Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ert þú hæfur til að þjóna?

Ert þú hæfur til að þjóna?

Ert þú hæfur til að þjóna?

„Hæfileiki vor [er] frá Guði.“ — 2. KORINTUBRÉF 3:5.

1. Hvers konar menn er ekki rúm fyrir í kristna söfnuðinum?

 JEHÓVA GUÐ og Jesús Kristur eru starfsamir. Jesús sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ (Jóhannes 5:17) Guð hefur hvorki velþóknun á þeim sem neita að vinna né hinum sem sækjast eftir ábyrgðarstöðum í því augnamiði að geta ráðið yfir öðrum. Í kristna söfnuðinum er hvorki rúm fyrir slæpingja né eigingjarna framagosa. — Matteus 20:25-27; 2. Þessaloníkubréf 3:10.

2. Hvers vegna er mikil þörf núna fyrir karlmenn sem geta borið ábyrgð í kristna söfnuðinum?

2 Vottar Jehóva eru „síauðugir í verki Drottins,“ einkum núna er svo margir streyma til ‚fjallsins‘ þar sem sönn guðsdýrkun fer fram. (1. Korintubréf 15:58; Jesaja 2:2-4) Það er mikil þörf fyrir andlega hæfa karlmenn til að axla ábyrgð í söfnuðinum. Slíkir menn upphefja Jehóva, ekki sjálfa sig, vegna þess að þeir eru ekki keyrðir áfram af eigingjarnri framasýki. (Orðskviðirnir 8:13) Þeir vita að Guð hjálpar þeim að vera hæfir til ábyrgðastarfa í söfnuðinum, alveg eins og hann ‚gerir menn hæfa til að vera þjónar nýs sáttmála.‘ — 2. Korintubréf 3:4-6.

3. Hverjar eru í grundvallaratriðum skyldur öldunga og safnaðarþjóna?

3 Líkt og var meðal frumkristinna manna eru karlmenn skipaðir af heilögum anda gegnum skipulag Jehóva til að þjóna sem öldungar og safnaðarþjónar. (Postulasagan 20:28; Filippíbréfið 1:1; Títusarbréfið 1:5) Öldungar gæta hjarðar Guðs andlega, vernda hana og hafa umsjón með henni. Þeir hafa sér til aðstoðar safnaðarþjóna sem fara ekki með beina, andlega umsjón. (1. Pétursbréf 5:2; samanber Postulasöguna 6:1-6.) Líkt og sonur Guðs, sem kom til að þjóna öðrum, þrá þeir að þjóna trúbræðrum sínum. (Markús 10:45) Hefur þú þennan anda ef þú ert kristinn karlmaður?

Sameiginlegar kröfur

4. Hvar eru fyrst og fremst tíundaðar kröfurnar til þeirra sem falin er ábyrgð í söfnuðinum?

4 Páll postuli ræðir sérstaklega í 1. Tímóteusarbréfi 3:1-10, 12, 13 og Títusarbréfinu 1:5-9 um kröfurnar til þeirra sem treyst er fyrir ábyrgð í söfnuðinum. Sumar þessara krafna eiga jafnt við öldunga og safnaðarþjóna, en þegar við íhugum þær skulum við ekki meta þær eftir veraldlegum staðli. Við ættum að sjá þær í umgjörð fyrstu aldar og skoða hvernig þær eiga við meðal þjóna Jehóva. Það þarf ekki fullkomna menn til að fullnægja þessum kröfum; þá myndi enginn maður gera það. (1. Jóhannesarbréf 1:8) Ef þú ert kristinn karlmaður hvetjum við þig til að brjóta hæfileika þína til mergjar, hvort sem þú gegnir ábyrgðarstarfi í söfnuðinum um þessar mundir eða ekki.

