Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Staðráðin í að þjóna Jehóva af heilu hjarta

Staðráðin í að þjóna Jehóva af heilu hjarta

Staðráðin í að þjóna Jehóva af heilu hjarta

„Þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að [Jehóva] rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar.“ — 1. KRONÍKUBÓK 28:9.

1. Hvaða spurningar vekur 1. Kroníkubók 28:9?

 RITNINGARSTAÐURINN hér að ofan vekur ýmsar spurningar viðvíkjandi hjartanu. Ef hér er átt við hið bókstaflega hjarta, hvernig getur maðurinn lifað með eitthvað minna en heilt hjarta? Getur einhver til dæmis lifað með hálft hjarta? Leitar Jehóva að ágöllum hins bókstaflega hjarta eins og mennskur hjartasérfræðingur? Eiga hugsanir okkar, svo og tilhneigingar, sér setur í hjartanu? Orð Biblíunnar virðast sums staðar gefa það í skyn, því að talað er um ‚hugrenningar hjartans.‘ (1. Mósebók 6:5; 1. Kroníkubók 29:18) Rannsakar Jehóva hið bókstaflega hjarta til að greina hugsanir okkar? Hvað er raunverulega átt við með því að „þjóna honum af öllu hjarta“?

2. Hverju trúðu Egyptar til forna, Babýloníumenn og gríski heimspekingurinn Aristóteles um hjartað?

2 Egyptar til forna álitu að hið líkamlega hjarta væri setur vitsmuna og tilfinninga. Þeir héldu líka að það hefði sjálfstæðan vilja. Babýloníumenn sögðu að hjartað geymdi bæði vitsmuni og kærleika. Gríski heimspekingurinn Aristóteles kenndi að það væri setur skilningarvitanna og hús sálarinnar. Þegar tímar liðu og þekking manna jókst hurfu menn frá þessum sjónarmiðum. Að síðustu varð hjartað þekkt fyrir það sem það er — dæla sem heldur blóði líkamans í hringrás.

3. Lýstu eiginleikum og afköstum hjartans.

3 Já, hjartað er fyrst og fremst dæla, en hvílík dæla! Á hverri sekúndu ævi okkar dælir það trúfast hinum lífsnauðsynlega rauða vökva um æðar okkar! Hjartað er lítið stærra en hnefi manns og vegur innan við hálft kíló. Það slær um 100.000 sinnum á dag og dælir blóði um hið 96.000 kílómetra langa æðakerfi — um 7500 lítrum á dag, tugmilljónum lítra á einni mannsævi. Hjartslátturinn á upptök sín í lítilli frumuþyrpingu eða gangráð sem gefur frá sér rafboð sem stýra hjartslættinum. Enginn vöðvi líkamans vinnur meira, lengur, stöðugar, áratug eftir áratug, en hjartavöðvinn. Við geðshræringu eða mikla áreynslu getur hann fimmfaldað afköst sín. Sé hjartað tekið úr brjóstholinu heldur það áfram að slá um stund. Við hagstæð skilyrði geta jafnvel frumur teknar úr hjartavöðvanum haldið því áfram um stund. Aðeins heilinn þarf meiri næringu og súrefni en hjartað.

4, 5. (a) Hvaða eiginleika segir Ritningin hjartað hafa? (b) Hvaða tilfinningar og hvatir búa í hjartanu að sögn Ritningarinnar?

