Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Afstæð undirgefni okkar við æðri yfirvöld

Afstæð undirgefni okkar við æðri yfirvöld

Afstæð undirgefni okkar við æðri yfirvöld

„Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 13:5.

1. Hvaða erfiða reynslu máttu vottar Jehóva þola af hendi nasista og var það vegna þess að þeir ‚gerðu illt‘?

 ÞANN 7. janúar árið 1940 voru Franz Reiter og fimm aðrir, ungir Austurríkismenn líflátnir með fallöxi. Þeir voru biblíunemendur, vottar Jehóva, og þeir dóu vegna þess að þeir gátu ekki, samvisku sinnar vegna, borið vopn fyrir þriðja ríki Hitlers. Franz Reiter var einn af mörg þusund vottum sem dóu fyrir trú sína í síðari heimsstyrjöldinni. Margir fleiri máttu þola margra ára fangabúðavist. Þurftu þeir allir að þjást undan ‚sverði‘ nasiskra yfirvalda fyrir það að ‚aðhafast hið illa‘? (Rómverjabréfið 13:4) Alls ekki! Orð Páls í framhaldinu sýna að þessir kristnu menn hlýddu boðum Guðs í Rómverjabréfinu 13. kafla, jafnvel þótt þeir hafi þurft að þjást af hendi yfirvalda.

2. Hvers vegna er nauðsynlegt að hlýða æðri yfirvöldum?

2 Í Rómverjabréfinu 13:5 skrifar postulinn: „Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar.“ Áður hafði Páll sagt að yfirvöld bæru „sverðið“ og það væri góð ástæða til að vera þeim undirgefinn. En núna nefnir hann enn þýðingarmeiri ástæðu: samviskuna. Við kappkostum að þjóna Guði „með hreinni samvisku.“ (2. Tímóteusarbréf 1:3) Biblían segir okkur að vera undirgefin yfirvöldum og við hlýðum vegna þess að við viljum gera það sem er rétt í augum Guðs. (Hebreabréfið 5:14) Samviska okkar, sem er þjálfuð af Biblíunni, fær okkur til að hlýða yfirvöldum jafnvel þó að enginn maður sjái til okkar. — Samanber Prédikarann 10:20.

Þess vegna gjaldið þér og skatta

3, 4. Hvaða orð fer af vottum Jehóva og hvers vegna ættu kristnir menn að greiða skatta?

3 Fyrir nokkrum árum áttu sér stað uppþot í Nígeríu út af sköttum. Nokkrir féllu í átökunum og yfirvöld sendu herinn á vettvang. Hermennirnir fóru inn í Ríkissal, þar sem samkoma stoð yfir, og heimtuðu að fá að vita hver væri tilgangur samkomunnar. Þegar hermennirnir komust að raun um að þar var um að ræða biblíunámssamkomu votta Jehóva sagði foringinn hermönnunum að fara og bætti við: „Vottar Jehóva æsa ekki til uppþota gegn sköttum.“

4 Þessir vottar í Nígeríu höfðu orð á sér fyrir að lifa í samræmi við orð Páls: „Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta.“ (Rómverjabréfið 13:6) Er Jesús gaf regluna um að ‚gjalda keisaranum það sem keisarans er,‘ þá var hann að tala um skattgreiðslu. (Matteus 22:21) Veraldleg yfirvöld sjá fyrir vegum, lögregluvernd, bókasöfnum, samgöngukerfum, skólum, póstþjónustu og mörgu fleiru. Oft notfærum við okkur þessa þjónustu. Það er einungis rétt að við greiðum fyrir hana með sköttum okkar.

