Er orðið áliðnara en þú heldur?
Er orðið áliðnara en þú heldur?
ÞREM dögum fyrir dauða sinn átti Jesús mjög annasaman dag í Jerúsalem, og sá dagur átti eftir að hafa geysimikla þýðingu fyrir kristið nútímafólk. Hann kenndi í musterinu og svaraði listilega ýmsum spurningum sem trúarleiðtogar Gyðinga lögðu fyrir hann til að reyna að veiða hann í gildru. Loks úthellti hann yfir hina skriftlærðu og faríseana vægðarlausri fordæmingu og stimplaði þá hræsnara og nöðrur sem væru á leið í Gehenna. — Matteus 22. og 23. kafli.
Er hann var að yfirgefa musterissvæðið sagði einn af lærisveinunum við hann: „Meistari, lít á, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“ Ósnortinn svaraði Jesús: „Sérðu þessar miklu byggingar? Ekki mun eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.“ (Markús 13:1, 2) Síðan yfirgaf Jesús musterið í síðasta sinn, fór niður í Kedrondal, hélt þvert yfir dalinn og kleif upp hlíð Olíufjallsins.
Hann sat þar á fjallinu og baðaði sig í síðdegissólinni. Musterið á Móríafjalli, handan við dalinn, blasti við honum. Þá koma þeir Pétur, Jakob, Jóhannes og Andrés til hans einslega. Orð hans um að musterið yrði lagt í rúst eru þeim efst í huga. Þeir spyrja: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3; Markús 13:3, 4) Svar hans við spurningu þeirra á Olíufjallinu síðdegis þennan dag hefur mikla þýðingu fyrir okkur. Það getur forðað okkur frá því að draga of lengi að hugsa um ‚endalok veraldar‘ eða „heimskerfisins“ (NW).
Spurning þeirra var tvíþætt. Annar hlutinn varðaði endalok musterisins og Gyðingakerfisins, hinn varðaði framtíðarnærveru Jesú sem konungur og endalok þessa heimskerfis. Svar Jesú, sem skráð er í Matteusi 24. og 25. kafla, Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla, svarar þeim báðum. (Sjá einnig Opinberunarbókina 6:1-8.) Varðandi endalok núverandi heims eða heimskerfis lýsti Jesús nokkrum atriðum sem samanlagt áttu að vera samsett tákn hinna síðustu daga. Er þetta samsetta tákn núna að koma fram? Eru runnir upp hinir síðustu dagar sem Biblían talar um? Er uppfylling þess viðvörun um að það kunni að vera áliðnara en við höldum?
Einn þáttur hins samsetta tákns Jesú er þessi: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ (Matteus 24:7) Fyrri heimsstyrjöldin hófst árið 1914. Vottar Jehóva voru þegar komnir í viðbragðsstöðu á þeim áratug. Hvers vegna? Vegna þess að í desember árið 1879, um 35 árum áður, hafði tímaritið Varðturninn sagt að árið 1914 yrði tímamótaár í mannkynssögunni, og byggði þá umsögn á tímatalsfræði Biblíunnar. Getur þetta stríð, fyrsta raunverulega heimsstyrjöldin sem 28 þjóðir flæktust í og kostaði 14 milljónir manna lífið, verið upphaf þeirra atburða sem uppfylla hið samsetta tákn Jesú um endalokin? Áttu hin atriðin eftir að fylgja í kjölfarið?
Í „opinberun Jesú Krists“ er þetta sama blóðbað sagt fyrir. Þar þeysir fram riddari á rauðum hesti sem ‚tekur burt friðinn af jörðinni.‘ (Opinberunarbókin 1:1; 6:4) Það gerðist svo sannarlega á árabilinu 1914-1918. Og fyrri heimsstyrjöldin var einungis upphafið. Árið 1939 sigldi síðari heimsstyrjöldin í kjölfarið. Fimmtíu og níu þjóðir soguðust inn í þau átök og um 50 milljónir manna féllu. Á þeim 45 árum, sem liðin eru frá síðari heimsstyrjöldinni, hafa verið háðar yfir 125 styrjaldir og yfir 20 milljónir manna látið lífið.
Annar þáttur táknsins var þessi: „Þá verður hungur.“ (Matteus 24:7) Mikil hungursneyð var í heiminum meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð og eftir að henni lauk. Í skýrslu einni eru taldar upp yfir 60 meiriháttar hungursneyðir frá 1914 sem hafa kostað milljónir manna lífið. Jafnvel núna deyja meira en 40.000 börn á dag af völdum vannæringar og sjúkdóma sem hægt væri að koma í veg fyrir.