5. Hvað merkir það að vera óaðfinnanlegur?

5 Óaðfinnanlegur; með góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan; ólastanlegur. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 7, 8, 10; Títusarbréfið 1:6, 7) Þegar safnaðarþjónn og öldungur hlýtur útnefningu og meðan hann þjónar sem slíkur verður hann að vera óaðfinnanlegur, það er að segja ámælislaus og ekki þörf að áminna hann vegna réttmætra ásakana um ranga breytni eða kennslu. Óréttmætar ásakanir „falsbræðra“ eða annarra gera mann ekki ámælisverðan. Safnaðarþjónn eða öldungur er ekki settur af fyrir ómerkilegar ásakanir heldur þarf að sanna þær í samræmi við staðla Biblíunnar. (2. Korintubréf 11:26; 1. Tímóteusarbréf 5:19) Sá sem útnefndur er á „að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.“ Sá sem hefur drýgt einhverja alvarlega synd í fortíðinni getur því aðeins hlotið útnefningu að hann hafi bætt líferni sitt þannig að ávirðingar hans hafi gleymst og hann hafi áunnið sér gott mannorð.

6. Hvað merkir það að vera einnar konu eiginmaður?

6 Einnar konu eiginmaður. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 12; Títusarbréfið 1:6) Þessi orð merkja ekki að einungis kvæntir menn geti verið safnaðarþjónar og öldungar. Kvæntur karlmaður má þó aðeins eiga eina eiginkonu á lífi og þarf að vera henni trúr. (Hebreabréfið 13:4) Hann má ekki vera fjölkvænismaður líkt og margir utan kristna safnaðarins voru á fyrstu öld. *

7. (a) Er það aldur sem ræður því hvort karlmaður er hæfur til að vera öldungur? (b) Hvað er fólgið í því að veita heimili sínu góða forstöðu?

7 Maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni. (1. Tímóteusarbréf 3:4, 5, 12; Títusarbréfið 1:6) Sumir telja að öldungur þurfi að vera minnst þrítugur en Biblían tiltekur engan lágmarksaldur. Eigi að síður þarf maðurinn í andlegum skilningi að hegða sér eins og öldungur. Safnaðarþjónar og öldungar ættu að vera nógu gamlir til að geta átt börn. Kvæntur maður er ekki hæfur til útnefningar ef hann hegðar sér guðrækilega utan heimilis en er harðstjóri innan þess. Hann þarf að hafa áunnið sér virðingu fyrir að veita heimili sínu forstöðu í samræmi við meginreglur Biblíunnar, og markmið hans ætti að vera að láta alla í fjölskyldunni standa á traustum fótum andlega. Það er almenn regla að ung börn öldungs séu vel upp alin og „trúuð.“ Annaðhvort skulu þau sækja fram í átt til vígslu til Guðs eða vera skírð sem vottar Jehóva. Ólíklegt er að maður, sem getur ekki byggt upp trú með börnum sínum, geti byggt hana upp hjá öðrum.

8. Hvað þarf fjölskyldumaður að læra áður en hann getur orðið öldungur?

8 Áður en fjölskyldumaður getur verið öldungur, fær um að veita söfnuði andlega umsjón, þarf hann að kunna að stýra eigin heimili. ‚Ef einhver hefur ekki vit á að veita heimili sínu forstöðu, hvernig má hann veita söfnuði Guðs umsjón?‘ (1. Tímóteusarbréf 3:5) Að vísu getur verið að konan hans sé ekki í trúnni og vinni gegn honum. (Matteus 10:36; Lúkas 12:52) Eins getur verið að eitt af börnum hans geri sig sekt um alvarlega synd, þótt hin séu andlega heilbrigð. Ef fjölskyldufaðirinn hefur gert allt sem hægt er að ætlast til af honum, einkum þó ef hinum í fjölskyldunni hefur vegnað vel andlega, þá er ekki sjálfgefið að hann sé óhæfur til að vera safnaðarþjónn eða öldungur þótt einn úr fjölskyldunni hafni góðri handleiðslu hans.

