Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fögnuður um allan heim

Fögnuður um allan heim

Fögnuður um allan heim

„SJÁ, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði!“ (Jesaja 65:14) Svo mælti Jehóva fyrir munn spámannsins Jesaja, og orð hans hafa uppfyllst með stórkostlegum hætti meðal votta Jehóva! Af hverju er þessi hjartans gleði sprottin? Af sameinaðri tilbeiðslu þeirra á Jehóva Guði. Hann er ‚hinn sæli Guð‘ og þeir sem tilbiðja hann „fagna yfir [Jehóva].“ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Bi. 1912; Sakaría 10:7) Þessi gleðiríka guðsdýrkun sameinar þá í eina þjóð sem prédikar saman fagnaðarerindið um Guðsríki og æpir fagnaðaróp til lofs Guði sínum sem endurómar um allan heim. — Opinberunarbókin 7:9, 10.

„Gleði sem enginn getur tekið frá manni“

Það að kunngera nafn Guðs og ríki er vottum Jehóva stöðugt gleðiefni. (Markús 13:10) Þeir taka til sín orð sálmaritarans: „Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita [Jehóva], gleðjist.“ — Sálmur 105:3.

Oft yfirstíga þeir ýmsar hindranir til að geta gert það. Á Spáni vígðist Isidro Jehóva og langaði til að tala um hann við aðra. En Isidro ekur flutningabíl, hefur takmarkaðan frítíma, ekur langar leiðir að næturlagi og sefur yfir daginn. Isidro langaði til að bera vitni fyrir öðrum flutningabifreiðastjórum en hvernig átti hann að fara að því?

Hann fékk sér farstöð í flutningabílinn til að hann gæti talað við aðra bílstjóra. Bráðlega fann hann rás sem var lítið notuð, rás 13, og ákvað að nota hana. Að sjálfsögðu fékk hann býsna neikvæð viðbrögð í fyrstu er hann stakk upp á því við aðra bílstjóra að þeir töluðu um Biblíuna í gegnum farstöðvarnar. Sumir hlustuðu þó. Þetta spurðist út og fleiri og fleiri spænskir flutningabílstjórar stilltu á rás 13. Nýverið komst Isidro að því að í það minnsta einn bílstjóri er að gera ráðstafanir til að nema Biblíuna frekar.

Á Ítalíu heyrði maður votta Jehóva getið í samtali sem hann átti í strætisvagni. Konan hans komst í samband við vottana fyrir milligöngu vinar. Bæði fóru að nema Biblíuna og voru áköf í því að segja öðrum frá því sem þau höfðu lært. Svo áköf voru þau að maðurinn afþakkaði stöðuhækkun í fyrirtækinu, þar sem hann vann, og konan sagði upp vellaunuðu starfi til að þau hjónin gætu varið meiri tíma til að segja öðrum frá fagnaðarerindinu um ríkið. Var það þess virði? Já. Maðurinn segir: „Síðan við kynntumst sannleikanum höfðum við hjónin orðið þeirrar gleði aðnjótandi að hjálpa 20 manns að komast til nákvæmrar þekkingar á tilgangi Guðs. Ég er að vísu þreyttur þegar kvölda tekur og ég sný heim eftir dag í þjónustunni, en ég er hamingjusamur og ég þakka Jehóva fyrir að hafa veitt mér þá gleði sem enginn getur tekið frá manni.“

„Allt til endimarka jarðarinnar“

Þeir sem tilheyra hinni glöðu þjóð Guðs sýna sömu kostgæfnina hvar sem þeir eru, „allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Fáir staðir eru fjær alfaraleið en norðurhluti Grænlands. En þar, um 320 kílómetra norður af heimskautsbaug, er lítill, 19 manna söfnuður í bænum Ilulissat. Söfnuðurinn prédikar sama fagnaðarerindið og hjónin á Ítalíu, og það var honum mikið fagnaðarefni að sjá 7 Grænlendinga skírast síðastliðið ár til tákns um vígslu sína til Jehóva.

Í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá Grænlandi, á hitabeltiseynni Máritíus á Indlandshafi, er Anjinee sem hefur orðið sömu gleði aðnjótandi. Í fyrstu átti hún við erfiðleika að glíma. Á Máritíus er það ekki talið við hæfi einhleyprar stúlku af indverskum og hindúískum uppruna að sækja kristnar samkomur og prédika opinberlega. Eigi að síður þraukaði Anjinee. Núna, níu árum eftir að hún tók að ganga hinn kristna veg, eru sumir af ættingjum hennar líka að nema Biblíuna.

Þegar minnst er á Anjinee er ekki úr vegi að nefna Emilio sem býr hinum megin á hnettinum, í Hondúras. Emilio heyrði að vinnufélagar hans voru að ræða um Biblíuna á vinnustað og bað um að fá að vera með. Hann var ólæs en hlustaði með mikilli ánægju þegar lesnar voru ritningargreinar úr Biblíunni. Er sannleikur kristninnar gagntók hjarta Emilios hætti hann siðlausu líferni sínu og óhóflegri drykkju. Vottar Jehóva kenndu honum að lesa og skrifa og nú er hann þjónn orðsins og tilheyrir glaðri þjóð Guðs.

Þúsundum kílómetra norðvestur af Hondúras er eskimóamóðir í Alaska sem kynntist hinum sama kristna sannleika. Hún bjó í mjög afskekktu þorpi og eina sambandið, sem hún hafði við votta Jehóva, var bréfasamband. Hún nam því Biblíuna bréflega og bar fram spurningar sínar bréflega, og núna segir hún nágrönnum sínum kostgæfilega frá því sem hún veit. Hægt væri að telja upp slík dæmi nánast óendanlega. Um allan hnöttinn eru auðmjúkir menn að kynnast Jehóva og ‚þjóna Jehóva með gleði.‘ — Sálmur 100:2.

