„Þeirra er kærleikurinn mestur“
„Þeirra er kærleikurinn mestur“
„En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ — 1. KORINTUBRÉF 13:13.
1. Hvað sagði mannfræðingur um kærleika?
EINN AF fremstu mannfræðingum heims sagði einu sinni: „Við skiljum nú í fyrsta sinn í sögu tegundar okkar að mikilvægasta, sálfræðilega frumþörf mannsins er þörfin fyrir kærleika. Hún er miðpunktur allra þarfa mannsins, rétt eins og sólin er miðpunktur sólkerfisins og reikistjörnurnar á sporbaug um hana. . . . Barn, sem ekki hefur verið sýnd ást, er lífefnafræðilega, lífeðlisfræðilega og sálfræðilega mjög ólíkt því barni sem hefur verið elskað. Hið fyrrnefnda vex jafnvel öðruvísi en hið síðarnefnda. Við vitum núna að maðurinn fæðist til að lifa rétt eins og lífið og kærleikurinn væri eitt og hið sama. Þetta er auðvitað engin nýlunda. Þetta er staðfesting á fjallræðunni.“
2. (a) Hvernig sýndi Páll postuli fram á mikilvægi kærleikans? (b) Hvaða spurningar eru íhugunarverðar?
2 Já, eins og þessi menntamaður á heimsins vísu staðfesti er þessi sannleikur um mikilvægi kærleikans fyrir velferð manna engin ný sannindi. Að vísu er það kannski fyrst nú sem lærdómsmenn heimsins gera sér grein fyrir því, en það kom fram í orði Guðs fyrir meira en nítján öldum. Þess vegna gat Páll postuli skrifað: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (1. Korintubréf 13:13) Veistu hvers vegna kærleikur er meiri en trú og von? Hvers vegna má segja að kærleikurinn sé mestur eiginleika Guðs og ávaxta anda hans?
Ferns konar kærleikur
3. Hvaða dæmi eru í Ritningunni um draumkenndan kærleika?
3 Sá hæfileiki mannsins að sýna kærleika er merki um visku Guðs og ástríka umhyggju fyrir mannkyni. Athyglisvert er að Forn-Grikkir notuðu fjögur orð um „kærleika.“ Eitt þeirra var eros, notað um draumkennda ást tengda kynferðislegu aðdráttarafli. Ritarar kristnu Grísku ritninganna notuðu aldrei eros, en Sjötíumannaþýðingin notar beygingarmyndir þess í Orðskviðunum 7:18 og 30:16, og Hebresku ritningarnar tala víðar um draumkennda ást. Til dæmis lesum við að Ísak hafi ‚elskað‘ Rebekku. (1. Mósebók 24:67) Frásagan af Jakobi er eftirtektarvert dæmi um þessa tegund ástar, en hann varð bersýnilega ástfanginn af hinni fögru Rakel við fyrstu sýn. Meira að segja „vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar.“ (1. Mósebók 29:9-11, 17, 20) Ljóðaljóðin segja einnig frá draumkenndri ást fjárhirðis og yngismeyjar. Ekki er þó hægt að leggja of þunga áherslu á að þessi tegund ástar, sem getur veitt mönnum mikla lífsfyllingu og gleði, á að birtast aðeins í samræmi við réttláta staðla Guðs. Biblían segir okkur að það sé einungis ást lögmætrar eiginkonu manns sem megi ‚fjötra hann ævinlega.‘ — Orðskviðirnir 5:15-20.
4. Hvaða dæmi eru í Ritningunni um kærleika innan fjölskyldunnar?
4 Þá er að nefna sterkan kærleika innan fjölskyldunnar, eðlilega ástúð byggða á blóðböndum. Um hana notuðu Grikkir orðið storge. Þaðan er komið máltækið: „Blóð er þykkara en vatn.“ Kærleikur systranna Maríu og Mörtu til Lasarusar, bróður síns, er þar gott dæmi. Hann var þeim mikils virði eins og sjá má af því hve mjög þær syrgðu hann er hann dó skyndilega. Og gleði þeirra var ekki lítil þegar Jesús vakti Lasarus, sem var þeim svo hjartfólginn, til lífs á ný! (Jóhannes 11:1-44) Móðurástin er annað dæmi um kærleika þessarar tegundar. (Samanber 1. Þessaloníkubréf 2:7.) Til að undirstrika sinn mikla kærleika til Síonar sagði Jehóva að hann væri enn meiri en ástin sem móðir hefur á barni sínu. — Jesaja 49:15.
