Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva þjónað með gleði

Jehóva þjónað með gleði

Jehóva þjónað með gleði

„Þjónið [Jehóva] með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng.“ — SÁLMUR 100:2.

1, 2. (a) Hvernig komu kynþáttafordómar skýrt fram í sviðsljósið í Berlín en hvernig lauk krossferðinni fyrir „þúsundáraríkinu“? (b) Hvað var ólíkt á Olympíuleikvanginum í júlí 1990 og árið 1936, og í hverju á gleði hins alþjóðlega hóps, sem kom saman þar, sér akkeri?

 VIÐ erum stödd á Olympíuleikvanginum í Berlín. Fyrir 54 árum hafði þessi ágæti íþróttaleikvangur orðið tilefni harðra deilna þegar einræðisherra nasista, Adolf Hitler, er sagður hafa lítilsvirt þeldökkan spretthlaupara er unnið hafði til fernra gullverðlauna. Fullyrðing Hitlers um „yfirburði Aría“ beið mikinn hnekki við það. * En núna, þann 26. júlí 1990, eru samankomnir svartir, hvítir og gulir — sameinaður hópur frá 64 þjóðlöndum — á þessum leikvangi til að halda umdæmismót votta Jehóva, „Hið hreina tungumál.“ Það ríkir mikil gleði síðdegis þennan fimmtudag! Að lokinni ræðu um skírn hrópa 1018 skírnþegar „Ja!“ og svo aftur „Ja!“ því til staðfestingar að þeir hafi vígt sig Jehóva Guði til að gera vilja hans.

2 Það tekur þessa nýju votta 19 mínútur að ganga í röð út af leikvanginum á leið sinni til skírnarlaugarinnar. Allan tímann dynur stöðugt lófatak út um leikvanginn. Sigurvegurum á Olympíuleikjum hafði aldrei verið fagnað með slíku lófataki sem nú býður velkomin þessi hundruð nýrra votta af mörgum þjóðum er láta í ljós trú sem sigrar heiminn. (1. Jóhannesarbréf 5:3, 4) Gleði þeirra á sér örugga stoð í því trúartrausti að Guðsríki í höndum Jesú Krists muni í raun og veru færa mannkyninu þúsund ára blessun. — Hebreabréfið 6:17, 18; Opinberunarbókin 20:6; 21:4, 5.

3. Hvaða sannleika undirstrikaði trúartraust mótsgesta og hvernig?

3 Þarna örlar ekki fyrir kynþáttahatri eða þjóðrembu því að allir tala hið hreina tungumál orðs Guðs og undirstrika þannig raunveruleikann í orðum Péturs: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35; Sefanía 3:9.

4. Undir hvaða kringumstæðum tók þorri mótsgesta trú og hvernig hefur bænum þeirra verið svarað?

4 Stór hluti þessara mótsgesta í Berlín snerust til trúar á árum kúgunar, meðal annars á valdatíma nasista (1933-45) og valdatíma sósíalista sem sigldi í kjölfarið í Austur-Þýskalandi. Þar hafði banninu á starfi votta Jehóva nýlega verið aflétt þann 14. mars 1990. Margir þeirra höfðu þess vegna ‚tekið á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu.‘ (1. Þessaloníkubréf 1:6) Þeir njóta nú meira frelsis til að þjóna Jehóva og gleði þeirra er takmarkalaus. — Samanber Jesaja 51:11.

Tilefni til gleði

5. Hvernig héldu Ísraelsmenn upp á frelsunina við Rauðahafið?

5 Frelsi handa bræðrum okkar í Austur-Evrópu, og nú víða í Afríku og Asíu, minnir okkur á frelsun sem Jehóva kom til leiðar oftar en einu sinni fyrr á tímum. Við munum eftir máttarverki Jehóva við Rauðahafið og því hvernig þakkarsöngur Ísraelsmanna náði hámarki í orðunum: „Hver er sem þú, [Jehóva], meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir?“ (2. Mósebók 15:11) Höldum við ekki áfram að gleðjast og fagna yfir þeim undursamlegu máttarverkum sem Jehóva er að vinna fyrir þjóna sína nú á dögum? Svo sannarlega!