„Þá verða landskjálftar miklir.“ (Lúkas 21:11) Þeir skóku jörðina eftir að fyrri heimsstyrjöldin hófst. Árið 1915 fórust 32.610 í jarðskjálfta á Ítalíu; árið 1920 fórust 200.000 í jarðskjálfta í Kína; árið 1923 fórust 99.300 í Japan; árið 1935 týndu 25.000 manns lífi þar sem nú heitir Pakistan; árið 1939 fórust 32.700 í Tyrklandi; 68.800 árið 1970 í Perú; 240.000 (sumir segja 800.000) árið 1976 í Kína og árið 1988 týndu 25.000 manns lífi í Armeníu. Svo sannarlega hafa verið miklir jarðskjálftar frá 1914!
„Þá verða . . . drepsóttir . . . á ýmsum stöðum.“ (Lúkas 21:11) Á árunum 1918 og 1919 veiktist um einn milljarður manna af spánsku inflúensunni og yfir 20 milljónir dóu af hennar völdum. En það var aðeins upphafið. Í þróunarlöndunum bækla eða drepa mýrakalda, sniglahitasótt, árblinda, bráð niðurgangssýki og aðrir sjúkdómar hundruð milljónir manna. Hjartasjúkdómar og krabbamein kosta milljónir manna lífið að auki. Samræðissjúkdómar geysa sem farsótt meðal manna. Eyðni er banvæn plága sem vekur mikinn óhug með mönnum, en talið er að nýtt fórnarlamb sýkist á hverri mínútu. Engin lækning er í augsýn.
„Lögleysi magnast.“ (Matteus 24:12) Lögleysi hefur verið skefjalaust síðan 1914 og nú keyrir um þverbak. Morð, nauðganir, rán og stríð milli bófaflokka eru í forsíðufréttum dagblaða og fréttum útvarps og sjónvarps. Stanslaust ofbeldi geisar án þess að nokkuð sé við því gert. Í Bandaríkjunum lætur byssumaður hundrað skot úr hríðskotariffli dynja á hópi skólabarna — fimm látast, 29 særast. Á Englandi drepur vitskertur maður 16 manns með AK-40 árásariffli. Í Kanada gengur maður, sem hatar konur, inn í háskólann í Montreal og drepur 14 konur. Slíkir menn eru eins og úlfar, ljón, villidýr, skynlausar skepnur sem eru fæddar til að veiðast og tortímast. — Esekíel 22:27; Sefanía 3:3; 2. Pétursbréf 2:12.
Lúkas 21:26) Skömmu eftir að fyrsta kjarnorkusprengjan var sprengd spáði kjarnvísindamaðurinn Harold C. Urey um framtíðina: „Við munum nærast á ótta, sofa í ótta, lifa í ótta og deyja í ótta.“ Við óttann um kjarnorkustríð hefur bæst óttinn við afbrot, hallæri, efnahagsþrengingar, siðferðishrun, hnignun fjölskyldulífs og mengun jarðar. Þeir ógnartímar, sem dagblöð og sjónvarpsfréttir hamra á, breiða óttann út um allt.
„Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ (Páll postuli skrifaði einnig um ástandið sem ríkja mundi á síðustu dögum þessa heimskerfis. Orð hans hljóða eins og upplestur úr fréttum dagsins. „Vita skalt þú þetta,“ skrifaði hann, „að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Er allt óbreytt „frá upphafi veraldar“?
Pétur postuli sagði fyrir annað einkenni síðustu daga: „Á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ — 2. Pétursbréf 3:3, 4.
Þegar talið berst að hinum síðustu dögum uppfylla margir spádómsorð Péturs og gera gys að og segja: ‚Æ, þetta hefur allt saman gerst áður. Sagan er bara að endurtaka sig.‘ Þeir láta því aðvaranirnar sem vind um eyru þjóta og halda áfram að „stjórnast af eigin girndum.“ Það er „viljandi“ sem þeir neita að sinna uppfyllingu spádómanna sem er svo augljóst einkenni hinna síðustu daga. — 2. Pétursbréf 3:5.
Hin ólíku atriði hins samsetta tákns, sem Jesús sagði fyrir, hafa aldrei uppfyllst öll saman á svona skömmu tímabili, af svona miklu afli og með svona víðtækum afleiðingum. (Renndu til dæmis aftur yfir Matteus 24:3-12; Markús 13:3-8; Lúkas 21:10, 11, 25, 26.) Og við viljum gjarnan beina athygli þinni að enn öðru atriði sem sagt var fyrir um hina síðustu daga og Opinberunarbókin lýsir.
