Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér eruð verði keyptir“

„Þér eruð verði keyptir“

„Þér eruð verði keyptir“

„Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.“ — 1. KORINTUBRÉF 6:20.

1, 2. (a) Hvað opnaði leið til ‚björgunar frá dauðanum‘? (b) Hvað þurfti að gera til að fórn Krists hefði lagagildi, samanber hvaða fyrirmynd?

 „GUÐ er oss hjálpræðisguð,“ sagði sálmaritarinn, „og [Jehóva] alvaldur bjargar frá dauðanum.“ (Sálmur 68:21) Fórn Jesú Krists opnaði þá leið, en til að fórnin hefði lagagildi þurfti Kristur að ganga í eigin persónu fram fyrir Guð sjálfan.

2 Gefin var fyrirmynd um þetta á friðþægingardeginum er æðsti presturinn gekk inn í hið allra helgasta. (3. Mósebók 16:12-15) „En Kristur er kominn sem æðsti prestur,“ skrifaði Páll postuli og heldur svo áfram: „Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.“ — Hebreabréfið 9:11, 12, 24.

Máttur blóðs

3. (a) Hvernig líta dýrkendur Jehóva á blóð og hvers vegna? (b) Hvað sýnir að blóð hefur lagagildi til að friðþægja fyrir syndir?

3 Hvaða hlutverki gegnir blóð Krists í hjálpræði okkar? Allt frá dögum Nóa hafa sannir guðsdýrkendur litið á blóð sem heilagt. (1. Mósebók 9:4-6) Blóð gegnir þýðingarmiklu hlutverki í ferli lífsins því að Biblían segir að ‚líf líkamans sé í blóðinu.‘ (3. Mósebók 17:11) Móselögin kröfðust því þess að blóðinu væri úthellt frammi fyrir Jehóva er dýri var fórnað. Stundum var blóð líka borið á horn altarisins. Ljóst er að friðþægingarmáttur fórnar lá í blóði hennar. (3. Mósebók 8:15; 9:9) „Samkvæmt lögmálinu er nálega allt, sem hreinsast með blóði.“ — Hebreabréfið 9:22.

4. (a) Hvaða tilgangi hefur það þjónað að Guð skuli hafa sett notkun blóðs takmörk? (b) Hvaða gildi hafði það með hvaða hætti Jesús var líflátinn?

4 Það vekur því enga furðu að samkvæmt lögmálinu lá dauðarefsing við sérhverri misnotkun blóðs! (3. Mósebók 17:10) Öll vitum við að efni hækkar í verði þegar dregur úr framboði þess eða notkun þess er stórlega takmörkuð. Hömlur Jehóva á notkun blóðs tryggðu að ekki yrði litið á það sem venjulegt að verðmæti heldur sem dýrmætt. (Postulasagan 15:29; Hebreabréfið 10:29) Það kom heim og saman við hinn háleita tilgang sem blóð Krists átti að þjóna. Eins og viðeigandi var dó hann með þeim hætti að blóði hans var úthellt. Þannig mátti ljóst vera að Kristur fórnaði ekki aðeins mannslíkama sínum heldur úthellti líka sál sinni, fórnaði sjálfu lífi sínu sem fullkominn maður! (Jesaja 53:12) Kristur fyrirgerði ekki lagalegum rétti sínum til lífs vegna ófullkomleika, þannig að úthellt blóð hans var afar verðmætt og hægt var að bera það fram fyrir Guð til að friðþægja fyrir syndir mannkyns.

5. (a) Hvað fór Kristur með til himna og hvers vegna? (b) Af hverju má sjá að Guð viðurkenndi fórn Krists?

5 Kristur gat ekki farið með bókstaflegt blóð sitt til himna. (1. Korintubréf 15:50) Þess í stað tók hann með sér það sem blóðið táknaði: lögbundið verðmæti þess fullkomna mannslífs sem hann hafði fórnað. Frammi fyrir Guði gat hann lagt fram þetta líf sem lausnargjald fyrir syndugt mannkyn. Ljóst varð á hvítasunnunni árið 33, er heilögum anda var úthellt yfir 120 lærisveina í Jerúsalem, að Jehóva viðurkenndi fórnina. (Postulasagan 2:1-4) Segja mátti að Kristur ætti nú mannkynið vegna þeirra kaupa. (Galatabréfið 3:13; 4:5; 2. Pétursbréf 2:1) Því gat hagnaðurinn af lausnargjaldinu streymt til mannkynsins.

