Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er heimsfriður í augsýn?

Er heimsfriður í augsýn?

Er heimsfriður í augsýn?

ALLA sogu mannkynsins hefur enginn skortur verið á friðaráætlunum og friðaryfirlýsingum af einhverju tagi. Því miður virðist stríð jafnoft hafa gert þær að engu. Flestir hafa lært að treysta varlega friðarsáttmálum og friðaryfirlýsingum.

Á allra síðustu árum hafa margir fréttaskýrendur og fleiri, sem fylgjast grannt með heimsmálum, komist á þá skoðun að nú sé eitthvað nýtt að gerast. Þeir hafa slegið fram þeim möguleika að nú kunni friður að vera innan seilingar, þrátt fyrir staðbundin vandamál. „Vonin um friðsamlega lausn deilumála er reist á traustari grunni núna en nokkurn tíma fyrr frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar,“ sagði í yfirlýsingu Alþjóðafriðarstofnunarinnar í Stokkhólmi. Hin hraða atburðarás í Austur-Evrópu kom kunnum fréttamanni til að lýsa yfir: „Betri líkur virðast nú á friði á jörðu en nokkurn tíma áður frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.“ Meira að segja endurspeglaði tímaritið The Bulletin of the Atomic Scientists þennan hugblæ. Árið 1988 seinkaði það sinni frægu dómsdagsklukku úr þrem mínútum fyrir miðnætti í sex mínútur fyrir miðnætti, og síðan í 10 mínútur fyrir miðnætti í apríl 1990.

Allt hafði þetta vakið mikla bjartsýni áður en stríðið í Miðausturlöndum braust út. En jafnvel síðan hafa sumir haldið áfram að tala um að kalda stríðinu og vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna sé lokið. Sumir voru farnir að velta vöngum yfir því hvað ætti að gera við allt það fé sem þjóðir myndu geta sparað sökum stórminnkandi hernaðarútgjalda. Er hugsanlegt að nú sé runninn upp sá tími að varanlegur friður komist á? Eru þjóðirnar í raun og veru að lata sér lærast að „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum?“ (Jesaja 2:4) Hvað sýna staðreyndirnar?

Hinar gleymdu styrjaldir

„Endalok kalda stríðsins og hin nýja slökun milli austurs og vesturs hafa freistað sumra til að trúa að friður sé að komast á,“ segir Lundúnablaðið The Economist. „Svo er ekki. Þótt einum stórum spennuvaldi sé vikið úr vegi eru enn margir smáir spennuvaldar eftir í heiminum.“ Hverjir eru þessir ‚smáu‘ spennuvaldar eða átök?

Lentz-friðarrannsóknarstofan, sjálfstæð rannsóknarstofnun í Bandaríkjunum, skýrir svo frá að í september 1990 hafi að minnsta kosti 15 styrjaldir geisað í heiminum. Þá var innrás Íraka í Kúveit ekki meðtalin því að skýrslan taldi með einungis þær styrjaldir þar sem að minnsta kosti þúsund manns höfðu fallið á ári fram til þess tíma. Sumar þessara styrjalda voru búnar að vera í gangi í 20 ár eða lengur. Samanlagt hafa þær kostað 2.900.000 manns lífið, aðallega óbreytta borgara. Í þessari tölu eru ekki meðtaldir þeir sem fallið hafa í ýmsum af blóðugustu styrjöldunum sem hafði lokið á árinu áður, svo sem í Úganda, Afghanistan og stríði Írana og Íraka.

Nálega 3 milljónir manna voru drepnar meðan friður taldist ríkja í heiminum! Það er hörmulegt. Það er þó enn hörmulegra að flestar þessara styrjalda hafa geisað án þess að heimurinn í heild hafi veitt þeim athygli — eða harmað þær. Þetta eru hinar svokölluðu gleymdu styrjaldir því að flestar þeirra — valdarán, borgarastríð, byltingar — eru háðar í einhverjum hinna vanþróuðu ríkja heims. Flestir íbúa hinna auðugu iðnríkja heims virðast lítinn áhuga hafa haft á þeirri hálfu milljón manna sem fallið hefur í Súdan eða þeim þriðjungi úr milljón sem fallið hefur í Angóla. Reyndar eru þeir til sem halda fram að heimurinn hafi búið við einstæðan frið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, vegna þess að stríð var ekki háð meðal hinna þróuðu ríkja og risaveldin hafa ekki farið út í stríð hvort gegn öðru, þrátt fyrir gríðarlega hernaðaruppbyggingu.

Er von um frið?

Ef friður merkir einfaldlega að ekki sé háð heimsstyrjöld með kjarnorkuvopnum, þá má kannski leiða að því rök að þjóðir heims hafi nú þegar náð einhverjum árangri í friðarviðleitni sinni. Hin gagnkvæma tortímingarvissa hefur fram til þessa haldið aftur af risaveldunum. En er það friður í raun og veru? Hvernig getur það verið þegar fólk lifir í stöðugum ótta við skyndilega gereyðingu? Hvernig er hægt að tala um frið þegar styrjaldir, stórar og smáar, setja líf óteljandi einstaklinga úr skorðum, spilla lífsafkomu þeirra og meina þeim að njóta mannsæmandi tilveru og lífsfyllingar?

Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel skrifaði einu sinni: „Frá ómunatíð hafa menn talað um frið án þess að öðlast hann. Skortir okkur einfaldlega reynslu? Þótt við tölum um frið heyjum við stríð. Stundum heyjum við jafnvel stríð í nafni friðar. . . . Kannski eru stríð of snar þáttur mannkynssögunnar til þess að bundinn verði endi á þau — nokkurn tíma.“

Og skammt er liðið síðan stríð í Miðausturlöndum gerði friðartálsýn manna enn á ný að engu. Getur hugsast að mannkynið hafi einfaldlega vænst friðar úr rangri átt?

[Mynd á blaðsíðu 3]

„Ef til vill á núverandi kynsloð manna eftir að sjá varanlega friðartíma í sögu siðmenningarinnar ganga í garð.“— Mikhail Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, á leiðtogafundi í Washington, D.C., í maí 1990.

[Rétthafi]

UPI/Bettmann Newsphotos

[Myndir á blaðsíðu 4]

„Nýr frelsisheimur er framundan . . . heimur þar sem friður varir, þar sem verslun hefur samvisku og þar sem allt er virðist mögulegt er mögulegt.“ — George Bush, bandaríkjaforseti á heimsfundi um efnahagmál í Houston í Texas, í júlí 1990.

[Rétthafi]

UPI/Bettmann Newsphotos

„Þeir múrar, sem einu sinni takmörkuðu frelsi fólks og hugmynda, eru að hrynja. Evrópubúar eru sjálfir að ákveða örlög sín. Þeir eru að velja frelsið. Þeir eru að velja efnahagslegt frjálsræði. Þeir eru að velja frið.“ — Yfirlýsing leiðtogafundar NATO-ríkja í Lundúnum, í júlí 1990.