Hvers vegna kristin guðsdýrkun er æðri
Hvers vegna kristin guðsdýrkun er æðri
Meginatriði Hebreabréfsins
JEHÓVA GUÐ kom á framfæri hinum æðri þáttum tilbeiðslunnar er hann sendi son sinn, Jesú Krist, til jarðar. Það kom til af því að Jesús, stofnandi kristninnar, er æðri englum og spámanninum Móse. Prestdómur Krists er æðri en prestdómur Levítanna í Forn-Ísrael. Og fórn Jesú er langtum æðri dýrafórnunum sem færðar voru undir Móselögunum.
Þessi atriði koma skýrt fram í Hebreabréfinu. Ljóst er að Páll postuli skrifaði það í Róm um árið 61 og sendi trúuðum Hebreum í Júdeu. Allt frá öndverðu hafa kristnir menn í Asíu og Grikklandi verið þeirrar skoðunar að Páll hafi skrifað bréfið, og það kemur heim og saman bæði við yfirgripsmikla þekkingu ritarans á Hebresku ritningunum og rökfastri úrvinnslu efnisins eins og dæmigerð er fyrir Pál. Vera kann að hann hafi ekki látið nafn síns getið sökum fordóma Gyðinga gegn sér og sökum þess að hann var þekktur sem „postuli heiðingja.“ (Rómverjabréfið 11:13) Við skulum nú rýna nánar í hina æðri þætti kristninnar eins og þeir opinberast í bréfi Páls til Hebreanna.
Kristur æðri englum og Móse
Fyrst er sýnt fram á hina æðri stöðu sonar Guðs. (Heb 1:1-3:6) Englar veita honum lotningu og konungsstjórn hans er grundvölluð á Guði. Við ættum því að gefa sérstakan gaum að því sem sonurinn talaði. Enn fremur ættum við að hafa hugfast að jafnvel þótt maðurinn Jesús hafi verið englunum lægri var hann upphafinn yfir þá og gefin yfirráð yfir þeirri jörð sem í vændum var.
Jesús Kristur var líka æðri Móse. Hvernig þá? Nú, Móse var einungis þjónn í húsi Guðs, Ísrael. Hins vegar hefur Jehóva sett Jesús yfir allt hús sitt, söfnuð þjóna Guðs.
Kristnir menn ganga inn til hvíldar Guðs
Þessu næst bendir postulinn á að hægt sé að ganga inn til hvíldar Guðs. (3:7-4:13) Ísraelsmenn gengu ekki inn til hennar, eftir að þeir voru leystir úr ánauð í Egyptalandi, vegna þess að þeir voru óhlýðnir og skorti trú. Við getum hins vegar gengið inn til þessarar hvíldar ef við iðkum trú á Guð og fylgjum hlýðnir Kristi. Þá getum við, í stað þess að halda aðeins vikulegan hvíldardag, notið dag hvern þeirrar miklu blessunar að hvílast frá öllum eigingjörnum verkum.
Það að fá að ganga inn til hvíldar Guðs er eitt af fyrirheitunum í orði hans sem er „beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda.“ Orð Guðs gerir það með þeim hætti að það þrengir sér inn og afhjúpar hvatir og viðhorf, til að greina á milli langana holdsins og hugarfars. (Samanber Rómverjabréfið 7:25.) Ef „sál“ okkar eða líf sem einstaklinga er samfara guðrækilegum „anda“ eða tilhneigingu, þá getum við gengið inn til hvíldar Guðs.
