Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við brugðist óeigingjörn við kærleika Guðs?

Hvernig getum við brugðist óeigingjörn við kærleika Guðs?

Hvernig getum við brugðist óeigingjörn við kærleika Guðs?

„Fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 4:11.

1, 2. Hvað þarf til að bregðast óeigingjörn við kærleika Guðs?

 JEHÓVA er persónugervingur kærleikans. Í greininni á undan sáum við að kærleikur hans birtist með mjög margbreytilegum hætti. Við fjölluðum einnig um hvernig Móse, Davíð og Jesús Kristur brugðust óeigingjarnir við kærleika Guðs, eins og hann birtist þeim. Ætti ekki hver og einn einasti vottur Jehóva að vilja gera slíkt hið sama? Tvímælalaust!

2 Hvað útheimtir það að bregðast óeigingjarn við kærleika Guðs? Til að mynda verðum við að gefa honum fyrsta sætið í lífi okkar, elska hann af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (Markús 12:29, 30) Það merkir að hafa þjónustuna við Guð sem þungamiðju lífsins, að eiga hlýlegt einkasamband við Jehóva. Langar okkur til að tala við himneskan föður okkar í bæn? Biðjum við án afláts og erum við staðföst í bæninni, eða förum við í flýti með bænir okkar og erum jafnvel stundum of upptekin til að biðja? (Rómverjabréfið 12:12; 1. Þessaloníkubréf 5:17) Beinum við athyglinni að Jehóva og gefum honum og skipulagi hans heiðurinn af því sem við kunnum að hafa áorkað? (1. Korintubréf 3:7; 4:7) Er okkur innanbrjósts eins og sálmaritaranum sem sagði við Guð: „Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.“ — Sálmur 119:164.

3. Hvernig getum við sýnt að við bregðumst óeigingjörn við kærleika Guðs þegar við komum saman til að eiga félagsskap hvert við annað?

3 Hvort við bregðumst óeigingjörn við kærleika Guðs eða ekki getur birst þegar við komum saman til að gera okkur dagamun. Snúast samræður okkar þá um veraldleg mál eða andleg? Það ber ekki svo að skilja að við þurfum að hafa alvarlegt biblíunám í hvert sinn sem við komum saman með kristnum bræðrum okkar, en við hljótum að geta fundið einhver áhugaverð atriði af andlegu tagi til að flétta inn í samræður okkar. Hvernig væri að segja frásögur af starfinu á akrinum, ræða um uppáhaldsritningargreinina okkar, segja frá því hvernig við kynntumst sannleikanum eða segja frá einhverju merki um ástríka umhyggju og blessun Guðs?

4. Hvaða augum ættum við að líta málin ef við erum vonsvikin yfir að hafa ekki fengið þjónustusérréttindi?

4 Aðrar aðstæður, sem geta leitt í ljós hve mikils við metum kærleika Guðs, eru þær þegar gengið er fram hjá okkur við veitingu einhverra þjónustusérréttinda í skipulagi Jehóva. Hvernig eru viðbrögð okkar? Ef okkur er fyrst og fremst umhugað að heiðra Jehóva, þá föllumst við sennilega á að Guði verði trúlega jafnmikill sómi sýndur óháð því hver fari með ákveðin þjónustusérréttindi. (Samanber Lúkas 9:48.) Ef við hins vegar gerum okkur óhóflegar áhyggjur af eigin frama eða nafni finnst okkur miður að gengið hafi verið fram hjá okkur, að því er okkur virðist. Við ættum að muna að Jehóva elskar okkur og veit kannski að við getum ekki sem stendur borið ákveðna ábyrgð innan guðveldisins. Vera má að hann blessi okkur ríkulega á aðra vegu, og við ættum að láta slík merki um kærleika hans hjálpa okkur að halda andlegu jafnvægi. — Orðskviðirnir 10:22.

Elskaðu réttlæti, hataðu ranglæti

5. Hvaða áhrif ætti kærleikur Guðs að hafa á breytni okkar?

5 Kærleikur Guðs gagnvart okkur ætti að koma okkur til að líkja eftir Kristi í því að elska réttlæti og hata ranglæti. (Hebreabréfið 1:9) Að vísu getum við ekki gert það fullkomlega eins og Jesús. Eigi að síður getum við sett okkur það markmið að vera heilög, heiðarleg og hlýðin, að svo miklu leyti sem ófullkomnir menn geta. Til að gera það verðum við bæði að þroska með okkur kærleika til þess sem er réttlátt og gott og jafnframt rækta með okkur hatur, fyrirlitningu og andstyggð á hinu illa. Eins og Páll postuli orðaði það: „Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.“ (Rómverjabréfið 12:9) „Andstyggð“ er mjög sterkt orð sem merkir „óbeit, viðbjóður, viðurstyggð.“ — Orðabók Menningarsjóðs.

