Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skipunum konungsins fylgt af ýtrustu nákvæmni

Skipunum konungsins fylgt af ýtrustu nákvæmni

Skipunum konungsins fylgt af ýtrustu nákvæmni

„Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína. Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.“ — SÁLMUR 119:15, 16.

1. Hvers vegna þarf allt og allir að hlíta skipunum Jehóva?

 ALLT og allir verða að hlíta skipunum hins alvalda Jehóva Guðs, konungs eilífðarinnar. Hann skapaði alheiminn. Hann er uppspretta alls lífs. Hann myndaði jörðina og gerði hana byggilega. Hann er Guð reglu og skipulags, og með því að framfylgja lögum hans er reglu haldið í öllu sköpunarverkinu. — Sálmur 36:10; Jesaja 45:18; Opinberunarbókin 15:3.

2. Hver stjórnar stjörnuhimninum og hvers vegna?

2 Það var Jehóva Guð sem fyrirskipaði að stjörnuhiminninn skyldi breiðast út eins og tjald yfir jörðinni og síðan bauð hann fólki sínu: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni.“ Það var Jehóva sem spurði Job: „Þekkir þú lög himinsins eða ákveður þú yfirráð hans yfir jörðunni?“ Það eru lögmál hans um aðdráttarafl og hreyfingu sem binda saman hinar mörgu milljónir vetrarbrauta, hverja með sínum milljörðum stjarna, og stýra hreyfingu jarðar á ferð hennar um geiminn. — Jesaja 40:26; Jobsbók 38:33.

3. Hvers skipanir hjálpa dýrunum að lifa og hvernig færi ef þau óhlýðnuðust?

3 Það var hann sem myndaði grænu jurtirnar sem klæða jörðina. Það er vegna hans skipana að fræin spíra og vaxa svo að ný jurt verður til. Jörðin iðar af óteljandi tegundum og afbrigðum dýra — allt frá heimskautum til hitabeltis, frá háloftunum djúpt niður í jarðveginn, frá sjávarborði niður í dimmustu ála hafsins. Hver einasta dýrategund verður að fylgja skipunum Jehóva til að lifa og dafna. Hann gaf þeim eðlishvöt sem lætur þau fylgja skipunum hans sér til lífs. „Þau eru vitur af eðlishvöt.“ (Orðskviðirnir 30:24, NW) En hvernig myndi fara fyrir litla skógarsöngvaranum í Alaska ef hann segði við sjálfan sig: ‚Ég ætla ekki að fljúga mörg þúsund kílómetra til Suður-Ameríku. Af hverju ætti ég að gera það?‘ Þessi smáfugl myndi krókna í vetrarkuldanum. En fuglinum kemur slíkt ekki í hug. Honum er eðlislægt að flytjast búferlum til að halda lífi. Eins er það með öll dýr. Þau fylgja af eðlishvöt þeim skipunum sem skapari þeirra, Jehóva Guð, útbjó þau með. Þau hafa ekki um neitt annað að velja.

4. Um hvað geta menn valið og með hvaða afleiðingum?

4 Um mennina gegnir öðru máli. Við erum skapaðir í líkingu Guðs og getum valið hvað við gerum. En þótt Jehóva hafi ekki áskapað okkur að vera vitrir af eðlishvöt einni hefur hann þó ekki haldið okkur í fáfræði. Í gegnum orð sitt Biblíuna gefur hann okkur skipanir um hvernig við hljótum líf. Ef við fylgjum nákvæmlega þessum skipunum konungsins munum við lifa. Ef við notum frelsi okkar til að virða þær að vettugi, veljum okkur stefnu eftir eigin höfði, munum við deyja. Við verðum að stilla stefnu okkar til björgunar. Svo einfalt er það. „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum,“ sagði sálmaritarinn. Á hinn bóginn getur annar vegur virst ‚greiðfær en þó endað á helslóðum.‘ (Sálmur 119:105; Orðskviðirnir 14:12) Núna á tíma endalokanna er okkur lífsnauðsyn að tileinka okkur orðin í Sálmi 119:15, 16 þar sem Jehóva er ávarpaður: „Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína. Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.“

Jehóva er skipuleggjandi þjóðar sinnar

5. Á hvaða vegu var Jehóva dómari Ísraels, löggjafi og konungur?