„Gjaldið öllum það sem skylt er“

5. Hvað er átt við með orðunum „gjaldið öllum það sem skylt er“?

5 Páll heldur áfram: „Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber.“ (Rómverjabréfið 13:7) Orðið ‚allir‘ nær til allra veraldlegra yfirvalda sem eru þjónn Guðs. Þar eru engar undantekningar. Jafnvel þótt við búum undir stjórnarfari sem okkur geðjast ekki persónulega að greiðum við skatta. Ef trúfélög eru undanþegin sköttum þar sem við búum, þá geta söfnuðirnir notfært sér það. Og líkt og aðrir borgarar geta kristnir menn notað alla lögmæta frádráttarliði til að lækka skatta sína, eins og aðrir borgarar. Enginn kristinn maður ætti þó að koma sér hjá því með ólöglegum hætti að greiða skatta. — Samanber Matteus 5:41; 17:24-27.

6, 7. Hvers vegna ættum við að greiða skatta jafnvel þótt féð sé notað til að fjármagna sumt sem við erum ósammála eða þótt yfirvöld ofsæki okkur?

6 Setjum sem svo að ákveðinn skattur virðist ranglátur, eða að hluti skatttekna ríkisins sé notaður til að fjármagna eitthvað sem við erum ósátt við, svo sem frjálsar fóstureyðingar, starfsemi blóðbanka eða starfsemi sem stangast á við hlutleysi okkar. Við greiðum alla okkar skatta eftir sem áður. Yfirvöld verða að bera ábyrgð á því hvernig þau nota skattféð. Við höfum ekki umboð til að dæma yfirvöldin. Guð er „dómari jarðar,“ og þegar hann álítur tímabært mun hann gera upp reikninga við yfirvöld um það hvernig þau hafa beitt valdi sínu. (Sálmur 94:2; Jeremía 25:31) Við greiðum okkar skatta uns það gerist.

7 Hvað þá ef yfirvöld ofsækja okkur? Við greiðum skatta eftir sem áður vegna þeirrar daglegu þjónustu sem veitt er. Dagblaðið Examiner í San Fransisco sagði um ofsóknir á hendur vottunum í Afríkulandi einu: „Það má líta á þá sem fyrirmyndarborgara. Þeir greiða skatta samviskusamlega, annast sjúka og berjast gegn ólæsi.“ Já, þessir ofsóttu vottar greiddu skatta sína.

„Ótti“ og „virðing“

8. Hvaða „ótti“ er það sem við eigum að gjalda yfirvöldum?

8 ‚Óttinn‘ í Rómverjabréfinu 13:7 er ekki ótti sprottinn af hugleysi heldur virðingu fyrir veraldlegum yfirvöldum, ótti við að brjóta log þeirra. Þeim er sýnd virðing sökum stöðu sinnar, ekki alltaf vegna þess einstaklings sem gegnir stöðunni. Er Biblían talar í spádómi um Tíberíus Rómakeisara kallar hún hann ‚fyrirlitlegan mann.‘ (Daníel 11:21) Eigi að síður var hann keisari og kristnir menn áttu að sýna honum ótta og virðingu sem slíkum.

9. Nefndu nokkrar leiðir til að sýna mennskum yfirvöldum virðingu.

9 Að því er varðar virðingu fylgjum við boði Jesú um að nota ekki titla byggða á trúarlegum embættum. (Matteus 23:8-10) Þegar hins vegar veraldleg yfirvöld eiga í hlut ávörpum við þau gjarnan með hverjum þeim titli sem krafist er til að heiðra þau. Páll notaði titilinn ‚göfugur‘ er hann ávarpaði rómverska landstjóra. (Postulasagan 26:25) Daníel ávarpaði Nebúkadnesar „herra.“ (Daníel 4:19) Nú á dögum geta kristnir menn notað ávarpsorð svo sem „yðar hátign“ eða önnur slík. Þeir geta risið úr sætum er dómari gengur inn í réttarsal eða hneigt sig í virðingarskyni fyrir valdhafa ef það er venja.

Afstæð undirgefni

10. Hvernig sýndi Jesús að því séu takmörk sett sem mennsk yfirvöld geta krafist af kristnum manni?

10 Hvers vegna urðu Franz Reiter og margir aðrir að þjást sem raun ber vitni, úr því að vottar Jehóva eru undirgefnir mennskum yfirvöldum? Vegna þess að undirgefni okkar er afstæð og yfirvöld virða ekki alltaf að Biblían skuli setja því takmörk sem þau geta krafist. Ef yfirvöld krefjast einhvers sem stríðir gegn þjálfaðri samvisku kristins manns fara þau út fyrir þau mörk sem Guð hefur sett þeim. Jesús gaf það til kynna er hann sagði: „Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 22:21) Þegar keisarinn krefst þess sem tilheyrir Guði verðum við að viðurkenna að Guð er rétthærri.

