Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lofið heilagt nafn Jehóva!

Lofið heilagt nafn Jehóva!

Lofið heilagt nafn Jehóva!

„Munnur minn skal mæla orðstír [Jehóva], allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.“ — SÁLMUR 145:21.

1, 2. (a) Á hvaða veg hefur Satan véfengt stjórn Guðs? (b) Hvaða spurningar vakna varðandi Sálm 145:11-21?

 JEHÓVA er tvímælalaust drottinvaldur alheimsins. Satan hefur hins vegar véfengt réttlæti og réttmæti stjórnar Guðs. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:1-5) Djöfullinn hefur líka véfengt ráðvendni allra þjóna Guðs á himni og jörð. (Jobsbók 1:6-11; 2:1-5; Lúkas 22:31) Jehóva hefur því ætlað tíma til að allar skynsemigæddar sköpunarverur hans gætu séð hinn slæma ávöxt uppreisnar gegn stjórn hans og sýnt hvar þær standi gagnvart þessum málum.

2 Sálmur 145 hjálpar okkur að taka einarðlega afstöðu með stjórn Guðs. Hvernig þá? Hvað segir Davíð um konungdóm Jehóva? Og hvernig fer Guð með þá sem styðja hann? Gagnleg svör er að finna í Sálmi 145:11-21.

Talið um konungdóm Jehóva

3. Hvað gerum við ef konungdómur Jehóva er okkur kær?

3 Stjórn Jehóva var Davíð mjög hugleikin og hann sagði: „Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu. Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.“ (Sálmur 145:11, 12) Fólk talar um það sem hugur þess stefnir til. Maður talar því um fjölskyldu sína, húsnæði eða uppskeru. „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns,“ sagði Jesús. (Lúkas 6:45) Ef stjórn Guðs er okkur kær, þá biðjum við þess að ríki hans komi, og við segjum öðrum frá þeirri réttvísi, friði og réttlæti sem ríkja mun undir stjórn þess. Við lofum Jehóva sem ‚konung eilífðarinnar,‘ við tölum um það hvernig drottinvald hans birtist gegnum Messíasarríkið í höndum sonar hans, Jesú Krists. (Opinberunarbókin 15:3; Jesaja 9:6, 7) Það eru mikil sérréttindi að tala um hina himnesku dýrð konungdóms Jehóva, sem brátt mun endurspeglast í fegurð jarðneskrar paradísar sem er full af hamingjusömum sköpunarverum! — Lúkas 23:43.

4. Hvenær höfum við tækifæri til að tala um „veldi“ Jehóva og hvernig er okkur haldið uppi í slíku starfi?

4 Þakklæti fær okkur líka til að tala um „veldi“ Jehóva. Þótt hann sé „mikill að mætti“ misnotar hann mátt sinn aldrei. (Jobsbók 37:23) Hann notaði mátt sinn til að skapa jörðina og mannkynið og mun beita honum til að eyða hinum óguðlegu. Við höfum tækifæri til að tala um mátt Guðs þegar við boðum fagnaðarerindið. Og erum við ekki þakklát fyrir að þessi mikla uppspretta kraftar skuli gefa okkur mátt til að vinna þetta verk? (Jesaja 40:29-31) Jú, andi Guðs og kraftur heldur okkur, vottum Jehóva, uppi í heilagri þjónustu. Einungis þannig er boðskapurinn um Guðsríki boðaður með stórkostlegum árangri um víða veröld. — Sálmur 28:7, 8; Sakaría 4:6.

5. Hvað ættum við að gera úr því að þorri manna veit ekki af „veldi“ og máttarverkum Jehóva?

5 Við þurfum að kunngera sonum mannanna máttarverk Jehóva, líkt og Ísraelsmenn sögðu börnum sínum frá því hvernig Guð frelsaði þá úr fjötrum í Egyptalandi. (2. Mósebók 13:14-16) Menn reisa minnismerki til heiðurs mönnum sem þeir telja hafa unnið máttarverk, en hversu margir vita af máttarverkum Guðs? Eins og fræðimaður orðaði það: „Þeir letra verk hetja sinna í látún, en dýrðarverk Jehóva eru letruð í sand sem öldufall tímans skolar burt úr minni manna.“ Þessi máttarverk hafa þó ekki í rauninni skolast burt enda þótt fjöldinn þekki þau ekki. Við skulum því tala kostgæfilega um máttarverk Guðs í starfi okkar hús úr húsi og eins er við stýrum biblíunámum.