9. Hvaða aðgát þurfa öldungar og safnaðarþjónar að sýna í meðferð áfengis?

9 Ekki drykkfelldur eða sólginn í vín. (1. Tímóteusarbréf 3:3, 8; Títusarbréfið 1:7) Safnaðarþjónn eða öldungur má ekki neyta áfengis í óhófi. Sé hann háður áfengi getur hann misst stjórn á hugsunum sínum og tilfinningum og leiðst út í rifrildi eða drykkjuáflog. Hann ætti ekki að vera ‚sólginn í vín‘ eða hafa á sér orð fyrir að vera drykkfelldur. (Orðskviðirnir 23:20, 21, 29-35) Það væri sorglegt ef taumleysi myndi spilla hirðisheimsókn! Ef bróðir neytir áfengis yfirleitt ætti hann ekki að gera það fyrir samkomur, þjónustuna á akrinum eða aðra heilaga þjónustu. — 3. Mósebók 10:8-11; Esekíel 44:21.

10. Hvers vegna eru fégjarnir menn fíknir í óheiðarlegan gróða ekki hæfir sem öldungar eða safnaðarþjónar?

10 Ekki fégjarn eða sólginn í ljótan gróða. (1. Tímóteusarbréf 3:3, 8; Títusarbréfið 1:7) Fégráðugir menn setja sig í andlegan háska og „ásælnir“ menn munu ekki erfa Guðsríki. Slíkir menn eru því ekki hæfir til að vera öldungar eða safnaðarþjónar. (1. Korintubréf 6:9, 10; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Frummerking grísku orðrótarinnar, sem þýdd er „ljótur, (óheiðarlegur, NW),“ er „svívirðilegur“ og það sem þýtt er „gróði“ á við hvers kyns hagnað eða ábata. (Filippíbréfið 1:21; 3:4-8) Ef eitthvað bendir til að maður myndi fara óheiðarlega með „sauði“ Guðs er hann auðvitað ekki hæfur til ábyrgðarstarfa í söfnuðinum. (Esekíel 34:7-10; Postulasagan 20:33-35; Júdasarbréfið 16) Varúð er tvímælalaust nauðsynleg í sambandi við útnefningar ef haft er í huga að þjóni kann að vera treyst fyrir fjármunum og hann gæti freistast til að stela af þeim. — Jóhannes 12:4-6.

11. Hvers vegna ætti ekki að mæla með þeim sem er „nýr í trúnni“ til ábyrgðar í söfnuðinum?

11 Ekki nýr í trúnni; fyrst reyndur. (1. Tímóteusarbréf 3:6, 10) Nýlega skírður maður hefur ekki haft tíma til að sanna að hann muni rækja þær skyldur, sem honum er treyst fyrir, af trúmennsku. Hann getur skort samkennd með þeim sem þjást eða visku til að hjálpa trúbræðrum sínum, eða þá jafnvel litið niður á aðra. Áður en mælt er með manni sem safnaðarþjóni, og þó einkum sem öldungi, er því nauðsynlegt að hann sé ‚fyrst reyndur‘ og sýni merki góðrar dómgreindar og áreiðanleika. Ekki er tilgreint hve langur þessi reynslutími þarf að vera og andlegur vaxtarhraði manna er misjafn, en öldungar ættu ekki að flýta sér um of „til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn.“ Látið hann fyrst sýna auðmýkt líkt og Kristur. — Filippíbréfið 2:5-8.

Kröfur til safnaðarþjóna

12. Ber einungis safnaðarþjónum að fullnægja þeim kröfum sem taldar eru upp fyrir þá?

12 Sumar kröfur eru nefndar sérstaklega í sambandi við safnaðarþjóna. Reyndar væru öldungar líka óhæfir til þjónustu ef þeir uppfylltu þær ekki. Ert þú hæfur á þessum sviðum?

