Þeir brugðust óeigingjarnir við kærleika Guðs
Þeir brugðust óeigingjarnir við kærleika Guðs
„Þeir skulu þakka [Jehóva] miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn.“ — SÁLMUR 107:8.
1. Hvernig leggur Jóhannes postuli áherslu í kærleikann í fyrsta bréfi sínu?
„GUÐ er kærleikur.“ Það er mikil merking fólgin í þessum orðum. Engin furða er að Jóhannes postuli taldi nauðsynlegt að endurtaka þau í fyrsta bréfi sínu. (1. Jóhannesarbréf 4:8, 16) Bæði er Guð kærleikur og ímynd eða persónugervingur kærleikans.
2. Á hvaða vegu sýndi Guð kærleika er hann skapaði manninn og konuna og sá fyrir þeim?
2 Kærleikur Guðs birtist meðal annars í því hvernig hann skapaði okkur. Þakkarorð sálmaritarans Davíðs eiga hér vel við en hann sagði undir innblæstri: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður.“ (Sálmur 139:14) Guð gaf okkur fimm skilningarvit — sjón, heyrn, bragðskyn, lyktarskyn og snertiskyn — til að við gætum notið unaðar í endalausri fjölbreytni og verið heilsuhraust og hamingjusöm! Fegurð sköpunarverksins umhverfis okkur er stórkostleg! Þar eru jurtir og dýr í óteljandi fjölbreytni, að ekki sé minnst á hina margbreytilegu fegurð mannsins! Guð gaf okkur líka ótrúlega fjölbreytt úrval ávaxta, grænmetis og annarra matvæla sem við getum notið. (Sálmur 104:13-16) Páll postuli hafði ærið tilefni til að minna Lýstrubúa til forna á að Guð hefði ‚gert þeim gott, gefið þeim regn af himni og uppskerutíðir og veitt þeim fæðu og fyllt hjörtu þeirra gleði.‘ — Postulasagan 14:17.
3. Hvaða undursamlega hæfileika hefur Guð gefið okkur?
3 Hugsum líka um alla þá blessun sem er tengd hamingjuríku fjölskyldulífi. Hugsaðu um alla þá margþættu gleði sem við getum notið vegna hæfileika huga og tilfinninga: ímyndunarafls, rökhyggju, minnis, samvisku og síðast en ekki síst hæfileikans til að tilbiðja Guð. Allt skipar þetta okkur í flokk æðri dýrunum. Þá má ekki gleyma þeirri ánægju sem tónlist getur veitt okkur. Þessar gjafir og hæfileikar, svo og margt, margt annað, eru merki um kærleika Guðs til okkar.
4. Hvernig hafa menn kynnst kærleika Guðs síðan fyrstu foreldrar þeirra gerðust brotlegir?
4 Enginn vafi leikur á að Adam og Eva nutu margþættrar gleði meðan þau voru fullkomin og bjuggu í Edengarðinum. (1. Mósebók 2:7-9, 22, 23) En lét Guð mannkynið sigla sinn sjó þegar þau hættu að bregðast óeigingjörn við kærleika Guðs sem birtist þeim í svo mörgum myndum? Alls ekki. Hann gerði þegar í stað ráðstöfun til að bæta úr öllu því ranga sem yfirtroðsla fyrstu foreldra okkar hafði í för með sér. (1. Mósebók 3:15) Jehóva lét líka í ljós kærleika með því að umbera ófullkomna afkomendur Adams með þolinmæði. (Rómverjabréfið 5:12) Hversu lengi? Nú sem komið er hefur hann gert það í um það bil 6000 ár! Einkum hefur Guð sýnt kærleika í samskiptum við þjóna sína. Þau eru sönn orðin sem við lesum: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ — 2. Mósebók 34:6, 7.
5. Hvernig sýndi Jehóva kærleika og þolinmæði í samskiptum við Ísraelsþjóðina?
5 Já, þolinmæði Jehóva Guðs var mikil í samskiptum við Ísraelsmenn, allt frá þeim tíma er hann leiddi þá fram sem þjóð við rætur Sínaífjalls uns þrjóska þeirra knúði hann til að hafna þeim algerlega. Eins og við lesum í 2. Kroníkubók 36:15, 16: „[Jehóva], Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum. En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði [Jehóva] við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.“ En til voru þeir sem brugðust óeigingjarnir við kærleika Jehóva Guðs. Við skulum nú virða fyrir okkur líf þeirra til að sjá hvernig þeir gerðu það. Út frá því má sjá hvernig við getum sjálf brugðist á mjög raunhæfa vegu við kærleika Jehóva.
Óeigingjörn viðbrögð Móse
6. Á hvaða vegu sýndi Móse afbragðs fordæmi og í hvaða hlutverkum fékk hann að reyna kærleika Guðs?