4 Orð Guðs minnist á hjartað nálega þúsund sinnum. Í fáein skipti er átt við hið bókstaflega hjarta. Nokkrum sinnum er átt við miðpunkt hlutanna eins og þegar talað er um ‚hjarta hafsins‘ og ‚hjarta jarðar.‘ (Esekíel 27:25-27, NW; Matteus 12:40, NW) Næstum þúsund sinnum er hins vegar talað um hjartað í táknrænni merkingu. Theological Dictionary of the New Testament eftir Kittel telur upp fjölmarga ritningarstaði um efnið „hjarta“ undir eftirfarandi fyrirsögnum: „Í hjartanu búa tilfinningar, langanir og ástríður.“ „Hjartað er setur skilnings, uppspretta hugsana og hugleiðinga.“ „Hjartað er setur viljans, uppspretta ákvarðana.“ „Hjartað er því sá miðpunktur mannsins sem Guð snýr sér að, þar sem trúarlífið á rætur sínar, sem ákvarðar siðferðilega breytni.“

5 Tilfinningar og hvatir búa í hinu táknræna hjarta. Samkvæmt fjölmörgum ritningarstöðum getur hjartað verið glatt, dapurt, dimmt, upplýst, örvæntingarfullt, fullt trúartrausts, veikt, sterkt. Það getur verið fullt reiði eða magnþrota af ótta, stolt og drambsamt eða milt og auðmjúkt, elskað innilega eða hatað ákaft, verið hreint eða sekt um hjúskaparbrot. Það hefur illar tilhneigingar en getur knúið okkur til að gera gott.

Vertu hvorki með hálfu hjarta né tvílyndu

6, 7. (a) Hvers konar fólk hataði sálmaritarinn og á hverju sást það að sumir Júda- og Ísraelsmenn þjónuðu Jehóva með hálfu hjarta? (b) Með hvaða dæmi lýsti Jesús því að ekki mætti þjóna Jehóva af hálfu hjarta?

6 Hið bókstaflega hjarta verður að vera heilt til að starfa en hið táknræna getur verið tvískipt. Sálmaritarinn, maður eftir Guðs hjarta, skrifaði: „Ég hata þá, er haltra til beggja hliða.“ (Sálmur 119:113) Í þeirra hópi voru Ísraelsmennirnir sem Elía skoraði á með svofelldum orðum: „Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé [Jehóva] hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.“ (1. Konungabók 18:21) Með hálfu hjarta ‚höltruðu þeir til beggja hliða.‘

7 Um Júdaríkið var sagt eftir að það hafði að hluta til snúið sér til Jehóva: „En þó færði lýðurinn enn þá fórnir á hæðunum, en samt aðeins [Jehóva], Guði sínum.“ (2. Kroníkubók 33:17) Með tvískiptu hjarta sögðust menn dýrka Jehóva en gerðu það á þann hátt sem hann hafði ekki viðurkennt og á stöðum þar sem þeir höfðu áður dýrkað Baal. Jesús sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum.“ (Matteus 6:24) Á þeim dögum voru þrælar eins og eign húsbónda síns. Þeir voru húsbónda sínum til reiðu allan sólarhringinn. Þeir gátu ekki skipt tíma sínum milli tveggja húsbænda. Það sem Jesús átti við hér var að við gætum ekki þjónað Jehóva með hálfu hjarta!

8. Hvernig getur maður í táknrænum skilningi verið með tvö hjörtu og hvaða ritningarstaðir sýna það?

8 Í hverjum manni er aðeins eitt bókstaflegt hjarta en í táknrænum skilningi getur einn maður haft tvö hjörtu. Davíð hafði slíka menn í huga þegar hann sagði: „Með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta [„með hjarta og hjarta,“ NW Ref. bi., neðanmálsathugasemd] tala þeir.“ (Sálmur 12:3) Annað hjartað var til sýnis opinberlega en hitt lagði á ráðin í leynum í eigingjörnu skyni. Þessu tvílynda, hræsnifulla hugarfari er lýst í Ritningunni: „Því að hann er eins og maður, sem reiknar með sjálfum sér. ‚Et og drekk!‘ segir hann við þig, en hjarta hans er eigi með þér.“ „Þegar hann mælir fagurt, þá trú þú honum ekki, því að sjö andstyggðir eru í hjarta hans.“ — Orðskviðirnir 23:7; 26:25; Sálmur 28:3.