Hinir fyrstu til að njóta góðs af lausnargjaldinu

6. Hvaða ráðstafanir hefur Guð gert til að láta menn njóta hagnaðar af lausnarfórn Krists?

6 Þetta þýddi þó ekki að mannkyninu yrði veittur líkamlegur fullkomleiki þegar í stað, því að líkamlegur fullkomleiki var ekki mögulegur nema sigrast væri á syndugu eðli mannsins. (Rómverjabréfið 7:18-24) Hvenær og hvernig yrði sigrast á hinu synduga eðli? Guð gerði fyrst ráðstafanir í þágu 144.000 himneskra ‚presta Guðs er skyldu ríkja sem konungar yfir jörðinni‘ ásamt Kristi Jesú. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 7:4; 14:1-3) Fyrir þeirra tilstilli mun hagnaðurinn af lausnargjaldinu smám saman verða mannkyninu til gagns á þúsund ára tímabili. — 1. Korintubréf 15:24-26; Opinberunarbókin 21:3, 4.

7. (a) Hvað er nýi sáttmálinn, hverjir eiga aðild að honum og hvaða tilgangi þjónar hann? (b) Hvers vegna var dauðinn nauðsynlegur til að nýi sáttmálinn væri gildur og hvaða hlutverki gegnir blóð Krists?

7 Sem undanfari þess eru hinir 144.000 konungar og prestar „leystir út úr hóp mannanna.“ (Opinberunarbókin 14:4) Það er gert fyrir tilstilli ‚nýs sáttmála.‘ Þessi sáttmáli er samningur milli Jehóva og hins andlega Ísraels Guðs um að meðlimir hans þjóni sem konungar og prestar. (Jeremía 31:31-34; Galatabréfið 6:16; Hebreabréfið 8:6-13; 1. Pétursbréf 2:9) En hvernig er hægt að gera sáttmála milli Guðs og ófullkominna manna? Páll svarar: „Þar sem sáttmáli [milli Guðs og ófullkominna manna] er þarf dauði hins mennska loforðsgjafa að eiga sér stað. Því að sáttmáli er gildur vegna dauða fórnardýra því að hann gildir ekki nokkurn tíma meðan hinn mennski loforðsgjafi lifir.“ — Hebreabréfið 9:16, 17NW.

8, 9. Hvernig er lausnargjaldið tengt nýja sáttmálanum?

8 Lausnarfórnin er því undirstöðuatriði nýja sáttmálans sem á sér Jesú fyrir meðalgangara. Páll skrifaði: „Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús, sem gaf sig sjálfan til [samsvarandi, NW] lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma.“ (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Þessi orð eiga einkum við hinar 144.000 sem nýi sáttmálinn er gerður við.

9 Er Guð gerði sáttmála við Ísrael að holdinu öðlaðist hann ekki lagagildi fyrr en dýrablóði hafði verið úthellt að fórn. (Hebreabréfið 9:18-21) Eins var það að Kristur þurfti að úthella ‚blóði sáttmálans‘ til að nýi sáttmálinn tæki gildi. (Matteus 26:28; Lúkas 22:20) Með Krist bæði sem æðsta prest og ‚meðalgangara nýs sáttmála‘ notar Guð verðmæti blóðs Jesú í þágu þeirra sem veitt er aðild að nýja sáttmálanum og tilreiknar þeim lagalega réttlæti sem mönnum. (Hebreabréfið 9:15; Rómverjabréfið 3:24; 8:1, 2) Guð getur síðan veitt þeim aðild að nýja sáttmálanum til að verða konungar og prestar á himnum! Sem meðalgangari þeirra og æðsti prestur aðstoðar Jesús þá við að varðveita hreina stöðu frammi fyrir Guði. — Hebreabréfið 2:16; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

Safnað saman því sem á jörðu er

10, 11. (a) Hvernig nær lausnargjaldið lengra en til smurðra kristinna manna? (b) Hver er múgurinn mikli og hver er staða hans hjá Guði?