6 Móse er afbragðsdæmi um mann sem brást óeigingjarn við kærleika Guðs. Það voru ekki lítil tækifæri sem hann, stjúpsonur dóttur Faraós, stóð frammi fyrir. Hann kaus hins vegar fremur „illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni. Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands.“ (Hebreabréfið 11:25, 26) Einhverju sinni vildi Móse frelsa bræður sína, Ísraelsmenn, úr fjötrum Egypta. Þeir kunnu hins vegar ekki að meta viðleitni hans og reyndar var ekki heldur kominn tími Guðs til að frelsa þá. (Postulasagan ) Vegna trúar Móse og óeigingjarnrar löngunar til að hjálpa bræðrum sínum gaf Jehóva honum áratugum síðar mátt til að vinna mörg kraftaverk og þjóna Ísraelsmönnum í 40 ár sem spámaður hans, dómari, löggjafi og meðalgangari. Í því hlutverki kynntist Móse kærleika Jehóva til sín og samlanda sinna mörgum sinnum. 7:23-29
7. Hver voru viðbrögð Móse við kærleika Guðs?
7 Hvernig brást Móse við kærleika Guðs og óverðskuldaðri gæsku? ‚Meðtók hann náð Jehóva til einskis‘? (2. Korintubréf 6:1) Alls ekki! Móse sýndi að hann kynni að meta kærleika Jehóva með því að láta líf sitt allt snúast um þjónustuna við Guð. Hann horfði til skapara síns öllum stundum og átti innilegt samband við hann. Guð fór lofsamlegum orðum um Móse er hann ávítaði Aron og Mírjam fyrir að gagnrýna bróður sinn! Já, Jehóva talaði „munni til munns“ við Móse og lét hann ‚sjá mynd Jehóva.‘ (4. Mósebók 12:6-8) Þrátt fyrir sín mörgu sérréttindi hélt Móse áfram að vera manna hógværastur og gerði „í alla staði“ eins og Jehóva hafði boðið honum. — 2. Mósebók 40:16; 4. Mósebók 12:3.
8. Hvernig sýndi Móse að líf hans snerist um þjónustuna við Guð?
8 Móse sýndi sig líka óeigingjarnan þjón Guðs með þeirri umhyggju sem hann bar fyrir nafni Jehóva, orðstír og hreinni guðsdýrkun. Þannig sárbændi Móse Jehóva tvívegis að sýna Ísrael miskunn vegna þess að nafn Guðs átti hlut að máli, og Jehóva hlýddi á hann. (2. Mósebók 32:11-14; 4. Mósebók 14:13-19) Er Ísraelsmenn létu leiðast út í að dýrka gullkálfinn birtist kostgæfni Móse gagnvart hreinni guðsdýkun í kalli hans: „Hver sem heyrir [Jehóva] til, komi hingað til mín!“ Eftir það líflétu Móse og þeir sem með honum voru 3000 skurðgoðadýrkendur. Eftir það umbar hann í 40 ár uppreisnargjarna og umkvörtunarsama þjóð. Enginn vafi leikur á því að kærleikur Guðs kallaði fram óeigingjörn viðbrögð hjá Móse, og með því setti hann okkur nútímamönnum gott fordæmi. — 2. Mósebók 32:26-28; 5. Mósebók 34:7, 10-12.
Hið góða fordæmi Davíðs
9. (a) Hvernig brást Davíð við kærleika Jehóva Guðs? (b) Hvernig getum við heiðrað Jehóva með eigum okkar líkt og Davíð?
9 Sálmaritarinn Davíð, annar konungur Ísraels, er annað áberandi dæmi um mann sem brást óeigingjarn við kærleika Guðs. Kostgæfni hans gagnvart nafni Jehóva kom honum til að berjast við Filistarisann Golíat, sem spottaði Ísraelsmenn, og Guð gaf Davíð sigur yfir honum. (1. Samúelsbók 17:45-51) Þessi sama kostgæfni kom Davíð til að flytja sáttmálsörkina til Jerúsalem. (2. Samúelsbók ) Og var ekki löngun Davíðs til að reisa Jehóva musteri enn eitt merki um kostgæfni hans og þakklæti fyrir kærleika Guðs og gæsku? Auðvitað. Þótt Davíð væri neitað um þau sérréttindi kom það ekki í veg fyrir að hann undirbyggi verkið og heiðraði Jehóva með því að leggja persónulega fram afarmikil verðmæti í mynd gulls, silfurs og dýrra steina. ( 6:12-192. Samúelsbók 7:1-13; 1. Kroníkubók 29:2-5) Svipuð óeigingjörn viðbrögð við kærleika Guðs ættu að koma okkur til að ‚heiðra Jehóva með eigum okkar‘ með því að nota þær til að efla hag Guðsríkis. — Orðskviðirnir 3:9, 10; Matteus 6:33.
