt ekki morð fremja.“ Blóðskuld kallar á viðeigandi aðgerðir og endurgjald. — 2. Mósebók 20:13; 21:12; 5. Mósebók 21:1-9; Hebreabréfið 10:30.

7. Hvers vegna var rétt af Jehóva að skipa Ísrael að fara í stríð? (b) Í hvaða hernaði taka kristnir menn nú á tímum þátt?

7 Úr því að svona skýlaust bann lá við því að úthella blóði, hvers vegna leyfði þá Jehóva og jafnvel fyrirskipaði Ísraelsþjóðinni að stunda hernað? Við verðum að muna að þetta var heilagur hernaður sem Jehóva, dómari allrar jarðarinnar, stjórnaði til að útrýma þjóðum sem dýrkuðu illa anda. Kanverjar höfðu til dæmis sest að óboðnir í fyrirheitna landinu og stunduðu djöfladýrkun og siðleysi sem hefði stofnað heilagri þjóð Guðs í hættu. Jehóva lét landið ‚spúa‘ þessum spilltu mönnum og rak guðræðislegan hernað til þess. (3. Mósebók 18:1-30; 5. Mósebók 7:1-6, 24) Það réttlætir andlegan hernað kristinna manna nú á dögum. — 2. Korintubréf 10:3-5; Efesusbréfið 6:11-18.

8. Hvað sýnir að Guð hefur vanþóknun á því að saklausu blóði sé úthellt?

8 En Jehóva hafði ekki velþóknun á því að blóði hvers sem er væri úthellt. Því er skrifað um konung í Júda: „Manasse úthellti og mjög miklu saklausu blóði, þar til er hann hafði fyllt Jerúsalem með því enda á milli.“ Þótt Manasse iðraðist síðar meir og auðmýkti sig fyrir Jehóva fylgdi þessi blóðskuld honum og ætt hans. Guðhræddur sonarsonur Manasse, Jósía konungur, gekk vasklega fram í að hreinsa landið og endurreisa sanna guðsdýrkun. Hann gat þó ekki aflétt þessari blóðskuld. Í stjórnartíð Jójakíms, sonar Jósía, leiddi Jehóva Nebúkadnesar gegn Júdaríkinu til að fullnægja dómi yfir þjóðinni. „Að boði [Jehóva] fór svo fyrir Júda, til þess að hann gæti rekið þá burt frá augliti sínu sakir synda Manasse samkvæmt öllu því, er hann hafði gjört, svo og sakir þess saklausa blóðs, er hann hafði úthellt, svo að hann fyllti Jerúsalem saklausu blóði — það vildi [Jehóva] ekki fyrirgefa.“ — 2. Konungabók 21:16; 24:1-4; 2. Kroníkubók 33:10-13.

Staðall settur kristnum mönnum

9. Hvaða staðal setti Jesús kristnum mönnum varðandi það að úthella blóði?

9 Við megum búast við að Jesús, stofnandi kristninnar, hafi sett kristnum mönnum staðal varðandi það að úthella blóði. Gerði hann það? Nú, skömmu eftir að hann hafði stofnsett minningarhátíðina um dauða sinn sá hann til þess að lærisveinarnir hefðu með sér tvö sverð. Hver var tilgangurinn? Til að setja fram mikilvæga meginreglu sem allir kristnir menn myndu þurfa að halda. Þegar herflokkur kom til að handtaka Jesú í Getsemanegarðinum brá hinn fljóthuga Pétur á loft sverði og hjó af hægra eyra Malkúsar, þjóns æðsta prests Gyðinga. Var það ekki göfugmannlegt að berjast í þágu sonar Guðs? Jesús var ekki þeirrar skoðunar. Hann græddi eyra þjónsins á aftur og áminnti Pétur um að himneskur faðir hans hefði getað sent tólf sveitir engla honum til hjálpar. Síðan mælti hann fram þessa grundvallarreglu: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ — Matteus 26:21-53; Lúkas 22:36, 38, 49-51; Jóhannes 18:10, 11.

