Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gefum gaum að spámannlegu orði Guðs!

Gefum gaum að spámannlegu orði Guðs!

Gefum gaum að spámannlegu orði Guðs!

Meginatriði 2. Pétursbréfs

SPÁMANNLEGT orð Jehóva er eins og ljós sem skín á myrkum stað og sannkristnir menn þurfa að gefa því nákvæman gaum. Það er ekki auðvelt þegar falskennarar kynda undir fráhvarfi frá trúnni. Það er þó hægt með Guðs hjálp. Við verðum að halda okkur einbeitt við orð Guðs ef við eigum að lifa af dag Jehóva sem nálgast óðfluga.

Hið síðara innblásna bréf Péturs postula getur hjálpað okkur að gefa gaum að spádómsorði Guðs. Pétur skrifaði bréfið ef til vill í Babýlon nálægt árinu 64. Í bréfi sínu heldur hann á lofti sannleika Guðs, varar trúbræður sína við því að dagur Jehóva komi eins og þjófur og hjálpar lesendum sínum til að láta ekki villukenningar löglausra manna leiða sig burt. Með því að dagur Jehóva er nánast runninn upp getum við haft mikið gagn af innblásnum orðum Péturs!

Treystum hinu spámannlega orði

Sem kristnir menn verðum við að leggja okkur fram um að sýna guðrækilega eiginleika og gefa gaum að hinu spámannlega orði. (2Pé 1:1-21) Til að við verðum ekki óvirk eða ávaxtalaus þurfum við að ‚auðsýna í trú okkar dyggð, þekkingu, sjálfsögun, þolgæði, guðrækni, bróðurelsku og kærleika.‘ Er Pétur sá Jesús ummyndast og heyrði Guð tala um Krist við það tækifæri gerði það hið spámannlega orð enn áreiðanlegra fyrir hann. (Markús 9:1-8) Við þurfum að gefa gaum að þessu innblásna orði Guðs.

Stöndum gegn fráhvarfsmönnum

Við getum staðið gegn fráhvarfsmönnum og öðrum spilltum mönnum með því að gefa nákvæman gaum að spámannlegu orði Guðs. (2:1-22) Pétur varaði við því að falskennarar myndu læðast inn í söfnuðinn. Jehóva myndi hins vegar fella harðan dóm yfir þessum fráhvarfsmönnum, líkt og hann dæmdi hina óhlýðnu engla, hinn óguðlega heim á dögum Nóa og borgirnar Sódómu og Gómorru. Falskennararnir fyrirlíta yfirvald frá Guði og tæla þá sem veikir eru út í ranga breytni með sér. Það hefði verið betra fyrir slíka fráhvarfsmenn að hafa „ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið.“

Dagur Jehóva kemur!

Við sem gefum gaum að hinu spámannlega orði á síðustu dögum megum ekki láta spottara, sem gera gys að boðskapnum um nærveru Jehóva, hafa áhrif á okkur. (3:1-18) Þeir gleyma að sá Guð, sem hefur áformað að eyða þessu heimskerfi, eyddi heiminum fyrir flóðið. Ekki ætti að líta á þolinmæði Jehóva sem seinlæti því að hann vill að fólk iðrist. Þessu heimskerfi verður eytt á degi Jehóva og í stað þess mun koma ‚nýr himinn og ný jörð þar sem réttlæti býr.‘ Við ættum því að gera okkar ýtrasta til að „vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.“ Við skulum, í stað þess að láta falskennara afvegaleiða okkur, vaxa í þekkingu á Jesú Kristi.

Við skulum taka til okkar orð Péturs. Slökum aldrei á verði okkar gegn falskennurum. Höfum þá vissu ljóslifandi fyrir hugskotssjónum að dagur Jehóva kemur brátt. Og gefum alltaf gaum að spámannlegu orði Guðs.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 21]

Kastað í undirdjúpin: „Ekki þyrmdi [Jehóva] englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin [á grísku tartaros] og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins.“ (2. Pétursbréf 2:4) Hér er ekki átt við hið goðsögulega Tartaros í Ilíonskviðu Hómers þar sem minniháttar falsguðir, Krónus og aðrir Títanar, áttu að vera fangelsaðir. Tartaros Biblíunnar er ástand niðurlægingar og fjötra þangað sem Guð varpaði óhlýðnum englum á dögum Nóa. (1. Mósebók 6:1-8; 1. Pétursbréf 3:19, 20; Júdasarbréfið 6) ‚Myrkrið,‘ sem þeir búa við, er afleiðing þess að þeir eru útilokaðir frá andlegu ljósi Guðs. Þeir hafa verið gerðir rækir úr fjölskyldu hans. Þeirra bíður harður dómur af hans hendi svo að framtíðarhorfur þeirrar eru einungis dökkar. Tartaros er undanfari þess að Satan og illum öndum hans verði varpað í undirdjúpið áður en þúsundáraríki Krists hefst. Þeim verður eytt eftir að Kristur hefur ríkt í þúsund ár. — Matteus 25:41; Opinberunarbókin 20:1-3, 7-10, 14.

[Mynd]

Seifur kastaði lágt settum guðum í Tartaros samkvæmt goðafræði Grikkja.

[Rétthafi]

National Archaeological Museum, Athens, Greece.