Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ungt fólk sem þjónar Guði

Ungt fólk sem þjónar Guði

Ungt fólk sem þjónar Guði

ÞYKIR þér óvenjulegt að snyrtilegt, ungt fólk noti tíma sinn endurgjaldslaust til að heimsækja þig í þeim tilgangi að tala um Guð? Kemur það þér á óvart að börn skuli, á tímum vaxandi vantrúar, taka þátt í því með foreldrum sínum að tala við aðra um hin stórkostlegu fyrirheit Biblíunnar um hamingjuríka framtíð? *

Í flestum hinna liðlega 60.000 safnaða votta Jehóva í heiminum er að finna allmörg ungmenni. Þau sækja ekki sunnudagaskóla heldur samkomur sem haldnar eru fyrir allan söfnuðinn, og taka jafnvel þátt í þeim. Yngstu börnin gefa oft einfaldar athugasemdir. Mörg börn taka þátt í Guðveldisskólanum áður en þau ná unglingsaldri. Fjölmargir táningar nota skólafríin til að hjálpa nágrönnum sínum til að kynnast Guði og stórkostlegum fyrirheitum hans um framtíðina.

Það er þó í rauninni ekkert nýtt að ungt fólk taki þátt í slíku starfi. Biblían segir frá trúföstum ungmennum, piltum og stúlkum, jafnvel unglingum og smábörnum, sem gáfu afbragðsfordæmi í því að þjóna Guði.

Sálmarnir í Biblíunni sögðu fyrir að fjölmennt ‚æskulið,‘ jafnhressandi og ‚dögg á grasi,‘ myndu ganga fram í þjónustu Guðs. Hún sagði fyrir að bæði „yngismenn og yngismeyjar“ myndu lofa nafn Guðs. (Sálmur 110:3; 148:12, 13) Trúlega voru sum ungmenni viðstödd þegar heilögum anda Guðs var úthellt á hvítasunnunni árið 33. Á þeim degi tóku um 3000 við orðinu og létu skírast. Pétur postuli sagði að þessi óvenjulegi atburður væri uppfylling spádóms Jóels: „Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma.“ — Postulasagan 2:4-8, 16, 17, 41.

Biblían nefnir mörg fleiri dæmi um fólk sem þjónaði Jehóva Guði í æsku, meðal annars Samúel, hinn réttláta Davíð konung og hina velþekktu spámenn Biblíunnar, Jeremía og Daníel, svo og hinn trúfasta Tímóteus. Í þessu blaði eru þrjár greinar sem fjalla um sum af þessum fyrirmyndarungmennum. Af greinunum muntu sjá hvers vegna ungmenni, og jafnframt þeir sem eldri eru, taka þjónustuna við Guð alvarlega og hvers vegna þau verja svona miklum tíma í að hjálpa nágrönnum sínum að gera það líka.

[Neðanmáls]

^ Í Gallupkönnun, sem gerð var árið 1985, sögðust aðeins 12 af hundraði Bandaríkjamanna, sem fæddir eru eftir 1946, hafa haft „sterka trú“ sextán ára gamlir.