11. Hvaða meginregla er almennt viðurkennd sem sýnir að því eru takmörk sett sem mennsk yfirvöld geta krafist?

11 Er þetta niðurrifsstarfsemi eða sviksamleg afstaða? Alls ekki. Hún er meira að segja útfærsla vissrar meginreglu sem flestar siðmenntaðar þjóðir viðurkenna. Á 15. öld var maður að nafni Peter von Hagenbach leiddur fyrir rétt og sakaður um að hafa komið a ógnarstjórn á því svæði Evrópu sem hann réði yfir. Vörn hans var sú að hann hafði einungis verið að framfylgja fyrirskipunum herra síns, hertogans af Búrgúndý. Þessi vörn var talin ógild. Síðan þá hefur oft verið staðhæft að sá sem fremur ódæðisverk sé ekki ábyrgur fyrir þeim ef hann er að framfylgja fyrirskipunum æðri yfirvalda. Þekktasta dæmið eru stríðsglæpamenn nasista sem vörðu sig með þessum rökum við Nürnberg-réttarhöldin. Þessari vörn hefur yfirleitt verið hafnað. Alþjóðadómstóllinn sagði í dómi sínum: „Einstaklingurinn hefur alþjóðlegar skyldur sem eru hafnar yfir þá skyldu hans að hlýða kröfum hins einstaka ríkis.“

12. Nefndu nokkur dæmi úr Biblíunni um þjóna Guðs sem neituðu að hlýða ósanngjörnum kröfum yfirvalda.

12 Þjónar Guðs hafa alltaf gert sér ljóst að þeirri undirgefni, sem þeir skulda yfirvöldum samvisku sinnar vegna, eru takmörk sett. Um það leyti er Móse fæddist í Egyptalandi fyrirskipaði Faraó tveim hebreskum ljósmæðrum að drepa alla nýfædda, hebreska drengi. Ljósmæðurnar þyrmdu hins vegar börnunum. Var rangt af þeim að óhlýðnast Faraó? Nei, þær voru að hlýða samviskunni sem Guð hafði gefið þeim, og Guð blessaði þær fyrir. (2. Mósebók 1:15-20) Er Ísraelsmenn voru útlagar í Babýlon krafðist Nebúkadnesar þess að embættismenn hans, þeirra á meðal Hebrearnir Sadrak, Mesak og Abednegó, féllu fram fyrir líkneski sem hann hafði látið reisa í Dúradal. Hebrearnir þrír neituðu. Var það rangt af þeim? Nei, því að þeir hefðu óhlýðnast lögum Guðs ef þeir hefðu hlýðnast boði konungs. — 2. Mósebók 20:4, 5; Daníel 3:1-18.

‚Hlýðið Guði‘

13. Hvaða fordæmi settu frumkristnir menn í sambandi við afstæða hlýðni við yfirvöld?

13 Er hin gyðinglegu yfirvöld fyrirskipuðu Pétri og Jóhannesi að hætta að prédika um Jesú svöruðu þeir í sama dúr: „Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum.“ (Postulasagan 4:19; 5:29) Þeir gátu ekki þagað. Tímaritið The Christian Century vekur athygli á annarri afstöðu sem frumkristnir menn tóku samvisku sinnar vegna. „Fyrstu kristnu mennirnir gegndu ekki herþjónustu. Roland Benton nefnir að ‚frá lokum Nýjatestamentistímans til áratugarins 170-180 finnist engin merki um kristna menn í hernum.‘ (Christian Attitudes Toward War and Peace [Abingdon 1960], bls. 67-8.) . . . Swift segir að Jústínus píslarvottur ‚líti á það sem sjálfsagðan hlut að kristnir menn haldi sér frá ofbeldisverkum.‘“

14, 15. Nefndu nokkrar meginreglur Biblíunnar sem stjórnuðu hinni afstæðu hlýðni kristinna manna við yfirvöld.