10. (a) Hvaða mikilvæg meginregla kemur fram í Jóhannesi 17:14, 16 og 18:36? (b) Hvaða afstaða varð kristnum mönnum á fyrstu öld til björgunar?

10 Kristnir menn á fyrstu öld myndu síðan minnast ákafrar bænar Jesú til Jehóva þegar hann sagði um lærisveina sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ Þeir hlutu líka að minnast svars Jesú við spurningu Pontíusar Pílatusar: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínar barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóhannes 17:14, 16; 18:36) Á þessum tímum háðu ýmsir hópar Gyðinga harða baráttu hver við annan, bæði með orðum og blóðsúthellingum. En lærisveinar Jesú héldu sér utan við þessar byltingarhreyfingar. Í um það bil 30 ár biðu þeir í Jerúsalem. Síðan hlýddu þeir spádómlegu tákni Jesú og ‚flýðu til fjallanna.‘ Hlutleysi þeirra og flótti varð þeim til hjálpræðis. — Matteus 24:15, 16.

11, 12. (a) Hvaða ákvörðun þurftu Kornelíus og Sergíus Páll að taka þegar þeir tóku trú? (b) Hvar hafa þeir fengið hjálp til að taka rétta ákvörðun? (c) Hvað þýðir það fyrir okkur núna?

11 Sumir spyrja kannski: ‚Hvað um Kornelíus, hundraðshöfðingjann, og Sergíus Pál, landstjóra á Kýpur, sem hafði her sér til stuðnings? Voru þessir menn ekki bendlaðir við her og herþjónustu?‘ Jú, á þeim tíma þegar þeir tóku við boðskap Biblíunnar. Ritningin segir okkur þó ekki hvað Kornelíus og hinir gerðu eftir að þeir tóku trú. Vafalaust hefur Sergíus Páll, sem var greindur maður og „gagntekinn af kenningu [Jehóva],“ fljótlega grandskoðað veraldlega stöðu sína í ljósi sinnar nýfundnu trúar og tekið rétta ákvörðun þar að lútandi. Kornelíus hefur farið svipað að. (Postulasagan 10:1, 2, 44-48; 13:7, 12) Engar heimildir eru um að lærisveinarnir hafi sagt þeim hvað þeir ættu að gera. Þeir gátu séð það sjálfir af námi sínu í orði Guðs. — Jesaja 2:2-4; Míka 4:3.

12 Kristnir menn nú á tímum ættu ekki heldur að segja öðrum persónulega hvaða afstöðu þeir eigi að taka til mála sem tengjast kristnu hlutleysi. Hver og einn verður að taka sína eigin ákvörðun í samræmi við samvisku sína og skilning á meginreglum Biblíunnar. — Galatabréfið 6:4, 5.

Nú á tímum

13. Hvernig farnaðist biblíunemendunum þegar þeir reyndu að forðast blóðskuld í fyrri heimsstyrjöldinni?

13 Árið 1914 braust fyrst út allsherjarstríð í heiminum. Allar auðlindir þjóðanna, þar á meðal mannafli þeirra, var helgaður hernaði. Margt biblíunemenda, eins og vottar Jehóva voru nefndir á þeim tíma, sýndu hrósunarverða viðleitni í að forðast blóðskuld. Þeir voru ofsóttir grimmilega eins og Jesús hafði sagt fyrir. — Jóhannes 15:17-20.

14, 15. (a) Hvernig veitti Jehóva leiðsögn í síðari heimsstyrjöldinni? (b) Hvaða skýra afstöðu tóku vottar Jehóva þá? (c) Í hverju er þetta ólíkt því sem áhangendur veraldlegra trúarbragða gerðu?

14 Þegar heimsstyrjöld braust aftur út árið 1939 gaf Jehóva skýrar leiðbeiningar fyrir þjóna sína. Innan tveggja mánaða eftir að stríði var lýst yfir birtust þessar leiðbeiningar í mynd biblíunámsefnis undir titlinum „Hlutleysi,“ í Varðturninum þann 1. nóvember 1939. Greinunum lauk með þessum orðum: „Allir sem eru Drottins megin verða hlutlausir gagnvart hinum stríðandi þjóðum, og styðja eingöngu og af heilum hug hinn mikla GUÐVALD og konung hans.“

15 Hver var árangurinn? Sem heimssamfélag bræðra héldu vottar Jehóva sér frá því að úthella blóði saklausra manna, þar á meðal bræðra sinna í öðrum löndum. Meðan kaþólskir, mótmælendur, búddatrúarmenn og aðrir brytjuðu hver annan niður hlýddu sannir lærisveinar Jesú þessu nýja boði: „Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ — Jóhannes 13:34.

