Samsvarandi lausnargjald fyrir alla
Samsvarandi lausnargjald fyrir alla
„Mannssonurinn er ekki kominn til að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ — MATTEUS 20:28.
1, 2. (a) Hvers vegna má segja að lausnargjaldið sé mesta gjöf Guðs til mannkynsins? (b) Hvaða gagn er okkur að því að kynna okkur lausnargjaldið?
LAUSNARGJALDIÐ er mesta gjöf Guðs til mannkyns. Vegna ‚endurlausnarinnar‘ getum við hlotið „fyrirgefningu afbrota vorra.“ (Efesusbréfið 1:7) Það er grundvöllur vonarinnar um eilíft líf, hvort heldur á himnum eða á jörð sem verður paradís. (Lúkas 23:43; Jóhannes 3:16) Og vegna hennar geta kristnir menn staðið hreinir frammi fyrir Guði nú þegar. — Opinberunarbókin 7:14, 15.
2 Lausnargjaldið er því ekki eitthvað óljóst eða fræðilegt. Lausnargjaldið á sér meginreglur Guðs sem lagagrundvöll og getur því verið manninum til raunverulegs, áþreifanlegs gagns. Viss atriði þessarar kennisetningar geta verið ‚þungskilin‘ en þér mun reynast það vel þess virði að kynna þér lausnargjaldið vandlega því að það endurspeglar hinn mikla kærleika Guðs til mannkynsins. (2. Pétursbréf 3:16) Að skilja merkingu lausnargjaldsins jafngildir því að skilja eitt aðalatriði hins órannsakandi „ríkdóms, speki og þekkingar Guðs.“ — Rómverjabréfið 5:8; 11:33.
Deilumál sem þurfti að útkljá
3. Hvernig kom þörfin fyrir lausnargjald til og hvers vegna gat Guð ekki einfaldlega afsakað syndugt eðli mannkyns?
3 Þörfin fyrir lausnargjald kom til vegna syndar hins fyrsta manns, Adams, sem gaf afkomendum sínum fánýtan arf fólginn í sjúkdómum, veikindum, sorg og sársauka. (Rómverjabréfið 8:20) Vegna síns arfgenga ófullkomleika eru allir afkomendur Adams “reiðinnar börn“ og verðskulda dauða. (Efesusbréfið 2:3; 5. Mósebók 32:5) Guð gat ekki látið tilfinningasemi ráða ferðinni og einfaldlega fyrirgefið mannkyninu eins og ekkert væri. Hans eigið orð sýnir að „laun syndarinnar er dauði.“ (Rómverjabréfið 6:23) Til að afsaka syndsemi mannkynsins hefði Guð þurft að láta réttláta staðla sjálfs sín lönd og leið og ógilda eigin réttvísi! (Jobsbók 40:8) En „réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis [Guðs].“ (Sálmur 89:15) Sérhvert frávik hans frá réttlætinu myndi einungis hvetja lögbrjóta til dáða og grafa undan stöðu hans sem drottinvaldur alheimsins. — Samanber Prédikarann 8:11.
4. Hvaða deilumál kom upp við uppreisn Satans?
4 Guð þurfti líka að útkljá önnur deilumál sem upp komu við uppreisn Satans, langtum þýðingarmeiri deilumál en þau sem vörðuðu erfiða stöðu mannsins. Satan varpaði dimmum skugga á hið góða nafn Guðs með því að saka Jehóva um að vera lygari og grimmur harðstjóri er synjaði sköpunarverum sínum um þekkingu og frelsi. (1. Mósebók 3:1-5) Enn fremur lét Satan það líta út sem Guði hefði mistekist er svo var að sjá sem Satan hefði tekist að koma í veg fyrir þann tilgang Guðs að fylla jörðina réttlátum mönnum. (1. Mósebók 1:28; Jesaja 55:10, 11) Satan gerðist líka svo djarfur að rægja drottinholla þjóna Guðs og saka þá um að þjóna honum aðeins af eigingjörnum hvötum. Satan talaði digurbarkalega um það að enginn þeirra myndi sýna Guði hollustu ef á þá reyndi! — Jobsbók 1:9-11.