10. Í hvaða tilliti er Davíð verðugur eftirbreytni?
10 En þótt Davíð yrðu á alvarleg mistök reyndist hann vera ‚maður eftir hjarta Jehóva.‘ (1. Samúelsbók 13:14; Postulasagan 13:22) Sálmar hans eru fullir af þakkargjörð vegna kærleika Guðs. The International Standard Bible Encyclopædia segir að Davíð hafi „tjáð þakklæti sitt í ríkari mæli en nokkur önnur persóna Heilagrar ritningar.“ Sálmaritarinn Asaf sagði að Guð hefði ‚útvalið þjón sinn Davíð og tekið hann frá fjárbyrgjunum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína. Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.‘ (Sálmur 78:70-72) Davíð gaf sannarlega verðugt fordæmi til eftirbreytni.
Jesús Kristur, hin fullkomna fyrirmynd okkar
11, 12. Hvernig sýndi Jesús að allt líf hans snerist um þjónustuna við Guð?
11 Jesús Kristur er auðvitað besta dæmi Biblíunnar um mann sem brást óeigingjarn við kærleika Guðs. Í hverju birtust þau viðbrögð? Í fyrsta lagi var hann knúinn til að sýna Jehóva algera hollustu. Enginn vafi leikur á að þjónustan við Guð átti hug Jesú allan. Svo mikils mat hann kærleika og gæsku síns himneska föður að hann var andlegur maður bæði hið ytra og hið innra. Hann átti náið trúnaðarsamband við Guð. Jesús var bænrækinn maður og hafði yndi af því að tala við föður sinn á himni. Við lesum margsinnis um það að Kristur hafi verið á bæn. Einu sinni var hann heila nótt á bæn. (Lúkas 3:21, 22; 6:12; 11:1; Jóhannes 17:1-26) Þakklátur vegna kærleika Guðs lifði Jesús eftir þeim sannleika að ‚maðurinn lifir ekki á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af munni Jehóva.‘ Meira að segja var það honum sem matur að gera vilja föður síns. (Matteus 4:4; Jóhannes 4:34) Ættum við ekki að bregðast með svipuðum hætti við kærleika Guðs og sýna honum algera hollustu?
12 Jesús Kristur mat svo mikils kærleika Guðs að hann beindi alltaf athyglinni að Guði sínum og föður. Þegar maður ávarpaði Jesú: „Góði meistari,“ andmælti hann og sagði: „Enginn er góður nema Guð einn.“ (Lúkas 18:18, 19) Jesús lagði aftur og aftur áherslu á að hann gæti ekkert gert af sjálfum sér. Hann lét ekkert tækifæri ónotað til að mikla nafn föður síns og hann hóf fyrirmyndarbæn sína með þessari viðeigandi beiðni: „Helgist þitt nafn.“ Hann bað: „Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!“ Og skömmu áður en Kristur dó sagði hann við föður sinn: „Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.“ (Matteus 6:9; Jóhannes 12:28; 17:4) Svo sannarlega ættum við að bregðast þannig við kærleika Guðs að við leitumst við að mikla hann og biðjum þess að heilagt nafn hans megi helgast.
13. Hvað fékk kærleikur Guðs Jesú til að gera?
13 Við skulum líta á með hvaða öðrum hætti kærleikur Guðs kom Jesú til að vera óeigingjarn. Hann kom honum til að elska réttlæti og hata ranglæti eins og sagt var fyrir í Sálmi 45:8. (Hebreabréfið 1:9) Hann var „heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum.“ (Hebreabréfið 7:26) Jesús skoraði á illskeytta fjendur sína að sanna á hann synd en þeir gátu ekki. (Jóhannes 8:46) Tvívegis kom hatur hans á ranglætinu honum til að reka út úr musterinu ágjarna menn. (Matteus 21:12, 13; Jóhannes 2:13-17) Og Jesús fordæmdi hlífðarlaust hræsnisfulla trúarleiðtoga þjóðarinnar og sagði þeim að þeir væru frá djöflinum! — Matteus 6:2, 5, 16; 15:7-9; 23:13-32; Jóhannes 8:44.
