Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Ástundið frið og keppið eftir honum‘

‚Ástundið frið og keppið eftir honum‘

‚Ástundið frið og keppið eftir honum‘

„Vegsamaður sé [Jehóva], hann sem ann þjóni sínum heilla!“ — SÁLMUR 35:27.

1. Hvaða friðar njótum við nú á dögum?

 HVÍLÍK gleði er það að búa við frið í þessum sundraða heimi! Það er unaðslegt að tilbiðja Jehóva, ‚sjálfan friðarins Guð,‘ og eiga hlutdeild í þeirri blessun sem fylgir „friðarsáttmála“ hans! Það er hressandi í öllu því álagi, sem fylgir lífinu, að þekkja ‚frið Guðs sem er æðri öllum skilningi‘ og finna fyrir „bandi friðarins“ sem sameinar þjóna Guðs óháð þjóðerni, tungu, kynþætti eða félagslegum uppruna! — 1. Þessaloníkubréf 5:23; Esekíel 37:26; Filippíbréfið 4:7; Efesusbréfið 4:3.

2, 3. (a) Hvernig getur farið fyrir einstökum kristnum mönnum þótt þjónar Guðs í heild muni halda út? (b) Hvað hvetur Biblıan okkur til að gera?

2 Við sem erum vottar Jehóva metum þennan frið mikils. Við getum þó ekki gengið að honum sem gefnum hlut. Friður helst ekki sjálfkrafa aðeins vegna þess að við eigum aðild að kristnum söfnuði eða erum hluti kristinnar fjölskyldu. Enda þótt hinar smurðu leifar og félagar þeirra, hinir ‚aðrir sauðir,‘ muni standa sem hjörð allt til enda, þá geta einstaklingar glatað friði sínum og fallið frá. — Jóhannes 10:16; Matteus 24:13; Rómverjabréfið 11:22; 1. Korintubréf 10:12.

3 Páll postuli aðvaraði kristna menn sinnar samtíðar: „Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.“ (Hebreabréfið 3:12) Þessi aðvörun á líka við múginn mikla. Biblían hvetur því kristna menn: ‚Astundið frið og keppið eftir honum. Því að augu Jehóva eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En augliti Jehóva er gegn þeim sem illt gjöra.‘ — 1. Pétursbréf 3:10-12; Sálmur 34:15, 16.

„Hyggja holdsins“

4. Hvað gæti raskað friði okkar við Guð?

4 Hvað getur truflað eða stöðvað eftirsókn okkar eftir friði? Páll nefnir eitt er hann segir: „Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður. Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði.“ (Rómverjabréfið 8:6, 7) Með orðinu ‚hold‘ á Páll við fallið ástand okkar sem ófullkominna manna með arfgenga tilhneigingu til syndar. Ef við látum undan tilhneigingum hins fallna holds spillir það friði okkar. Ef kristinn maður drýgir hór, lýgur, stelur, neytir fíkniefna eða brýtur lög Guðs með öðrum hætti án þess að iðrast, þá raskar hann þeim friði við Jehóva sem hann áður hafði. (Orðskviðirnir 15:8, 29; 1. Korintubref 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8) Enn fremur er friður hans við Guð í stórkostlegri hættu ef hann leyfir efnislegum hlutum að verða þýðingarmeiri í huga sér en andlegum hlutum. — Matteus 6:24; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

5. Hvað er fólgið í því að keppa eftir friði?

5 Á hinn bóginn sagði Páll: „Hyggja andans [er] líf og friður.“ Friður er hluti af ávexti andans og ef við þjálfum hjarta okkar í því að meta andlega hluti að verðleikum og biðjum um anda Guðs til að hjálpa okkur við það, þá munum við forðast ‚hyggju holdsins.‘ (Galatabréfið 5:22-24) Í 1. Pétursbréfi 3:10-12 er friður tengdur réttlæti. (Rómverjabréfið 5:1) Pétur segir að ástundun friðarins feli í sér að ‚sneiða hjá illu og gera gott.‘ Andi Guðs getur hjálpað okkur að „stunda réttlæti“ og þannig varðveita frið okkar við Guð. — 1. Tímóteusarbréf 6:11, 12.