5. Hvers vegna gat Guð ekki látið ögranir Satans sem vind um eyru þjóta?
5 Þessum ásökunum varð að svara. Ef þeim væri ósvarað myndi smám saman grafa undan trausti og stuðningi við stjórn Guðs. (Orðskviðirnir 14:28) Myndi ekki alheimurinn fara á annan endann ef ekki væri haldið uppi lögum og reglu? Guði var því skylt gagnvart sjálfum sér og réttlátum vegum sínum að upphefja drottinvald sitt. Honum var skylt gagnvart trúföstum þjónum sínum að leyfa þeim að sýna honum órjúfanlega hollustu. Það útheimti að tekið yrði á neyð syndugs mannkyns með þeim hætti að það hefði fordæmisgildi í hinum alvarlegu deilumálum. Hann sagði Ísrael síðar: „Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna.“ — Jesaja 43:25.
Lausnargjald breiðir yfir
6. Nefndu nokkur hugtök sem Biblían notar til að lýsa hjálpræðisleið Guðs fyrir mannkyn.
6 Í Sálmi 92:6 lesum við: „Hversu mikil er verk þín, [Jehóva], harla djúpar hugsanir þínar.“ Það kostar því viðleitni af okkar hálfu að skilja hvað Guð gerði fyrir mannkynið. (Samanber Sálm 36:6, 7.) Til allrar hamingju hjálpar Biblían okkur að skilja málið með því að nota fjölmörg hugtök sem lýsa eða skýra nánar hin miklu verk Guðs frá ýmsum sjónarhornum. Biblían talar um lausnargjald, friðþægingu, kaup, sátt og endurlausn. (Sálmur 49:9; Daníel 9:24; Galatabréfið 3:13; Kólossubréfið 1:20; Hebreabréfið 2:17) En ef til vill er ráðstöfun Guðs best lýst með orðum Jesú sjálfs í Matteusi 20:28: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds [á grísku lytron] fyrir marga.“
7, 8. (a) Hvað lærum við af grísku og hebresku orðunum fyrir lausnargjald? (b) Lýstu með dæmi hvernig lausnargjald felur í sér samsvörun.
7 Hvað er lausnargjald? Gríska orðið lytron er myndað af sögn sem merkir „að leysa.“ Það var notað um fjárupphæð sem greidd var til að fá stríðsfanga leysta úr haldi. Í Hebresku ritningunum er hins vegar notað orðið kófer, dregið af sögn sem merkir „að hylja“ eða „leggja yfir.“ Guð sagði til dæmis Nóa að þekja (kafar) örkina með tjöru. (1. Mósebók 6:14) Frá þessum sjónarhóli merkir því lausnargjald eða friðþæging fyrir syndir að breiða yfir syndir. — Sálmur 65:4.
8 Orðabókin Theological Dictionary of the New Testament nefnir að kófer „merki alltaf jafngildi“ eða samsvörun. Þannig samsvaraði lok (kapporeþ) sáttmálsarkarinnar örkinni sjálfri að lögun. Á sama hátt krefst réttvísi Guðs þess að goldið sé ‚líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fótur fyrir fót‘ þegar friðþægt er fyrir synd. (5. Mósebók 19:21) Stundum var þó hægt að fullnægja réttvísinni ef eitthvað jafngilt var boðið fram í stað strangrar refsingar. Tökum dæmi: Önnur Mósebók 21:28-32 talar um naut sem rekur mann í gegn og verður honum að bana. Ef eigandanum var kunnugt um eðlisfar nautsins en gerði ekki viðeigandi varúðarráðstafanir var hægt að láta hann breiða yfir eða gjalda fyrir líf hins látna með sínu eigin! En hvað þá ef eigandinn var einungis ábyrgur að hluta til? Þá þurfti hann kófer, eitthvað til að breiða yfir sekt sína. Skipaðir dómarar gátu kveðið á um lausnargjald eða sekt er hann þyrfti að reiða af hendi.
9. Hvernig má sjá af viðskiptum Guðs varðandi frumburði Ísraelsmanna að lausnargjald þurfti að vera nákvæmt?
9 Annað hebreskt orð skylt sögninni „að greiða lausnargjald“ er padhah, sagnorð sem merkir í grundvallaratriðum „að kaupa aftur.“ Fjórða Mósebók 3:39-51 lýsir því hve nákvæmt lausnarverðið þurfti að vera. Guð átti frumburði Ísraelsmanna eftir að hafa bjargað þeim frá lífláti á páskum árið 1513 f.o.t. Hann hefði því getað krafist þess að hver einasti frumgetinn sonur Ísraelsmanna þjónaði honum í musterinu. Þess í stað tók Guð við ‚lausnargjaldi‘ (pidhyohm, nafnorð dregið af padhah) og lýsti yfir: „Tak þú levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna.“ En lausnargjaldið varð að vera nákvæmt. Tekið var manntal meðal Levíættkvíslar: 22.000 karlmenn. Þessu næst voru allir frumburðir Ísraelsmanna taldir: 22.273 karlmenn. Aðeins með því að greiða „lausnargjald“ er nam fimm siklum fyrir hvern einstakling var hægt að endurkaupa hina 273 frumburði, sem voru fram yfir, til að undanþiggja þá þjónustu við musterið.