5 Jehóva talaði við Móse á Sínaífjalli og gaf skipanir Ísrael til leiðsagnar. Þar skera sig úr boðorðin tíu, skrifuð á steintöflur með fingri Guðs. (2. Mósebók 20:1-17; 31:18) Auk þess að vera löggjafi Ísraels var Jehóva dómari þjóðarinnar fyrir milligöngu Móse og annarra öldunga. Móse áminnti þessa öldunga um að hafa eftirfarandi í huga: „Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs.“ (5. Mósebók 1:17) Jehóva var líka konungur þeirra og skipulagði þessa milljónaþjóð þannig að mál hennar væru í sem bestum skorðum. Með allt þetta í huga gat einn af spámönnum hans síðar sagt: „[Jehóva] er vor dómari, [Jehóva] er vor löggjafi, [Jehóva] er vor konungur.“ — Jesaja 33:22.

6. Hvernig sýndi Jehóva sig vera skipuleggjanda og leiðtoga Ísraels í eyðimörkinni?

6 Ísraelsþjóðinni var skipt niður í ættkvíslir, ættir og fjölskyldur. Á göngu þjóðarinnar um eyðimörkina úthlutaði Jehóva hverri ættkvísl ákveðnum stað í göngunni. Þegar þjóðin sló upp búðum í kringum tjaldbúðina var hverri ættkvísl ætlaður ákveðinn staður. (4. Mósebók 2:1-34; Jósúa 7:14) Með skýi gaf Jehóva skipanir um hvert þjóðin skyldi fara: „Í hvert sinn, er skýið hófst upp frá tjaldinu, lögðu Ísraelsmenn upp, og þar sem skýið nam staðar, þar settu Ísraelsmenn herbúðir sínar. Að boði [Jehóva] lögðu Ísraelsmenn upp, og að boði [Jehóva] settu þeir herbúðir sínar.“ — 4. Mósebók 9:17, 18.

7. Hver gat gert skipulagsbreytingar hjá Ísraelsþjóðinni?

7 Þegar þörf var á skipulagsbreytingum framkvæmdi Jehóva þær. Móse kvartaði: „Ég rís ekki einn undir öllu þessu fólki, því að það er mér of þungt.“ Jehóva svaraði: „Safna þú mér sjötíu mönnum af öldungum Ísraels, sem þú veist að eru öldungar meðal fólksins og tilsjónarmenn þess, . . . svo að þeir beri með þér byrði fólksins og þú berir hana ekki einn.“ (4. Mósebók 11:14, 16, 17) Jafnvel þegar þjóðin krafðist síðar að fá mennskan konung sneri hinn mikli konungur eilífðarinnar ekki baki við Ísrael. Hinn mennski konungur hafði afrit af lögmáli Jehóva. Spámenn boðuðu dóma Jehóva. Trúfastir konungar stjórnuðu í umboði Guðs og ‚sátu í hásæti Jehóva.‘ — 1. Kroníkubók 29:23; 5. Mósebók 17:18; 2. Konungabók 17:13; Jeremía 7:25.