6. (a) Hvenær, endur fyrir löngu, birtist vel sú kostgæfni sem einkennir þjónustu okkar? (b) Hvað var sagt, í hnotskurn, árið 1922 um það að kunngera ríkið?

6 Við ættum líka að kunngera konungdóm Guðs kostgæfilega. Kostgæfni gagnvart þjónustu við Guðsríki kom greinilega fram í dagsljósið er þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, J. F. Rutherford, ávarpaði mótsgesti í Cedar Point í Ohio árið 1922 og sagði: „Frá 1914 hefur konungur dýrðarinnar verið við völd . . . Himnaríkið er í nánd, konungurinn ríkir; heimsveldi Satans er á fallanda fæti; milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja. Trúir þú því? . . . Farið þá aftur út á akurinn, þið synir hins hæsta Guðs! Klæðist herklæðum! Verið algáðir, verið vökulir, verið virkir, verið hugrakkir. Verið trúir og sannir vottar Drottins. Gangið fram í bardaga uns síðustu menjar Babýlonar liggja í rústum. Boðið boðskapinn vítt og breitt. Heimurinn verður að vita að Jehóva er Guð og að Jesús Kristur er konungur konunga og Drottinn drottna. Þetta er dagur daganna. Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð upplýsingafulltrúar hans. Þess vegna kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans.“

7. Hvað ætti okkur að finnast um starf okkar sem boðberar Guðsríkis?

7 Hvílík gleði að hugsa um nafn Guðs, segja öðrum frá stjórn hans og kunngera Messíasarríkið í höndum hins ástkæra sonar hans! (Malakí 3:16) Sem boðberar og stuðningsmenn Guðsríkis metum við mikils þau sérréttindi okkar að boða fagnaðarerindið og snúa hjörtum annarra til Guðs, Krists og Guðsríkis. Innra með okkur ætti að vera brennandi löngun til að segja öðrum frá hinni dýrlegu tign konungdóms Jehóva. — Samanber Jeremía 20:9.

8. (a) Hvernig birtist stjórn Jehóva nú á dögum? (b) Hvers vegna má segja að Guð fari með völd „frá kyni til kyns“?

8 Við ættum að finna okkur knúin til að boða ríki Guðs með mikilli kostgæfni því að Davíð sagði þessu næst: „Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns.“ (Sálmur 145:13) Er sálmaritarinn heldur áfram að íhuga konungdóm Jehóva skiptir hann úr þriðju persónu í aðra persónu og tekur að ávarpa Guð beint. Stjórn Jehóva í mynd Messíasarríkisins kemur að sjálfsögðu ekki í stað hins eilífa konungdóms Guðs. Þegar hlýðnu mannkyni hefur verið lyft upp til fullkomleika mun Kristur meira að segja selja föður sínum ríkið í hendur. (1. Korintubréf 15:24-28) Guð fer því með yfirráð „frá kyni til kyns.“ Jehóva var konungur þegar Adam var skapaður og hann mun fara með yfirráð yfir réttlátu mannkyni að eilífu.

9. Hvað má segja um það vers í Sálmi 145 er hefst á hebresku með bókstafnum nún?

9 Í þessum stafrófssálmi vantar í masoretatextann vers er hefst á hebreska bókstafnum nún. En samkvæmt grísku Sjötíumannaþýðingunni, hinni sýrlensku Peshitta og latnesku Vulgata-þýðingunni stendur í einu hebresku handriti: „[Jehóva] er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.“ Guð uppfyllir öll loforð sín og er trúfastur, ástríkur og góðviljaður við alla sem kunna að meta gæsku hans. — Jósúa 23:14.

