Gætið ykkar á fráhvarfsmönnum!
Gætið ykkar á fráhvarfsmönnum!
Meginatriði Júdasarbréfsins
ÞJÓNAR Jehóva verða að ‚hafa andstyggð á hinu vonda og halda fast við hið góða.‘ (Rómverjabréfið 12:9) Biblíuritarinn Júdas hjálpaði öðrum til þess með bréfi sínu sem hann sendi frá Palestínu, líklega um árið 65.
Júdas kallaði sig ‚þjón Jesú Krists, bróður Jakobs.‘ Þessi Jakob var greinilega hinn velþekkti hálfbróðir Jesú Krists. (Markús 6:3; Postulasagan 15:13-21; Galatabréfið 1:19) Júdas var því sjálfur hálfbróðir Jesú. Hins vegar kann honum að hafa þótt óviðeigandi að geta þessara holdlegu tengsla, því að Kristur var þá dýrlegur andi á himnum. Bréf Júdasar var mjög beinskeytt í heilræðum sínum sem geta hjálpað okkur að ‚halda fast við hið góða‘ og gæta okkar á fráhvarfsmönnum.
‚Berjist af alefli‘
Enda þótt Júdas hafi ætlað sér að skrifa um sameiginlegt hjálpræði kristinna manna komst hann að raun um að nauðsynlegt var að hvetja lesendur bréfsins til að ‚berjast af alefli fyrir trúnni.‘ (Vers 1-4, JHM) Hvers vegna? Vegna þess að óguðlegir menn höfðu læðst inn í söfnuðinn og ‚misnotuðu náð Guðs til siðleysis.‘ Þeir héldu ranglega að þeir gætu brotið lög Guðs en samt sem áður haldið áfram að eiga heima meðal þjóna hans. Megum við aldrei láta slíka óguðlega rökfærslu brengla hugsun okkar heldur alltaf stunda réttlæti, þakklát fyrir að Guð hefur í miskunn sinni þvegið okkur af syndum okkar með úthelltu blóði Krists. — 1. Korintubréf 6:9-11; 1. Jóhannesarbréf 1:7.
Víti til varnaðar
Nauðsynlegt er að vera á verði gegn ákveðnum viðhorfum, breytni og fólki. (Vers 5-16) Sumum Ísraelsmönnum, sem frelsaðir voru úr Egyptalandi, var tortímt vegna þess að þá skorti trú. Englar, sem höfðu yfirgefið sinn rétta bústað, höfðu verið ‚geymdir í [andlegu] myrkri í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.‘ Gróft siðleysi hafði leitt „hegningu eilífs elds“ yfir Sódómu og Gómorru. Þess vegna skulum við alltaf þóknast Guði og aldrei yfirgefa „veg lífsins.“ — Sálmur 16:11.
Ólíkt erkienglinum Míkael, sem vildi ekki einu sinni kalla lastmælisdóm yfir djöfulinn, lastmæltu hinir óguðlegu menn „tignum,“ þ.e.a.s. þeim sem Guð og Kristur hafa veitt ákveðna tign sem smurðum öldungum. Við skulum ekki sýna yfirvaldi frá Guði virðingarleysi!
Óguðlegir menn fylgdu slæmu fordæmi Kains, Bíleams og Kóra. Andleg hætta stafaði af þeim líkt og blindskerjum, og þeir voru eins og vatnslaus ský og dauð tré, rifin upp með rótum, sem gáfu ekkert gott af sér. Þessir fráhvarfsmenn voru líka umkvörtunarsamir möglarar og þeir ‚smjöðruðu fyrir mönnum í hagnaðarskyni.‘ — JHM.
Haldið áfram að veita mótstöðu
Þessu næst gaf Júdas leiðbeiningar um það hvernig standa mætti gegn slæmum áhrifum. (Vers 17-25) Á „síðasta tíma“ myndu koma fram spottarar og sannkristnir menn verða að þola þá og háðsglósur þeirra nú á dögum. Við ættum, til að standa gegn slíkum slæmum áhrifum, að byggja okkur upp í „helgustu trú,“ biðja í heilögum anda, varðveita okkur í kærleika Guðs og bíða þess að miskunn Jesú birtist.
Ljóst er að óguðlegir menn gengu fram í hlutverki falskennara og vöktu efasemdir með sumum. (Samanber 2. Pétursbréf 2:1-3.) Og hvers þörfnuðust hinir efagjörnu? Auðvitað andlegrar hjálpar til að þeir yrðu hrifnir út úr ‚eldi‘ eilífrar eyðingar! (Matteus 18:8, 9) En guðræknir menn þurfa ekki að óttast þau örlög því að Jehóva mun vernda þá frá „hrösun“ í mynd syndar og þeirri eyðingu sem fráhvarfsmenn eiga í vændum.
[Rammi á blaðsíðu 21]
Blindsker: Júdas varaði kristna bræður sína við ‚blindskerjum við kærleiksmáltíðir þeirra.‘ (Júdasarbréfið 12) Slíkir fráhvarfsmenn gerðu sér upp kærleika til hinna trúuðu en voru eins og oddhvöss blindsker sem gátu grandað skipum og drepið menn á sundi. Kærleiksmáltíðirnar kunna að hafa verið veislur sem efnaðir kristnir menn buðu fátækum trúbræðrum sínum til. Kirkjufaðirinn Krýsostom (347?-407) sagði: „Þeir komu allir saman til sameiginlegrar veislu: hinir ríku komu með vistir og hinum fátæku og þeim sem ekkert áttu var boðið. Allir héldu þeir sameiginlega veislu.“ Hvert svo sem var eðli kærleiksmáltíðanna á þeim tíma hjálpuðu varnaðarorð Júdasar hinum trúuðu að vara sig á fráhvarfsmönnum sem voru eins og „blindsker“ er gátu valdið andlegum dauða. Enda þótt kristnum mönnum væri ekki fyrirskipað að halda kærleiksmáltíðir, og þær séu ekki haldnar nú á dögum, hjálpa þjónar Jehóva hver öðrum efnislega á þrengingatímum og eiga ánægjulegt samfélag hver við annan.