Hið fullkomna fordæmi í að fylgja skipunum konungsins

8. Hvernig, hvar og með hvaða árangri boðaði Jesús hið komandi ríki Jehóva?

8 Þegar Jesús kom sem hinn fyrirheitni Messías fylgdi hann skipunum síns himneska föður af brennandi kostgæfni. Við upphaf sinnar miklu þjónustu í Galíleu tók hann „að prédika og segja: ‚Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.‘ Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins. Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.“ (Matteus 4:17, 23, 25; Jóhannes 2:17) Hann lét sér ekki nægja að prédika í samkunduhúsunum. Hann boðaði fagnaðarerindið um ríkið hvar sem hann fann fólk til að hlýða á: í musterinu, við ströndina, í fjallshlíðinni, úti á víðavangi, í borgum og bæjum og á heimilum fólks. Mannfjöldinn kom til hans stórum hópum og „hlýddi fúslega á hann.“ „Allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.“ — Markús 12:37; Lúkas 19:48.

9. Hvað gerði Jesús til að auka prédikunarstarfið og hvaða fyrirmæli gaf hann?

9 Jesús nefndi við postula sína þörfina á fleiri verkamönnum, sendi þá tólf út og gaf þeim þessi fyrirmæli: „Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg. Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt. Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘ Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs, og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.“ (Matteus 10:5-7, 11-13) Síðar sendi hann út 70 til viðbótar og gaf þeim áþekk fyrirmæli, og með því að fylgja þeim gaumgæfilega náðu þeir góðum árangri og uppskáru mikla gleði. — Lúkas 10:1, 17.

10. (a) Hvaða boð gaf Jesús eftir upprisu sína og með hvaða árangri? (b) Hvers vegna þurfti að útnefna menn til starfa og hvaða kröfur þurftu þeir að uppfylla?

10 Eftir dauða sinn og upprisu stækkaði Kristur Jesús starfsakur fylgjenda sinna og sagði þeim: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:18-20) Rétt áður en hann steig upp til himna gaf hann svipaða fyrirskipun: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Þegar fylgjendur hans útbreiddu boðskapinn um Guðsríki gengu þúsundir í lið með þeim. (Postulasagan 2:41; 4:4; 5:14; 6:7) Söfnuðir spruttu upp hvarvetna. Umsjónarmenn og safnaðarþjónar þeim til aðstoðar, sem fullnægðu ákveðnum kröfum Biblíunnar, voru útnefndir til að gæta þessara hjarða karla og kvenna. Söfnuðirnir döfnuðu og fjölgaði. — 1. Tímóteusarbréf 3:2-10, 12, 13; Títusarbréfið 1:5-9.

11. Hvers konar skipulag hafa vottar Jehóva nútímans og hvers vegna er mjög nauðsynlegt að það sé gott núna?

11 Á okkar dögum er sérlega þýðingarmikið að söfnuðir votta Jehóva fylgi fordæmi Jesú í prédikun sinni. Til að gera það með sem árangursríkustum hætti fylgja þeir því safnaðarskipulagi sem á var komið á dögum postulanna. Nú stendur yfir tími endalokanna, sá tími sem Jesús sagði fyrir að prédikað yrði um allan heim: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar byrjuðu nokkrar þúsundir að prédika þetta fagnaðarerindi um ríkið; nú eru þeir komnir yfir þrjár milljónir! Við lifum á tímum þegar afar áríðandi er að fylgja nákvæmlega skipunum bæði konungs eilífðarinnar, Jehóva Guðs, og konungs konunga, Krists Jesú.

Öldungarnir þarfnast virðingar þinnar og stuðnings

12. Hvers er krafist af öldungum nú á tímum og hvernig er hægt að gera þjónustu þeirra ánægjulega?

12 Öldungar safnaðarins gegna mikilvægu hlutverki að því er varðar að fylgja skipunum konungsins. Þeir eiga að vera til fyrirmyndar: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skulið eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pétursbréf 5:1-3) Hjörðin tilheyrir Guði. Hann gerir öldungana ábyrga fyrir henni, en fúslegt samstarf allra getur gert starf þeirra ánægjulegt: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ — Hebreabréfið 13:17.

