Hamingjusöm ungmenni í þjónustu Jehóva
Hamingjusöm ungmenni í þjónustu Jehóva
„Sveinninn þekkist þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 20:11.
1. Nefndu sumt af því sem Biblían segir um Samúel.
SAMÚEL var líklega ekki nema þriggja til fimm ára gamall er hann tók að ‚gegna þjónustu‘ í tjaldbúð Jehóva í Síló. Eitt af skyldustörfum hans var að ‚ljúka upp dyrunum á húsi Jehóva.‘ Biblían segir að ‚sveinninn Samúel hafi vaxið og þroskast og orðið æ þekkari bæði Jehóva og mönnum.‘ Er hann var orðinn fullvaxta leiddi hann Ísrael aftur til sannrar guðsdýrkunar. Hann þjónaði Guði „meðan hann lifði.“ Jafnvel þegar hann var orðinn „gamall og grár fyrir hærum“ hvatti hann þjóðina enn til að ‚óttast Jehóva og þjóna honum trúlega.‘ Væri það ekki stórkostlegt ef fólk gæti sagt eitthvað svipað um þig og Biblían segir um Samúel? — 1. Samúelsbók 1:24; 2:18, 26; 3:15; 7:2-4, 15; 12:2, 24.
2. Hvað læra börnin á samkomum þjóna Jehóva nú á dögum?
2 Hvort sem þú ert einn votta Jehóva eða einungis gestur á kristnum samkomum þeirra skaltu líta í kringum þig í Ríkissalnum þar sem þetta efni er til umræðu. Þú sérð fólk á öllum aldri. Sennilega er fólk þar sem er orðið ‚gamalt og grátt fyrir hærum.‘ Þar eru líka foreldrar, ungt fólk, lítil börn og jafnvel ungbörn. Eru yngstu börnin þegar byrjuð að læra? Já. Spyrðu bara þá sem teknir voru með á slíkar samkomur frá barnsaldri. Þeir munu segja þér í einlægni að þeir hafi allt frá unga aldri lært að virða Guð, elska þjóna hans og meta að verðleikum þá staði þar sem hann er dýrkaður. Með tímanum læra börnin sannindi Biblíunnar. Eftir að hafa vaxið í þekkingu og þakklæti verða mörg ungmenni hluti af þeim hópi ‚yngismanna og yngismeyja, öldunga og ungra sveina‘ sem sálmaritarinn hvatti til að „lofa nafn [Jehóva], því að hans nafn eitt er hátt upp hafið.“ — Sálmur 148:12, 13.
3. Hvernig stendur á því að börn og unglingar, sem þekkja Biblíuna, líta lífið öðrum augum en þeir sem ekki gera það?
3 Ef þú ert barn eða unglingur sem átt foreldra er taka þig reglulega með á slíkar samkomur nýtur þú sérstakrar blessunar. Mörg börn og ungmenni eru kvíðin út af vandamálunum í heiminum. Sum óttast jafnvel að menn kunni að eyða jörðina. Þú veist að Guð mun ekki láta það gerast, að hann mun ekki leyfa mönnum að halda áfram að spilla þessari fögru reikistjörnu. Í stað þess að láta það gerast mun Guð „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ Þú veist að Biblían lofar bjartri framtíð í nýjum, réttlátum heimi Guðs sem er nálægur. — Opinberunarbókin 11:18; Sálmur 37:29; 2. Pétursbréf 3:13.
Þín eigin trú
4. Hvaða ábyrgð leggur það á herðar unglingum að þekkja vegu Guðs og hvernig var hinn ungi Samúel gott fordæmi um það?
4 Í byrjun var það að fylgja vegi kristins sannleika háð frumkvæði foreldra þinna. Vera kann að þú hafir verið viðstaddur kristnar samkomur af því að foreldrar þínir tóku þig með og þú kannt að hafa tekið þátt í þjónustunni á akrinum vegna þess að þeir gerðu það. Með tímanum getur þú hins vegar farið að þjóna og hlýða Jehóva af eigin frumkvæði. Móðir Samúels leiddi hann réttan veg meðan hann var mjög ungur en síðan var það undir honum komið að fylgja honum áfram. Við lesum: „Sveinninn þekkist þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar.“ — Orðskviðirnir 20:11.
5. (a) Hvert er gildi Biblíunnar? (b) Hvað sagði Páll Tímóteusi um mikilvægi hins ritaða orðs Guðs?