5. Hvernig sýnir það sig nú á dögum að eðlilega ástúð skortir mjög?
5 ‚Kærleiksleysi‘ er eitt merki þess að við lifum „á síðustu dögum“ ásamt þeim ‚örðugu tíðum‘ sem því fylgja. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3) Þegar kærleikann innan fjölskyldunnar vantar hlaupast unglingar stundum á brott að heiman og uppvaxin börn vanrækja stundum aldraða foreldra sína. (Samanber Orðskviðina 23:22.) Vöntun á eðlilegri ástúð birtist einnig í tíðum misþyrmingum barna — sumir foreldrar misþyrma börnum sínum svo að þau þarfnast læknishjálpar. Margir foreldrar aga ekki börn sín og er það enn eitt merki þess að kærleika skorti hjá foreldrum. Það að leyfa börnunum að fara sínu fram er ekki kærleiksmerki heldur hitt að þeim er leyft að berast með straumnum. Faðir, sem elskar börn sín í raun og veru, agar þau þegar þörf krefur. — Orðskviðirnir 13:24; Hebreabréfið 12:5-11.
6. Nefndu dæmi úr Ritningunni um ástúð milli vina.
6 Síðan má nefna gríska orðið filia sem táknar hlýhug og ástúð milli vina (án þess að kynferðislegar langanir búi undir), svo sem milli tveggja þroskaðra karlmanna eða kvenna. Við sjáum gott dæmi þessa kærleika milli Davíðs og Jónatans. Er Jónatan féll í bardaga syrgði Davíð hann og sagði: „Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.“ (2. Samúelsbók 1:26) Við lesum líka um það að Kristi þótti sérstaklega vænt um Jóhannes postula, en hann var kallaður, ‚lærisveinninn sem Jesús elskaði.‘ — Jóhannes 20:2.
7. Hvert er eðli agape og hvernig hefur þessi kærleikur birst?
7 Hvaða grískt orð notaði Páll í 1. Korintubréfi 13:13 þar sem hann minntist á trú, von og kærleika og sagði að ‚þeirra væri kærleikurinn mestur‘? Hann notaði orðið agape, sama orð og Jóhannes postuli notaði er hann sagði: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8, 16) Þetta er kærleikur sem stjórnast af meginreglum. Hann getur verið samfara ástúð og væntumþykju þótt svo þurfi ekki að vera, en hann er óeigingjörn tilfinning sem birtist í löngun til að gera öðrum gott, óháð verðleikum þiggjandans og án þess að veitandinn hafi nokkurn hag af. Kærleikur þessarar tegundar kom Guði til að gefa dýrasta fjársjóð hjarta síns, eingetinn son sinn Jesú Krist, „til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Eins og Páll minnir okkur svo vel á: „Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, — fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. — En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn, meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rómverjabréfið 5:7, 8) Já, agape gerir öðrum gott óháð stöðu þeirra í lífinu og kostnaðinum fyrir þann sem lætur kærleikann í ljós.
Hvers vegna er hann meiri en trú og von?
8. Hvers vegna er agape meira en trú?
8 En hvers vegna sagði Páll postuli að kærleikur af þessu tagi (agape) væri meiri en trú? Hann skrifaði í 1. Korintubréfi 13:2: „Þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“ (Samanber Mósebók 17:20.) Já, ef viðleitni okkar til að afla okkur þekkingar og vaxa í trú er sprottin af eigingjörnum hvötum, þá myndi það ekki veita okkur neinn hagnað frá Guði. Jesús benti líka á að sumir myndu ‚spá í hans nafni, reka út illa anda í hans nafni og gera mörg kraftaverk í hans nafni,‘ en ekki njóta velþóknunar hans. — Matteus 7:22, 23.
9. Hvers vegna er kærleikur meiri en von?
9 Hvers vegna er agape-kærleikurinn líka meiri en vonin? Vegna þess að von getur verið eigingörn þegar maðurinn hugsar fyrst og fremst um það sem er honum sjálfum til gagns, en kærleikurinn „leitar ekki síns eigin.“ (1. Korintubréf 13:4, 5) Von — líkt og vonin um að lifa gegnum ‚þrenginguna miklu‘ inn í nýja heiminn — tekur auk þess enda þegar það sem vonast er eftir verður að veruleika. (Matteus 24:21) Eins og Páll segir: „Í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér? En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði.“ (Rómverjabréfið 8:24, 25) Kærleikurinn sjálfur umber allt og bregst aldrei. (1. Korintubréf 13:7, 8) Óeigingjarn kærleikur (agape) er því meiri en bæði trú og von.
Meiri en viska, réttvísi og máttur?