Samsvarandi lausnargjald
10. Hvers vegna gátu dýrafórnir ekki breitt fyllilega yfir syndir mannkyns?
10 Af framansögðu má sjá að lausnargjald þarf að jafngilda því sem það kemur í staðinn fyrir eða breiðir yfir. Dýrafórnirnar, sem trúaðir menn allt frá Abel færðu, gátu ekki í raun breitt yfir syndir manna, því að menn eru æðri skynlausum skepnum. (Sálmur 8:5-9) Páll gat því skrifað að ‚blóð nauta og hafra gæti með engu móti numið burt syndir.‘ Slíkar fórnir gátu einungis verið táknræn friðþæging meðan beðið væri þess lausnargjalds sem koma átti. — Hebreabréfið 10:1-4.
11, 12. (a) Hvers vegna þurftu þúsundir milljóna manna ekki að deyja fórnardauða til að breiða yfir syndsemi mannkyns? (b) Hver einn gat verið „samsvarandi lausnargjald“ og hvaða tilgangi þjónar dauði hans?
11 Þetta lausnargjald, sem gefin var fyrirmynd um, varð að vera nákvæmt jafngildi Adams, því að dauðarefsingin, sem Guð fullnægði réttilega á Adam, hafði í för með sér fordæmingu mannkynsins. „Allir deyja fyrir samband sitt við Adam,“ segir 1. Korintubréf 15:22. Það var því ekki nauðsynlegt að þúsundir milljóna manna dæju fórnardauða til mótvægis við hvern einstakan afkomanda Adams. „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam] og dauðinn fyrir syndina.“ (Rómverjabréfið 5:12) Og þar eð „dauðinn kom fyrir mann“ gat endurlausn mannkyns einnig komið „fyrir mann.“ — 1. Korintubréf 15:21.
12 Sá maður, er greiddi lausnargjaldið, þurfti að vera fullkominn maður af holdi og blóði — nákvæmur jafningi Adams. (Rómverjabréfið 5:14) Andavera eða „guð í mannsmynd“ gat ekki látið vogarskálar réttvísinnar vera í jafnvægi. Aðeins fullkominn maður, sem ekki var undir dauðadómi Adams, gat greitt „samsvarandi lausnargjald“ sem svaraði nákvæmlega til Adams. (1. Tímóteusarbréf 2:6, NW) * Með því að fórna lífi sínu sjálfviljugur gat þessi „síðari Adam“ greitt laun syndarinnar sem hinn „fyrsti maður, Adam,“ hafði bakað sér. — 1. Korintubréf 15:45; Rómverjabréfið 6:23.
13, 14. (a) Njóta Adam og Eva góðs af lausnargjaldinu? Skýrðu svar þitt. (b) Hvernig gagnast lausnargjaldið afkomendum Adams? Lýstu með dæmi.
13 Hvorki Adam né Eva njóta þó góðs af lausnargjaldinu. Í Móselögunum var þessi meginregla: „Eigi skuluð þér taka bætur fyrir líf manndrápara, sem er dauðasekur.“ (4. Mósebók 35:31) Adam lét ekki tælast þannig að synd hans var yfirveguð, framin af ásetningi. (1. Tímóteusarbréf 2:14) Hún jafngilti því að myrða afkvæmi sín, því að nú erfðu þau ófullkomleika hans og fengu því yfir sig dauðadóm. Adam verðskuldaði augljóslega að deyja því hann hafði sem fullkominn maður kosið að óhlýðnast lögum Guðs að yfirlögðu ráði. Það hefði gengið í berhögg við réttlátar meginreglur Jehóva að láta lausnargjaldið ná til Adams. Séu launin fyrir synd Adams greidd býður það hins vegar upp á að dauðadómurinn yfir afkomendum hans sé felldur úr gildi! (Rómverjabréfið 5:16) Í lagalegum skilningi er lokað fyrir eyðingarafl syndarinnar við upptök sín. Lausnarinn ‚smakkar dauðann fyrir alla‘ og tekur á sig afleiðingarnar af synd allra barna Adams. — Hebreabréfið 2:9; 2. Korintubréf 5:21; 1. Pétursbréf 2:24.