13. Hvers vegna ætti að hafa öldungana í tvöföldum metum?

13 Sýna ber öllum í söfnuðinum virðingu, en þó sér í lagi öldungum sem leggja hart að sér: „Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.“ (1. Tímóteusarbréf 5:17; Rómverjabréfið 12:10) Hvers vegna á að hafa öldungana „í tvöföldum metum“? Vegna hins góða starfs þeirra. Sagt er við þá: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar.“ (Postulasagan 20:28) Þeir leggja hart að sér til að þjóna þér og öðrum. Stundum þurfa þeir að aga einstaklinga sem brjóta eða virða að vettugi skipanir konungsins — það er ekki þægileg skylda og hún getur haft í för með sér að einhverjir móðgist. Ef til vill þurfa þeir að gefa leiðbeiningar um klæðnað eða hegðun sem sumir taka illa upp. Allt er þetta þó gert til að tryggja andlega velferð safnaðarins. Okkur ber að sýna öldungunum virðingu.

14. (a) Hvernig geta öldungarnir dæmt aðra rétt með hliðsjón af Jakobsbréfinu 4:12? (b) Hvenær er grundvöllur fyrir mildum dómi og hvenær getur miskunn hrósað sigri yfir dómi?

14 Af og til þurfa öldungarnir að sitja í dómnefnd og fella dóma — stundum óvinsæla. Hvernig kemur slíkur dómur heim og saman við Jakobsbréfið 4:12? Þar segir: „Einn er löggjafinn og dómarinn, sá sem getur frelsað og tortímt. En hver ert þú, sem dæmir náungann?“ Já, einstaklingar eiga ekki að dæma hver annan. Öldungarnir ættu ekki að fella dóma byggða á eigin skoðunum heldur orði Jehóva. Taktu eftir hvernig Jósafat konungur aðvaraði þá dómara sem hann skipaði: „Eigi dæmið þér í umboði manna, heldur [Jehóva], . . . veri þá ótti [Jehóva] yfir yður, hafið gát á breytni yðar, því að hjá [Jehóva], Guði vorum, er ekkert ranglæti eða manngreinarálit, né mútur þegnar.“ (2. Kroníkubók 19:6, 7) Halda verður skipulaginu hreinu. Öldungarnir ættu þó ekki að vera hörkulegir, ‚ofsafengnir.‘ Hægt er að sýna miskunn og fyrirgefa ef eftirsjáin er djúp og iðrunin einlæg. Þá ‚gengur miskunnsemin sigrihrósandi að dómi.‘ — 1. Tímóteusarbréf 3:3; Jakobsbréfið 2:13.

15. Hvers vegna verðskulda öldungarnir virðingu?

15 Skyldur öldunganna eru því oft erfiðar og krefjandi, en öldungar sem sinna þeim af trúmennsku og kærleika geta verið öðrum til andlegrar hressingar og verndar. „Þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ (Jesaja 32:2) Það er hinn vingjarnlegi og kærleiksríki verndari — ekki hvatvís ákærandi eða strangur agari — sem er öllum til gleði, aflar sér virðingar og heiðurs og öðlast hylli Jehóva.

Verið þolinmóðir hver við annan

16. (a) Hvernig bregðast sumir við mistökum annarra og hvað gæti gert þá skilningsríkari og síður gagnrýna? (b) Hvernig lítur Jehóva á trúfasta þjóna sem verða á mistök?

16 Þegar fólk þarf að eiga náið samstarf er líklegt að upp komi vandamál. Menn gera mistök og það kemur sumum stórlega úr jafnvægi. Sumir nota jafnvel mistök annarra sem afsökun fyrir því að gera stærstu mistök sem hugsast getur — þeir hætta að þjóna Jehóva! Ef þeir hins vegar myndu skoða mistök sjálfra sín jafngrannt og annarra myndu þeir líklega verða skilningsríkari og síður gagnrýnir. Móse gerði mistök. Davíð gerði mistök og einnig Pétur. Við gerum líka öll mistök. Jehóva hélt samt sem áður áfram að nota þessa trúföstu menn fortíðarinnar og heldur áfram að nota okkur. „Hver ert þú, sem dæmir annars þjón? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er [Jehóva] þess að láta hann standa.“ — Rómverjabréfið 14:4.