6. Hvað er meðal annars fólgið í ábyrgð öldunganna varðandi frið safnaðarins?

6 Ástundun friðarins er eitt af helstu hugðarefnum öldunganna í söfnuðinum. Ef einhver reynir til dæmis að koma saurgandi athöfnum inn í söfnuðinn, þá er öldungunum skylt að vernda söfnuðinn með því að reyna að áminna syndarann. Ef hann tekur áminningunni mun hann endurheimta frið sinn. (Hebreabréfið 12:11) Ef ekki getur þurft að víkja honum úr söfnuðinum þannig að varðveita megi friðsamlegt samband safnaðarins við Jehóva. — 1. Korintubréf 5:1-5.

Friður við bræður okkar

7. Hvernig getur ‚hyggja holdsins,‘ sem Páll varaði Korintumenn við, birst?

7 „Hyggja holdsins“ getur spillt bæði friði okkar við Guð og einnig góðu sambandi við aðra kristna menn. Páll skrifaði Korintumönnum: „Enn þá eruð þér holdlegir menn. Fyrst metingur og þráttan er á meðal yðar, eruð þér þá eigi holdlegir og hegðið yður á manna hátt?“ (1. Korintubréf 3:3) Metingur og þráttan eru andstæða friðarins.

8. (a) Hvernig getur farið fyrir þeim sem veldur metingi og þrætu í söfnuðinum? (b) Undir hverju er friður okkar við Guð kominn?

8 Það er mjög alvarlegur hlutur að spilla friði safnaðarins með því að valda metingi og átökum. Jóhannes postuli talaði um eiginleika tengda friði sem ávexti andans og aðvaraði: „Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20) Á sama hátt má spyrja hvort einstaklingur, sem veldur öfund eða þrætum meðal bræðra, geti í raun átt frið við Guð. Svo sannarlega ekki! Við erum hvött: „Verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.“ (2. Korintubréf 13:11) Já, ef við höldum áfram að búa í friði hver við annan, þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með okkur.

9. Hvernig vitum við að misskilningur og ósamkomulag verður stundum milli kristinna manna?

9 Þetta merkir ekki að aldrei muni koma upp misskilningur milli kristinna manna. Fyrstu vikurnar eftir hvítasunnuna var ósamkomulag í hinum unga kristna söfnuði varðandi daglega matvæladreifingu. (Postulasagan 6:1) Einhverju sinni urðu Páll og Barnabas ósammála og „varð þeim mjög sundurorða.“ (Postulasagan 15:39) Páll þurfti að áminna Evodíu og Sýntýke, sem vafalaust voru góðar, kostgæfar systur, um „að vera samlyndar vegna Drottins.“ (Filippíbréfið 4:2) Engin furða er að Jesús skyldi gefa ítarleg ráð um það hvernig fara ætti að ef eitthvað raskaði friði kristinna manna hver við annan, og leggja áherslu á nauðsyn þess að taka skjótt á slíkum málum. (Matteus 5:23-25; 18:15-17) Hann hefði ekki gefið slík ráð ef hann hefði ekki séð fram á erfiðleika meðal fylgjenda sinna.

10. Hvaða aðstæður koma stundum upp í söfnuðinum og hvaða ábyrgð leggur það á alla sem hlut eiga að máli?

10 Það getur því vel gerst nú á dögum að einhver móðgist ut af ónærgætnislegu orði eða óvirðingu sem honum finnst trúbróðir hans hafa sýnt sér. Eitthvert einkenni eins manns getur farið mjög í taugarnar á öðrum. Árekstrar geta orðið sökum ólíks persónuleika. Einhver getur verið afar ósammála ákvörðun öldunganna. Innan öldungaráðsins getur einn öldungur verið mjög viljafastur og reynt að vera hinum öldungunum yfirsterkari. Þrátt fyrir að slíkt skuli gerast verðum við eftir sem áður að ástunda frið og keppa eftir honum. Það er áskorun á okkur að taka kristilega á slíkum málum til að varðveita „einingu andans í bandi friðarins.“ — Efesusbréfið 4:3.