10. Hvers vegna má segja að kærleikur sé mestur hinna fjögurra höfuðeiginleika Guðs?
10 Við skulum nú líta nánar á fjóra höfuðeiginleika Jehóva Guðs: visku, réttvísi, mátt og kærleika. Er einnig hægt að segja að kærleikurinn sé þeirra mestur? Svo sannarlega. Hvers vegna? Vegna þess að kærleikur er það afl sem fær Guð til að gera það sem hann gerir. Þess vegna sagði Jóhannes postuli: „Guð er kærleikur.“ Já, Jehóva er persónugervingur kærleikans. (1. Jóhannesarbréf 4:8, 16) Við lesum hvergi í Ritningunni að Guð sé viska, réttvísi eða máttur. Okkur er sagt að Jehóva sé gæddur þessum eiginleikum. (Jobsbók 12:13; Sálmur 147:5; Daníel 4:37) Þessir fjórir eiginleikar eru í fullkomnu jafnvægi hjá honum. Vegna kærleika hrindir Jehóva tilgangi sínum í framkvæmd og beitir til þess hinum eiginleikunum þrem eða tekur mið af þeim.
11. Hvað kom Jehóva til að skapa alheiminn ásamt anda- og mannverum?
11 Hvað var það þá sem kom Jehóva til að skapa alheiminn og skynsemigæddar andaverur og mannverur? Var það viska eða máttur? Nei, því að Guð beitti einungis visku sinni og mætti við sköpunina. Til dæmis lesum við: „[Jehóva] grundvallaði jörðina með visku.“ (Orðskviðirnir 3:19) Réttvísi hans útheimti ekki heldur af honum að hann skapaði verur með frjálsa siðferðisvitund. Kærleikur Guðs kom honum til að veita öðrum þá gleði sem fylgir vitsmunalífi. Það var kærleikur sem fann leið til að aflétta þeirri fordæmingu af mannkyninu sem réttvísin lagði á það vegna yfirtroðslu Adams. (Jóhannes 3:16) Já, og það var kærleikur sem kom Jehóva til að ákveða að hlýðið mannkyn skyldi fá að lifa í hinni komandi paradís á jörð. — Lúkas 23:43.
12. Hvernig ættum við að bregðast við mætti Guðs, réttvísi og kærleika?
12 Vegna almættis Guðs vogum við okkur ekki að vekja reiði hans og afbrýði. Páll spurði: „Eigum vér að reita [Jehóva] til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?“ (1. Korintubréf 10:22) Jehóva er auðvitað ekki „vandlátur Guð“ í neikvæðum skilningi heldur þeim að hann „krefst algerrar hollustu.“ (2. Mósebók 20:5, NW) Við sem erum kristnir menn fyllumst djúpri lotningu fyrir hinni ómælanlegu visku Guðs sem birtist með svo mörgum hætti. (Rómverjabréfið 11:33-35) Djúp virðing okkar fyrir réttvísi hans ætti að koma okkur til að halda okkur víðs fjarri synd að yfirlögðu ráði. (Hebreabréfið 10:26-31) En kærleikur er tvímælalaust sá mesti af hinum fjórum höfuðeiginleikum Guðs. Og það er óeigingjarn kærleikur Jehóva sem laðar okkur að honum og lætur okkur langa til að þóknast honum, tilbiðja hann og eiga hlutdeild í að helga hið heilaga nafn hans. — Orðskviðirnir 27:11.
Hinn mesti af ávöxtum andans
13. Hvar stendur kærleikur með tilliti til annarra ávaxta andans?
13 Hvernig er kærleikur mestur af hinum níu ávöxtum anda Guðs sem taldir eru upp í Galatabréfinu 5:22, 23? Þeir eru „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.“ Páll hafði fulla ástæðu til að nefna kærleikann fyrst. Er kærleikur meiri en gleði, næsti eiginleikinn sem hann nefnir? Já, hann er það, því að langvinnrar gleði verður ekki notið án kærleika. Sannleikurinn er sá að heimurinn er gleðisnauður vegna eigingirni sinnar, vegna þess að hann skortir kærleika. Vottar Jehóva bera hins vegar kærleika hver til annars og þeir elska himneskan föður sinn. Við ættum því að vænta þess að þeir séu glaðir, enda var sagt fyrir að þeir myndu „fagna af hjartans gleði.“ — Jesaja 65:14.
14. Hvers vegna má segja að kærleikur sé meiri en friður?
14 Kærleikur er líka meiri en friður sem er annar af ávöxtum andans. Heimurinn er fullur af árekstrum og átökum vegna þess að hann skortir kærleika. Þjónar Jehóva eiga hins vegar frið hver við annan út um alla jörðina. Á þeim rætast orð sálmaritarans: „[Jehóva] blessar lýð sinn með friði.“ (Sálmur 29:11) Þeir njóta þessa friðar vegna þess að þeir hafa til að bera það sem er einkenni sannkristinna manna, það er að segja kærleika. (Jóhannes 13:35) Aðeins kærleikur getur yfirunnið öll sundrungaráhrif, hvort heldur þau stafa af kynþætti, þjóðerni eða menningaráhrifum. Hann er „band algjörleikans“ eða „fullkomið einingarband.“ — Kólossubréfið 3:14, NW.