6. Hvað getum við lært af því er Ísraelsmenn ráku upp gleðióp árið 537 f.o.t.?

6 Gleðin var yfirfljótandi árið 537 f.o.t. þegar Ísraelsmenn komust aftur heim í land sitt eftir útlegðina í Babýlon. Þjóð Jehóva gat nú lýst yfir eins og Jesaja hafði spáð: „Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að [Jah Jehóva] er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði.“ Hvílíkur fögnuður og gleði! Og hvernig myndi þjóðin láta þessa gleði sína í ljós? Jesaja heldur áfram: „Á þeim degi munuð þér segja: ‚Lofið [Jehóva], ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið [Jehóva], því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.‘“ Þeir gátu núna rekið upp „fagnaðaróp“ er þeir kunngerðu máttarverk hans „um alla jörðina,“ á sama hátt og frelsaðir þjónar Jehóva gera nú á dögum. — Jesaja 12:1-6.

Gleði í starfi Jehóva

7. Hvaða frelsun vakti fögnuð árið 1919?

7 Á okkar dögum tóku þjónar Jehóva að hrópa af gleði er hann veitti þeim stórkostlegt frelsi árið 1919. Þann 26. mars það ár var meðlimum hins stjórnandi ráðs sleppt úr fangelsi í Bandaríkjunum þar sem þeir höfðu setið í níu mánuði fyrir álognar sakir um undirróður. Það urðu mikil fagnaðarlæti er þeir voru boðnir velkomnir heim í Betel í Brooklyn. Enn fremur gátu allir af hinum smurðu leifum nú fagnað yfir því að vera leystir úr andlegum fjötrum í Babýlon hinni miklu, trúkerfinu sem Satan hefur njörvað allan heiminn niður í. — Opinberunarbókin 17:3-6; 18:2-5.

8. Hvaða óvænt tilkynning var gerð á mótinu í Cedar Point árið 1919 og hvernig var hvatt til athafna?

8 Hinir sögufrægu atburðir árið 1919 náðu hámarki í móti þjóna Guðs í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum þann 1.-8. september. Á fimmta degi þess móts, sem nefndur var „dagur samverkamanna,“ flutti forseti Varðturnsfélagsins, J. F. Rutherford, hrífandi ræðu að viðstöddum 6000 áheyrendum og nefndist hún „Kunngerið ríkið.“ Eftir að hafa rætt um Opinberunarbókina 15:2 og Jesaja 52:7 sagði hann áheyrendum að nýtt tímarit, Gullöldin (núna Vaknið!), myndi verða gefið út á tveggja vikna fresti, einkum ætlað til dreifingar á akrinum. Í lokaorðum sínum sagði hann: „Þeir sem eru algerlega vígðir Drottni; þeir sem eru óttalausir, sem eru hjartahreinir, sem elska Guð og Drottin Jesú af öllum huga, mætti, sálu og lífi munu, eins og aðstæður leyfa, fagna því að taka þátt í þessu starfi. Biðjið Drottin um leiðsögn hans og handleiðslu til að hann megi gera ykkur að sönnum, trúum og skilvirkum sendiherrum. Haldið síðan af stað til að þjóna honum með gleðisöng í hjörtum ykkar.“

9, 10. Hvernig hefur Jehóva látið útgáfu tímaritanna Varðturnsins og Vaknið! dafna?

9 Þessi „gleðisöngur“ hefur heyrst um alla jörðina! Margir af lesendum okkar hafa vafalaust átt sinn þátt í að auka útbreiðslu tímaritsins Vaknið! upp í 12.980.000 eintök af hverju tölublaði á 64 tungumálum. Vaknið! er öflugt verkfæri til þess að leiða áhugasamt fólk til sannleikans, og er í því efni förunautur Varðturnsins. Í einu Austurlanda kom það brautryðjandasystur á óvart að í hvert sinn sem hún kom með nýjustu blöðin lét húsráðandi hana fá jafnvirði um 380 króna til stuðnings starfi votta Jehóva um víða veröld. Húsráðandi sýndi þannig að hann kynni að meta starf Guðsríkis!

