Þjónusta dýrðarinnar er fjársjóður okkar
Þjónusta dýrðarinnar er fjársjóður okkar
„Þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ — 2. KORINTUBRÉF 4:7.
1. (a) Hvaða fjársjóð getum við átt og hvers vegna? (b) Hvernig lýsir Biblían því er Móselögunum var miðlað?
LÍTA má á prédikun ‚þessa fagnaðarerindis um ríkið‘ á endalokatíma veraldar sem mjög verðmæta eign, fjársjóð. Með því að Jehóva er Guð dýrðarinnar er þjónusta við hann þjónusta dýrðarinnar og þar með fjársjóður. (Matteus 24:14; 2. Korintubréf 3:18-4:1) Í 2. Mósebók 34:29, 30 segir um Móselögin: „Er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við [Jehóva]. Og Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse, og sjá: Geislar stóðu af andlitshörundi hans. Þorðu þeir þá ekki að koma nærri honum.“
2. Um hvað var þjónusta Móselaganna fyrirmynd og hvers vegna er hin síðari þjónusta dýrlegri?
2 Vers 32-34 bæta við: „Eftir það gengu allir Ísraelsmenn til hans, og bauð hann þeim að halda allt það, sem [Jehóva] hafði við hann talað á Sínaífjalli. Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér. En er Móse gekk fram fyrir [Jehóva] til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur.“ Þjónustan við lagasáttmála Móse var fyrirmynd að þjónustu við nýja sáttmálann fyrir tilstilli meðalgangarans, Jesú Krists. Ef hin fyrri þjónusta var dýrleg, þá hlýtur „þjónusta andans“ að vera langtum dýrlegri! (2. Korintubréf 3:7-11) Hún er dýrlegri vegna þess að dýrð hennar varir og fylgjendur Jesú Krists eiga hlut í henni. — Rómverjabréfið 12:11.
3. (a) Hvað má segja um þjónustu votta Jehóva og hvers vegna líta margir ekki þannig á hana? (b) Hvað sannaði að Móse hefði verið í dýrlegri návist Jehóva?
3 Það er því ljóst að þjónusta votta Jehóva er dýrleg þjónusta. Margir eru þó blindaðir af falstrúarbrögðunum og sjá engan sérstakan ljóma í tengslum við þessa þjónustu. Þótt margir eigi Biblíuna og lesi hana eru þeir ‚blindir.‘ (2. Pétursbréf 1:5-9) Til að skýlan sé dregin frá augum þeirra verða þeir að snúa sér til Jehóva Guðs í trú, því að Móse tók skýluna, sem huldi andlit hans sjónum Gyðinga, frá er hann gekk fyrir Jehóva. (2. Korintubréf 3:16) Ísraelsmenn voru hræddir við að sjá dýrð Guðs ljóma af andliti meðalgangarans og báðu hann að hylja andlit sitt. Á sama hátt og fosfórljómandi efni ljómar í myrkri eftir að hafa verið í ljósi, eins endurspeglaði Móse, milligöngumaður þeirra, dýrð Jehóva sem sannaði að hann hafði verið frammi fyrir Jehóva.
4. Hvernig líkjast vantrúaðir nútímamenn Gyðingum til forna en hvað óttast fylgjendur hins meiri Móse ekki?
4 Móse var táknmynd hins mikla spámanns Guðs, Jesú Krists. Líkt og fyrirmyndin er þessi meiri Móse ekki hræddur við að horfast í augu við dýrð Jehóva. Allt til þessa dags halda þó vantrúaðir menn, sem djöfullinn og babýlonartrú hans hefur blindað, áfram að líkja eftir Gyðingum fortíðarinnar og neita að sjá eða bera skyn á dýrð hins meiri Móse, Jesú Krists. (2. Korintubréf 3:12-15) Sannir fylgjendur hans eru þó ósmeykir við að horfa á endurskin dýrðar Jehóva sem skín af ásjónu Jesú Krists. Þeir eru lausir undan áhrifum Babýlonar og hafa dirfsku til að endurspegla dýrð Guðs. „Þar eð vér nú höfum slíka von,“ sagði Páll, „þá komum vér fram með mikilli djörfung.“ — 2. Korintubréf 3:12.