16. (a) Hvernig sýndu vottar Jehóva sig heiðarlega borgara? (b) Hvernig héldu vottarnir áfram að gjalda Guði það sem Guðs er og hvaða afleiðingar hafði það stundum?

16 Þessir kristnu menn héldu áfram að gjalda keisaranum það sem keisarans er. Þeir hlýddu landslögum sem heiðarlegir borgarar. (Matteus 22:17-21; Rómverjabréfið 13:1-7) Öllu þýðingarmeira er þó að þeir guldu Guði það sem Guðs er, þar á meðal líf sitt sem vígðir þjónar hans og kristna guðsdýrkun sína. Þegar því keisarinn krafðist af þeim þess sem Guðs er breyttu þeir samkvæmt meginreglunni í Postulasögunni 4:19 og 5:29. Hvort sem um var að ræða það að úthella blóði, herþjónustu án þátttöku í bardögum, aðra þjónustu í stað herþjónustu eða að heilsa og hylla líkneski eða merki svo sem þjóðfána, tóku trúfastir kristnir menn þá afstöðu að engin málamiðlun kæmi til greina. Í sumum tilfellum guldu þeir fyrir þessa afstöðu með lífi sínu. — Matteus 24:9; Opinberunarbókin 2:10.

Þeir létu ekki undan

17. (a) Hvernig fóru nasistar með votta Jehóva að því er segir í bók einni? (b) Hvernig voru vottar Jehóva ólíkir öðrum í afstöðu sinni?

17 Í nýlega útkominni bók nefnd Of Gods and Men segir að í þriðja ríki Hitlers hafi vottar Jehóva verið sá trúarhópur sem var sýnd „langsamlega áköfust andstaða.“ Vottar Jehóva létu ekki undan. Áhangendur annarra trúfélaga í Þýskalandi fylgdu herprestum sínum og veittu þar með þýska ríkinu trúarlega þjónustu. Þeir fengu „merki“ hins pólitíska villidýrs „á hægri hönd sér eða á enni sín.“ (Opinberunarbókin 13:16) Þeir studdu þýsku stjórnmálavélina með styrkri hægri hönd og létu þá afstöðu glöggt í ljós með því að heilsa Hitler með nasistakveðju og hylla hakakrossfánann.

18. (a) Hvað sýnir hvort vottar Jehóva voru hlutlausir í stjórnmálum eða ekki? (b) Hvaða áhrif ætti þessi heimild að hafa á okkur sem einstaklinga núna?

18 Hvaða afstöðu tóku sannkristnir menn þar? Í áðurnefndri bók segir: „Einungis vottar Jehóva stóðu gegn stjórn Hitlers. Þeir börðust með kjafti og klóm sem varð þess valdandi að helmingur þeirra var hnepptur í fangelsi og fjórðungur líflátinn. . . . Þeir eru, ólíkt [öðrum trúfélögum], óveraldlegir í þeim skilningi að þeir leita ekki velþóknunar eða umbunar hins efnislega heims og telja sig ekki tilheyra honum. Þeir eru ‚hlutlausir‘ í stjórnmálum því að þeir tilheyra nú þegar öðrum heimi — heimi Guðs. . . . Þeir sækjast ekki eftir né bjóða upp á málamiðlun. . . . Að þjóna í hernum, taka þátt í kosningum eða heilsa Hitler með nasistakveðju hefði falið í sér viðurkenningu á því að kröfur þessa heims hefðu forgang fram yfir kröfur Guðs.“ Jafnvel í fangabúðunum var það viðurkennt að vottar Jehóva sæktust eftir friði og væru frábitnir ofbeldi. Með hvaða hætti? Þeim að „aðeins vottunum var leyft að raka SS-verðina með rakhnífum, því að þeim einum mátti treysta til að drepa ekki.“