10 Eru það aðeins smurðir kristnir menn sem geta fengið sig keypta lausa, fengið syndir sínar fyrirgefnar? Nei, Guð sættir allt annað við sig með því að skapa frið vegna hins úthellta blóðs á kvalastaurnum, eins og Kólossubréfið 1:14, 20 segir. Það felur í sér það sem á himnum er (hinar 144.000) og eins það sem á jörðu er. Með hinu síðarnefnda er átt við þá sem eiga jarðneskt líf í vændum, menn sem munu öðlast fullkomið líf í paradís á jörð. Einkum frá 1935 hefur verið lögð sérstök áhersla á að safna þeim saman. Opinberunarbókin 7:9-17 lýsir þeim sem ‚miklum múgi‘ er á hjálpræði sitt Guði og lambinu að þakka. Þeir þurfa eftir sem áður að lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og láta ‚leiða sig til vatnslinda lífsins,‘ því að Opinberunarbókin 20:5 sýnir okkur að þeir munu vera fullkomlega lifandi, vera fullkomnir menn, við lok þúsundáraríkis Jesú Krists. Þeir sem þá standast lokaprófraunina sem fullkomnir menn verða lýstir réttlátir til eilífs lífs á jörð. — Opinberunarbókin 20:7, 8.

11 Samt sem áður hefur múgurinn mikli í undirbúningsskyni nú þegar „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ (Opinberunarbókin 7:14) Kristur kemur ekki fram sem meðalgangari nýja sáttmálans gagnvart þeim, þótt þeir njóti góðs af þessum sáttmála gegnum starf Guðsríkis. Kristur kemur samt sem áður fram gagnvart þeim sem æðsti prestur er Jehóva getur notað og notar til að miðla lausnargjaldinu að því marki að þeir eru nú lýstir réttlátir sem vinir Guðs. (Samanber Jakobsbréfið 2:23.) Í þúsundáraríkinu verða þeir smám saman ‚leystir úr ánauð forgengileikans uns þeir að lokum öðlast dýrðarfrelsi Guðs barna.‘ — Rómverjabréfið 8:21.

12. Á hvaða grundvelli átti Guð viðskipti við trúfasta menn fyrir daga kristninnar?

12 Svo kann að virðast sem staða múgsins mikla frammi fyrir Guði sé mjög áþekk stöðu tilbiðjenda Guðs fyrir daga kristninnar. En samskipti Guðs við hina síðarnefndu byggðust á væntanlegu lausnargjaldi. (Rómverjabréfið 3:25, 26) Þeir fengu syndir sínar fyrirgefnar aðeins um stundarsakir. (Sálmur 32:1, 2) Í stað þess að létta fullkomlega af þeim ‚meðvitund um synd‘ var með dýrafórnunum „minnt á syndirnar.“ — Hebreabréfið 10:1-3.

13. Að hvaða leyti erum við í betri stöðu en þjónar Guðs fyrir daga kristninnar?

13 Það er annað uppi á teningnum með sannkristna menn nú á dögum. Þeir tilbiðja Guð á grundvelli lausnargjalds sem hefur verið greitt! Gegnum æðsta prest sinn ‚ganga þeir með djörfung að hásæti náðarinnar.‘ (Hebreabréfið 4:14-16) Sættir við Guð er ekki eitthvað sem þeir vonast til í framtíðinni heldur veruleiki nútímans! (2. Korintubréf 5:20) Þeir geta hlotið raunverulega fyrirgefningu þegar þeim verða á mistök. (Efesusbréfið 1:7) Þeir geta haft fullkomlega hreina samvisku. (Hebreabréfið 9:9; 10:22; 1. Pétursbréf 3:21) Þessar blessanir eru forsmekkur að dýrðarfrelsi barna Guðs sem þjónar Jehóva munu njóta í framtíðinni!

Dýptin í visku og kærleika Guðs

14, 15. Hvernig dregur lausnargjaldið fram hina órannsakandi visku Jehóva, svo og réttlæti hans og kærleika?

14 Lausnargjaldið er sannarlega stórkostleg gjöf frá Jehóva! Þessi ráðstöfun er auðskilin en þó nógu djúpvitur til að fylla mesta gáfumann lotningu. Í yfirliti okkar yfir verkun lausnargjaldsins höfum við aðeins stiklað á stóru. Samt sem áður tökum við undir með Páli postula: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ (Rómverjabréfið 11:33) Viska Jehóva birtist í því að hann gat bæði bjargað mannkyninu og upphafið drottinvald sitt. Vegna lausnargjaldsins „hefur réttlæti Guðs . . . verið opinberað . . . Guð setti [Krist] fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn.“ — Rómverjabréfið 3:21-26.