15. Hvernig birtast yfirburðir kærleikans í samanburði við langlyndi?
15 Yfirburðir kærleikans koma líka í ljós þegar hann er borinn saman við langlyndi, það að umbera rangindi eða áreitni. Að vera langlyndur merkir að vera þolinmóður og jafnframt seinn til reiði. Hvað gerir fólk óþolinmótt og uppstökkt? Er það ekki skortur á kærleika? Himneskur faðir okkar er hins vegar langlyndur og „þolinmóður.“ (2. Mósebók 34:6; Lúkas 18:7) Hvers vegna? Vegna þess að hann elskar okkur og „vill ekki að neinir glatist.“ — 2. Pétursbréf 3:9.
16. Hvernig er kærleikurinn í samanburði við gæsku, góðvild, hógværð og sjálfstjórn?
16 Við höfum áður séð hvers vegna kærleikur er meiri en trú og ástæðurnar, sem tilgreindar voru, eiga einnig við um hina ávexti andans sem eftir eru, það er að segja gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi eða sjálfstjórn. Allt eru þetta nauðsynlegir eiginleikar en þeir eru okkur gagnslausir ef kærleikann skortir, eins og Páll bendir á í 1. Korintubréfi 13:3: „Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.“ Það er kærleikur sem kallar fram eiginleika svo sem gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn. Páll hélt því áfram með þeim orðum að kærleikurinn sé góðviljaður og ‚breiði yfir allt, trúi öllu, voni allt, umberi allt.‘ Já, og „kærleikurinn fellur aldrei úr gildi,“ bregst aldrei. (1. Korintubréf 13:4, 7, 8) Bent hefur verið á að hinir ávextir andans séu bara ýmsar hliðar kærleikans, þessa ávaxtar sem fyrstur er nefndur. Það leiðir því af sjálfu sér að kærleikurinn er mestur af hinum níu ávöxtum andans.
17. Hvaða orð Ritningarinnar styðja þá niðurstöðu að kærleikurinn sé mestur ávaxta andans?
17 Orð Páls í Rómverjabréfinu styðja þá niðurstöðu að kærleikurinn sé mestur ávöxtur anda Guðs: „Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin . . . og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein, þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins.“ (Rómverjabréfið 13:8-10) Það var vel við hæfi að lærisveinninn Jakob skyldi kalla þetta lögmál, að elska náunga sinn eins og sjálfan sig, „hið konunglega boðorð.“ — Jakobsbréfið 2:8.
18. Hvað annað bendir til þess að kærleikurinn sé æðsti eiginleikinn?
18 Er fleira sem styður það að kærleikur sé æðsti eiginleikinn? Já, svo sannarlega. Við skulum líta á hvað gerðist þegar skriftlærður maður spurði Jesú: „Hvert er æðst allra boðorða?“ Hann kann að hafa reiknað með að Jesús vitnaði í eitt af boðorðunum tíu, en Jesús vitnaði í 5. Mósebók 6:4, 5 og sagði: „Æðst er þetta: ‚Heyr Ísrael! [Jehóva], Guð vor, hann einn er [Jehóva]. Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.‘“ Síðan bætti Jesús við: „Annað er þetta: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ — Markús 12:28-31.
19. Nefndu nokkra af hinum góðu ávöxtum agape.
19 Páll fór því ekki með ýkjur er hann nefndi trú, von og kærleika og bætti svo við: „Þeirra er kærleikurinn mestur.“ Kærleikur sem birtist í verki stuðlar að góðum samskiptum við himneskan föður okkar og aðra, meðal annarra bræður okkar og systur í söfnuðinum og nánustu ættingja. Kærleikur hefur uppbyggileg áhrif á okkur. Í greininni á eftir er sýnt fram á hvílík umbun getur verið samfara slíkum kærleika.
Hvert er svar þitt?
◻ Á hvaða hátt er kærleikur meiri en trú og von?
◻ Hvað er agape og hvernig birtist slíkur kærleikur?
◻ Hvers vegna er kærleikur mestur hinna fjögurra höfuðeiginleika Guðs?
◻ Á hvaða vegu er kærleikur meiri en aðrir ávextir andans?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 11]
Kærleikur kom Guði til að skapa mannkynið til að lifa í jarðneskri paradís. Vonast þú til að vera þar?