Hin glaða þjóð
Hin glaða þjóð
HIN glaða þjóð! Er hægt að nota þessa lýsingu um nokkra af þjóðum heims nú á dögum? Getur nokkur þjóð staðhæft með gleðibrag að hún hafi upprætt ofbeldi, glæpi, fátækt, mengun, sjúkdóma, stjórnmálaspillingu og hatur af trúarlegum toga? Heldur einhver þjóð því fram með gildum rökum að hún vonist til að ná slíkum markmiðum? Fjarri fer því!
Hvaða mynd blasir við á alþjóðavettvangi? Míkhaíl Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, sagði þann 16. júlí síðastliðinn: „Nú er að ljúka vissu tímabili í alþjóðasamskiptum og nýtt að hefjast sem ég held að muni einkennast af traustum, langvarandi friði.“ En tímaritið Time, sem kom út sama dag, skýrði frá því að Bandaríkin miðuðu enn á Moskvu eldflaugum með 120 kjarnorkusprengjum sem hver myndi nægja, ein sér, til að leggja borgina í rúst. Og lítill vafi leikur á að Sovétmenn eru reiðubúnir að gjalda í sömu mynt. Úr því að allmörg af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna ráða yfir þekkingu til að framleiða kjarnorkuvopn er lítil gleði því samfara að íhuga hvaða þjóð kunni að verða fyrst til að ýta á hnappinn.
Þjóð sem er glöð í raun
Einu sinni í sögu mannkyns — fyrir hér um bil 3500 árum — var til þjóð sem var í sannleika glöð. Það var Forn-Ísrael. Er Guð frelsaði þjóðina úr fjötrum Egypta sameinaðist hún Móse í fagnaðar- og sigursöng og gladdist áfram svo lengi sem hún hlýddi Guði sínum og frelsara. — 2. Mósebók 15:1-21; 5. Mósebók 28:1, 2, 15, 47.
Undir stjórn Salómons voru „Júda og Ísrael . . . fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir.“ Það voru tímar mikillar gleði er náði hámarki þegar reist var bygging sem sennilega er sú mikilfenglegasta sem reist hefur verið, musterið í Jerúsalem sem helgað var tilbeiðslunni á Jehóva. — 1. Konungabók 4:20; 6:11-14.
Hin glaða þjóð nútímans
Ísrael til forna var fyrirmynd þjóðar nú á tímum. Hverrar? Ísraelsríkis í Miðausturlöndum? Orðskviðirnir 28:15; 29:2.
Fréttir fjölmiðla gefa til kynna að sú þjóð sé allt annað en glöð, enda einkennist tilvera hennar af ólgu og átökum. Hafa hinar svonefndu Sameinuðu þjóðir veitt aðildarríkjum sínum ósvikna gleði? Nei, sanna gleði er hvergi að finna meðal hinna pólitísku þjóða okkar tíma. Ágirnd, spilling og óheiðarleiki er í algleymingi og víða um lönd þarf almenningur að basla óhamingjusamur til þess eins að draga fram lífið. —Þó er til nú á dögum ein, athyglisverð þjóð sem er full gleði og fagnaðar. Hún starfar ekki eftir lögmálum stjórnmálanna því að höfuð hennar, Kristur Jesús, sagði við þjóna sína: „Þér eruð ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19) En þótt Sameinuðu þjóðirnar séu sameinaðar aðeins að nafninu til dregur þessi nýja þjóð fylgismenn sína „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 7:4, 9) Hún telur nú nálega fjórar milljónir og er því fjölmennari en um 60 af hinum 159 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Þjóðtungur þessara fjögurra milljóna manna eru um 200 talsins, en þó eru þeir allir sameinaðir í því að tala eitt „hreint tungumál.“ — Sefanía 3:9, NW.
Er það ekki undarlegt að svona margir einstaklingar af ólíkum menningaruppruna skuli tala eitt, sameiginlegt tungumál? Í rauninni ekki, því að þetta eina tungumál, sem sameinar, felur í sér boðskapinn um komandi réttlætisríki Guðs. Þessi glaða þjóð kemur „frá endimörkum jarðarinnar“ og er þekkt um víða veröld sem ‚vottar Jehóva.‘ (Jesaja 43:5-7, 10; Sakaría 8:23) Þú getur fundið þá nánast hvarvetna á byggðu bóli.
Í Jesajabók 2:2-4 lýsir spámaður Guðs miklum manngrúa sem streymir út úr öllum þjóðum og segir: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ Með kostgæfni bjóða þeir öðrum að þiggja fræðslu frá Jehóva fyrir milligöngu orðs hans, Biblíunnar, til að þeir geti lært að gera vilja hans. Þessi eina þjóð fylgir sönnum friðarvegi því að meðlimir hennar hafa nú þegar ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum og temja sér ekki hernað framar.‘ Þetta er svo sannarlega glöð þjóð!
Þú getur líka öðlast hlutdeild í þessari gleði. Þú getur fræðst um þann dag, sem nálgast óðfluga, er konungurinn, Kristur Jesús, ryður úr vegi ranglátum mönnum og ríkisstjórnum og endurreisir paradís á jörð. (Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10) Nú þegar njóta vottar Jehóva sem sameinuð þjóð mikillar gleði af því starfi sínu að búa sig undir hið dýrlega friðartímabil, eins og fram kemur á næstu blaðsíðum.