15 Ekki er hægt að gagnrýna Guð fyrir það að fyrirgefa syndir sem dýrkendur hans fyrir daga kristninnar frömdu. Ekki er heldur hægt að gagnrýna Jehóva fyrir að lýsa hina smurðu réttláta sem syni sína eða múginn mikla sem vini sína. (Rómverjabréfið 8:33) Þótt það kostaði Jehóva Guð mikið hefur hann verið fullkomlega löglegur eða heiðvirður í samskiptum sínum og gjörsamlega hrakið þá lygi Satans að hann sé ranglátur stjórnandi! Óeigingjarn kærleikur Guðs til sköpunarvera sinna hefur einnig sýnt sig umfram allan vafa. — Rómverjabréfið 5:8-11.

16. (a) Á hvaða hátt hefur lausnargjaldið séð fyrir því að deilan um ráðvendni þjóna Guðs sé útkljáð? (b) Hvernig gefur lausnargjaldið okkur grundvöll til trúar á nýjan, komandi réttlætisheim?

16 Deilan um ráðvendni þjóna Guðs hefur líka verið útkljáð með því hvernig séð var fyrir lausnargjaldinu. Hlýðni Jesú ein saman kom því til leiðar. (Orðskviðirnir 27:11; Rómverjabréfið 5:18, 19) En við það má bæta lífsstefnu 144.000 kristinna manna sem eru trúfastir allt til dauða, þrátt fyrir andstöðu Satans! (Opinberunarbókin 2:10) Lausnargjaldið gerir þeim mögulegt að hljóta að launum ódauðleika — óforgengilegt líf! (1. Korintubréf 15:53; Hebreabréfið 7:16) Það gerir þá staðhæfingu Satans fjarstæðukennda að þjónum Guðs sé ekki treystandi! Lausnargjaldið hefur líka gefið okkur traustan grundvöll til að trúa á fyrirheit Guðs. Við getum séð hjálpræðisramma sem er ‚lögtryggður‘ með lausnarfórninni. (Hebreabréfið 8:6NW) Nýr, réttlátur heimur er þannig tryggður! — Hebreabréfið 6:16-19.

Látið það ekki verða til einskis

17. (a) Hvernig sýna sumir að þeir láta tilganginn með lausnargjaldinu verða til einskis? (b) Hvað getur verið okkur hvöt til að halda okkur siðferðilega hreinum?

17 Til að njóta góðs af lausnargjaldinu er nauðsynlegt að afla sér þekkingar, iðka trú og lifa eftir stöðlum Biblíunnar. (Jóhannes 3:16; 17:3) Tiltölulega fáir eru fúsir til að gera það. (Matteus 7:13, 14) Jafnvel meðal sannkristinna manna gerist það að sumir ‚láta náð Guðs, sem þeir hafa þegið, verða til einskis.‘ (2. Korintubréf 6:1) Til dæmis hafa þúsundir verið gerðar rækar gegnum árin fyrir siðferðisbrot. Það er hneisa í ljósi þess sem Jehóva og Kristur hafa gert fyrir okkur! Ætti ekki þakklæti fyrir lausnargjaldið að forða manni frá að ‚gleyma hreinsun fyrri synda sinna‘? (2. Pétursbréf 1:9) Það er því viðeigandi að Páll skuli áminna kristna menn: „Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.“ (1. Korintubréf 6:20) Ef við munum þetta er það okkur sterk hvöt til að halda okkur siðferðilega hreinum! — 1. Pétursbréf 1:14-19.

18. Hvernig getur kristinn maður, sem drýgir alvarlega synd, eftir sem áður notfært sér lausnargjaldið?

18 Hvað á sá einstaklingur að gera sem hefur nú þegar drýgt alvarlega synd? Hann ætti að notfæra sér þá fyrirgefningu sem lausnargjaldið býður upp á og leita aðstoðar ástríkra umsjónarmanna. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Jafnvel þótt harður agi sé nauðsynlegur ætti iðrunarfullur kristinn maður ekki að gefast upp undir slíkri leiðréttingu. (Hebreabréfið 12:5) Við höfum þetta stórkostlega loforð Biblíunnar: „Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“ — 1. Jóhannesarbréf 1:9.

