Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það var áliðnara en þeir héldu!

Það var áliðnara en þeir héldu!

Það var áliðnara en þeir héldu!

VIÐ erum stödd í Jerúsalem árið 609 f.o.t. Jeremía spámaður er að tala. Hann hefur sagt fyrir eyðingu hinnar ástkæru, helgu borgar, Jerúsalem, eyðingu sem koma skal vegna þess að Gyðingar hafa snúið baki við Jehóva og sökkt sér niður í falsguðadýrkun. Þeir stunduðu lostafengna kynferðisdýrkun á fórnarhæðunum, tilbáðu sólina og tunglið og stjörnurnar, brenndu reykelsi fyrir Baal og fórnuðu Mólok börnunum sínum. — 1. Konungabók 14:23, 24; Jeremía 6:15; 7:31; 8:2; 32:29, 34, 35; Esekíel 8:7-17.

Í þeirra augum var Jeremía ógæfuspámaður, ofstækismaður, óánægður með allt og alla. Í 38 ár hafði Jeremía aðvarað Jerúsalembúa; í 38 ár höfðu þeir gert gys að honum. Allt fram á þennan dag höfðu þeir látið eins og Jehóva kæmi þeim ekkert við, hann væri ekki afl sem taka þyrfti tillit til. Þeir sögðu: „[Jehóva] gjörir hvorki gott né illt“ og „[Jehóva] hefir yfirgefið landið og [Jehóva] sér það ekki.“ — Sefanía 1:12; Esekíel 9:9.

Spámennirnir Jeremía og Esekíel höfðu prédikað eyðingu Jerúsalem en ekkert hafði gerst. Ísraelsmenn útilokuðu því að slíkar sýnir myndu rætast á þeirra dögum og sögðu: „Tíminn dregst og allar vitranir reynast marklausar.“ En Jehóva svaraði svo: „Tíminn er nálægur . . . því að ég, [Jehóva], mun tala það orð, er ég vil tala, og það mun koma fram. Það mun ekki dragast lengur, því að á yðar dögum, þverúðuga kynslóð, mun ég tala orð og framkvæma það.“ — Esekíel 12:22-25.

Árið 609 f.o.t. var kominn tími Jehóva til að uppfylla orð sín. Eftir að Jeremía hafði varað Ísraelsmenn við í nærfellt fjóra áratugi var Jerúsalem umsetin babýlonskum her. Átján mánuðum síðar var rofið skarð í múrana, musterið brennt og flestir íbúanna fluttir í útlegð til Babýlonar. Eins og sagt var fyrir var borginni eytt með sverði og hungri og drepsótt. — 2. Konungabók 25:7-17; 2. Kroníkubók 36:17-20; Jeremía 32:36; 52:12-20.

Jeremía hafði haft rétt fyrir sér. Þjóðin hafði haft rangt fyrir sér. Það var orðið áliðnara en hún hélt! Það voru ekki fjöldamörg ár þangað til sýnin átti að rætast. Hún átti við þeirra daga.

Þessir atburðir eru ekki aðeins forn saga. Örlög Jerúsalem voru spádómleg. Þau voru fyrirmynd síðari tíma atburða. Hinn kristni heimur nútímans tekur sér nafn Krists og segist vera í sáttmálasambandi við Guð. Samt sem áður fetar hann í fótspor Jerúsalembúa til forna. Kirkjudeildir kristna heimsins kenna að stærstum hluta heiðnar kennisetningar, eru fylltar kynferðislegu siðleysi, hampa pólitískum áformum manna, styðja styrjaldir heimsins, taka þróunarkenninguna upp á arma sér og víkja Guði, skaparanum, til hliðar, láta sem þær sjái ekki að ófæddum börnum er fórnað í milljónatali á altari þægindanna, og yfirleitt aðhyllast þær heimspeki manna og segja Biblíuna goðsögu og munnmæli.

Kristni heimurinn gerir gys að vottum Jehóva nú á tímum á sama hátt og Jerúsalembúar gerðu gys að Jeremía. Aðvörun vottanna um yfirvofandi eyðingu í Harmagedónstríðinu er vísað á bug sem fráleitri. ‚Guð hefur ekki áhuga á jörðinni,‘ segir kristni heimurinn. ‚Hann má stjórna himninum, við stjórnum jörðinni. Og ef Harmagedón kemur þá verður það ekki meðan við lifum. Við höfum heyrt þessa sögu áður. Við látum ekki plata okkur með svona löguðu!‘

Á sagan eftir að endurtaka sig? Á það að gerast enn á ný að milljónir manna uppgötvi að það var áliðnara en þeir héldu?