14. Hvernig fékk kærleikur Jehóva Jesú til að koma fram við lærisveina sína?
14 Viðbrögð Jesú við kærleika Jehóva komu einnig fram í samskiptum hans við postula sína og aðra lærisveina. Hann sýndi þeim mikinn kærleika, þolinmæði og langlyndi! Þeir hljóta að hafa reynt mjög á þolinmæði hans með metingi sínum og deilum um það hver þeirra væri mestur, allt fram til kvöldsins er hann var svikinn. (Lúkas 22:24-27) Samt sem áður var Jesús alltaf hógvær og af hjarta lítillátur. (Matteus 11:28-30) Júdas sveik Jesú, Pétur afneitaði honum þrívegis og hinir postularnir flúðu þegar mannfjöldi kom til að handtaka hann. Samt sem áður varð hann aldrei beiskur né fullur gremju og vanþóknunar. Hvernig vitum við það? Eftir að Jesús var risinn upp og hitti postulana aftur fengu þeir engar harðar ávítur frá honum fyrir að hafa látið óttann ná tökum á sér. Þess í stað hughreysti hann þá og styrkti til frekari þjónustu við Guðsríki. — Jóhannes 20:19-23.
15. Hvernig þjónaði Jesús líkamlegum þörfum fólks í óeigingirni?
15 Við skulum líta á enn eitt dæmi um hvernig Jesús Kristur brást óeigingjarn við kærleika Guðs. Hann gerði það með því að fórna sér í þágu annarra og deyja smánar- og kvalafullum dauðdaga á aftökustaur. (Filippíbréfið 2:5-8) Jesús þjónaði líkamlegum þörfum fólks með því að lækna fjölmarga og metta mikinn mannfjölda með kraftaverkum. (Markús 14:14-22; 15:32-39) Hann lét alltaf hag annarra ganga fyrir sínum eigin. Þess vegna gat hann sagt: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ (Matteus 8:20) Jesús var næmur fyrir starfsemi anda Guðs er hann streymdi frá honum til að lækna fólk. Aldrei reyndi hann þó að hagnast fjárhagslega á þessum yfirnáttúrlega mætti, eins og þegar kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, snerti yfirhöfn hans og læknaðist. (Markús 5:25-34) Jesús notaði yfirnáttúrlega krafta sína aldrei í eigin þágu. — Samanber Matteus 4:2-4.
16. Hvernig sá Kristur fyrir andlegum þörfum fólks?
16 Þótt Jesús hafi á óeigingjarnan hátt þjónað líkamlegum þörfum manna, með því að lækna þá af kvillum og krankleikum og metta með kraftaverki, var meginhvötin að baki jarðneskri þjónustu hans prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki; hann vildi kenna og gera menn að lærisveinum. Þrátt fyrir allar kraftaverkalækningarnar var hann ekki þekktur sem læknirinn mikli eða kraftaverkamaðurinn heldur góði kennarinn. (Matteus 4:23, 24; Markús 10:17) Jesús talaði um sig sem kennara og það gerðu líka lærisveinar hans og meira að segja óvinir. (Matteus 22:16; 26:18; Markús 9:38) Og sannindin sem hann kenndi, svo sem í fjallræðunni, voru stórkostleg! (Matteus 5:1-7:29) Líkingar hans hittu í mark og spádómlegar dæmisögur hans og aðrir spádómar voru mjög eftirtektarverðir! Enginn furða er að hermenn, sem sendir voru til að handtaka Jesú einu sinni, gátu ekki fengið sig til að leggja hendur á hann! — Jóhannes 7:45, 46.
17. (a) Hvernig gaf Jesús okkur fullkomið fordæmi um kærleikann? (b) Hvað verður rætt í greininni á eftir?
17 Enginn vafi leikur á að Jesús Kristur gaf okkur hið fullkomna fordæmi um að bregðast óeigingjarnir við kærleika Guðs í okkar garð. Jesús lét himneskan föður sinn skipa fyrsta sæti í lífi sínu og tilfinningum. Hann elskaði réttlætið í sannleika, var kærleiksríkur í samskiptum við postula sína og aðra lærisveina og eyddi ævinni í að þjóna andlegum og efnislegum þörfum fólks. Loks kórónaði Jesús þjónustu sína með því að gefa líf sitt sem lausnargjald. (Matteus 20:28) En hvað um okkur? Að vísu erum við ófullkomin eins og Móse og Davíð, en eins og fram kemur í greininni á eftir getum við á ýmsa raunhæfa vegu líkt eftir fyrirmynd okkar í því að bregðast óeigingjörn við kærleika Guðs.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig má segja að ‚Guð sé kærleikur‘?
◻ Hvernig brást Móse við kærleika Guðs?
◻ Á hvaða vegu brást Davíð við kærleika Jehóva Guðs?
◻ Hvaða fordæmi gaf Jesús í því að bregðast rétt við kærleika Guðs?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 22]
Veist þú hvernig Móse brást við kærleika Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 24, 25]
Jesús brást þannig við kærleika Guðs að hann hjálpaði öðrum andlega og líkamlega og gaf líf sitt sem lausnargjald.