Stuðningur Jehóva bregst aldrei

10. Hvernig „styður“ Jehóva okkur?

10 Konungur eilífðarinnar lokar aldrei augunum fyrir neyð þjóna sinna. Davíð gat því sagt: „[Jehóva] styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.“ (Sálmur 145:14) Allt frá dögum Abels hefur Jehóva stutt dýrkendur sína. Ef við ættum að bjarga okkur einsamlir myndum við hníga margsinnis undir byrðum okkar. Okkur brestur nægan styrk til að bera öll áföll lífsins og ofsóknirnar sem koma yfir okkur sem þjóna Guðs, en Jehóva heldur okkur uppi. Hebreska sagnmyndin, sem hér er notuð, gefur til kynna að Jehóva ‚styðji‘ okkur stöðuglega. Nefna má að Jóhannes skírari og sonur Guðs áttu þátt í siðferðilegri endurreisn fallinna syndara. Eftir að þessir einstaklingar höfðu iðrast og gerst þjónar Jehóva nutu þeir stórkostlegrar blessunar og stuðnings Guðs. — Matteus 21:28-32; Markús 2:15-17.

11. Á hvaða hátt ‚reisir Jehóva upp alla niðurbeygða‘?

11 Það er hughreystandi að vita að ‚Jehóva skuli reisa upp alla sem eru niðurbeygðir‘ vegna ýmissa þrenginga. Hann gleður þá sem eru daprir meðal okkar, hughreystir þá sem syrgja og hjálpar okkur að tala orð sitt af djörfung þegar við erum ofsótt. (Postulasagan 4:29-31) Hann leyfir aldrei að við kiknum undan byrðum okkar, ef við aðeins þiggjum hjálp hans. (Sálmur 55:23) Eins og „dóttir Abrahams,“ sem var „kreppt og alls ófær um að rétta sig upp,“ hlaut líkamlega lækningu af hendi Jesú, eins ættum við að ‚lofa Guð‘ er hann í kærleika sínum reisir okkur upp andlega. (Lúkas 13:10-17) Hinir smurðu, sem voru niðurbeygðir í fjötrum Babýlonar, voru þakklátir þegar Guð reisti þá upp árið 1919, og frá 1935 hefur hann verið að reisa upp þakkláta „aðra sauði.“ — Jóhannes 10:16.

12. Hvernig ‚vona augu allra‘ á Guð?

12 Jehóva bregst þjónum sínum aldrei eins og fram kemur í orðum Davíðs: „Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:15, 16) Það er eins og augu allra lifandi sköpunarvera beinist í von til drottinvalds alheimsins. Englarnir eiga áframhaldandi tilveru undir Guði. Eins og barn væntir þess er það þarfnast frá foreldrum sínum, eins horfum við til hins himneska föður okkar. Jafnt menn sem skepnur fá viðurværi sitt frá honum. Enginn annar getur fullnægt þörfum þeirra. Guð gefur þeim „fæðu þeirra á réttum tíma,“ það er að segja þegar hennar er þörf.

13. Á hvaða vegu ‚lýkur Jehóva upp hendi sinni og seður allt sem lifir með blessun‘?

13 Guð ‚lýkur upp hendi sinni og seður allt sem lifir.‘ (Sálmur 104:10-28) Að vísu deyja dýr stundum af fæðuskorti og margir menn ganga hungraðir vegna eigingirni, kúgunar og misnotkunar á þjóðarauði. Enn fremur sagði Jesús fyrir að „hungur“ yrði þáttur ‚táknsins‘ um nærveru hans á síðustu dögum. (Matteus 24:3, 7) En ekkert af þessu verður rakið til þess að Jehóva sé nískur eða ófær um að sjá fyrir okkur. Hugsaðu um þá milljarða sköpunarvera sem séð er fyrir! Þessi sálmur fullvissar okkur um að undir stjórn Guðsríkis, þegar ‚einn maður mun ekki drottna yfir öðrum honum til ógæfu,‘ þá muni Guð fullnægja efnislegum og andlegum þörfum okkar. (Prédikarinn 8:9; Jesaja 25:6) Jafnvel nú á dögum þurfum við ekki að ganga andlega hungruð því að Guð sér ríkulega fyrir andlegri fæðu á réttum tíma gegnum ‚hinn trúa og hyggna þjón.‘ (Matteus 24:45-47; 1. Pétursbréf 2:2) Andlega séð eru vottar Jehóva best nærða fólkið á jörðinni. Sýnir þú að þú metir slíkar nægtir mikils?