„Berið elsku hver til annars“

Eitt af því sem hefur aðdráttarafl fyrir allt þetta fólk er kærleikurinn sem ríkir meðal hinnar glöðu þjóðar Guðs. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Kristinn kærleikur birtist dags daglega í lífi þessara sannkristnu manna, ekki síst þegar hörmungar dynja yfir.

Alvarlegir þurrkar herjuðu á Afríkuland þar sem starf votta Jehóva er því miður bannað. Tíu þúsund manns létust og heilu nautgripahjarðirnar drápust. Hvernig björguðust vottarnir? Með því að borða rætur og soðna avókadósteina! Stórlega dró úr neyð þeirra þegar vottar í öðrum löndum fengu óvænt, með Guðs hjálp, leyfi til að senda þeim 25 tonn af hjálpargögnum. Þrátt fyrir bannið var hjálpargögnunum komið til skila undir hervernd til að tryggja að þau kæmust örugglega í réttar hendur!

Þessir vottar í Afríku réðu sér varla af gleði yfir því að fá þannig sönnun fyrir kærleika bræðra sinna og reyna uppfyllingu orða Jesaja: „Sjá, hönd [Jehóva] er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki.“ — Jesaja 59:1.

Friðsamt fólk

Hin glaða þjóð Guðs dregur einnig til sín auðmjúka menn vegna þess að þeir sem mynda hana hafa snúið baki við hernaðarhyggju heimsins og ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum.‘ (Jesaja 2:4) Maður í El Salvador var með húsið sitt fullt af minjagripum um herþjónustuna sem hann hafði gegnt. Þegar hann fór að nema Biblíuna með vottum Jehóva snerust áhugamál hans til friðsamlegri vegar. Loks losaði hann sig við allt sem tengt var stríði og gerðist kostgæfur prédikari.

Þegar sveitir andsnúnar stjórnvöldum lögðu þorpið hans undir sig var hann tekinn til fanga — trúlega hafði einhver vakið athygli á að hann hefði verið í hernum. Hann útskýrði fyrir þeim að hann væri ekki lengur hermaður heldur einn af vottum Jehóva. Uppreisnarmenn sökuðu hann þá um að fela vopn í húsi sínu, en engin fundust þótt leitað væri. Forsprakki uppreisnarmannanna spurðist þá fyrir um hann hjá nágrönnunum. Dæmigerð svör voru á þessa leið: „Hann gengur bara fram og aftur um göturnar og prédikar Biblíuna á hverjum degi.“ Manninum var sleppt. Kostgæfni hans bjargaði vafalaust lífi hans.

Í fregnum frá Afríkulandi segir frá tveim hermönnum sem numu Biblíuna með vottum Jehóva. Annar var í stjórnarhernum, hinn barðist með uppreisnarmönnum. Loks ákváðu þeir báðir að „smíða plógjárn úr sverðum sínum“ og sögðu sig úr herþjónustunni. Þegar þeir byrjuðu að sækja kristnar samkomur spurði uppreisnarhermaðurinn hinn: „Hvað ert þú að gera hér?“ Hinn svaraði: „Og þú, hvað vilt þú hingað?“ Frásögunni lýkur þannig: „Þá féllust þeir í faðma og tárfelldu af gleði vegna þess að nú gátu þeir átt frið hvor við annan.“ Báðir þessir fyrrverandi hermenn báðu vafalaust til Guðs: „Frelsa mig frá blóðsúthellingu, [Jehóva], Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.“ — Sálmur 51:16, Bi. 1912.

„Þú hefir litið á eymd mína“

„Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni.“ (Sálmur 31:8) Þannig bað sálmaritarinn og nú á dögum gleðjast margir yfir því hvernig orð Guðs hjálpar þeim að takast á við erfiðleika sína. Í Frakklandi hefur einn af vottum Jehóva nám með konu sem er haldin geðklofa. Konan hafði verið í meðferð hjá sálfræðingi um tíma án árangurs. Vikuna eftir að hún byrjaði að nema spurði sálfræðingurinn: „Skilur þú í raun og veru það sem þessi kona er að útskýra fyrir þér frá Biblíunni?“ Til að svara því mætti votturinn á skrifstofu læknisins í vikunni á eftir og nam Biblíuna með konunni í hans návist.

Eftir námið sagði sálfræðingurinn við vottinn: „Á liðnum árum hef ég tamið mér að sýna trú sjúklinga minna áhuga, en ég hef veitt því athygli að þeim býðst raunverulega enginn stuðningur í nokkru trúarsamfélagi. Ég sé að það er ólíkt með ykkur. Frú P— kemur í viðtal tvisvar í viku og borgar mér fyrir, en með biblíukennslu þinni og góðum ráðum vinnur þú betra starf ókeypis. Hún tekur góðum framförum. Haltu þessu áfram og ég lofa þér fullum stuðningi mínum ef þú þarfnast hans einhvern tíma.“

Biblían segir: „Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, [Jehóva]. Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga.“ (Sálmur 89:16, 17) Hver einasti vottur Jehóva veit að þessi sálmur fer með satt mál. Af munni þeirra kemur gleðióp til lofs nafni Jehóva. Æ fleiri streyma út úr þjóðunum til að lofa Guð ásamt þeim. Hví ekki að ganga í lið með þeim og kynnast sjálfur þessari gleði?

[Mynd á blaðsíðu 7]

Vottar Jehóva í Austur-Evrópu fagna núna í hinu nýfengna frelsi sínu til að fá „Varðturninn“ í hendur og nema hann á eigin tungumáli.