9. Hvað sýnir að hræsnifull tilbeiðsla var til bæði á dögum Jeremía og Jesú?

9 Slík hræsni í mannlegum samskiptum er nógu sorgleg, en þegar hún kemur inn í tilbeiðsluna á Jehóva veldur hún ógæfu. „Reiðið yður ekki á lygatal, er menn segja: ‚Þetta er musteri [Jehóva], musteri [Jehóva], musteri [Jehóva].‘ Sjá, þér reiðið yður á lygaræður, sem ekki eru til nokkurs gagns. Er ekki svo: stela, myrða, drýgja hór, sverja meinsæri, færa Baal reykelsisfórnir og elta aðra guði, er þér ekki þekkið, og síðan komið þér og gangið fram fyrir mig í þessu húsi, sem er kennt við nafn mitt, og segið: ‚Oss er borgið!‘ og fremjið síðan að nýju allar þessar svívirðingar.“ (Jeremía 7:4, 8-10) Jesús fordæmdi slíka tvílynda hræsni meðal hinna skriftlærðu og faríseanna. Hann sagði: „Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.“ — Matteus 15:7, 8.

10, 11. Hvað skoða Jehóva og Kristur Jesús þegar þeir dæma manninn og hvers vegna?

10 Af öllu þessu er ljóst hvers vegna Jehóva sagði við Samúel: „Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en [Jehóva] lítur á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Jehóva mælir manngildi ekki eftir ytri táknum heldur skoðar hjartað. Kristur Jesús kvað hjartað vera drifkraft breytni okkar, bæði til góðs eða ills: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.“ Hann sagði líka: „Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.“ — Lúkas 6:45; Matteus 15:19.

11 Kristur Jesús, sem falið er að fella dóm, horfir líka á það sem Jehóva skoðar: „Ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.“ (Opinberunarbókin 2:23) Af þessari ástæðu er líka sagt: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ — Orðskviðirnir 4:23.

12. Hvers vegna krefst það einlægrar viðleitni að vera með heilu hjarta í þjónustu Jehóva?

12 Tilbeiðsla okkar á Jehóva má hvorki vera með hálfu hjarta né tvískiptu, heldur heilu. Það krefst kostgæfrar viðleitni af okkur. Hvers vegna? Vegna þess að hjartað er svikult og getur táldregið okkur. Það er ógnvekjandi hve snjallt það er að réttlæta hið ranga sem loðir við okkar fallna hold. Þótt það kunni að blekkja okkur og fela fyrir okkur hinar raunverulegu hvatir sér Jehóva hvernig ástatt er. Hann vekur athygli okkar á því og segir: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það? Ég, [Jehóva], er sá, sem rannsaka hjartað, prófa nýrun, og það til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans, eftir ávexti verka hans.“ — Jeremía 17:9, 10.

Að fá heilt hjarta

13. Hvað sagði Jesús um sumt af trúhneigðu fólki samtíðar sinnar, og hvaða afleiðingar hafði slík breytni fyrir það?

13 Jesús sagði um suma samtíðarmenn sína sem létust vera trúræknir: „Hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.“ (Matteus 13:15) Sökum fyrirfram ákveðinna skoðana í trúmálum lokuðu þeir augum og eyrum og hertu hjarta sitt gegn kenningu Jesú. Þeir höfnuðu leiðréttingu og gátu því ekki fengið hjarta með réttum hvötum: „Sá sem hlýðir á umvöndun, aflar sér hygginda [„aflar sér hjarta,“ „aflar sér góðrar hvatar,“ NW Ref. bi. meginmál og neðanmálsathugasemd].“ (Orðskviðirnir 15:32) Þeir létu í veðri vaka að þeir tilbæðu Guð en iðkuðu „réttlæti“ sitt til að sýnast fyrir mönnum. — Matteus 6:1, 2, 5, 16.