Jehóva verndar þá sem elska hann

14. Hvers vegna gat Davíð sagt að ‚Jehóva væri réttlátur á öllum sínum vegum og tryggur í öllum sínum verkum‘?

14 Okkar eigin flónska getur ‚steypt fyrirtækjum okkar‘ og valdið okkur erfiðleikum, en við ættum aldrei að saka Guð um þessa erfiðleika. (Orðskviðirnir 19:3) Davíð bendir á ástæðuna er hann segir: „[Jehóva] er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.“ (Sálmur 145:17) Guð er alltaf ráðvandur, réttvís og miskunnsamur í öllu sem hann gerir. Einkum birtist miskunn hans í hjálpræðisráðstöfuninni sem felst í lausnarfórn Jesú. (Postulasagan 2:21; 4:8-12) Jehóva er líka „miskunnsamur [„hollur,“ NW] í öllum sínum verkum,“ alltaf trúr, tryggur, ástríkur og óhlutdrægur. Sem „eftirbreytendur Guðs“ skulum við því vera ráðvönd, réttvís, miskunnsöm, óhlutdræg og trygg. — Efesusbréfið 5:1, 2; 5. Mósebók 32:4; Sálmur 7:11; 25:8; Jesaja 49:7; Postulasagan 10:34, 35.

15. Hvernig höfum við ‚ákallað Guð í einlægni‘ og hvaða árangur hefur orðið af því að gera það?

15 Með því að Guð er réttlátur og tryggur löðumst við að honum. Davíð fullvissar okkur enn fremur: „[Jehóva] er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.“ (Sálmur 145:18) Er við létumst skírast sem vígðir einstaklingar ákölluðum við nafn Jehóva. (Postulasagan 8:12; 18:8; Rómverjabréfið 10:10-15) Með því að nálægja okkur þannig Guði nálægir hann sig okkur. (Jakobsbréfið 4:8) Við ‚áköllum hann í einlægni‘ vegna þess að við gerum það á réttan hátt, fyrir milligöngu Jesú Krists. Og Jehóva verður alltaf nálægur ef við tilbiðjum hann „í anda og sannleika,“ látum í ljós ‚hræsnislausa trú‘ og erum ‚örugg eins og við sæjum hinn ósýnilega.‘ (Jóhannes 4:23, 24; 1. Tímóteusarbréf 1:5; Hebreabréfið 11:27) Þá biðjum við ekki til einskis og þurfum ekki að standa ein gegn heimi Satans heldur njótum við áfram hjálpar og handleiðslu Guðs. (Sálmur 65:3; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Það er mikið öryggi í því!

16. Hvers vegna og hvernig ‚uppfyllir Jehóva ósk þeirra er óttast hann‘?

16 Við njótum líka ósvikins öryggis vegna annarra atriða sem Jehóva gerir fyrir okkur. Davíð sagði: „Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.“ (Sálmur 145:19) Jehóva ‚uppfyllir ósk okkar‘ vegna þess að við berum djúpa lotningu fyrir Guði og heilnæman ótta við að misþóknast honum. (Orðskviðirnir 1:7) Hlýðið hjarta hefur komið okkur til að vígjast Jehóva og viðhorf okkar er: „Verði þinn vilji.“ Úr því að það er vilji hans að við boðum boðskap Guðsríkis, þá fullnægir hann löngun okkar til að vinna það verk. (Matteus 6:10; Markús 13:10) Guð ‚uppfyllir ósk okkar‘ vegna þess að við biðjum ekki í eigingirni heldur biðjum um það sem samræmist vilja hans. Hann veitir okkur það sem er í samræmi við vilja hans og okkur til góðs. — 1. Jóhannesarbréf 3:21, 22; 5:14, 15; samanber Matteus 26:36-44.

17. Hvers vegna getum við treyst að Guð muni heyra er við ‚hrópum á hjálp‘?

17 Sem drottinhollir vottar Jehóva megum við líka treysta að við munum aldrei ‚hrópa á hjálp‘ án þess að hann heyri. Guð bjargaði Davíð úr ógæfu og Jesú einnig, jafnvel reisti hann upp frá dauðum. Þegar óvinir ráðast á okkur, einkum Góg, megum við treysta að Jehóva frelsi okkur. (Esekíel 38:1-39:16) Á erfiðleikatímum getum við alltaf beðið með trúartrausti líkt og Davíð: „Líkna mér, [Jehóva], því að ég er í nauðum staddur, . . . ég heyri illyrði margra, — skelfing er allt um kring — þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi. En ég treysti þér, [Jehóva], ég segi: ‚Þú ert Guð minn!‘“ — Sálmur 31:10-15.