13. Hvað merkir það að vera alvarlegur?

13 Alvarlegur. (1. Tímóteusarbréf 3:8NW) Bróðir, sem vill sýna sig hæfan sem safnaðarþjón, má ekki vera léttúðugur gagnvart ábyrgð. Hann ætti að hegða sér virðulega þannig að hann ávinni sér virðingu annarra. Þótt spaugsemi sé ekki óviðeigandi af og til er hann ekki hæfur ef hann er léttúðugur og alvörulaus að jafnaði.

14. (a) Hvað merkir það að vera ekki tvímælismaður? (b) Hvað útheimtir það að hafa hreina samvisku?

14 Ekki tvímælismaður; hafi hreina samvisku. (1. Tímóteusarbréf 3:8, 9) Safnaðarþjónar (og öldungar) verða að vera sannsöglir, ekki slúðurgefnir né útsmognir. Þeir mega ekki tala tveim tungum og hræsna með því að segja eitt við þennan og annað við hinn. (Orðskviðirnir 3:32; Jakobsbréfið 3:17) Þeir verða líka að vera óhagganlegir stuðningsmenn hins opinberaða sannleika og ‚varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku.‘ Frammi fyrir Guði ætti samviska slíkra manna að bera þess vitni að þeir séu ráðvandir og iðki ekkert sem ekki þolir dagsins ljós eða saurgar þá. (Rómverjabréfið 9:1; 2. Korintubréf 1:12; 4:2; 7:1) Enginn er hæfur til að þjóna hjörð Guðs nema hann haldi sér fast við sannleikann og meginreglur Guðs.

Kröfurnar til öldunga

15. Hvaða kröfur skoðum við núna og hvaða sérstök ábyrgð fylgir þeim?

15 Vissar kröfur eiga fyrst og fremst við öldunga og varða að miklu leyti starf þeirra sem hirðar og kennarar. Uppfyllir þú sem ert kristinn karlmaður þessar kröfur?

16. (a) Hvað felst í því að vera hófsamur í venjum? (b) Hvernig getur öldungur varðveitt sjálfstjórn?

16 Hófsamur í háttum; iðki sjálfstjórn. (1. Tímóteusarbréf 3:2; Títusarbréfið 1:8NW) Öldungur ætti að vera stillilegur og hófsamur, ekki þræll slæmra ávana. Þegar hann lendir í prófraunum hjálpar Guð honum að halda jafnvægi ef hann biður eins og sálmaritarinn: „Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.“ (Sálmur 25:17) Umsjónarmaður ætti líka að biðja um anda Guðs og bera ávöxt hans, meðal annars sjálfstjórn. (Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23) Öldungur sem hefur stjórn á hugsun sinni, tali og verkum forðast öfgar er hann leiðbeinir söfnuðinum andlega.

17. Hvað felst í því að vera heilbrigður í hugsun?

17 Heilbrigður í hugsun. (1. Tímóteusarbréf 3:2NW) Öldungur þarf að vera skynsamur, varfærinn og forsjáll. Hann ætti að vera stefnufastur og rökvís í tali og verkum. Auðmjúk og öfgalaus hugsun hans byggist á visku frá Guði og hinni heilnæmu kenningu orðs Jehóva sem hann ætti að nema kappsamlega. — Rómverjabréfið 12:3; Títusarbréfið 2:1.

18. Hvernig sýnir öldungur af sér reglufestu?

18 Reglufastur. (1. Tímóteusarbréf 3:2NW) Gríska orðið, sem hér er notað, er þýtt „snyrtilegur“ í 1. Tímóteusarbréfi 2:9, samkvæmt orðalagi Nýheimsþýðingarinnar. Öldungur ætti því að fylgja regluföstu lífsmynstri sem er til fyrirmyndar. Til dæmis ætti hann að vera stundvís. Ljóst er að kristnir menn á fyrstu öld lögðu ekki mikla áherslu á skýrslugerð og umsjónarmaður þarf ekki að vera sérfræðingur í bókhaldi eða skrifstofustörfum. Safnaðarþjónar geta ef til vill annast það sem nauðsynlegt er á þessum sviðum. En gríska orðið, sem þýtt er „reglufastur,“ getur falið í sér góða hegðun og maður væri tvímælalaust óhæfur til að gegna starfi öldungs ef hann væri óstýrilátur eða óskipulegur í háttum. — 1. Þessaloníkubréf 5:14; 2. Þessaloníkubréf 3:6-12; Títusarbréfið 1:10.