Æðri prestdómur og sáttmáli
Eftir þetta bendir Páll á að prestdómur Krists og nýi sáttmálinn séu æðri því sem fyrir var. (4:14-10:31) Hinn syndlausi Jesús Kristur finnur til með syndugum mönnum vegna þess að hann hefur, líkt og við, verið prófreyndur á öllum sviðum. Auk þess hefur Guð skipað hann ‚prest að eilífu að hætti Melkísedeks.‘ Ólíkt æðstu prestunum af ætt Leví býr Jesús yfir óforgengilegu lífi og þarf því enga arftaka í björgunarstarfi sínu. Hann þarf ekki að bera fram dýrafórnir því að hann fórnfærði sínum eigin, syndlausa líkama, sem var þeim miklu æðri, og gekk síðan inn í himininn með verðmæti blóðs síns.
Nýi sáttmálinn, fullgiltur með blóði Jesú, er æðri lagasáttmálanum. Þeir sem eiga aðild að nýja sáttmálanum hafa lögmál Guðs ritað á hjörtu sín og hafa fengið syndir sínar fyrirgefnar. (Jeremía 31:31-34) Þakklæti þeirra fyrir það fær þá til að boða von sína opinberlega og koma saman með trúbræðrum sínum. Ólíkt þeim eiga þeir sem syndga að yfirlögðu ráði enga fórn framar fyrir syndir sínar.
Trú er lífsnauðsynleg!
Við þörfnumst trúar til að njóta góðs af hinum framúrskarandi nýja sáttmála. (10:32-12:29) Við þörfnumst líka þolgæðis til að öðlast það sem Jehóva hefur heitið. Sem hvatningu til að sýna úthald erum við umkringd ‚miklum fjölda‘ votta frá því fyrir daga kristninnar. Sér í lagi ættum við þó að virða gaumgæfilega fyrir okkur hina óaðfinnanlegu lífsstefnu Jesú er hann þjáðist. Í víðum skilningi má líta á hverja þjáningu, sem Guð leyfir að við verðum fyrir, sem aga er getur gefið hinn friðsæla ávöxt réttlæti. Fyrirheit Jehóva eru áreiðanleg og ættu að styrkja þá löngun okkar að veita honum heilaga þjónustu „með lotningu og ótta.“
Páll lýkur bréfinu með hvatningarorðum. (13:1-25) Trú ætti að koma okkur til að sýna bróðurkærleika, vera gestrisnir, minnast þjáninga trúbræðra okkar, halda hjónabandið í heiðri og ‚láta okkur nægja það sem við höfum.‘ Við ættum að líkja eftir trú þeirra sem taka forystuna í söfnuðinum og hlýða þeim. Enn fremur ættum við að forðast fráhvarf frá trúnni, bera þá smán sem Jesús bar, „án afláts bera fram löfgjörðarfórn fyrir Guð“ og halda áfram að gera það sem gott er. Slík breytni telst einnig meðal æðri þátta sannrar kristni.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 32]
Ýmsar skírnir: Hin ýmsu atriði tilbeiðslunnar í tjaldbúð Ísraels vörðuðu aðeins „mat og drykk og ýmiss konar þvotta [á grísku baptismois, „skírnir“].“ (Hebreabréfið 9:9, 10) Þessar skírnir voru helgisiðaþvottar sem Móselögin kröfðust. Ílát, sem óhreinkuðust, voru þvegin og helgisiðahreinsun fól í sér að þvo klæði sín og baða sig. (3. Mósebók 11:32; 14:8, 9; 15:5) Prestar böðuðu sig og hlutir, sem tengdust brennifórnum, voru þvegnir í vatni. (2. Mósebók 29:4; 30:17-21; 3. Mósebók 1:13; 2. Kroníkubók 4:6) Þessir ‚ýmiss konar þvottar‘ fólu hins vegar ekki í sér ‚hreinsun á bikurum, könnum og eirkötlum‘ sem sumir Gyðingar stunduðu á þeim tíma er Messías kom, og Hebreabréfið 9:10 vísar ekki heldur til vatnsskírnar Jóhannesar skírara eða skírnar þeirra sem gefa með henni tákn um vígslu sína til Guðs sem kristnir menn. — Matteus 28:19, 20; Markús 7:4; Lúkas 3:3.