18. Hvernig höfum við gagn af þeirri vitneskju að Jehóva „varðveitir alla þá er elska hann“ en „útrýmir öllum níðingum“?

18 Jehóva Guð er alltaf reiðubúinn að hjálpa okkur. Eins og Davíð segir: „[Jehóva] varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.“ (Sálmur 145:20) Já, ef við elskum Guð mun hann blessa okkur og varðveita. (4. Mósebók 6:24-26) Hann ‚geldur ofmetnaðarmönnum í fullum mæli‘ en varðveitir auðmjúka þjóna sína og lætur ekkert það gerast sem vinnur þeim varanlegt tjón. Við skulum vera hugrökk vegna þess að Jehóva er með okkur. (Sálmur 31:21-25; Postulasagan 11:19-21) ‚Engin vopn, sem smíðuð verða á móti okkur, skulu vera sigurvænleg.‘ (Jesaja 54:17; Sálmur 9:18; 11:4-7) Það er reynsla þeirra sem sanna ást sína til Jehóva Guðs sem trúfastir, vígðir þjónar hans. Sem hópur munu vottar Jehóva ganga öruggir gegnum ‚þrenginguna miklu‘ sem kemur yfir hina óguðlegu. (Opinberunarbókin 7:14) Og hvílík blessun verður það ‚öllum þeim er elska hann‘ þegar deilumálið mikla um konungdóm Jehóva yfir alheimi verður útkljáð!

Höldum áfram að blessa heilagt nafn Jehóva

19. Hvers vegna mælir munnur okkar ‚orðstír Jehóva‘?

19 Davíð lýkur þessum hrífandi sálmi með eftirfarandi orðum: „Munnur minn skal mæla orðstír [Jehóva], allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.“ (Sálmur 145:21) Sem vottar Jehóva metum við að verðleikum mikilleik Guðs, gæsku, góðgjarnan konungdóm, óbrigðulan stuðning og óþreytandi umhyggju. Þess vegna líkjum við eftir Davíð með því að lofsyngja Guði. Við finnum okkur knúin til að sýna honum algera hollustu, þakka honum fyrir hans mörgu blessanir og lofa hans „dýrlega nafn.“ — 1. Kroníkubók 29:10-13; 2. Mósebók 20:4-6.

20. Hverju ættum við að vera staðráðin í er við horfum fram til eilífðarinnar?

20 Með því að Jehóva blessar okkur dag hvern skulum við reglulega blessa hann eða tala vel um hann. Við skulum prédika fagnaðarerindið af kostgæfni til lofs Guði, segja öðrum frá því að bráðlega muni ‚allt hold vegsama hans heilaga nafn.‘ Það verður stórfenglegt að lifa þegar allir jarðarbúar — já, allar skynsemigæddar sköpunarverur í alheiminum — munu syngja himneskum föður okkar lof! (Sálmur 148:1-13) Lof sé Jehóva fyrir að opinbera nafn sitt og veita okkur þau sérréttindi að vera vottar sínir. (Sálmur 83:19; Jesaja 43:10-12) Megum við haga okkur eins og samboðið er þeim sem halda þetta nafn heilagt og biðja þess að það megi helgast. (Lúkas 11:2) Við skulum þjóna Guði í trúfesti þannig að rödd okkar megi heyrast í hinni nýju heimsskipan í kór þeirra er vegsama heilagt nafn Jehóva að eilífu.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað gerum við ef konungdómur Jehóva er okkur kær?

◻ Í hverju birtist konungdómur Guðs nú á dögum?

◻ Hvernig ‚reisir Jehóva upp alla niðurbeygða‘?

◻ Á hvaða vegu ‚lýkur Guð upp hendi sinni og seður allt sem lifir með blessun‘?

◻ Hvernig getum við lofað nafn Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Árið 1922 hvöttu orðin ‚Kunngerið konunginn og ríkið‘ talsmenn konungdóms Jehóva til aukinna verka.