6. Hvað hjálpar okkur að standast freistingar sem heimurinn, syndugt hold okkar og djöfullinn láta verða á vegi okkar?

6 Hvað getur hjálpað okkur að berjast gegn freistingum sem heimurinn, okkar synduga hold og djöfullinn láta verða á vegi okkar? Hollusta við Jehóva Guð. Hann sárbænir okkur: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Já, hollusta við Jehóva kemur okkur til að taka þá viturlegu stefnu að hata það sem hann hatar. Og óháð því hve skemmtilegt eða spennandi það getur virst að brjóta lög Guðs verðum við samt að minna okkur sífellt á að það sé hreinlega ekki þess virði. (Galatabréfið 6:7, 8) Mannshjartað er svikult og undirförult eins og við erum minnt á í Jeremía 17:9. Kristnu hjarta geðjast að því sem er gott, fagurt og hreint. En stundum fá syndugar tilhneigingar okkar hjartað til að þrá líka það sem er illt. Líkt og hjörtu Ísraelsmanna, sem tilbáðu Jehóva en höfðu um leið ‚fórnarhæðir‘ þar sem þeir dýrkuðu skurðgoð, eins getur hjarta okkar verið eigingjarnt og brögðótt. (1. Konungabók 22:43, 44; 5. Mósebók 12:2) Hið ófullkomna hjarta okkar getur reynt að finna afsakanir fyrir því að við látum freistingar verða á vegi okkar. Það getur reynt að gera lítið úr því hve röng sú alvarlega breytni er sem freistar okkar. Eins getur hjartað reynt að sannfæra okkur um að hver sú refsing, sem við fáum, verði einungis stundleg.

7. Hvers vegna verðum við að gæta þess að girnast ekki hið illa?

7 Við ættum að meta kærleika Guðs nógu mikils til þess að vera á varðbergi gegn því að láta okkur langa til þess sem rangt er, svo sem kynferðislegs siðleysis, hvort heldur við erum einhleyp eða í hjónabandi. Aftur og aftur hefur að því er virðist skaðlaust daður leitt til þess að kristinn karl og kona hafa myndað svo sterk tilfinningatengsl hvort við annað að þau tóku að iðka synd og voru gerð ræk. Jafnvel öldungar, sem ættu að vera óaðfinnanlegt fordæmi hjarðarinnar, hafa gerst brotlegir á þessu sviði! — Samanber 1. Konungabók 15:4, 5.

8. Hvaða fordæmi til viðvörunar gefur Páll postuli okkur og hvernig má lýsa því með dæmi?

8 Lítum á Pál postula sem dæmi, en hann fékk þá blessun að sjá yfirnáttúrlegar sýnir, gera kraftaverk og fá innblástur frá Guði. Eigi að síður þurfti hann að ‚leika líkama sinn hart‘ til að sigra í baráttunni við syndugar tilhneigingar sínar. Getum við leyft okkur að leggja eitthvað minna á okkur en hann? (Rómverjabréfið 7:15-25; 1. Korintubréf 9:27) Það er rétt eins og við séum á litlum árabáti á straumharðri á og berumst óðfluga að fossi. Til að forðast slys verðum við að róa af alefli gegn straumnum. Okkur finnst kannski miða hægt, en svo lengi sem við róum af krafti förumst við ekki í fossinum. Kærleikurinn, sem Jehóva Guð hefur sýnt okkur, ætti að sjálfsögðu að fá okkur til að leggja okkur kappsamlega fram um að vera honum drottinholl með því að hata ranglætið og elska réttlætið.

Sýnum bróðurkærleika

9. Hvaða leiðbeiningar um bróðurkærleika gefur Jóhannes postuli okkur?

9 Kærleikur Guðs ætti líka að fá okkur til að elska bræður okkar eins og Jesús Kristur elskar lærisveina sína. (Jóhannes 13:1) Hér eiga vel við orð Jóhannesar postula: „Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar. Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.“ (1. Jóhannesarbréf 4:10, 11) Jesús sagði meira að segja að lærisveinar hans myndu þekkjast af því að þeir bæru kærleika hver til annars. — Jóhannes 13:34, 35.

10, 11. Nefndu nokkrar leiðir til að sýna bróðurkærleika.

10 Við vitum að kristnir menn eiga að sýna bróðurkærleika, en það er ekki úr vegi að minna okkur á hvernig við getum líkt eftir Kristi og sýnt hver öðrum kærleika á ýmsa vegu. Slíkur kærleikur hjálpar okkur að horfa fram hjá ólíkum kynþætti, þjóðerni, menntun, menningarumhverfi og fjárhag. Bróðurkærleikurinn fær okkur líka til að koma saman á samkomum. Ef við í sannleika elskum bræður okkar látum við ekki slæmt veður eða smá vanlíðan ræna okkur þeirri gleði að koma saman með þeim og uppörva hver annan. (Rómverjabréfið 1:11, 12) Auk þess fær bróðurkærleikurinn okkur til að búa okkur vel undir samkomur og taka virkan þátt í þeim, þannig að við getum hvatt hvert annað til kærleika og góðra verka. — Hebreabréfið 10:23-25.