14 Við skulum lýsa þessu með dæmi: Ímyndum okkur stóra verksmiðju með hundruðum starfsmanna. Óheiðarlegur forstjóri gerir fyrirtækið gjaldþrota og verksmiðjunni er lokað. Hundruðir manna ganga nú atvinnulausir og geta ekki greitt heimilisreikningana. Makar þeirra, börn og meira að segja lánardrottnar líða öll sakir spillingar eins manns! Þá birtist allt í einu auðugur velgjörðamaður sem greiðir upp skuldir fyrirtækisins og opnar verksmiðjuna á ný. Skuldauppgjör hans bætir þannig úr neyð hinna mörgu starfsmanna, fjölskyldna þeirra og lánardrottna. En eignast hinn upphaflegi forstjóri hlutdeild í nýjum uppgangi fyrirtækisins? Nei, hann situr í fangelsi og er því atvinnulaus til frambúðar! Á svipaðan hátt njóta milljónir afkomenda Adams góðs af því að skuld hans er gerð upp — en ekki Adam sjálfur.
Hver greiðir lausnargjaldið?
15. Hver gat greitt lausnargjald fyrir mannkynið og hvers vegna?
15 Sálmaritarinn sagði í kvörtunartón: „Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann. Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu.“ The New English Bible segir að lausnargjaldið „sé honum eilíflega um megn.“ (Sálmur 49:8, 9) Hver gat þá greitt lausnargjaldið? Aðeins Jehóva gat gefið hið fullkomna „lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29) Guð sendi ekki einhvern engil til að bjarga mannkyninu. Hann færði þá mestu fórn sem hugsast gat með því að senda eingetinn son sinn sem var „yndi hans.“ — Orðskviðirnir 8:30; Jóhannes 3:16.
16. (a) Hvernig bar það til að sonur Guðs fæddist sem fullkominn maður? (b) Hvað var hægt að kalla Jesú í lagalegum skilningi?
16 Sonur Guðs tók fúslega þátt í ráðstöfun Guðs og „svipti sig“ himnesku eðli. (Filippíbréfið 2:7) Jehóva flutti lífskraft og persónuleika frumgetins sonar síns á himnum í kvið gyðingameyjar er María hét. Heilagur andi ‚yfirskyggði hana‘ síðan og tryggði þannig að hið vaxandi barn í kviði hennar yrði heilagt, algerlega syndlaust. (Lúkas 1:35; 1. Pétursbréf 2:22) Sem maður yrði hann nefndur Jesús, en í lagalegum skilningi mátti kalla hann „hinn síðari Adam“ því að hann samsvaraði Adam fullkomlega. (1. Korintubréf 15:45, 47) Jesús gat því fórnfært sjálfum sér sem ‚lýtalausu og óflekkuðu lambi,‘ greitt lausnargjald fyrir syndugt mannkyn. — 1. Pétursbréf 1:18, 19.
17. (a) Hverjum var lausnargjaldið greitt og hvers vegna? (b) Hvers vegna er verið að greiða lausnargjald yfirleitt úr því að Guð bæði greiðir það og tekur við því?
17 En hverjum yrði þetta lausnargjald greitt? Um aldaraðir héldu guðfræðingar kristna heimsins því fram að það væri greitt Satan djöflinum. Staðreynd er að mannkynið hefur verið ‚selt undir‘ syndina og þannig komist undir yfirráð Satans. (Rómverjabréfið 7:14; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Samt sem áður er það Jehóva, ekki Satan, sem ‚hegnir‘ fyrir ranga breytni. (1. Þessaloníkubréf 4:6) Þess vegna er lausnargjaldið greitt „Guði“ eins og Sálmur 49:8 segir skýrt og greinilega. Jehóva leggur til lausnargjaldið en eftir að Guðslambinu hefur verið fórnað þarf að gjalda Guði verðmæti fórnarinnar. (Samanber 1. Mósebók 22:7, 8, 11-13; Hebreabréfið 11:17.) Þetta gerir lausnargjaldið ekki að tilgangslausum, vélrænum skiptum, rétt eins og peningar væru fluttir milli vasa. Lausnargjaldið felur meira í sér lagalegan gjörning en bein, efnisleg skipti. Með því að krefjast þess að lausnargjald væri greitt — jafnvel þótt það kostaði Jehóva sjálfan mikið — sýndi hann að hann hvikaði hvergi frá réttlátum meginreglum sínum. — Jakobsbréfið 1:17.