19. Hvernig hafa vottar Jehóva fylgt hugrökku fordæmi Jesú og með hvaða árangri?

19 Meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð urðu vottar Jehóva áberandi fyrir kristið hlutleysi sitt. Um allan hnöttinn fylgdu þeir hugrakkir sem einn maður fordæmi Jesú í því að ‚heyra ekki heiminum til‘; þeir sigruðu þennan blóðseka heim eins og Kristur hafði gert. — Jóhannes 17:16; 16:33; 1. Jóhannesarbréf 5:4.

Fundið hæli fyrir blóðsekt

20. (a) Hvers vegna er áríðandi að flýja út úr falstrúarbrögðum? (b) Hvar aðeins er ósvikið hæli að finna nú á dögum?

20 Trúfélög heimsins hafa litað blöð sögunnar rauð með því að úthella saklausu blóði í krossferðum, „heilögum“ styrjöldum og rannsóknarrétti. Þau hafa gert sáttmála við blóðþyrsta einræðisherra. Þau gáfu samþykki sitt jafnvel þegar einræðisherrar vörpuðu vottum Jehóva í fangelsi og fangabúðir þar sem fjölmargir þeirra dóu. Þeir studdu fúslega leiðtoga sem létu skjóta eða hálshöggva vottana. Þessi trúfélög geta ekki umflúið réttlátan dóm Jehóva. Honum mun ekki seinka. Enginn sem ann réttlætinu ætti heldur að draga það að forða sér út úr falstrúarbrögðunum — hinni blóðidrifnu ‚Babýlon hinni miklu‘ — og leita hælis í skipulagi Guðs. — Opinberunarbókin 18:2, 4, 21, 24.

21. Um hvað voru griðaborgirnar fyrirmynd?

21 Mörg okkar hafa hugsanlega úthellt mannsblóði eða tilheyrt blóðsekum trúfélögum eða stjórnmálafélögum áður en við hófum að nema orð Guðs. Í því mætti líkja okkur við Ísraelsmann sem varð óviljandi manni að bana. Hann gat flúið til einhverrar af sex tilgreindum borgum þar sem hann gat leitað hælis, og að síðustu gat hann farið þaðan þegar æðsti prestur Ísraels dó. Nú á dögum merkir það að viðurkenna og halda sér við þá blessun sem felst í virkri þjónustu æðsta prests Guðs, Jesú Krists. Með því að halda okkur þar í samfélagi við smurða þjóna Guðs getum við lifað af þegar „blóðhefnari“ okkar tíma, Kristur Jesús, fullnægir dómi Guðs á hinum blóðseku. Hinn ‚mikli múgur,‘ sem núna flýr til skipulags Guðs, þarf að halda sér í því hæli þar til Kristur sem æðsti prestur ‚deyr‘ í þeim skilningi að ljúka endurlausnarverki sínu. — 4. Mósebók 35:6-8, 15, 22-25; 1. Korintubréf 15:22-26; Opinberunarbókin 7:9, 14.

22. Í hverju eru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ólík heilagri þjóð Guðs að því er varðar Jesaja 2:4?

22 Á vegg við byggingu Sameinuðu þjóðanna í New York má lesa eftirfarandi orð byggð á Jesaja 2:4: „Þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ En hverjir hegða sér í samræmi við þessi orð nú á dögum? Ekkert einasta aðildarríki hinna svonefndu Sameinuðu þjóða. Það er einungis hin friðelskandi „þjóð“ liðlega þriggja milljóna votta Jehóva um allan heiminn sem hefur látið skýrt í ljós að hægt er að varðveita kristið hlutleysi í blóðidrifnum heimi.

Upprifjunarspurningar

◻ Hvernig getum við ástundað frið við Guð?

◻ Hvernig lítur Jehóva á tilefnislausar blóðsúthellingar?

◻ Hvað er átt við með kristnu hlutleysi?

◻ Hvaða góð fordæmi um ráðvendni höfum við?