11. Hvaða ráðstafanir hefur Jehóva gert til að hjálpa okkur að ástunda frið hver við annan?

11 Biblían segir: „Vegsamaður sé [Jehóva], hann sem ann þjóni sínum heilla!“ (Sálmur 35:27) Já, Jehóva vill að við njótum heilla og friðar. Þess vegna hefur hann gert tvær einstakar ráðstafanir til að hjálpa okkur að varðveita frið okkar á meðal og við hann. Önnur þeirra er heilagur andi sem gefur frið í ávöxt ásamt skyldum, friðsömum eiginleikum svo sem langlyndi, gæsku, góðvild og sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Hin ráðstöfunin er viska Guðs sem við lesum um: „Sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta.“ — Jakobsbréfið 3:17, 18.

12. Hvað ættum við að gera ef friður okkar við bræður okkar raskast?

12 Þess vegna ættum við, þegar friði okkar við aðra er raskað, að biðja um visku sem að ofan er til að sýna okkur hvað við eigum að gera, og við ættum að biðja um heilagan anda til að styrkja okkur í því að gera það sem er rétt. (Lúkas 11:13; Jakobsbréfið 1:5; 1. Jóhannesarbréf 3:22) Við getum síðan, í samræmi við bæn okkar, skyggnst í viskuuppsprettu Guðs, Biblíuna, til leiðsagnar, auk þess að leita í handbærum biblíuritum að ráðum um hvernig við eigum að heimfæra Ritninguna. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Við getum líka óskað að leita ráða hjá öldungum safnaðarins. Síðasta skrefið yrði svo að fylgja leiðsögninni sem við höfum fengið. Jesaja 54:13 segir: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ Þetta gefur í skyn að friður okkar sé háður því að við notfærum okkur það sem Jehóva kennir.

„Sælir eru friðflytjendur“

13, 14. (a) Hvað er fólgið í orðinu „friðflytjendur“ sem Jesús notaði? (b) Hvernig getum við orðið friðflytjendur?

13 Jesús sagði í fjallræðu sinni: „Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Matteus 5:9) ‚Friðflytjandi‘ er ekki sá sem er einfaldlega kyrrlátur að eðlisfari. Hann er friðflytjandi í þeim skilningi að hann kann að koma á friði þegar friðnum er raskað. Enn mikilvægara er þó að friðflytjandi gerir sér far um að forðast það að spilla friði yfirleitt. ‚Friður ríkir í hjarta hans.‘ (Kólossubréfið 3:15) Ef þjónar Guðs kappkosta að vera friðflytjendur, þá verða vandamál þeirra á meðal í lágmarki.

14 Sá sem vill vera friðflytjandi þarf að horfast í augu við veikleika sína. Kristinn maður getur til dæmis verið skapbráður eða viðkvæmur og auðmóðgaður. Undir álagi geta tilfinningar hans komið honum til að gleyma meginreglum Biblíunnar. Þetta er ekkert undarlegt meðal ófullkominna manna. (Rómverjabréfið 7:21-23) Eigi að síður eru fjandskapur, deilur og metingur talin verk holdsins. (Galatabréfið 5:19-21) Ef við merkjum slíkar tilhneigingar í fari okkar — eða ef aðrir vekja athygli okkar á þeim — þá ættum við að biðja stöðugt og í einlægni að andi Jehóva þroski með okkur mildi og sjálfstjórn. Allir ættu að kappkosta að rækta með sér slíka eiginleika sem hluta nýja persónuleikans. — Efesusbréfið 4:23, 24; Kólossubréfið 3:10, 15.