Við endurspeglum dýrð Guðs
5. Hvernig getum við endurspeglað dýrð Guðs og líkst Móse er hann var í návist Jehóva uppi á fjallstindinum?
5 Jesús Kristur hefur tekið burt skýluna með því að opinbera okkur og boða Jehóva Guð. (Jóhannes 1:14, 17, 18) Við verðum því að skína og þannig ljómar dýrð Guðs „frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ Geisladýrðin er ‚þekkingin á dýrð Guðs eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.‘ Við verðum að endurspegla þessa dýrð með því að tala um dýrð Jehóva og ríkis hans í höndum sonar hans. (2. Korintubréf 4:4-6) Móse huldi ekki andlit sitt er hann stóð frammi fyrir Jehóva á fjallstindinum, og vottar Guðs á jörðinni draga ekki skýlu fyrir þannig að dýrð Jehóva nái ekki að skína á hjörtu þeirra. Þeir dást að þeirri dýrð sem endurspeglast af ásýnd sonar Jehóva og konungs, Jesú Krists. Þeir verða því að láta dýrðarljós Guðs skína til annarra.
6. Hvernig lýsir Páll þjónustu dýrðarinnar í 2. Korintubréfi 3:18 og á hvaða vegu „ummyndumst“ við?
6 Páll lýsir því með þessum orðum er hann ávarpar alla samvotta að dýrð Jehóva: „En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð [Jehóva], ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi [Jehóva].“ (2. Korintubréf 3:18) Því meira sem við fáum af þessu dýrðarljósi, þeim mun meira verðum við að endurspegla og þeim mun meira ummyndumst við. Þótt engin breyting verði á andliti eða líkama endurnýjast hugur okkar. Það er ljós hins dýrlega boðskapar sem veldur breytingu á okkur. Líf okkar breytist þannig að við líkjumst Kristi um leið og við innum af hendi þá þjónustu, sem jafnframt er sérréttindi, að útbreiða þetta dýrlega ljós til annarra. — Hebreabréfið 13:15.
7. Hvaðan er hin sanna dýrð komin og hvernig getum við látið hana birtast?
7 Slík breyting er tilkomin vegna anda eða starfskraftar Guðs. Klerkar kristna heimsins endurspegla ekki dýrð Jehóva Guðs og þurfa því að setja á svið sjónarspil til að sýnast vera eitthvað. Dýrðin, sem við geislum frá okkur, er ekki okkar eigin og við þurfum ekki að skrýðast dýrum, kirkjulegum viðhafnarbúningi úr silki, gulli og glitrandi steinum. Ósvikin dýrð stafar frá anda Guðs og birtist í því að við berum vitni um Jehóva andann.
Ljósberar í sérréttindastöðu
8, 9. Hvaða hvatningu gefur Páll okkur í 2. Korintubréfi 4:1, 2 og hver verður að vera ásetningur okkar?
8 Í 2. Korintubréfi 4:1, 2 lesum við: „Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast. Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.“ Guð hefur sýnt okkur þá miskunn að veita okkur þessa þjónustu. Þetta er hvatning til að halda hugrökk áfram og það munum við gera! Úr því að við höfum notið þeirrar velvildar að hljóta ljós frá orði Guðs er okkur skylt að endurspegla það til annarra. — Samanber Matteus 5:14-16.
9 Menn beita svikum og blekkingum til að breiða yfir það sem þeir skammast sín fyrir. En við þurfum ekki að skammast okkar fyrir neitt vegna þess að starf okkar og boðskapur er ekki sviksamlegur heldur réttlátur og sannur. Við getum því látið ljósið njóta sín í allri sinni dýrð. Við förum ekki sviksamlega með orð Guðs með því að nota það á eigingjarnan hátt til persónulegs ávinnings og upphefðar eða til að afla okkur áhrifa í heiminum og komast hjá ofsóknum hans. Þeir sem eru óhræddir að koma fram fyrir Jehóva með óhjúpuðu andliti og einblína á hið dýrlega ljós sannleikans munu ekki heldur vera hræddir við að horfast í augu við ábyrgð sína. Þeir munu endurkasta ljósinu sem á þá skín.
10. Hvers vegna er það ekki vottum Jehóva að kenna ef fagnaðarerindið um Guðsríki er hulið sjónum sumra?
10 Ef fagnaðarerindið um Guðsríki er hulið sjónum einhverra er það þeim sjálfum að kenna en ekki vottum Jehóva. Fagnaðarerindið um Guðsríki fer ekki leynt. Prédikunarstarf votta Jehóva um allan heim er velþekkt. Við getum því sagt eins og Páll postuli: ‚Þetta hefur ekki gerst í neinum afkima.‘ Fagnaðarerindið hefur verið ‚prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum,‘ eins og hann skrifaði. — Postulasagan 26:26; Kólossubréfið 1:23.