10 Tímaritið Varðturninn er nú að hefja 112. útgáfuár sitt. Upplag þess nemur 15.290.000 eintökum á 111 tungumálum. Þar af birtist sama efni samtímis á 59 tungumálum. Sem trúr ráðsmaður halda hinar smurðu leifar áfram að gefa þakklátum lesendum „skammtinn [af andlegu efni] á réttum tíma.“ (Lúkas 12:42) Árið 1990 söfnuðu vottar Jehóva 2.968.309 nýjum áskriftum að tímaritunum tveim, en það er 22,7 prósent aukning miðað við árið á undan.

Gleðin ríkir

11. (a) Hvaða kall var látið ganga út til þjóna Guðs í Cedar Point árið 1922? (b) Hvernig hefur fagnaðarópið magnast?

11 Gleðin var líka mikil er þjónar Guðs, sem voru þá um 10.000 talsins, komu saman í Cedar Point í september 1922 og 361 lét skírast. Ræða bróður Rutherfords, „Himnaríkið er í nánd,“ sem byggð var á Matteusi 24:17, náði hámarki er hann sagði: „Heimurinn verður að vita að Jehóva er Guð og að Jesús Kristur er konungur konunga og Drottinn drottna. Þetta er dagur daganna. Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð auglýsingafulltrúar hans. Þess vegna kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans.“ Þeim sem ráku upp gleðiópið, er heyrðist á þessu móti, hefur fjölgað upp í ríflega 6.600.000 sem saman komu á 1210 mótum votta Jehóva um allan heim árið 1989, þar sem 123.688 létu skírast.

12. (a) Hvaða ómetanlegri gleði eiga þjónar Guðs hlut í núna? (b) Hvernig gætum við jafnvægis milli þjónustu okkar við Jehóva og hlýðni við ‚yfirvöldin‘?

12 Vottum Jehóva er frelsið dýrmætt. Framar öðru gleðjast þeir yfir nútímauppfyllingu orða Jesú: „Og [þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Hvílík gleði að vera laus úr fjötrum dulúðar og hjátrúar falstrúarbragðanna! Hvílík ómetanleg gleði að þekkja Jehóva og son hans og verða samverkamenn þeirra og eiga eilíft líf í vændum! (Jóhannes 8:32; 17:3; 1. Korintubréf 3:9-11) Þjónar Guðs meta það líka mikils er ‚yfirvöld‘ þessa heims, sem þeir búa undir, virða frelsi þeirra til að boða hina dýrlegu von um ríki Jehóva í höndum Krists. Þeir ‚gjalda keisaranum fúslega það sem keisarans er‘ en samtímis „Guði það sem Guðs er.“ — Rómverjabréfið 13:1-7; Lúkas 20:25.

13. Hvernig hafa vottar Jehóva látið í ljós gleði sína yfir því að vera lausir úr ánauð?

13 Ef mennsk yfirvöld reyna hins vegar að tálma þeim að rækja þessa skyldu gagnvart Guði, þá svara vottar Jehóva eins og postularnir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ Eftir að yfirvöldin höfðu sleppt postulunum héldu þeir leiðar sinnar, „glaðir.“ Hvernig birtist gleði þeirra? „Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ (Postulasagan 5:27-32, 41-42) Eins gleðjast nútímavottar Jehóva er þeir öðlast aukið frelsi til að rækja þjónustu sína. Víða um lönd, þar sem Jehóva hefur opnað leiðina, birtist áköf gleði þeirra í því að þeir bera rækilega vitni um nafn Jehóva og hið komandi ríki í höndum Krists Jesú. — Samanber Postulasöguna 20:20, 21, 24; 23:11; 28:16, 23.