19. Hvernig sýnir öldungur af sér reglufestu?

19 Gestrisinn. (1. Tímóteusarbréf 3:2; Títusarbréfið 1:8) Öldungur ‚stundar gestrisni.‘ (Rómverjabréfið 12:13; Hebreabréfið 13:2) Gríska orðið, sem þýtt er „gestrisinn,“ merkir bókstaflega „hrifinn af ókunnugum.“ Gestrisinn öldungur býður því nýja velkomna á kristnar samkomur og sýnir fátækum jafnmikinn áhuga og þeim sem vel eru settir. Hann er gestrisinn við þá sem ferðast í þágu kristninnar og „greiðir för þeirra eins og verðugt er fyrir Guði.“ (3. Jóhannesarbréf 5-8) Öldungur sýnir gestrisni einkum trúbræðrum sínum í samræmi við þarfir þeirra og eigin aðstæður. — Jakobsbréfið 2:14-17.

20. Á hvaða vegu þarf öldungur að vera hæfur kennari?

20 Góður fræðari. (1. Tímóteusarbréf 3:2) Hæfni öldungs sem andlegs kennara kemur ekki til af sérstökum gáfum eða veraldlegri visku. (1. Korintubréf 2:1-5, 13) Hún kemur til af því að hann er „fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.“ (Títusarbréfið 1:9; samanber Postulasöguna 20:18-21, 26, 27.) Hann þarf að vera „hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti.“ (2. Tímóteusarbréf 2:23-26) Jafnvel þótt öldungur sé ekki besti ræðumaður safnaðarins á hann að vera svo góður nemandi í orði Guðs að hann geti frætt og leiðbeint fagmannlega trúbræðrum sínum sem einnig nema Biblíuna. (2. Korintubréf 11:6) Hann þarf að vera hæfur til að miðla „hinni heilnæmu kenningu“ sem hjálpar fjölskyldum og einstaklingum að lifa í guðrækni. — Títusarbréfið 2:1-10.

21. (a) Hvernig sýnir öldungur að hann er ekki ofsafenginn? (b) Hvað merkir það að vera sanngjarn? (c) Hvað merkir það að vera ekki deilugjarn?

21 Ekki ofsafenginn heldur sanngjarn, ekki deilugjarn. (1. Tímóteusarbréf 3:3NW; Títusarbréfið 1:7) Öldungur er friðsamur og beitir því hvorki bókstaflegu valdi né hræðir menn með ofstopa eða meiðandi orðum. (Samanber 2. Korintubréf 11:20.) (Á undan kom fram að hann væri hvorki ‚drykkfelldur né ofsafenginn‘ sem sýnir að hann forðast misnotkun áfengis sem leiðir oft til deilna.) Öldungur er „sanngjarn“ (eða „eftirlátur“), ekki einræðislegur, kröfuharður né smámunasamur. (1. Korintubréf 9:12; Filippíbréfið 4:5; 1. Pétursbréf 2:18) Þar eð öldungur er ekki deilugjarn forðast hann rifrildi; hann er ‚ódeilugjarn.‘ — Títusarbréfið 3:2; Jakobsbréfið 1:19, 20.