11. Hvers vegna er hið dýrlega fagnaðarerindi hulið svo mörgum?
11 Það eru andstæðingarnir, þeir sem eru blindaðir af djöflinum, sem ekki fá séð fagnaðarerindið um Guðsríki. (Samanber Matteus 12:30.) Ef þeir ekki slíta sig lausa frá falstrúarbrögðunum og úr snörum djöfulsins eiga þeir tortímingu yfir höfði sér. Undir áhrifum illra anda draga slíkir menn skýlu fyrir augu sér því að Páll postuli segir í 2. Korintubréfi 4:3-5: „En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast. Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið af fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs. Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.“
12. Hvernig bregðast þjónar Jehóva við orðunum í 2. Korintubréfi 4:6, ólíkt þeim sem eru blindaðir í huga sér?
12 Þeir sem eru blindir í hugsun sinni vilja ekki trúa. Vantrúin gerir huga þeirra hins vegar opinn fyrir árásum illra anda. (1. Tímóteusarbréf 4:1) Þeir geta ekki séð dýrð Jehóva eða endurskin hennar af ásjónu Jesú, hins meiri Móse. Þjónar Jehóva grípa hins vegar hið dýrlega ljós frá Biblíunni og endurkasta því til annarra. Allir þjónar Guðs eru því ljósberar og Guð fyrirskipar að ljósið skuli skína. Ljósið verður að endurspeglast frá þjónum Guðs og skína á þá sem eru í myrkri og eiga á hættu að farast. Þetta er undirstrikað í 2. Korintubréfi 4:6: „Því að Guð, sem sagði: ‚Ljós skal skína fram úr myrkri!‘ — hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“ Þess vegna hlýða vottar Jehóva boði Guðs og láta ljós sitt skína til annarra, Guði til dýrðar.
Dýrmætur fjársjóður í leirkerum
13. Hvað hefur það í för með sér að sköpunarverum af holdi og blóði skuli veitt sú þjónusta að vera ljósberar?
13 Til að varðveita þessi óviðjafnanlegu þjónustusérréttindi skiptir meginmáli að ljósberarnir reynist þess verðugir að hafa ljósið, með því að varðveita ráðvendni sína við Guð. Guð hefur ekki veitt hinum heilögu englum þessi mikilfenglegu þjónustusérréttindi, þótt þeir þrái að skyggnast inn í þetta, heldur hefur hann veitt mönnum af holdi og blóði þessa þjónustu. (1. Pétursbréf 1:12) Hann hefur gert það til að mikla kraft sinn gegnum mannlegan veikleika. Eins og 2. Korintubréf 4:7 segir: „En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“
14. (a) Hver er ‚fjársjóðurinn í leirkerum‘? (b) Hvers vegna eru Móse og Jesús Kristur okkur góð fordæmi um rétt viðhorf til fjársjóðs?
14 Leirker voru notuð áður fyrr til að geyma verðmæti. Hver er þessi dýrlegi fjársjóður sem vottar Jehóva geyma í brothættum leirkerum á jörð — í sjálfum sér, veikum sköpunarverum af dufti jarðar? Þessi fjársjóður er ekki aðeins ljósið sem hefur skinið í hjörtu þeirra. Það er þjónusta ljóssins sem þeir verða að inna af hendi í jarðneskum líkömum sínum. Þjónustan felst í því að geisla frá sér því ljósi sem Guð hefur látið skína á hjörtu þeirra. Þessi þjónusta er verðmætur fjársjóður því að hún er dýrmæt sérréttindi sem bæði smurðar leifar ‚litlu hjarðarinnar‘ og eins ‚mikill múgur‘ ‚annarra sauða‘ góða hirðisins, Jesú Krists, njóta. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:14-16; Opinberunarbókin 7:9) Móse og sá sem hann var fyrirmynd um, Jesús Kristur, eru okkur góð fordæmi í því að inna af hendi þessa þjónustu við Guð af öllu hjarta. Við verðum að gera það líka ‚því að þar sem fjársjóður okkar er, þar mun einnig hjarta okkar vera.‘ — Matteus 6:19-21; Hebreabréfið 11:26.
15, 16. (a) Hvernig sýnir það sig að ofurmagn kraftarins er frá Guði en ekki sjálfum okkur? (b) Hvers vegna mun öll andstaða heimsins ekki megna að brjóta leirker Guðs á jörð?