5 Ritningin segir okkur til hvers Guð ætlast af okkur. Hún segir skýrt og greinilega hvað við verðum að gera til að þóknast honum og gefur okkur staðgóðar upplýsingar sem geta verið okkur til mikils gagns. Páll postuli sagði hinum unga hjálparmanni sínum, Tímóteusi: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
6. Hvað segja Orðskviðirnir um mikilvægi þekkingar og visku Guðs?
6 Biblían segir okkur líka að ‚hlýða á aga svo að við verðum vitur.‘ Hún segir okkur að ‚geyma boðorð Guðs hjá okkur,‘ að ‚kalla á skynsemina‘ og ‚leita‘ að skilningi eins og værum við að leita að dýrmætum fjársjóðum. Ef þú fylgir þessum ráðum, „þá munt þú skilja hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“ Við finnum líka þessi ráð: „Og nú, þér yngismenn, hlýðið mér, því að sælir eru þeir, sem varðveita vegu mína. Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir, og látið hann eigi sem vind um eyrun þjóta. Sæll er sá maður, sem hlýðir mér, . . . því að sá sem mig finnur, finnur lífið og hlýtur blessun af [Jehóva].“ Metur þú Biblíuna svona mikils og leggur svona mikið á þig til að læra af henni? — Orðskviðirnir 2:1-5; 8:32-35.
Aflaðu þér þekkingar
7. Hvað er það þýðingarmesta sem við ættum að læra?
7 Sumt ungt fólk veit allt það nýjasta af vettvangi íþróttanna eða um uppáhaldshljómsveitina sína. Það á auðvelt með að leggja allt slíkt á minnið vegna þess að það hefur áhuga á því. En þó er langtum þýðingarmeira að spyrja: Hvað veit það um Guð? Hugsaðu aðeins um hvað hann hefur gert. Guð skapaði alheiminn. Hann sagði fyrir hvað menn myndu gera og hvað myndi eiga sér stað löngu áður en það gerðist. En Biblían segir okkur ekki bara frá Guði heldur kennir okkur líka að þóknast honum. Hún sýnir okkur hvernig við getum verið hamingjusöm núna og hvernig við getum öðlast eilíft líf í réttlátum nýjum heimi Guðs. Er það ekki langtum þýðingarmeira heldur en að vita hvaða lið sigraði í knattspyrnukappleik eða að þekkja nöfn tónlistarmanna sem brátt verða fallnir í gleymsku? — Jesaja 42:5, 9; 46:9, 10; Amos 3:7.
8. Hvaða gott fordæmi gáfu bæði Jósía og Jesús?
8 Er Jósía konungur var fimmtán ára „tók hann að leita Guðs Davíðs, forföður síns.“ Jesús var tólf ára er hann fannst í musteri Jehóva „mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.“ * Hefur þú, óháð aldri, þroskað með þér ósvikinn áhuga á að kynna þér hvað Guð hefur gert og mun gera, líkt og Jósía og Jesús? — 2. Kroníkubók 34:3; Lúkas 2:46.
9. (a) Hvert er vandamál margra ungmenna? (b) Hvað getur gert lestur og nám auðveldara og þekkir þú það af eigin raun?
9 ‚En nám er erfiðisvinna,‘ segja sumir. Margir hafa aldrei lesið nógu mikið til að ná góðum tökum á lestri, og á það jafnt við unga sem aldna. En lestur verður auðveldari með æfingunni. Nám verður líka auðveldara eftir því sem þú nemur meira. Þú tengir nýjar hugmyndir því sem þú veist fyrir og auðveldar þér þannig að skilja þær og muna.
10. (a) Hvernig getur þú haft sem mest gagn af kristnum samkomum? (b) Hver er reynsla þín í því efni?
10 Hvað getur hjálpað þér að kynnast Guði betur? Ef til vill gætir þú sótt kristnar samkomur reglulegar, búið þig undir þær fyrirfram og tekið þátt í þeim. Þú færð til dæmis dýpri skilning á efni þessarar greinar með því að fletta upp þeim ritningargreinum sem vísað er til en standa ekki í textanum. Hefur þú skrifað eitt eða tvö orð á spássíuna til að minna þig á hvað þessar ritningargreinar segja umfram efni blaðsins? Hefur þú tamið þér að gefa athugasemd um að minnsta kosti eina af þessum ritningargreinum sem sýnir að þú skilur hvernig hún á við? Safnaðaröldungur, sem hefur sótt samkomur reglulega um langt árabil, segir: „Ég á erfitt með að einbeita mér að nokkru því námsefni sem ég hef ekki búið mig vel undir fyrirfram en það er hrein unun að fylgjast með þegar ég hef numið efnið rækilega.“
11. Hvernig er hægt að hafa meira gagn af biblíuræðum og hvers vegna er það þýðingarmikið?
11 Skrifar þú hjá þér stuttar athugasemdir þegar þú hlýðir á biblíuræðu, til að hjálpa þér að fylgja rökfærslunni og einbeita huganum að því sem ræðumaður segir? Berð þú það sem þú heyrir saman við það sem þú veist fyrir, þannig að þú eigir auðveldara með að skilja það og muna? Jesús bað: „Það er hið eilífa líf, að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Er ekki þekkingin sem leiðir til lífs sú besta sem þú getur hugsanlega aflað þér? Taktu eftir hvað Biblían segir um þetta: „Því að [Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi. Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. Aðgætni mun vernda þig og hyggindin varðveita þig.“ — Orðskviðirnir 2:6, 10, 11.
