Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
◼ Ætti kristinn maður að forðast kaffi og te vegna ávanaefnisins koffeíns sem þau innihalda?
Biblían getur hvergi um kaffi eða te. Hins vegar getur það sem hún segir hjálpað kristnum manni að komast að niðurstöðu um hvort hann eigi að drekka kaffi eða te.
Koffeín er örvandi efni sem getur haft áhrif á huga og líkama. Milljónir bolla af kaffi og tei eru drukknir daglega, og því sagði dr. Melvin Konner: „Vera má að [koffeín] sé mest notaða þreklyfið í heimi.“ Það getur verið hressandi, aukið adrenalín í blóði og örvað blóðrás og efnaskipti líkamans. En þótt koffeín sé lyf útilokar það ekki sjálfkrafa að kristinn maður geti lagt sér til munns drykki sem innihalda það (kaffi, te, kóladrykki) eða sælgæti (svo sem súkkulaði).
Vínandi er líka lyf sem getur haft áhrif á huga og líkama, en hvað segir Ritningin um það? Biblían viðurkennir að vín (eða aðrir áfengir drykkir) geti ‚glatt hjarta mannsins‘ eða létt lund örþrota eða sorgbitins manns. (Sálmur 104:15; Orðskviðirnir 31:6, 7) Orð Guðs gefur þó ekki í skyn að sannir guðsdýrkendur verði að forðast alla drykki sem innihalda áfengi. Það sem Biblían fordæmir er óhófleg notkun áfengis — ofdrykkja. — 5. Mósebók 21:18-21; Orðskviðirnir 20:1; Hósea 4:11; 1. Korintubréf 5:11-13; 1. Pétursbréf 4:3.
Hvað má þá segja um þá staðhæfingu að menn geti orðið koffeínþrælar? Margir sem drekka te eða kaffi að staðaldri verða að einhverju marki háðir því, þótt umdeilt sé hvort megi kalla það fíkniánauð í læknisfræðilegum skilningi. Að minnsta kosti finnur þetta fólk fyrir fráhvarfseinkennum, svo sem höfuðverk eða ógleði, fái það ekki sinn venjulega koffeínskammt. Hér er aftur gott að rifja upp viðhorf Biblíunnar til áfengra drykkja. Þótt margir hafi verið áfengisþrælar er kristnum mönnum ekki bannað að neyta áfengis, sé það gert í hófi. Jesús drakk vín; hann meira að segja gerði það kraftaverk í brúðkaupsveislu að breyta vatni í vín. — Matteus 26:29; Jóhannes 2:3-11.
Eigi að síður má vera að kristinn maður telji heppilegra að hætta ekki á að verða háður koffeíni. Ef hann verður skapstyggur við það að missa sinn reglulega koffeínskammt (er með „kaffitaugar“), þá má vera að hann íhugi alvarlega að forðast koffeín í því skyni að sýna ‚sjálfstjórn.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Þar eð Biblían nefnir ekki bindindi á drykki sem innihalda koffeín verður það að vera einstaklingsbundin ákvörðun að halda sér frá kaffi eða tei. Hóf er alltaf við hæfi ef kristinn maður neytir annars hvors. — Samanber Títusarbréfið 2:2.
Hóf er líka þungamiðja þess hvort hætta sé á að koffeínneysla geti verið heilsuspillandi. Því er haldið fram að ýmsar hættur séu því samfara að neyta stórra skammta af koffeíni reglulega (hvort heldur það er fengið úr kaffi, tei, kóladrykkjum eða öðrum drykkjum eða matvælum). En fyrir hverja rannsóknarskýrslu, sem tengir koffeínneyslu ákveðinni heilsufarshættu, virðist önnur benda til hins gagnstæða.
Að hóf sé skynsamlegt má undirstrika með því sem Biblían segir um hunang. Hunang er náttúruefni og eðlilegt að neyta þess sem örvandi orkugjafa (sem er ólíkt því að draga reyk ofan í lungun). (1. Samúelsbók 14:26, 27; Matteus 3:4) Mönnum getur hins vegar orðið illt af því að neyta of mikils. Biblían aðvarar: „Finnir þú hunang, þá et sem þér nægir, svo að þú verðir ekki ofsaddur af því og ælir því upp aftur.“ — Orðskviðirnir 25:16, 27.
Sumir geta alls ekki lagt sér hunang til munns. Eins geta sumir þurft, heilsunnar vegna, að forðast áfengi, koffeín, mjólkurvörur eða aðrar matar- og drykkjarvörur. Sumir kunna að forðast slíkt að eigin vali, eða þá vegna þess almenningsálitið er á móti neyslu þess og þeir vilja engan hneyksla. Það minnir okkur á orð Páls postula: „Þess vegna mun ég, ef matur verður bróður mínum til falls, um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.“ — 1. Korintubréf 8:13.
Hver og einn skal því breyta samkvæmt eigin ásetningi, án þess að láta sér finnast að hann þurfi að þröngva ákvörðun sinni upp á aðra. Páll skrifaði: „Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér. Hver ert þú, sem dæmir annars þjón?“ — Rómverjabréfið 14:3, 4.