14. Hvaða dæmi sýna hvernig sannleikurinn tekur sér bólfestu innra með okkur?

14 Það er miklu betra að líkja eftir Jósafat Júdakonungi sem ‚beindi huga [hjarta, NW] sínum að því að leita Guðs.‘ (2. Kroníkubók 19:3) Innileg bæn er besta leiðin til að hefja leitina. Þegar hin óhamingjusama Hanna bað ákaft til Jehóva ‚mæltist hún fyrir í hljóði [hjarta sínu, NW]‘ og bæn hennar var svarað. Þá er nauðsynlegt að vera fús til að hlusta. Móðir Jesú hlustaði: „Móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.“ Hún bæði geymdi það „í hjarta sér og hugleiddi það“ og varð trúfastur lærisveinn Jesú. Jehóva hjálpar þeim sem leitar í einlægni. Hin guðhrædda Lýdía hlýddi á Pál og „opnaði [Jehóva] hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði.“ Hún lét skírast. (1. Samúelsbók 1:12, 13; Lúkas 2:19, 51; Postulasagan 16:14, 15) Það er alltaf hið táknræna hjarta — tilfinningar og góðar hvatir — sem leyfa sannleikanum að komast inn og festa rætur hjá einstaklingnum.

15. Hvað þurfum við að vera fús til að gera til að öðlast heilt hjarta?

15 Til að fá heilt hjarta verðum við að vera tilfinningalega undir það búin að víkja til hliðar fyrirfram ákveðnum skoðunum, fús til að láta Guð reynast sannorðan jafnvel þótt það kollvarpi einhverjum eftirlætishugmyndum eða hjartfólgnum trúarsetningum okkar. (Rómverjabréfið 3:4) Eigingjarnar hvatir þarf að hreinsa burt til að gera hjörtu okkar móttækileg fyrir vilja og vegum Jehóva. Jehóva skrifaði einu sinni lagaboð sín á stein en síðar skrifaði hann þau í hjörtu manna. Páll postuli skrifaði líka í hjörtun. Þú getur einnig ‚ritað kærleika og trúfesti á spjald hjarta þíns.‘ — Orðskviðirnir 3:3; Hebreabréfið 10:16; 2. Korintubréf 3:3.

16. Hvaða spurningar lýsa þeim skrefum sem við þurfum að stíga til að hafa heilt hjarta gagnvart Jehóva?

16 Er hjarta þitt hæft til þess að Jehóva skrifi þar á meginreglur sínar og boðorð? Vilt þú hreinsa það af hleypidómum til að ryðja rúm fyrir sannleika Guðs? Ætlar þú síðan að halda áfram að nema, endurnýja hugarfar þitt, afklæðast gamla persónuleikanum og íklæðast hinum nýja sem er skapaður eftir mynd Guðs? Vilt þú gera þitt ýtrasta til að vera verkamaður sem ekkert þarf að skammast sín fyrir, sem fer rétt með orð sannleikans? — Rómverjabréfið 12:2; Kólossubréfið 3:9, 10; 2. Tímóteusarbréf 2:15.

Að varðveita heilt hjarta

17. Til hvers hvatti Davíð Salómon son sinn og hvers vegna fylgdi Salómon því ekki á efri æviárum?

17 Davíð sagði Salómon: „Og þú, Salómon, sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að [Jehóva] rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar.“ Salómon þjónaði Guði í byrjun með heilu hjarta, en þegar árin liðu varðveitti hann ekki hjarta sitt heilt: „Er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart [Jehóva], Guði hans, eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið.“ — 1. Kroníkubók 28:9; 1. Konungabók 11:4.

18, 19. (a) Nefndu ýmsar leiðir sem Satan mun fara til að hindra þig í að varðveita heilt hjarta. (b) Hvernig breytir Satan um aðferð ef þessi ráð duga ekki?