15 Hvernig kemur þá fram að ofurmagn kraftarins er frá Guði en ekki sjálfum okkur? Á þann hátt að sem brothætt leirker gætum við aldrei af sjálfum okkur verið þess verðugir að inna af hendi þessa háleitu þjónustu. Auk þess megum við, vottar Jehóva, þola alls konar álag og þrýsting óvina sem vonast til að yfirbuga okkur og gera okkur óhæfa til að inna af hendi það sem Guð hefur falið okkur. Það hlýtur því að vera máttur Guðs sem hjálpar okkur að standast hina miklu misþyrmingu heimsins og sýna okkur verðuga þess að halda áfram í þjónustu hans. Þess vegna fær öll mótspyrna heimsins ekki brotið leirker Guðs og rænt þau hinum dýrmæta fjársjóði, því að ritað er í 2. Korintubréfi 4:8-12:
16 „Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki. Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum. Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru. Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið [vegna prédikunar fagnaðarerindisins um Guðsríki] í yður.“
Mikill múgur metur ‚þennan fjársjóð‘ mikils
17. Hvernig metur múgurinn mikli „þennan fjársjóð“ sem er þjónusta dýrðarinnar?
17 „Dauðinn [er] að verki í oss, en lífið í yður.“ Þessi orð eiga við andasmurða kristna menn en þau geta líka komið okkur til að hugsa um sambandið milli smurðra leifa Guðs og múgsins mikla. Hinir smurðu vita að jarðnesku lífshlaupi þeirra lýkur með dauða eins og var hjá Jesú, en þeir eiga sér félaga til að taka þátt í hinum dýrlega fjársjóði þjónustunnar, til að hjálpa þeim að inna af hendi stærstan hluta prédikunar fagnaðarerindisins. Líkt og hinar smurðu leifar gerir múgurinn mikli sér ljóst að eini fjársjóðurinn, sem mun fylgja þeim óskaddaður gegnum stríðið við Harmagedón inn í nýjan heim, er þjónustan við Jehóva Guð og hinn dýrlega gerða konung hans, Jesú Krist. Múgurinn mikli mun standa kostgæfilega vörð um hann og „þjóna [Guði] dag og nótt í musteri hans.“ — Opinberunarbókin 7:15.
18. (a) Hvernig mun bráðlega fara fyrir falskri dýrð þessa heims? (b) Hvaða „dýrð“ afþakkaði Jesús og hvernig öðlaðist hann langtum meiri dýrð?
18 Innan skamms mun Guð binda enda á hina fölsku dýrð þessa núverandi illa heimskerfis — „dýrð“ sem hefur varað síðan Satan djöfullinn tók Jesú með sér upp á hátt fjall og sýndi honum öll ríki heims og „dýrð“ þeirra. (Lúkas 4:5, 6) Jesús neitaði að þiggja dýrð þaðan og hélt áfram þeirri lífsstefnu á jörð sem Guð hafði velþóknun á. Fyrir það átti hann að verða krýndur enn meiri dýrð en hann, ‚eingetinn sonur Guðs,‘ hafði haft á himnum áður en hann tók að sér það verkefni sem Jehóva fól honum á jörðinni. — Jóhannes 5:36; 17:5; Filippíbréfið 2:9-11.
19. Hvaða þjónustusérréttindi eru nú brátt á enda og hver er ásetningur okkar í því sambandi?
19 Þau endalok þessa djöfullega heimskerfis, sem spáð hefur verið, munu ekki koma fyrr en búið er að bera vitni um Guðsríki um alla jörðina. Það mun verða hápunkturinn í starfi lærisveina Jesú Krists. (Matteus 24:14) Nú hefur verið borið vitni um Guðsríki í þrjá aldarfjórðunga, og eins og þróun heimsmála sýnir hlýtur endirinn, sem spáð hefur verið, að vera nálægur. Því hlýtur sá mikli heiður og sérréttindi að vera boðberar heilagrar konungsstjórnar að vera nánast á enda. (Matteus 24. og 25. kafli; Markús 13. kafli; Lúkas 21. kafli) Þau sérréttindi okkar að taka þátt í að bera vitni um alla jörðina um hið stofnsetta ríki eru dýrmætur fjársjóður sem vottar Jehóva, fylgjendur hins krýnda sonar hans, Jesú Krists, meta mikils. Þeir þrá mjög heitt að varðveita þau uns búið er að bera vitni um Guðsríki og alvaldur Guð, Jehóva, ber sjálfur vitni um drottinvald sitt yfir alheimi. — Sefanía 3:8.
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna er þjónusta votta Jehóva dýrleg?
◻ Hvers vegna er fagnaðarerindið skýlu hjúpað fyrir svo mörgum?
◻ Hver er ‚þessi fjársjóður í leirkerum‘?
◻ Hvers vegna hefur Guð notað brothætt leirker til að inna þessa verðmætu þjónustu af hendi?
◻ Hvernig líta þjónar Jehóva á „þennan fjársjóð“ og hvers vegna?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 26]
Dýrð Guðs endurspeglast af ásýnd Jesú Krists, hins meiri Móse. Vottar Jehóva njóta þeirra sérréttinda að endurspegla hið dýrlega ljós Guðs frá Biblíunni til annarra.