„Það er fullkomnað“
18, 19. Hvers vegna þurfti Jesús að þjást?
18 Vorið 33 var að því komið að greiða lausnargjaldið. Jesús var handtekinn fyrir upplognar sakir, dæmdur sekur og negldur á aftökustaur. Hann ákallaði Guð með „sárum kveinstöfum og táraföllum“ vegna þess mikla sársauka og auðmýkingar sem hann þoldi. (Hebreabréfið 5:7) Þurfti Jesús að þjást svona mikið? Já, því að með því að vera „heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum“ allt til enda útkljáði Jesús endanlega og með áhrifamiklum hætti deiluna um ráðvendni þjóna Guðs. — Hebreabréfið 7:26.
19 Þjáningar Krists höfðu líka það markmið að fullkomna hann fyrir hlutverk hans sem æðsti prestur mannkyns. Sem slíkur yrði hann ekki kaldlyndur, fáskiptinn kerfiskarl. „Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.“ (Hebreabréfið 2:10, 18; 4:15) Jesús gat með síðasta andardrættinum hrópað sigri hrósandi: „Það er fullkomnað.“ (Jóhannes 19:30) Bæði hafði hann sannað ráðvendni sína og tekist að leggja grundvöll að hjálpræði mannkyns — og það sem þýðingarmeira var, að réttlætingu drottinvalds Jehóva!
20, 21. (a) Hvers vegna var Kristur reistur upp frá dauðum? (b) Hvers vegna var Jesús Kristur „lifandi gjörður í anda“?
20 En á hvaða hátt gat lausnargjaldið komið syndugu mannkyni til góða? Hvenær? Hvernig? Þar var tilviljun ekki látin ráða. Á þriðja degi eftir dauða Krists vakti Jehóva hann upp frá dauðum. (Postulasagan 3:15; 10:40) Með þessu þýðingarmikla verki, sem hundruð sjónarvotta staðfestu, bæði umbunaði Jehóva trúföstum syni sínum fyrir þjónustu hans og gaf honum auk þess tækifæri til að ljúka endurlausnarverki sínu. — Rómverjabréfið 1:4; 1. Korintubréf 15:3-8.
21 Jesús var „lifandi gjörður í anda“ en jarðneskum leifum hans komið fyrir með einhverjum ótilgreindum hætti. (1. Pétursbréf 3:18; Sálmur 16:10; Postulasagan 2:27) Sem andavera gat hinn upprisni Jesús snúið aftur sigri hrósandi til himna. Það hlýtur að hafa verið takmarkalaus fögnuður á himnum við það tækifæri! (Samanber Jobsbók 38:7.) Jesús sneri ekki aftur til himna einungis til að gleðja sig við móttökurnar. Hann sneri aftur þangað til að vinna önnur verk, meðal annars það að gera öllu mannkyni fært að njóta góðs af lausnargjaldi hans. (Samanber Jóhannes 5:17, 20, 21.) Hvernig hann kom því til leiðar og hvað það merkir fyrir mannkynið er umfjöllunarefni næstu greinar.
[Neðanmáls]
^ Gríska orðið, sem hér er notað, antilytron, kemur hvergi annars staðar fyrir í Biblíunni. Það er skylt orðinu sem Jesús notaði um lausnargjald (lytron) í Markúsi 10:45. En The New International Dictionary of New Testament Theology bendir á að antilytron ‚dragi fram hugmyndina um gagnkvæm skipti.‘ Nýheimsþýðingin þýðir það því eðlilega „samsvarandi lausnargjald.“
Upprifjun
◻ Hvaða deilumál voru þýðingarmeiri en hjálpræði mannkyns?
◻ Hvað merkir það að ‚greiða lausnargjald‘ fyrir syndara?
◻ Hverjum þurfti Jesús að samsvara og hvers vegna?
◻ Hver leggur fram lausnargjaldið og hvernig er það greitt?
◻ Hvers vegna þurfti að reisa Krist upp frá dauðum sem anda?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 11]
Dýrafórnir dugðu ekki til að breiða yfir syndir manna; þær táknuðu hina meiri fórn sem koma skyldi.