18 Mun þér takast þar sem Salómon mistókst? Hefur þú vígt þig til að vera vottur um Jehóva, lagt af tvílyndi og hálfvelgju í guðsdýrkun þinni í samræmi við orð Jesú um að ‚elska Jehóva, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum‘? Ert þú núna staðráðinn í að halda hjarta þínu heilu og óskiptu í þjónustu Jehóva? (Matteus 22:37) Satan mun ekki líka það og hann er slunginn óvinur. Hjarta þitt verður skotmark hans. Hann þekkir tilhneigingu þess til syndar og getur lætt sér inn í það ef þú slakar á verðinum. Læddi hann því ekki inn í hjarta Júdasar Ískaríots að svíkja Jesú? (Jóhannes 13:2) Peningar, efnishyggja, skemmtanir, stolt, veraldlegur starfsframi, sýndarmennska, og langanir holdins — hann þekkir þína veiku bletti og beinir brennandi skeytum sínum að þeim. Munt þú slökkva þau öll með skildi trúarinnar? — Efesusbréfið 6:16; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

19 Þótt öll þessi ráð bregðist Satan gefst hann ekki upp. Hann breytir sér í öskrandi ljón sem reynir að gleypa trúfasta votta Jehóva með skrílsárásum, barsmíðum, fangavist og jafnvel dauða. En í gegnum allt þetta styrkir Jehóva þá sem hafa heilt hjarta gagnvart honum. — Jakobsbréfið 4:7; 1. Pétursbréf 5:8-10; Opinberunarbókin 2:10.

20, 21. (a) Hvaða spurninga mætti spyrja til að rannsaka hið bókstaflega hjarta? (b) Hvernig má spyrja svipaðra spurninga til að rannsaka hið táknræna hjarta?

20 Hið bókstaflega hjarta þarf eftirlit af og til. Fær það reglulega góða og næga næringu? Er sláttur þess stöðugur og sterkur eða slappur og veikburða? Heldur það uppi eðlilegum blóðþrýstingi? Fær það næga áreynslu? (Til að vera heilbrigt þarf hjartað að vinna af krafti um alllangan tíma í einu.) Breytir gangráðurinn hjartslættinum í samræmi við breyttar þarfir? Látum við það verða fyrir miklu álagi af tilfinningalegum orsökum?

21 Ef hið bókstaflega hjarta þarfnast eftirlits þarf hið táknræna hjarta þess ekki síður! Jehóva rannsakar það og það ættum við líka að gera. Fær það næga andlega fæðu með reglulegu einkanámi og samkomusókn? (Sálmur 1:1, 2; Orðskviðirnir 15:28; Hebreabréfið 10:24, 25) Koma hinar dýpstu tilfinningar þess okkur til að vera kostgæf í þjónustunni á akrinum — stundum jafnvel að leggja okkur kappsamlega fram í aðstoðarbrautryðjandastarfi? (Jeremía 20:9; Lúkas 13:24; 1. Korintubréf 9:16) Hvað um umhverfi þess? Er það umkringt öðrum hjörtum sem eru sameinuð og heil með sömu tilfinningar og hvatir? — 2. Konungabók 10:15, 16; Sálmur 86:11; Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33.

22. Hvað mun tryggja að okkur takist að þjóna Jehóva með heilu hjarta?

22 Ef þú getur svarað ofangreindum spurningum játandi, þá ert þú að vernda hið táknræna hjarta. Þér mun takast ásamt milljónum annarra trúfastra votta að standa við ásetning þinn um að þjóna Jehóva af heilu hjarta. Allir slíkir mega treysta eftirfarandi loforði: „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:7.

Manst þú?

◻ Nefndu hina mörgu eiginleika sem hið táknræna hjarta er sagt hafa.

◻ Hvernig getum við forðast að vera með hálfu eða tvískiptu hjarta?

◻ Hvers vegna rannsaka Jehóva og Kristur Jesús hjartað þegar þeir dæma?

◻ Hvernig getum við eignast og varðveitt heilt hjarta?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Hefur þú tvö andlit?

[Mynd á blaðsíðu 14]

Lýdía

Jósafat

Hanna

María