14 Hvers vegna þjónuðu frumkristnir menn ekki sem hermenn? Vafalaust hefur hver og einn kynnt sér vel orð Guðs og lög og tekið persónulega ákvörðun út frá uppfræddri samvisku sinni. Þeir voru hlutlausir, ‚tilheyrðu ekki heiminum,‘ og hlutleysi þeirra bannaði þeim að taka afstöðu í deilumálum þessa heims. (Jóhannes 17:16; 18:36) Auk þess tilheyrðu þeir Guði. (2. Tímóteusarbréf 2:19) Ef þeir hefðu lagt líf sitt í sölurnar fyrir ríkið hefðu þeir verið að gefa keisaranum það sem tilheyrði Guði. Enn fremur voru þeir hluti af alþjóðlegu bræðrafélagi sem bundið var kærleiksböndum. (Jóhannes 13:34, 35; Kólossubréfið 3:14; 1. Pétursbréf 4:8; 5:9) Þeir gátu ekki með góðri samvisku gripið til vopna og hætt á að drepa kristna bræður sína.

15 Auk þessa gátu kristnir menn ekki tekið þátt í almennum trúarathöfnum, svo sem keisaradýrkun. Þar af leiðandi var litið á þá sem „undarlegt og hættulegt fólk og aðrir höfðu eðlilega illan bifur á þeim.“ (Still the Bible Speaks eftir W. A. Smart) Þótt Páll hafi skrifað að kristnir menn ættu að ‚gjalda þeim ótta sem ótti ber‘ gleymdu þeir ekki sínum meiri ótta eða virðingu fyrir Jehóva. (Rómverjabréfið 13:7; Sálmur 86:11) Jesús sjálfur sagði: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í [Gehenna].“ — Matteus 10:28.

16. Á hvaða sviðum verða kristnir menn að vega og meta vandlega undirgefni sína við yfirvöld?

16 Við sem erum kristnir menn stöndum frammi fyrir svipuðum áskorunum nú á dögum. Við getum ekki tekið þátt í neinni nútímategund skurðgoðadýrkunar — hvort sem um er að ræða tilbeiðsluvott gagnvart líkneski eða tákni eða hitt að tilreikna einstaklingi eða stofnun hjálpræði. (1. Korintubréf 10:14; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Og líkt og frumkristnir menn getum við ekki hvikað frá kristnu hlutleysi okkar. — Samanber 2. Korintubréf 10:4.

‚Hógværð og virðing‘

17. Hvaða ráð gaf Pétur þeim sem þjást vegna samvisku sinnar?

17 Pétur postuli skrifaði um þá afstöðu, sem við tökum samviskunnar vegna, og sagði: „Ef einhver þolir móðganir og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð, þá er það þakkar vert.“ (1. Pétursbréf 2:19) Já, það er Guði þóknanlegt þegar kristinn maður er staðfastur í ofsóknum, auk þess að það hefur í för með sér að trú hans styrkist og fágast. (Jakobsbréfið 1:2-4; 1. Pétursbréf 1:6, 7; 5:8-10) Pétur segir einnig: „En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum. En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:14-16) Þetta eru mjög gagnleg ráð.

18, 19. Hvernig getur virðing og sanngirni verið til hjálpar ef yfirvöld takmarka tilbeiðslufrelsi okkar?

18 Þegar ofsóknir koma til af því að yfirvöld misskilja afstöðu kristinna manna eða trúarleiðtogar kristna heimsins hafa gefið yfirvöldum villandi mynd af vottum Jehóva, þá getur álagið stundum minnkað við það að segja yfirvöldum frá staðreyndum málsins. Með því að kristinn maður er hógvær og sýnir virðingu heyr hann ekki líkamlega baráttu gegn ofsækjendum. Hins vegar beitir hann sérhverjum lögmætum ráðum, sem hann getur, til að verja trú sína. Síðan leggur hann málið í hendur Jehóva. — Filippíbréfið 1:7; Kólossubréfið 4:5, 6.

