Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum stöðug í trúnni!

Verum stöðug í trúnni!

Verum stöðug í trúnni!

Meginatriði 1. Pétursbréfs

VOTTAR Jehóva mega þola það að trú þeirra sé prófreynd með ýmsum hætti. Sums staðar í heiminum þurfa þeir að prédika Guðsríki andspænis miklum ofsóknum. Satan djöfullinn stendur að baki ofsóknum og öðrum tilraunum til að spilla sambandi kristinna manna við Guð. Honum mun þó ekki takast það því að Jehóva styrkir þjóna sína og gerir þá stöðuga í trúnni.

Pétur postuli fékk þau sérréttindi að ‚styrkja bræður sína‘ sem þurftu að „hryggjast í margs konar raunum.“ (Lúkas 22:32; 1. Pétursbréf 1:6, 7) Hann gerði það í fyrra bréfi sínu sem hann skrifaði í Babýlon á árabilinu 62-64. Þar leiðbeindi, hughreysti og uppörvaði Pétur kristna menn úr hópi Gyðinga og heiðingja og hjálpaði þeim að standa „stöðugir í trúnni“ gegn árásum Satans. (1. Pétursbréf 1:1, 2; 5:8, 9) Núna hefur djöfullinn skamman tíma til stefnu og árásir hans eru enn illskeyttari en fyrr. Þjónar Jehóva geta því sannarlega haft gagn af innblásnum orðum Péturs.

Breytni byggð á meginreglum Guðs

Hvort heldur von okkar er himnesk eða jarðnesk ætti hún að hjálpa okkur að halda út gegnum prófraunir og hegða okkur Guði að skapi. (1:1-2:12) Vonin um himneska arfleifð fær smurða þjóna Guðs til að fagna er þeir standa frammi fyrir prófraunum því að hún fágar trú þeirra. Líkt og andlegt hús byggt á Kristi sem grunni bera þeir fram andlegar fórnir sem eru þóknanlegar Guði og hegða sér vel þannig að þeir séu honum til heiðurs.

Samskipti okkar við alla aðra menn ættu að stjórnast af meginreglum Guðs. (2:13-3:12) Pétur benti á að við ættum að vera undirgefnir mennskum valdhöfum. Húsþjónar áttu að vera undirgefnir húsbændum sínum og konur eiginmönnum sínum. Guðrækileg breytni kristinnar eiginkonu gæti unnið eiginmann hennar til fylgis við sanna trú. Og eiginmaður, sem er í trúnni, ætti að ‚veita konu sinni virðingu sem veikara keri.‘ Allir kristnir menn ættu að hafa samkennd hver með öðrum, bera bróðurkærleika í brjósti, gera það sem gott er og ástunda frið.

Þolgæði veitir blessun

Trúfesti og þolgæði sannkristinna manna í þjáningum leiðir af sér blessun. (3:13-4:19) Við ættum að vera glöð ef við þjáumst fyrir réttlætis sakir. Enn fremur ættum við ekki að lifa eftir girndum holdsins því að Kristur leið í holdinu til að hann gæti leitt okkur til Guðs. Ef við sýnum trúfesti með því að vera þolgóð í prófraunum eigum við mikla gleði í vændum við opinberun Jesú. Við ættum að fagna því að líða háðung fyrir nafn Krists eða sem lærisveinar hans, því að það sannar að við höfum anda Jehóva. Þegar við þjáumst í samræmi við vilja Guðs, þá skulum við fela okkur honum á vald og halda áfram að gera það sem gott er.

Sem kristnir menn þurfum við að rækja skyldur okkar af trúmennsku og auðmýkja okkur undir Guðs voldugu hönd. (5:1-14) Öldungar verða að gæta hjarðar Guðs fúslega og öll ættum við að varpa áhyggjum okkar á Jehóva, vitandi það að honum er mjög annt um okkur. Við þurfum líka að standa einörð gegn djöflinum og aldrei missa kjarkinn, því að bræður okkar þola sömu þjáningar og við. Við skulum alltaf muna að Jehóva Guð styrkir okkur og gerir okkur kleift að vera stöðugir í trúnni.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 20]

Skart kvenna: Pétur réð kristnum konum heilt og sagði: „Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.“ (1. Pétursbréf 3:3, 4) Á fyrstu öld okkar tímatals var algengt að heiðnar konur væru með íburðarmikla hárgreiðslu og fléttuðu sítt hárið með áberandi hætti og skreyttu með gullskrauti. Líklegt er að margar hafi gert það til að sýnast fyrir öðrum — sem ekki sæmir kristnum mönnum. (1. Pétursbréf 2:9, 10) Þó er skart ekki með öllu rangt því að Pétur nefnir „ytri föt“ (NW) sem er auðvitað nauðsyn. Þjónar Guðs til forna báru einnig skartgripi. (1. Mósebók 24:53; 2. Mósebók 3:22; 2. Samúelsbók 1:24; Jeremía 2:32; Lúkas 15:22) Það er hins vegar hyggilegt af kristinni konu að forðast glingurslega skartgripi og tildursleg föt og gæta smekkvísi í notkun snyrtivara. Kjarninn í leiðbeiningum postulans er sá að hún ætti að leggja áhersluna á hið innra skart en ekki hið ytra. Til að vera aðlaðandi í raun þarf hún að klæða sig smekklega og hafa viðhorf guðhræddrar konu. — Orðskviðirnir 31:30; Míka 6:8.

[Rétthafi]

Fornmenjaráðuneyti Ísraels; Ísraelska safnið/David Harris