11 Hvað um það að hjálpa bræðrum okkar í þjónustunni á akrinum? Því hefur verið veitt athygli að öldungar og safnaðarþjónar fara oft saman eða einir sér út í þjónustuna hús úr húsi. Með smávægilegum undirbúningi gætu þeir hins vegar boðið fleiri boðberum, sem eru hjálparþurfi, með sér út í þjónustuna. Með því að sýna kærleika á þennan hátt geta öldungar og safnaðarþjónar haft tvöfalda umbun af þjónustunni á akrinum. Kannski gætu þeir tekið nýjan boðbera með sér í heimabiblíunám. — Rómverjabréfið 15:1, 2.

12. Hvernig ber okkur að skilja 1. Jóhannesarbréf 3:16-18?

12 Kærleikur fær okkur líka til að hjálpa bræðrum okkar sem þarfnast efnislegrar aðstoðar. Jóhannes postuli skrifaði: „Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna. Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.“ (1. Jóhannesarbréf 3:16-18) Það er kannski ekki farið fram á það núna að við látum lífið fyrir þá, en stundum höfum við tækifæri til að sýna þeim kærleika á aðra vegu, ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Það er ekkert rangt við það að elska bræður okkar í orði, en við viljum ekki takmarka kærleika okkar við það þegar þeir líða skort. Orð Jesú þess efnis að ‚sælla sé að gefa en þiggja‘ eiga einnig við um það að veita efnislega hjálp. — Postulasagan 20:35.

13. (a) Nefndu nokkur frumsannindi sem við höfum lært með hjálp sýnilegs skipulags Jehóva. (b) Hvað benti Charles Taze Russell réttilega á?

13 Við höfum tækifæri til að sýna kærleika bræðrum okkar sem fara með forystuna í söfnuðinum eða innan sýnilegs skipulags Jehóva um allan heim. Það felur í sér að sýna ‚hinum trúa og hyggna þjóni‘ hollustu. (Matteus 24:45-47) Við skulum horfast í augu við þá staðreynd að við hefðum aldrei kynnst sannleikanum af eigin rammleik þótt við hefðum lesið Biblíuna fram og til baka. Við hefðum ekki uppgötvað sannleikann um Jehóva, um tilgang hans og eiginleika, um merkingu og þýðingu nafns hans, um Guðsríki, lausnargjald Jesú, mismuninn á skipulagi Guðs og Satans, og ekki heldur hvers vegna Guð hefur leyft illskuna. Fyrsti forseti Varðturnsfélagsins, Charles Taze Russell, skrifaði árið 1914: „Erum við ekki hamingjusöm og njótum við ekki mikillar blessunar? Er Guð okkar ekki trúfastur? Ef einhver þekkir eitthvað betra, þá fylgi hann því. Ef eitthvert ykkar finnur einhvern tíma eitthvað betra, þá vonum við að þið segið okkur frá því. Við þekkjum ekkert betra, ekkert sem kemst einu sinni í hálfkvisti við það sem við höfum fundið í orði Guðs. . . . Engin tunga eða penni getur lýst þeim friði, þeirri gleði og þeirri blessun sem skýr þekking á sannleika Guðs hefur veitt hjörtum okkar og lífi. Sagan af visku Guðs, réttvísi, mætti og kærleika fullnægir bæði kröfum hugans og hjartans. Við þurfum ekki að leita lengra. Ekkert er eftirsóknarverðara en að sjá þessa stórkostlegu sögu í enn skýrara ljósi.“ (Varðturninn (ensk útgáfa) þann 15. desember 1914, bls. 377-8.) Þetta var vel að orði komist!

Þjónusta við þá sem fyrir utan eru

14. Hvernig ætti kærleikur Guðs að koma okkur til að breyta gagnvart þeim sem fyrir utan eru?

14 Sá kærleikur Guðs, sem við höfum fengið að njóta, ætti að koma okkur til að sýna náungakærleika þeim sem eru utan safnaðarins. Hvernig getum við gert það? Undir vissum kringumstæðum geta nágrannar okkar þarfnast efnislegrar hjálpar frá okkur. Þó er langtum þýðingarmeira að við sýnum náungakærleika með því að færa öðrum fagnaðarerindið um Guðsríki og hjálpa unnendum réttlætisins að verða lærisveinar Jesú Krists. Tökum við reglulega þátt í þessari opinberu þjónustu eða vanrækjum við hana? Er hún orðin vanaverk fyrir okkur eða tökum við þátt í henni aðeins til málamynda, eða er það sannur náungakærleikur sem fær okkur til að boða trúna? Setjum við okkur í spor fólks? Erum við þolinmóð og bíðum þess að fólk tjái sig? Hvetjum við húsráðendur til að láta skoðanir sínar í ljós? Í stað þess að tala sjálf viðstöðulaust skulum við láta náungakærleikann koma okkur til að hlusta og eiga uppbyggilegar umræður út af Biblíunni við það fólk sem við hittum í þjónustunni.

