Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna við þörfnumst trúar og visku

Hvers vegna við þörfnumst trúar og visku

Hvers vegna við þörfnumst trúar og visku

Meginatriði Jakobsbréfsins

ÞJÓNAR Jehóva þurfa að sýna þolgæði í prófraunum. Þeir verða líka að forðast syndir sem myndu baka þeim vanþóknun Guðs. Lögð er áhersla á slík atriði í Jakobsbréfinu, og það kallar á virka trú og himneska visku að gera eitthvað jákvætt við þeim.

Ritari þessa bréfs segist ekki vera annar af tveim postulum Jesú er nefndust Jakob, heldur ‚þjónn Guðs og Krists.‘ Júdas, hálfbróðir Jesú, segist einnig vera „þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs.“ (Jakobsbréfið 1:1; Júdasarbréfið 1; Matteus 10:2, 3) Það var því bersýnilega Jakob, hálfbróðir Jesú, sem skrifaði bréfið er ber nafn hans. — Markús 6:3.

Bréf þetta getur ekki um eyðingu Jerúsalem árið 70 og ráða má af ritum Jósefusar að Jakob hafi dáið píslarvættisdauða skömmu eftir dauða rómverska landstjórans Festusar árið 62. Það er því næsta víst að bréfið hafi verið skrifað fyrir árið 62. Það er stílað til hinna ‚tólf kynkvísla‘ andlegu Ísraelsþjóðarinnar, því að það talar til þeirra sem ‚trúa á dýrðardrottin vorn, Jesú Krist.‘ — Jakobsbréfið 1:1; 2:1; Galatabréfið 6:16.

Jakob bregður fyrir sig líkingum sem geta hjálpað okkur að muna eftir heilræðum hans. Til dæmis bendir hann á að sá sem biður Guð um visku ætti ekki að efast því að „sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.“ (1:5-8) Við ættum að hafa stjórn á tungu okkar því að hún getur ráðið stefnu okkar líkt og stýri á skipi. (3:1, 4) Til að halda út í prófraunum þurfum við að sýna þolgæði eins og bóndinn er hann bíður uppskerunnar. (5:7, 8)

Trú, prófraunir og verk

Jakob bendir á í byrjun að við getum, þrátt fyrir þrengingar okkar, verið hamingjusamir sem kristnir menn. (1:1-18) Sumar þessara þrenginga, svo sem veikindi, eru hlutskipti allra manna en kristnir menn þjást líka vegna þess að þeir eru þrælar Guðs og Krists. Jehóva mun veita okkur nauðsynlega visku til að halda út ef við höldum áfram að biðja hennar í trú. Hann reynir okkur aldrei með hinu illa og við getum treyst á að hann veiti okkur það sem gott er.

Til að hljóta hjálp Guðs verðum við að tilbiðja hann með verkum sem bera vitni um trú okkar. (1:19-2:26) Það útheimtir að við séum „gjörendur orðsins,“ ekki aðeins heyrendur. Við verðum að stýra tungunni, líta eftir munaðarleysingjum og ekkjum og varðveita okkur óflekkaða af heiminum. Ef við gerðum upp á milli ríkra og fátækra værum við að brjóta „hið konunglega boðorð“ kærleikans. Við þurfum líka að muna að trú birtist í verkum eins og vel mátti sjá hjá Abraham og Rahab. Já, ‚trúin er dauð án verka.‘

Himnesk viska og bæn

Kennarar þarfnast bæði trúar og visku til að leysa skyldur sínar af hendi. (3:1-18) Þeir bera mjög þunga ábyrgð sem fræðarar. Líkt og þeir verðum við að hafa stjórn á tungunni, og himnesk viska hjálpar okkur til þess.

Viska gerir okkur líka ljóst að við myndum skaða samband okkar við Guð ef við létum undan veraldlegum tilhneigingum. (4:1-5:12) Ef við höfum barist fyrir því að ná eigingjörnum markmiðum eða fordæmt bræður okkar, þá þurfum við að iðrast. Það er afar mikilvægt að forðast vináttu við þennan heim því að hún jafngildir andlegum hórdómi! Við skulum aldrei láta efnisshyggjuáform koma okkur til að virða vilja Guðs að vettugi, og við getum þurft að varast óþolinmæði og kvörtunarhug hver gagnvart öðrum.

Sá sem er andlega sjúkur ætti að leita hjálpar safnaðaröldunganna. (5:13-20) Ef syndir hafa verið drýgðar munu bænir þeirra og viturleg ráð hjálpa iðrunarfullum syndara að endurheimta andlega heilsu sína. „Hver sem snýr syndara frá villu vegar hans mun frelsa sálu hans frá [andlegum og eilíum] dauða.“

[Rammi á blaðsiðu 19]

Gjörendur orðsins: Við ættum að vera „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“ (Jakobsbréfið 1:22-25) Sá sem aðeins er heyrandi orðsins er „líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.“ Eftir stutta skoðun fer hann burt „og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.“ En ‚gjörandi orðsins‘ skoðar vandlega hið fullkomna eða heilsteypta lögmál Guðs og tekur til sín hvaðeina sem krafist er af kristnum manni. Hann „heldur sér við það,“ heldur áfram að rýna í þetta lögmál í því augnamiði að lagfæra það sem þarf til að fylgja því náið. (Sálmur 119:16) Hvernig er ‚gjörandi orðsins‘ ólíkur manni sem lítur eitt augnablik í spegil og gleymir síðan því sem hann sá þar? Þannig að gjörandi orðsins notfærir sér orð Jehóva og nýtur hylli hans! — Sálmur 19:7-11.