Við skulum fletta upp í Opinberunarbókinni 11:18. Þar stendur að þegar ríki Krists tekur völd, þjóðirnar reiðast og tíminn kemur til að fella dóm, þá muni Jehóva „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ Er ekki verið að eyða náttúrlegu umhverfi núna með mengun? Að vísu hafa menn alltaf notað auðlindir jarðar til að auðga sig, en þeir hafa þó aldrei áður verið í aðstöðu til að gera jörðina óbyggilega með arðráni sínu. Vegna þeirra vísinda og tækni, sem þróuð hefur verið frá 1914, eru menn nú komnir í þá aðstöðu og eru með eigingjörnu arðráni sínu að eyða jörðina, menga umhverfið og stofna hæfni jarðar til að viðhalda lífi í hættu.
Núna er fégjarnt samfélag manna að gera það með ógnvekjandi hraða. Sýruregn, upphitun jarðar, göt í ósonlaginu, yfirfullir sorphaugar, eitruð úrgangsefni, hættuleg jurta- og skordýraeitur, kjarnorkuúrgangur, olíuslys, óhreinsað skolp, tegundir í útrýmingarhættu, dauð stöðuvötn, mengað grunnvatn, eyðing skóga, mengaður jarðvegur, glötuð gróðurmold og loftmengun sem spillir trjám, uppskeru og heilsu manna eru nokkur af hryðjuverkunum sem af hljótast.
Prófessor Barry Commoner segir: „Ég álít að áframhaldandi mengun jarðar muni smám saman, ef ekkert er að gert, gera þessa reikistjörnu óhæfa til að viðhalda mannlífi. . . . Vandinn fellst ekki í því að vísindin viti ekki betur heldur í vísvitandi
ágirnd.“ Bókin The State of the World 1987 segir á bls. 5: „Umfang mannlegra athafna er byrjað að ógna sjálfri jörðinni sem byggilegum stað.“ Á síðasta ári var send út í bandarísku sjónvarpi viðamikil þáttaröð undir heitinu „Kapphlaupið um björgun jarðar.“Maðurinn mun aldrei hætta af sjálfsdáðum að menga umhverfi sitt heldur mun Guð stöðva hann þegar hann eyðir þeim sem eru að eyða jörðina. Guð og himneskur hershöfðingi hans, Kristur Jesús, munu gera það með því að fullnægja dómi yfir þjóðum efnishyggjunnar í lokastríðinu við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21.
Að lokum skulum við taka eftir þessum einstaka þætti spádóms Jesú um hina síðustu daga: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina.“ (Matteus 24:14) Inntak þessa fagnaðarerindis er að Guðsríki fari nú með völd á himnum og muni bráðlega láta til skarar skríða og eyða þessu óguðlegu heimskerfi og endurreisa paradís á jörð. Fagnaðarerindið hefur verið prédikað áður en aldrei um alla jörðina. Frá 1914 hafa vottar Jehóva hins vegar gert það, þrátt fyrir þær ofsóknir sem Jesús sagði fyrir — bönn stjórnvalda, skrílsárásir, fangelsun, pyndingar og missi fjölmargra mannslífa.
Árið 1919 prédikuðu 4000 vottar Jehóva þetta fagnaðarerindi. Þeim hefur fjölgað stöðugt þannig að á síðasta ári prédikuðu yfir 4 milljónir í 212 löndum á um 200 tungumálum. Þeir dreifðu biblíum, bókum og tímaritum í hundruðmilljónatali, stýrðu biblíunámi á heimilum manna í milljónatali og héldu mót á stórum leikvöngum um heim allan. Ógerlegt hefði verið að prédika í þessum mæli fyrir 1914. Til að prédika í þeim mæli sem nú er gert hefur þurft afkastamiklar prentvélar nútímans, samgöngutækni, tölvur, bréfsíma og einnig þá flutninga- og fjarskiptatækni sem ekki hefur verið til fyrr en á okkar tímum.
Jerúsalemborg á dögum Jeremía var vöruð við yfirvofandi eyðingu; borgarbúar gerðu einungis gys að en það var orðið áliðnara en þeir héldu. Núna er verið að vara menn af meiri krafti við eyðingu Harmagedónstríðsins, og rökin fyrir því að það sé yfirvofandi eru óþrjótandi. (Opinberunarbókin 14:6, 7, 17-20) Milljónir manna daufheyrast við, en tíminn er að renna út. Það er áliðnara en þeir halda. Er orðið áliðnara en þú heldur?
[Mynd á blaðsíðu 7]
Það var áliðnara en menn héldu á dögum Jeremía.