15. (a) Hvers vegna er betra að tala um ‚óformlegan vitnisburð‘ en ‚tilfallandi vitnisburð‘? (b) Hvers vegna ættum við að notfæra okkur tækifæri til að bera óformlega vitni fyrir fólki?

15 Erum við vakandi fyrir tækifærum til að bera óformlega vitni? Rétt er að nefna að það er ekki einungis tilfallandi vitnisburður, vitnisburður sem hefur ekki verið undirbúinn eða skiptir ekki sérlega miklu máli. Óformlegur vitnisburður er afar þýðingarmikill og kærleikur til annarra manna fær okkur til að skapa okkur tækfæri til þátttöku í honum. Slíkur vitnisburður ber oft ríkulegan ávöxt! Bróðir sótti mót votta Jehóva á Norður-Ítalíu og fór, meðan á mótinu stóð, með bifreið sína á verkstæði til að láta skipta um ökuljós. Meðan hann beið bar hann vitni fyrir þeim sem voru umhverfis hann og fékk þeim boðsmiða á opinbera fyrirlesturinn á sunnudegi. Á alþjóðamóti í Róm einu ári síðar heilsaði bróðir, sem hann þekkti ekki, honum hlýlega. Hver var þessi bróðir? Það var einn af mönnunum sem hann hafði gefið boðsmiða á verkstæðinu einu ári áður! Maðurinn hafði komið og hlustað á opinberu ræðuna og lagt inn nafn sitt til að fá biblíunám. Núna voru bæði hann og kona hans vígðir vottar Jehóva. Það leikur enginn vafi á að óformlegur vitnisburður getur verið mjög umbunarríkur.

Höldum áfram að bregðast jákvætt við kærleika Guðs

16. Hvaða spurninga er við hæfi að við spyrjum okkur?

16 Jehóva hefur sýnt sköpunarverum sínum ríkulegan kærleika. Eins og fram hefur komið eru góð fordæmi í Biblíunni um menn sem brugðust óeigingjarnir við kærleika Guðs. Innblásin orð sálmaritarans voru vel við hæfi: „Þeir skulu þakka [Jehóva] miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn.“ (Sálmur 107:8, 15, 21, 31) Vogum við okkur að taka við óverðskuldaðri náð Guðs en láta tilganginn með henni fram hjá okkur fara? Megi það aldrei gerast! (2. Korintubréf 6:1) Við skulum því, hvert og eitt okkar, spyrja: ‚Kann ég raunverulega að meta þann kærleika sem Guð hefur nú þegar sýnt mér og ég treysti að ég muni njóta í framtíðinni? Kemur hann mér til að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu, huga og mætti? Snýst líf mitt í raun og veru um þjónustuna við Guð? Elska ég réttlætið og hata ranglætið? Sýni ég bróðurkærleika? Hversu gaumgæfilega reyni ég að feta í fótspor Jesú í þjónustu minni?‘

17. Hvaða árangri skilar það ef við bregðumst óeigingjörn við kærleika Jehóva Guðs?

17 Við getum með mörgu móti sýnt innilegt þakklæti fyrir þann kærleika sem Guð hefur sýnt okkur á svo marga vegu. Ef við notum öll tækifæri til að sýna kærleika, þá gleðjum við hjarta föður okkar á himnum, verðum öðrum til blessunar og uppskerum að auki gleði, frið og lífshamingju. Megum við því halda áfram að bregðast óeigingjörn við kærleika Guðs.

Hverju svarar þú?

◻ Hvers er krafist til þess að bregðast óeigingjörn við kærleika Guðs?

◻ Hvernig getum við staðið gegn freistingum?

◻ Nefndu nokkrar leiðir til að sýna bróðurkærleika.

◻ Hvernig ætti kærleikur Jehóva að hvetja okkur til að koma fram við náunga okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Til að forðast slys verðum við að berjast gegn syndugum tilhneigingum.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Öldungar sýna bróðurkærleika með því að starfa með öðrum boðberum á akrinum.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Charles Taze Russell, fyrsti forseti Varðturnsfélagsins, vakti athygli á þeim friði, gleði og blessun sem einungis Guð getur veitt.