19. Hvernig getur kristinn maður litið á ranga breytni sem átti sér stað áður en hann kynntist sannleikanum?

19 Stundum eru kristnir menn eðlilega niðurdregnir vegna rangrar breytni fortíðarinnar. „Áður en við komum inn í sannleikann,“ skrifaði niðurdreginn bróðir, „fengum við hjónin kynfæraáblástur. Stundum finnst okkur við vera óhrein, rétt eins og við ‚eigum ekki heima‘ í hreinu skipulagi Jehóva.“ Að sjálfsögðu hljóta sumir, eftir að þeir gerast kristnir, að uppskera einhverjar þjáningar vegna mistaka fortíðarinnar. (Galatabréfið 6:7) Þó er engin ástæða fyrir nokkurn að láta sér finnast hann óhreinn í augum Jehóva, ef hann hefur iðrast. „Blóð Krists“ getur ‚hreinsað samvisku okkar frá dauðum verkum.‘ — Hebreabréfið 9:14.

20. Hvernig getur trú á lausnargjaldið létt óþarfri sektarkennd af kristnum manni?

20 Já, trú á lausnargjaldið getur stuðlað að því að létta af okkur óþarfri sektarkennd. Ung systir viðurkenndi: „Ég hef í meira en 11 ár verið að berjast við þann óhreina ósið sem sjálfsfróun er. Einu sinni lá við að ég yfirgæfi söfnuðinn, því mér fannst að Jehóva myndi aldrei vilja að svona viðurstyggileg persóna saurgaði söfnuð hans.“ Við verðum þó að muna að Jehóva er „góður og fús til að fyrirgefa,“ svo lengi sem við berjumst samviskusöm gegn ranglætinu en föllum ekki fyrir því! — Sálmur 86:5.

21. Hvaða áhrif ætti lausnargjaldið að hafa á viðhorf okkar til þeirra sem gera á hlut okkar?

21 Lausnargjaldið ætti líka að hafa áhrif á það hvernig við komum fram við aðra. Hvernig bregst þú til dæmis við þegar kristinn bróðir gerir á hlut þinn? Fyrirgefur þú fúslega eins og Kristur? (Lúkas 17:3, 4) Ert þú ‚miskunnsamur, fús til að fyrirgefa öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið þér‘ eða elur þú með þér óvild og gremju? (Efesusbréfið 4:32) Ef þú gerðir hið síðarnefnda værir þú vissulega að fara á mis við tilganginn með lausnargjaldinu. — Matteus 6:15.

22, 23. (a) Hvaða áhrif ætti lausnargjaldið að hafa á markmið okkar og lífsstíl? (b) Hver ætti að vera ásetningur allra kristinna manna varðandi lausnargjaldið?

22 Loks ætti jákvætt mat á lausnargjaldinu að hafa djúpstæð áhrif á markmið okkar og lífsstíl. Páll sagði: „Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.“ (1. Korintubréf 7:23) Eru fjárhagslegar þarfir — húsnæði, atvinna, fæði og klæði — enn þá þungamiðjan í lífi þínu eða leitar þú Guðsríkis fyrst og treystir á loforð Guðs um að sjá þér farborða? (Matteus 6:25-33) Getur verið að þú þrælir fyrir vinnuveitanda þinn en skapir þér ekki nægilegt svigrúm til guðræðislegra starfa? Munum að Kristur „gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann . . . hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.“ — Títusarbréfið 2:14; 2. Korintubréf 5:15.

23 ‚Þökk sé Guði fyrir Jesú Krist‘ að gefa þessa frábæru gjöf sem lausnargjaldið er! (Rómverjabréfið 7:25) Megum við aldrei láta tilganginn með lausnargjaldinu verða til einskis heldur leyfa því að vera raunverulegt afl í lífi okkar. Megum við, í hugsun, í orði og verki, alltaf vegsama Guð og minnast með þakklátum huga að við erum verði keypt.

Upprifjun

◻ Hvers vegna er blóð álitið heilagt og hvernig var blóð Krists borið fram fyrir Jehóva á himnum?

◻ Hvaða hlutverki gegndi blóð Krists í því að fullgilda nýja sáttmálann?

◻ Hvernig er lausnargjaldið til gagns hinum smurðu og múginum mikla?

◻ Hvernig getum við sýnt að við látum ekki lausnargjaldið verða til einskis?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Friðþægingarmáttur fórnar er fólginn í lífsblóði hennar.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Sá sem metur fyrirgefningu Guðs að verðleikum er fús til að fyrirgefa öðrum.