Þroskaðu jákvætt mat
12. Nefndu sumt af því sem Guð hefur gert fyrir okkur.
12 Kunnum við í raun að meta það sem Guð hefur gert fyrir okkur? Hann skapaði fagra jörð og bjó hana undir líf. Hann skapaði fyrstu foreldra okkar þannig að við höfðum möguleika á að verða til. Hann lagði drög að því að við gætum átt okkur bæði fjölskyldu og söfnuð sem stoð og styttu. (1. Mósebók 1:27, 28; Jóhannes 13:35; Hebreabréfið 10:25) Hann sendi sinn eigin, frumgetna son til jarðar til að kenna okkur meira um sjálfan sig og greiða lausnargjaldið sem þurfti til að opna mönnum möguleika á eilífu lífi. Kannt þú að meta þessar stórkostlegu gjafir? Koma þær þér til að þiggja boð hans um að kynnast honum og þjóna? — Matteus 20:28; Jóhannes 1:18; Rómverjabréfið 5:21.
13. Hvers vegna telur þú að Guð hafi áhuga á einstaklingum?
13 Skapari alheimsins hefur áhuga á okkur sem einstaklingum. Hann kallaði Abraham ‚vin sinn‘ og sagði við Móse: „Ég þekki þig með nafni.“ (Jesaja 41:8; 2. Mósebók 33:12) Opinberunarbók Biblíunnar gefur til kynna að Guð eigi táknræna bók, „bók lífsins,“ þar sem skráð eru nöfn trúfastra þjóna hans „frá grundvöllun veraldar.“ Ætli nafn þitt fái að standa þar? — Opinberunarbókin 3:5; 17:8; 2. Tímóteusarbréf 2:19.
14. Hvernig getur þú bætt hlutskipti þitt í lífinu með því að fylgja meginreglum Guðs?
14 Meginreglur Guðs duga. Það má umflýja mörg vandamál með því að beita hans aðferðum — vandamál svo sem siðleysi, fíkniefnaánauð, drykkjusýki, óæskilegar þunganir, samræðissjúkdóma, ofbeldi, morð og alls konar annað böl. Það að nota aðferðir Guðs hjálpar þér einnig að eiga sanna vini og njóta ríkari lífshamingju. Er það ekki nokkuð að slægjast eftir? (1. Korintubréf 6:9-11) Jafnvel ungt fólk, sem er nú þegar staðráðið í að gera hlutina að hætti Guðs, getur byggt upp meiri styrk til að gera það sem rétt er. Biblían segir: „Gagnvart ástríkum ert þú [Jehóva] ástríkur.“ Hún fullvissar okkur um að hann ‚yfirgefi ekki sína trúuðu,‘ ‚hrindi eigi burt lýð sínum.‘ — Sálmur 18:26; 37:28; 94:14; Jesaja 40:29-31.
Sótt fram í þjónustu Guðs
15. Hvað ráðlagði Salómon unglingum?
15 Eru markmið þín tengd deyjandi, gömlum heimi eða réttlátum, nýjum heimi? Hlýðir þú á Guð eða hlustar þú á veraldarvísa menn sem andmæla honum? Lætur þú afþreyingu, æðri menntun eða tímafrekan starfsframa í heiminum ganga fyrir Guði og þjónustu hans? Hinn vitri Salómon konungur skrifaði allan Prédikarann í Biblíunni til að sýna fram á hvað ætti að vera í fyrirrúmi í lífi okkar. Hann sagði að lokum: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: ‚Mér líka þau ekki‘ — Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:1, 13.
16. Hvernig getur ungt fólk sóst eftir auknum sérréttindum?
16 Allir þeir kristnu bræður sem þú þekkir og eru þér eldri — öldungar, brautryðjendur, farandhirðar og umdæmishirðar — voru einu sinni börn. Hvernig hafa þeir öðlast þá blessun sem þeir njóta núna? Þeir elskuðu Guð og vildu þjóna honum. Margir notuðu tíma sinn vel á æskuárunum til að afla sér þekkingar og reynslu. Þeir numu og tóku þátt í samkomunum. Þeir áttu þátt í að kenna og sóttust eftir auknum sérréttindum — brautryðjandastarfi, þjónustu á Betel eða öðru slíku. Þeir voru engir ‚afburðaunglingar‘ heldur höfðu ósköp venjuleg áhugamál og áhyggjur eins og þú. En þeir lögðu sig fram í samræmi við heilræðið: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn.“ — Kólossubréfið 3:23; samanber Lúkas 10:27; 2. Tímóteusarbréf 2:15.
