Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bróðurkærleikurinn er virkur

Bróðurkærleikurinn er virkur

Bróðurkærleikurinn er virkur

Meginatriði Fílemonsbréfsins

JESÚS KRISTUR gaf fylgjendum sínum „nýtt boðorð“ þess efnis að þeir skyldu elska hver annan á sama hátt og hann elskaði þá. (Jóhannes 13:34, 35) Vegna þessa kærleika áttu þeir jafnvel að láta lífið hver fyrir annan. Já, bróðurkærleikurinn er svona sterkur og virkur.

Páll postuli treysti að bróðurkærleikur myndi ráða gerðum Fílemons, kristins manns í söfnuðinum í Kólossu sem var borg í Litlu-Asíu. Kærleikur Fílemons hafði þá þegar komið honum til að opna hús sitt sem samkomustað fyrir kristna söfnuðinn. Þræll Fílemons, Onesímus, hafði hlaupist á brott frá honum og ef til vill stolið frá honum fé til að kosta ferð sína til Rómar, en þar hafði hann síðar hitt Pál og tekið kristna trú.

Meðan Páll var fangi í Róm á árabilinu 60-61 skrifaði hann bréf sem stílað er á Fílemon. Þar biður hann Fílemon að taka við Onesímusi í anda bróðurkærleika er hann snýr aftur til hans. Lestu bréfið, þá munt þú sjá hversu gott fordæmi það er um ástúð og háttvísi sem hæfir þjónum Jehóva vel.

Hrósað fyrir kærleika og trú

Páll ávarpar fyrst Fílemon og fleiri og hrósar þeim. (Vers 1-7) Postulinn hafði fengið fregnir af kærleika Fílemons til Krists og allra heilagra og af trú hans. Þetta kom Páli til að þakka Jehóva og það veitti honum mikla gleði og hughreystingu. Hrósum við líka trúbræðrum okkar sem eru til fyrirmyndar í trú og kærleika? Það ættum við að gera.

Hvatning á grundvelli kærleikans er alltaf æskileg í samskiptum kristinna manna eins og orð Páls sýna. (Vers 8-14) Eftir háttvísleg inngangsorð sín sagði postulinn að hann myndi frekar fara bónarveg en skipa Fílemon að „gera það, sem skylt er,“ þótt hann gæti það með réttu. Og hvað var það? Að taka vinsamlega á móti þrælnum Onesímusi! Páll hefði gjarnan viljað halda Onesímusi hjá sér og njóta þjónustu hans, en vildi ekki gera það án samþykkis Fílemons.

Atburðir, sem í fyrstu virðast óheppilegir, geta oft orðið til blessunar eins og Páll gaf til kynna í framhaldinu. (Vers 15-21) Það hafði í rauninni orðið til góðs að Onesímus skyldi hlaupast á brott. Hvers vegna? Vegna þess að Fílemon gat nú tekið við honum sem fúsum, heiðarlegum kristnum bróður, ekki sem ófúsum, ef til vill óheiðarlegum þræli. Páll bað Fílemon að taka jafnvel á móti Onesímusi eins og hann myndi taka á móti honum sjálfum. Ef Onesímus hafði gert Fílemon eitthvað til miska, þá ætlaði postulinn að endurgjalda það. Í því skyni að gera Fílemon fúsari til að fara eftir þessu minnti Páll hann á að hann væri sjálfur í skuld við postulann um það að vera nú kristinn maður. Páll treysti því að Fílemon myndi gera fram yfir það sem hann hafði mælst til. Páll var mjög háttvís og kærleiksríkur í því hvernig hann kom beiðni sinni á framfæri! Þannig ættum við líka að koma fram við kristna bræður okkar.

Páll lauk bréfi sínu með kveðjuorðum, góðum óskum og vonarbrag. (Vers 22-25) Hann vonaðist til að vegna bæna annarra í hans þágu yrði honum bráðlega sleppt úr fangelsi. (Eins og síðara bréf Páls til Tímóteusar ber með sér var þessum bænum svarað.) Páll lauk bréfi sínu með kveðjuorðum og þeirri ósk að óverðskulduð góðvild Jesú Krists mætti vera með þeim anda sem Fílemon og trúbræður hans í þjónustu Jehóva sýndu.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 20]

Þræli fremri: Páll sagði um heimkomu Onesímusar, strokuþræls Fílemons: „Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundar sakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega, ekki lengur eins og þræli, heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér, bæði sem maður og kristinn.“ (Fílemon 15, 16) Keisarastjórn Rómaveldis hélt uppi þrælahaldi og Páll viðurkenndi slík ‚yfirvöld.‘ (Rómverjabréfið 13:1-7) Hann aðhylltist ekki þrælauppreisn heldur hjálpaði slíkum einstaklingum að öðlast andlegt frelsi sem kristnir menn. Í samræmi við heilræði sjálfs sín, þess efnis að þrælar væru húsbændum sínum undirgefnir, sendi Páll Onesímus aftur til Fílemons. (Kólossubréfið 3:22-24; Títusarbréfið 2:9, 10) Onesímus var núna meira en veraldlegur þræll. Hann var elskaður trúbróðir sem gat verið undirgefinn Fílemon sem betri þræll, því að hann lét stjórnast af meginreglum Guðs og bar bróðurkærleika í brjósti.