19 Djúp virðing fær kristinn mann líka til að ganga eins langt og hann getur í því að hlýða yfirvöldum, án þess að brjóta gegn samvisku sinni. Ef safnaðarsamkomur eru til dæmis bannaðar finna kristnir menn leið til að nærast af borði Jehóva, svo að minna beri á. Æðsta yfirvaldið, Jehóva Guð, segir okkur fyrir munn Páls: „Hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Hins vegar er hægt að halda slıkar samkomur svo lítið beri á. Jafnvel þótt aðeins fáeinir einstaklingar séu viðstaddir getum við treyst að Guð blessi slíka ráðstöfun. — Samanber Matteus 18:20.

20. Hvernig geta kristnir menn tekist á við vandann ef opinber prédikun fagnaðarerindins er bönnuð?

20 Sums staðar hafa yfirvöld einnig bannað opinbera prédikun fagnaðarerindisins. Kristnir menn, sem búa við þær aðstæður, muna að hið æðsta yfirvald sagði fyrir munn Jesú: „En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Þess vegna hlýða þeir hinu æðsta yfirvaldi hvað sem það kostar. Postularnir prédikuðu opinberlega og hús úr húsi hvar sem þeir gátu, en það er líka hægt að ná til fólks með öðrum hætti, svo sem með óformlegum vitnisburði. (Jóhannes 4:7-15; Postulasagan 5:42; 20:20) Oft skipta yfirvöld sér ekki af prédikunarstarfi okkar ef við notum aðeins Biblíuna — en það undirstrikar nauðsyn þess fyrir alla votta að vera vel færir í að rökræða út frá Ritningunni. (Samanber Postulasöguna 17:2, 17.) Með því að vera djarfmannlegir en sýna þó virðingu geta kristnir menn oft fundið leið til að hlýða Jehóva án þess að baka sér reiði yfirvalda. — Títusarbréfið 3:1, 2.

21. Ef ofsóknum af hendi keisarans linnir ekki, hvað verður kristinn maður þá að gera?

21 Stundum slaka yfirvöld þó hvergi á í ofsóknum sínum á hendur kristnum mönnum. Þá getum við, með hreinni samvisku, einungis haldið áfram að gera það sem er rétt. Hinn ungi Franz Reiter átti um tvennt að velja: að afneita trú sinni eða deyja ella. Með því að hann gat ekki hætt að tilbiðja Guð mætti hann hugrakkur dauða sínum. Kvöldið áður en Franz dó skrifaði hann moður sinni: „Ég verð líflátinn í fyrramálið. Styrkur minn er frá Guði, eins og hann hefur alltaf verið með sannkristnum mönnum allt frá öndverðu . . . Ef þú stendur stöðug allt til dauða, þá munum við hittast aftur í upprisunni.“

22. Hvaða von höfum við og hvaða stefnu ber okkur að taka uns hún rætist?

22 Sá dagur kemur að allt mannkynið verður sett undir aðeins ein lög, lög Jehóva Guðs. Uns það gerist þurfum við með góðri samvisku að virða ráðstofun Guðs og sýna yfirvöldum afstæða undirgefni, um leið og við hlýðum alvöldum Drottni Jehóva í öllu. — Filippíbréfið 4:5-7.

Manst þú?

◻ Hvers vegna er nauðsynlegt að vera undirgefinn æðri yfirvöldum?

◻ Hvers vegna ættum við ekki að hika við að greiða þá skatta sem keisarinn krefst?

◻ Hvers konar virðingu ber okkur að sýna yfirvöldum?

◻ Hvers vegna er undirgefni okkar við keisarann aðeins afstæð?

◻ Hvernig ber okkur að bregðast við því ef við erum ofsótt vegna þess að keisarinn krefst þess sem tilheyrir Guði?

[Spurningar]

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 23]

French Embassy Press & Information Division

USSR Mission to the UN