17. Hvað getur hjálpað ungu fólki að taka framförum í þjónustu Guðs?
17 Hvað um þig? Kannt þú í alvöru að meta það sem er Guði að skapi? Velur þú þér vini úr hópi þeirra sem láta andleg mál sitja í fyrirrúmi? Hvetur þú aðra til að taka þátt með þér í kristnu starfi? Ferð þú út í hina kristnu þjónustu með þeim sem eru þér eldri og reyndari, í því skyni að læra af þeim, að smakka gleði þeirra og láta góð verk þeirra vera þér til hvatningar? Einn vottur minnist þess dags fyrir nálega tuttugu árum er einhver, sem var honum eldri, bauð honum hlýlega að koma með sér út í þjónustuna á akrinum. Boðberinn segir að það hafi markað þáttaskil í lífi hans: „Í fyrsta sinn var ég að fara út í starfið vegna þess að ég vildi það, ekki bara af því að foreldrar mínir tóku mig með sér.“
18. Hvað er nauðsynlegt að yfirvega fyrir skírn?
18 Ef þú tekur framförum í því að gera hlutina Guði að skapi, þá ferð þú sjálfsagt fljótlega að hugsa um að láta skírast. Það er mikilvægt að hafa hugfast að skírn er ekki einhver trúarathöfn sem markar upphaf fullorðinsáranna. Hún á ekkert skylt við uppvöxt þinn og þú ættir ekki heldur að láta skírast aðeins af því að vinir þínir hafa gert það. Áður en þú biður um að mega skírast þarft þú að hafa undirstöðuþekkingu á sannleikanum og lifa í samræmi við orð Guðs. Þú ættir að hafa staðgóða reynslu í því að miðla öðrum af þekkingu þinni og gera þér grein fyrir að það er mikilvægur þáttur sannrar guðsdýrkunar. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þú ættir líka að vita að þess verður vænst af þér að þú lifir í samræmi við réttlátar siðferðisreglur Biblíunnar eftir að þú hefur stigið þetta mikilvæga skref. * Þú ættir í hjarta þér að hafa vígt líf þitt hinum ástríka föður þínum á himnum. — Samanber Sálm 40:9, 10.
19. Hvenær á fólk að láta skírast?
19 Skírn er skref sem þú stígur þegar þú hefur afráðið að þú ætlir að þjóna Guði það sem eftir er ævinnar, óháð því hvað fyrir þig kemur. Skírnin er opinbert tákn þess að þú hafir fullkomlega og skilyrðislaust vígst Jehóva Guði fyrir milligöngu Jesú Krists til þess að gera vilja hans. Kristinn öldungur minnist þess dags fyrir nærfellt hálfri öld er hann gerði sér ljóst að hann yrði sjálfur að gera eitthvað í málinu. Michelle, ungur vottur sem lét skírast í Newcastle á Englandi fyrir fáeinum árum, segir: „Þegar ég var þrettán ára gerði ég mér ljóst að ég ætti að vígjast Guði og láta skírast; það var ekkert sem ég vildi frekar gera en að þjóna Guði.“
20. (a) Hvaða gott fordæmi hafa tugþúsundir ungmenna sett? (b) Hvernig ber að líta á þetta skref?
20 Tugþúsundir ungmenna hafa látið skírast á síðustu árum. Þau hafa numið orð Guðs og kynnst vegum hans og síðan, ásamt mörgum fleiri sem eru þeim eldri, hafa þeir gefið opinbert tákn vígslu sinnar við Guð með skírn. Þessi ungmenni vita að skírnin er enginn endapunktur heldur upphaf þess að þjóna Guði sem vígður þjónn hans, og þau eru staðráðin í að fylgja þeim vegi í þjónustu Guðs að eilífu.
[Neðanmáls]
^ Sjá greinina „Ungir þjónar Guðs á biblíutímanum“ á bls. 4.
^ Þetta merkir ekki að hægt sé að afsaka ranga breytni með því að segja: ‚Ég er ekki skírður enn þá.‘ Jafnskjótt og við þekkjum kröfur Guðs er okkur auðvitað skylt að hlýða honum. — Jakobsbréfið 4:17.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna er þekking á orði Guðs þýðingarmikil?
◻ Hvernig getur þú haft mest gagn af kristnum samkomum?
◻ Hvaða blessanir frá Guði ættu að hvetja okkur til að hlýða honum?
◻ Hvernig getur þú sótt fram í þjónustu Guðs?
◻ Hvenær ættir þú að láta skírast?
[Spurningar]