Haldið út með gleði

14. Hvernig fer þessi gleði, sem er ávöxtur andans, fram úr skilgreiningu orðabókar á hugtakinu?

14 Hver er þessi mikla gleði sem sannkristnir menn finna fyrir? Hún er langtum dýpri og varanlegri en stundargleði sigurvegara á Olympíuleikjum. Hún er ávöxtur heilags anda Guðs sem Guð gefur þeim „er honum hlýða.“ (Postulasagan 5:32) Orðabók Menningarsjóðs skilgreinir gleði sem ‚ánægju, gott skap.‘ Gleði kristins manns er enn djúptækari en það. Hún á sér akkeri í trú okkar og er öflugur styrkgjafi. „Gleði [Jehóva] er hlífiskjöldur yðar.“ (Nehemía 8:10) Gleði Jehóva, sem þjónar Guðs rækta, tekur langt fram þeim yfirborðslega spenningi sem fólk hefur út úr holdlegum, veraldlegum nautnum. — Galatabréfið 5:19-23.

15. (a) Hvernig hefur trúföstum kristnum mönnum reynst þolgæðið vera samfara gleði? (b) Nefndu nokkra ritningarstaði sem styrkja og hvetja til þess að viðhalda gleðinni.

15 Lítum á bræður okkar í Úkraínu sem dæmi. Þeir máttu þola mikið harðræði þegar ‚yfirvöld‘ sendu þá þúsundum saman í útlegð til Síberíu snemma á sjötta áratugnum. Síðar, þegar yfirvöld gáfu þeim upp sakir, voru þeir þakklátir en þó sneru ekki allir heim á ný. Hvers vegna? Vegna þess að erfiði þeirra í austurhéruðunum hafði minnt þá á Jakobsbréfið 1:2-4: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði.“ Þeir vildu sýna úthald og þolgæði í þessari gleðilegu uppskeru, og það hefur líka verið einkar gleðilegt nýverið að bjóða velkomna á mót votta Jehóva í Póllandi votta komna alla leið úr strandhéruðum Kyrrahafsins langt í austri. Þolgæði og gleði hafa haldist í hendur til að skapa þennan ávöxt. Við öll, sem höldum glöð út í þjónustu Jehóva, getum sagt: „Þá skal ég þó gleðjast í [Jehóva], fagna yfir Guði hjálpræðis míns. [Jehóva] Guð er styrkur minn!“ — Habakkuk 3:18, 19; Matteus 5:11, 12.

16. Hvernig ætti hið góða fordæmi Jeremía og Jobs að hvetja okkur í starfinu á akrinum?

16 En hvernig getum við varðveitt gleði okkar þegar við berum vitni meðal harðsvíraða andstæðinga? Munum að spámenn Guðs héldu gleði sinni við áþekkar aðstæður. Jeremía sagði þegar að honum var þrengt: „Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, [Jehóva], Guð allsherjar.“ (Jeremía 15:16) Hvílík sérréttindi að vera nefndur eftir nafni Jehóva og bera vitni um það! Kostgæft einkanám okkar og full þátttaka í kristnum samkomum byggir okkur upp til að halda áfram að gleðjast í sannleikanum. Gleðin endurspeglast í fasi okkar úti á akrinum og guðsríkisbrosi. Jafnvel í erfiðustu prófraunum gat Job sagt um andstæðinga sína: „Ég brosti til þeirra, þegar þeim féllst hugur, og ljós auglitis míns gjörðu þeir aldrei dapurt.“ (Jobsbók 29:24) Við þurfum ekki, frekar en Job, að verða hnuggnir þegar andstæðingar skopast að okkur. Höldum áfram að brosa! Andlitssvipur okkar getur endurspeglað gleði okkar og opnað eyru manna fyrir boðskapnum.