17. Hvaða ættum við auk þess að muna viðvíkjandi því að gera mistök og dæma aðra?

17 Við skulum líka muna þetta: Jehóva notar ófullkomna menn sem verkfæri hér á jörðinni. Hann hefur ekki annað sem stendur. Í raun er það Jehóva til lofs því að hann áorkar svo miklu með svo litlu! Veikleiki okkar upphefur mátt hans: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ (2. Korintubréf 12:9) Vitnisburðarstarfið um allan heim dafnar af þeirri ástæðu sem Jehóva hefur sjálfur nefnt: „Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn!“ (Sakaría 4:6) Við skulum því öll fyrirgefa mistök og ófullkomleika annarra til að okkur sé líka fyrirgefið. Munum þetta: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.“ — Matteus 6:14, 15.

Skipulag til að fylgja skipun konungsins um að prédika

18. Hvaða skipulag ríkti á dögum postulanna og er einnig núna til að tryggja einingu í prédikun safnaðanna?

18 Postularnir og öldungarnir í Jerúsalem mynduðu stjórnandi ráð sem tók ákvarðanir svo að allir söfnuðir frumkristinna manna hefðu sömu leiðbeiningar til að fara eftir. (Postulasagan 15:1-31; 16:1-5) Nú á dögum hafa smurðir vottar Jehóva, hinn „trúi og hyggni þjónn,“ stjórnandi ráð staðsett í aðalstöðvum sínum í Brooklyn í New York. (Matteus 24:45-47) Það stýrir hinu gífurlega vitnisburðarstarfi um Guðsríki sem nú er unnið út um alla jörðina til uppfyllingar þeirri skipun að kunngera ríki Jehóva. (Matteus 24:14) Þetta starf væri aldrei hægt að vinna án skipulags. Einstaklingar gætu aldrei gert það upp á eigin spýtur.

19. Hvaða starf, sem einstaklingar gætu aldrei áorkað, vinna vottar Jehóva með því að fylgja skipunum konungsins nákvæmlega?

19 Enginn einstaklingur og engir óskipulegir, tvístraðir hópar gætu prédikað á 190 tungumálum í 205 löndum, haldið reglulega heimabiblíunám með tveim og fjórðungi úr milljón einstaklinga og fjölskyldna, og skírt ár hvert um 190.000 nýja þjóna fagnaðarerindisins um ríkið. Það kostaði liðlega þrjár milljónir votta næstum sex hundruð milljón klukkustunda prédikun að ná þeim árangri árið 1985. Þeir gátu gert það aðeins vegna þess að þeir voru vel skipulagðir í næstum 50.000 söfnuði sem allir eru undir sýnilegri stjórn hins eina stjórnandi ráðs. Og jafnvel þá var það mögulegt aðeins af því að hið stjórnandi ráð, hinar 94 deildarskrifstofur, söfnuðirnir 50.000 og hinar þrjár milljónir einstakra votta voru allir sameinaðir í að fylgja nákvæmlega skipunum konungsins.

Manst þú?

◻ Hvernig skipulagði Jehóva Ísraelsþjóðina?

◻ Hvaða fullkomið fordæmi gaf Jesús um það að boða ríki Jehóva?

◻ Vegna hvaða margþættrar þjónustu sinnar verðskulda öldungarnir virðingu?

◻ Hvers vegna gætu einangraðir hópar eða einstaklingar ekki borið vitni sem skyldi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Skaparinn áskapaði öllum dýrum kunnáttu til að bjarga sér.

Menn þurfa sjálfir að afla sér visku til björgunar með því að nema skipanir Jehóva.