22. Hvað felst í því að öldungur má ekki vera sjálfbirgingur?

22 Ekki sjálfbirgingur. (Títusarbréfið 1:7) Orðið merkir bókstaflega „sem þóknast ekki sjálfum sér.“ (Samanber 2. Pétursbréf 2:10.) Öldungur má ekki vera kreddufastur heldur vera hógvær í mati á eigin hæfileikum. Honum finnst ekki að hann geri alla hluti betur en aðrir heldur deilir auðmjúkur ábyrgð með öðrum og metur mikils að eiga marga ráðgjafa. — 4. Mósebók 11:26-29; Orðskviðirnir 11:14; Rómverjabréfið 12:3, 16.

23. (a) Skilgreindu hvað það merkir að vera „góðgjarn.“ (b) Hvað merkir það að vera réttlátur?

23 Góðgjarn, réttlátur. (Títusarbréfið 1:8) Karlmaður þarf að elska það sem gott er og vera réttlátur til að vera hæfur sem öldungur. Hann elskar það sem gott er í augum Jehóva, er hjálpsamur og góðgjarn við aðra og sýnir að hann kunni að meta gæsku annarra. (Lúkas 6:35; samanber Postulasöguna 9:36, 39; 1. Tímóteusarbréf 5:9, 10.) Að vera réttlátur merkir að halda sér við lög Guðs og staðla. Meðal annars er slíkur maður óhlutdrægur og hefur hugfast það sem er rétt, hreint og dyggðugt. (Lúkas 1:6; Filippíbréfið 4:8, 9; Jakobsbréfið 2:1-9) Góðgirni er ólík réttlæti í því að hún gengur lengra en réttvísin krefst, þannig að góðgjarn maður gerir meira fyrir aðra en krafist er af honum. — Matteus 20:4, 13-15; Rómverjabréfið 5:7.

24. Hvernig birtist hollusta?

24 Drottinhollur. (Títusarbréfið 1:8NW) Sá sem er hæfur til að vera öldungur varðveitir órjúfanlega hollustu við Guð og hlýðir lögum hans, óháð því hve reynir á ráðvendni hans. Hann gerir það sem Jehóva ætlast til af honum og það felur í sér að vera trúfastur boðberi Guðsríkis. — Matteus 24:14; Lúkas 1:74, 75; Postulasagan 5:29; 1. Þessaloníkubréf 2:10.

Að uppfylla skilyrðin

25. Hverjir þurfa að uppfylla þær kröfur sem við höfum rætt og hvernig er það hægt?

25 Flestar af þeim kröfum, sem hér hafa verið ræddar, varða atriði sem krafist er af sérhverjum votti Jehóva, og hægt er að fullnægja þeim ef Guð blessar viðleitni okkar til að nema, biðja og rækja góðan félagsskap. Allir hafa sínar sterku og veiku hliðar, en safnaðarþjónar og öldungar verða að sanngjörnu marki að uppfylla öll skilyrðin sem fylgja þjónustusérréttindum þeirra.

26. Hvers vegna bjóða kristnir karlmenn sig fram til ábyrgðar í söfnuðinum?

26 Allir vottar Jehóva ættu að gera allt sem þeir geta í þjónustu Guðs. Sá andi gerir kristna karlmenn fúsa til að gegna ábyrgð í söfnuðinum. Ert þú vígður, skírður karlmaður? Ef svo er skalt þú sækjast eftir þjónustusérréttindum og gera allt sem þú getur til að verða hæfur fyrir þau!

[Neðanmáls]

^ Sjá einnig Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. mars 1983, bls. 29, undir millifyrirsögninni „Scriptural Divorce.“

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna er mikil þörf á því núna að kristnir karlmenn taki á sig ábyrgð í söfnuðinum?

◻ Nefndu sumar af þeim kröfum sem gerðar eru til safnaðarþjóna.

◻ Nefndu sumar af þeim kröfum sem gerðar eru til öldunga.

◻ Hvers vegna þarf öldungur að hafa vit á að veita heimili sínu góða forstöðu?

◻ Hvað fær kristna karlmenn til að bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa í söfnuðinum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28, 29]

Öldungar og safnaðarþjónar ættu að veita heimilum sínum forstöðu í samræmi við meginreglur Biblíunnar.