15. Hvernig er viska að ofan andstæð ósanngirni og þrjósku?

15 Fyrir kemur að einhver sem er þrjóskur og vill alltaf koma sínu fram, raskar friði safnaðar eða öldungaráðs. Að vísu á kristinn maður að vera viljafastur, jafnvel ósveigjanlegur, þegar lög Guðs eiga í hlut, og ef okkur finnst við hafa fengið góða hugmynd, sem geti orðið öðrum til gagns, er ekkert rangt við að koma henni skýrt á framfæri, svo framarlega sem við færum rök fyrir máli okkar. Við viljum hins vegar ekki vera eins og þeir menn í heiminum sem eru „ósáttfúsir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Viskan að ofan er friðsöm og sannsýn. Þeir sem eru að jafnaði þrjóskir og ósveigjanlegir ættu að taka til sín heilræði Páls til Filippímanna um að ‚gera ekkert af eigingirni eða hégómagirnd.‘ — Filippíbréfið 2:3.

16. Hvernig hjálpa heilræði Páls í Filippíbréfinu okkur að sigrast á eigingirni?

16 Í sama bréfi hvetur Páll til þess að við séum „lítillátir“ og metum í einlægni aðra ‚meira en sjálfa okkur.‘ Þetta er andstæða eigingirninnar. Þroskaður kristinn maður hugsar ekki fyrst og fremst um að koma eigin hugmyndum fram, bjarga andlitinu eða verja stöðu sína og vald. Það gengur í berhögg við hvatningu Páls um að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ — Filippíbréfið 2:4; 1. Pétursbréf 5:2, 3, 6.

Friðsamleg orð

17. Hvaða röng notkun tungunnar getur raskað friði safnaðarins?

17 Sá sem keppir að friði er sérstaklega varkár í notkun tungunnar. Jakob aðvarar: „Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. Sjá hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi.“ (Jakobsbréfið 3:5) Illkvittnislegt slúður, baktal, óvingjarnleg og hranaleg orð, mögl og kvartanir, og auk þess óheiðarlegt smjaður í eiginhagsmunaskyni — allt þetta eru verk holdsins sem raska friði þjóna Guðs. — 1. Korintubréf 10:10; 2. Korintubréf 12:20; 1. Tímóteusarbréf 5:13; Júdasarbréfið 16.

18. (a) Hvað er rétt af öllum hlutaðeigandi að gera ef tungan er óviljandi notuð ranglega? (b) Hvernig bregðast þroskaðir kristnir menn við þegar reiði kemur einhverjum til að vera meiðandi í orðum?

18 Að vísu sagði Jakob: „Tunguna getur enginn maður tamið.“ (Jakobsbréfið 3:8) Jafnvel þroskaðir kristnir menn segja stundum hluti sem þeir iðrast einlæglega eftir á. Öll vonum við að aðrir fyrirgefi okkur slík mistök alveg eins og við fyrirgefum þeim. (Matteus 6:12) Stundum getur reiði blossað upp og framkallað meiðandi orð. Þá hefur friðflytjandi í huga að „mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Oft verður hann að láta sér nægja að draga djúpt andann og neita að svara reiðilegum orðum með fleiri reiðilegum orðum. Eftir á, þegar skapið hefur róast, getur hjartastór friðflytjandi horft fram hjá orðum sem sögð voru í hita augnabliksins. Og auðmjúkur kristinn maður kann að biðjast afsökunar og reynir að græða hver þau sár sem hann hefur valdið. Það er merki siðferðisstyrks að geta sagt í hreinskilni: „Fyrirgefðu.“