17. Hvernig getur þolgæði samfara gleði borið ávöxt?

17 Þegar við störfum gegnum svæði okkar aftur og aftur getur þolgæði okkar og gleði snortið réttsinnað fólk og hvatt það til að kynna sér hina dýrlegu von sem við berum í brjósti. Hvílík gleði að nema Biblíuna með því á reglulegum grundvelli! Og þegar það tekur við hinum dýrmætu sannindum orðs Guðs í hjörtum sér gleður það okkur mikið er þessir einstaklingar verða loks félagar okkar í þjónustu Jehóva! Þá getum við sagt eins og Páll postuli sagði nýjum einstaklingum sem tekið höfðu trú í hans tíð: „Hver er von vor eða gleði vor eða sigursveigurinn, sem vér hrósum oss af? Eruð það ekki einmitt þér, frammi fyrir Drottni vorum Jesú við komu hans? Jú, þér eruð vegsemd vor og gleði.“ (1. Þessaloníkubréf 2:19, 20) Það er mikil fullnægja í gleðinni sem fylgir því að leiða nýja til sannleikans í orði Guðs og hjálpa þeim að verða vígðir, skírðir vottar.

Gleðin sem ber okkur uppi

18. Hvað hjálpar okkur að halda út í hinum ýmsu prófraunum nútímans?

18 Margvíslegar aðstæður í hinu daglega lífi geta kallað á þolgæði. Má þar nefna meðal annars líkamleg veikindi, þunglyndi og fjárhagserfiðleika. Hvernig getur kristinn maður viðhaldið gleði sinni í því skyni að ráða fram úr slíkum örðugleikum? Það getur hann með því að leita hughreystingar og leiðsagnar í orði Guðs. Það að lesa sálmana eða heyra þá lesna getur verið mikil hressing á erfiðleikatímum. Og taktu eftir ráðleggingum Davíðs: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ (Sálmur 55:23) Jehóva er sannarlega hann „sem heyrir bænir.“ — Sálmur 65:3.

19. Hvaða trúartraust getum við haft líkt og Davíð og Páll?

19 Með ritum sínum og safnaðaröldungum er skipulag Jehóva alltaf reiðubúið að hjálpa okkur, veikburða mönnum, að glíma við vandamál okkar. Davíð hvetur hlýlega: „Fel [Jehóva] vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.“ Hann gat líka sagt: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.“ Í félagi við kristna söfnuðinn gerum við okkur grein fyrir að „hjálp réttlátra kemur frá [Jehóva], hann er hæli þeirra á neyðartímum.“ (Sálmur 37:5, 25, 39) Við skulum alltaf hlýða ráði Páls: „Fyrir því látum vér ekki hugfallast . . . Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.“ — 2. Korintubréf 4:16-18.

20. Hvað sjáum við með augum trúarinnar og hvernig áhrif hefur það á okkur?

20 Með augum trúarinnar getum við séð hið nýja heimskerfi Jehóva rétt framundan. Þar mun mönnum hlotnast óviðjafnanleg gleði og blessun! (Sálmur 37:34; 72:1, 7; 145:16) Er við búum okkur undir þá dýrðardaga skulum við fylgja orðunum í Sálmi 100:2: „Þjónið [Jehóva] með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!“

[Neðanmáls]

^ The New York Times hafði þann 17. febrúar 1940 eftir kaþólskum stjórnarmanni við Georgetown University að „hann hefði heyrt Hitler segja að endurreisa þyrfti heilaga rómverska keisaradæmið sem var germanskt heimsveldi.“ Sagnfræðingurinn William L. Shirer lýsir árangrinum hins vegar svo: „Hitler stærði sig af því að þriðja ríkið, sem fæddist þann 30. janúar 1933, myndi standa í þúsund ár og á máli nasista var oft talað um það sem ‚þúsundáraríkið.‘ Það entist í tólf ár og fjóra mánuði.“

Til upprifjunar

◻ Hvaða gleðilegan sigur á kynþáttafordómum sjáum við nú á dögum?

◻ Hvað fékk þjóna Guðs forðum daga til að syngja og hrópa af gleði?

◻ Hvernig hefur sönn gleði vaxið nú á tímum?

◻ Hvernig haldast þolgæði og gleði í hendur?

◻ Hvernig getum við viðhaldið gleði okkar?

[Spurningar]