◻ Hvar getum við leitað hælis til björgunar?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 26]

Vitnisburður um trú, hugrekki og ráðvendni

Bókin New Religious Movements: A Perspective for Understanding Society hefur þessu við að bæta um ráðvendni votta Jehóva andspænis ofsóknum nasista:

„Með því að neita að láta undan voru vottar Jehóva sem ögrun við alræðishugmynd hins nýja þjóðfélags, og þessi ögrun, auk þess hversu lífseig hún var, truflaði verulega arkitekta hinnar nýju skipanar. Því harðar sem vottarnir voru ofsóttir, þeim mun raunverulegri hugmyndafræðileg ögrun voru þeir. Hinar aldagömlu aðferðir, ofsóknir, pyndingar, fangelsun og spott, dugðu ekki til að snúa neinum votti á sveif með nasistum og hafði satt að segja öfug áhrif við það sem til var ætlast. Nasistar voru gripnir skelfingu við þessi óvæntu viðbrögð.

Baráttan milli þessara tveggja sem kröfðust hollustu manna var heiftarleg, ekki síst fyrir þá sök að nasistar, sem gátu neytt aflsmunar, voru að mörgu leyti óvissari og óöruggari um eigin sannfæringu, óvissari um að þúsundáraríki þeirra myndi standa. Vottarnir efuðust ekki um rótfestu sína því að trú þeirra hafði verið auðsæ frá dögum Abels. Meðan nasistar urðu að bæla niður andstöðu og sannfæra stuðningsmenn sína, oft með því að taka að láni orðfæri og myndmál sértrúarkristni, voru vottarnir öruggir um algera og ósveigjanlega hollustu meðlima sinna, allt til dauða.“

Það verður mikill gleðidagur þegar þessi sigur kristinnar hollustu verður fullnaður. (Rómverjabréfið 8:35-39) Þá, undir konungsstjórn ‚friðarhöfðingjans,‘ hins dýrlega gerða Jesú Krists, ‚mun höfðingjadómurinn verða mikill og friðurinn engan enda taka.‘ — Jesaja 9:6, 7.

[Rammagrein á blaðsíðu 27]

Ráðvönd ungmenni

Eftirfarandi er tekið úr nýlega birtri dagbók manns sem fylgdist með því sem fram fór í einu Evrópulandi. Það gefur til kynna hvernig ungir vottar hafa gætt þess hugrakkir að ‚heyra ekki heiminum til.‘ — Jóhannes 17:14.

‚12. mars 1945: Haldin voru réttarhöld samkvæmt herlögum. Tveir ungir Jehóvar eru ákærðir fyrir að neita að gegna herþjónustu (samkvæmt anda trúar sinnar). Sá yngri, sem er enn ekki orðinn tvítugur, var dæmdur til 15 ára hegningarhússvistar. Hinn eldri var hins vegar dæmdur til dauða og fluttur samstundis til heimabæjar síns þar sem hann skyldi líflátinn opinberlega sem fordæmi til viðvörunar. Hann er 14. fórnarlambið hér. Megi hann hvíla í friði. Þetta mál hefur snortið mig djúpt. Það er ekki hægt að koma svona fram gagnvart Jehóvunum. Þeir gerðu þennan dreng ekki að fordæmi til viðvörunar heldur píslarvotti. Þetta var heilbrigður drengur. Ég finn til með honum.

Síðdegis var okkur skýrt í smáatriðum frá aftöku þessa unga manns sem átti sér stað á markaðstorginu að viðstöddu fjölmenni. Einn af hermönnunum, sem stóð vörð um aftökusvæðið, skaut sig fyrir aftökuna því að hann skammaðist sín svo mikið. Það kom til af því að ofurstinn vildi að hann aðstoðaði böðulinn. Hann var ekki fús til þess. Hann batt frekar enda á líf sitt. Ungi maðurinn sjálfur dó hugrakkur. Hann sagði ekki orð.‘

Slík ungmenni munu í upprisunni fagna því að þau kusu að finna fyrir broddi dauðans í stað þess að fyrirgera stað sínum í nýrri heimsskipan Jehóva! — Samanber Hósea 13:14.