19. Hvað lærum við af Páli og Jesú um það að gefa ráð?

19 Rétt er að beita tungunni til að leiðbeina öðrum. Páll áminnti Pétur opinberlega er hinn síðarnefndi breytti ranglega í Antíokkíu. Og Jesús gaf tæpitungulaus heilræði í boðskap sínum til safnaðanna sjö. (Galatabréfið 2:11-14; Opinberunarbókin 2. og 3. kafli) Ef við kynnum okkur þessi dæmi verður okkur ljóst að heilræði ættu ekki að vera svo mild að þau missi marks. Eigi að síður voru hvorki Jesús né Páll harðneskjulegir eða grimmir. Heilræðin voru ekki leið fyrir þá til að gefa vonbrigðum sınum útrás. Þeir voru af heilum huga að reyna að hjálpa bræðrum sínum. Ef sá sem ræður öðrum heilt finnur að hann hefur ekki fulla stjórn á tungu sinni má vera að hann vilji gera hlé til að róast áður en hann segir nokkuð. Að öðrum kosti gæti hann orðið hranalegur og búið til verra vandamál en hann er að reyna að leysa. — Orðskviðirnir 12:18.

20. Hvað ætti að stjórna öllu því sem við segjum við eða um bræður okkar og systur?

20 Eins og áður er nefnt eru friður og kærleikur nátengdir sem ávextir andans. Ef það sem við segjum bræðrum okkar — eða um þá — endurspeglar alltaf kærleika okkar til þeirra, þá stuðlar það að friði í söfnuðinum. (Jóhannes 15:12, 13) Orð okkar verða að vera ‚ljúfleg og salti krydduð.‘ (Kólossubréfið 4:6) Þau ættu að vera smekkleg og höfða til hjartans. Jesús ráðlagði: „Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar a milli.“ — Markús 9:50.

‚Kostið kapps‘

21. Hvað er auðsætt í sambandi við þjóna Guðs á vikulegum samkomum þeirra?

21 Sálmaritarinn skrifaði: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman.“ (Sálmur 133:1) Við höfum sannarlega yndi af því að vera með bræðrum okkar, einkum á hinum vikulegu samkomum og mótunum. Þá er friður okkar augljós jafnvel þeim sem fyrir utan standa.

22. (a) Hvaða falskan frið munu þjóðirnar bráðlega halda sig hafa náð og til hvers mun það leiða? (b) Til hvaða raunverulegs friðar mun friðarsáttmáli Guðs leiða?

22 Bráðlega munu þjóðirnar halda að þær séu að koma á friði án Jehóva. En þótt þær segi: „Friður og engin hætta,“ mun skyndileg eyðing koma yfir alla sem ekki eiga frið við Guð. (1. Þessaloníkubréf 5:3) Eftir það mun hinn mikli friðarhöfðingi taka til við að lækna mannkynið af hörmulegum afleiðingum þess að maðurinn í upphafi glataði friði sínum við Guð. (Jesaja 9:6, 7; Opinberunarbókin 22:1, 2) Þá mun friðarsáttmáli Guðs koma á friði og ró um víða veröld. Jafnvel dýr merkurinnar munu njóta hvíldar frá óvináttu. — Sálmur 37:10, 11; 72:3-7; Jesaja 11:1-9; Opinberunarbókin 21:3, 4.

23. Hvað ættum við að gera núna ef við metum mikils vonina um friðsælan nýjan heim?

23 Það verða dýrlegir tímar! Hlakkar þú til þeirra með mikilli óþreyju? Ef svo er skalt þú ‚stunda frið við alla menn.‘ Stundaðu frið núna við bræður þína og þó einkum við Jehóva. Já, ‚með því að þú væntir slíkra hluta, þá kappkostaðu að vera flekklaus og lýtalaus frammi fyrir honum í friði.‘ — Hebreabréfið 12:14; 2. Pétursbréf 3:14.

Manst þú?

◻ Hvað getur spillt friði okkar við Jehóva?

◻ Hvers konar misskilning getur þurft að leysa í söfnuðinum?

◻ Hvaða ráðstöfun hefur Jehóva gert til að hjálpa okkur að ástunda frið og keppa eftir honum?

◻ Hvaða holdleg viðhorf geta raskað friði safnaðarins og hvernig getum við unnið gegn þeim?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Friður ríkir meðal þeirra sem Jehóva kennir.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Friður bræðra, sem þjóna saman í einingu, er yndislegur!