Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían er hún frá Guði?

Biblían er hún frá Guði?

Biblían er hún frá Guði?

JEHÓVA, Guð sem ræður yfir ótakmörkuðu afli og valdi, hefur vitanlega rétt til að koma boðum sínum á framfæri við mennina, sem hann hefur skapað, á hvern þann hátt sem hann vill. Hafi hann kosið hið ritaða orð til að koma boðskap sínum á framfæri, þá hefur hann líka þurft að varðveita þann boðskap í gegnum aldirnar. Hefur reynslan verið sú með Biblíuna?

Um það bil 1500 árum fyrir daga Krists, þegar ritun Biblíunnar hófst, voru mörg önnur trúarrit til. En smám saman var hætt að nota öll þessi rit og þau hurfu af sjonarsviðinu. Fornminjafræðingar hafa grafið sum þeirra úr jörð og þau eru nú til sýnis í fornminjasöfnum. Þeir hlutar Biblíunnar, sem skrifaðir voru fyrir meira en 3000 árum, gleymdust á hinn bóginn aldrei og afrit af þeim hafa varðveist allt fram á okkar dag. Þetta er undravert, einkum þegar hafður er í huga sá fjandskapur sem magnaður hefur verið upp gegn Biblíunni gegnum söguna. Engin önnur bók hefur mátt þola jafn illskeytta andstöðu og hatur. Þeir sem lásu eða dreifðu Biblíunni áttu yfir höfði sér fésektir, fangavist, pyndingar og oft dauða.

Hvernig gat bók staðið af sér allt þetta? Biblían sjálf segir okkur: „Orð [Jehóva] varir að eilífu.“ (1. Pétursbref 1:25) Það að ekki skuli hafa tekist að farga Biblíunni bendir til þess að hún sé heilagt orð Guðs.

Auk þess er rökrétt að álykta að boðskapur Guðs til mannkyns sé aðgengilegur um heim allan. Er það svo um Biblíuna? Já, svo sannarlega! Engin önnur bók í sögunni hefur einu sinni nálgast Biblíuna hvað þetta varðar. Áætlað er að Biblíunni hafi nú verið dreift í þrem milljörðum eintaka. Enn fremur hefur engin önnur bók verið þýdd á jafnmörg tungumál. Nú er hægt að lesa Biblíuna, í heild eða að hluta, á liðlega 1900 ólíkum tungumálum. Ameríska biblíufélagið skýrir svo frá að 98 af hundraði mannkyns hafi nú aðgang að henni. The New Encyclopædia Britannica segir að Biblían sé „sennilega áhrifamesta bókasafn mannkynssögunnar.“ Það er því engin ofdirfska að kalla hana mestu bók sem til er.

Hið innra samræmi Biblíunnar frá upphafi til enda er líka kröftugur vitnisburður fyrir því að hún sé í raun innblásin af Guði. Væri raunhæft að ætla að rit 40 ólíkra einstaklinga, skrifuð á 16 alda tímabili, væru öll í samræmi hvert við annað og fylgdu eina og sama grunnstefinu? Það væri ógerlegt ef tilviljun eða mennskur máttur réði. En Biblían sjálf ber því vitni að hún standi öllum öðrum ritum ofar. Aðeins ofurmannleg, langlíf vitsmunavera getur staðið á bak við svona undraverða bók.

Ekki aðeins sögurit

Sem söguleg heimild er Biblían einstök. En væri boðskapur frá Guði eingöngu sögulegar upplýsingar hefði hann takmarkað gildi fyrir okkur. Við þörfnumst leiðbeininga og visku og finnum hvort tveggja í Biblíunni. Til dæmis hvetur Biblían okkur til að leggja rækt við ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn‘ — og margt er um þetta fjallað á síðum Biblíunnar. (Galatabréfið 5:22, 23; Kólossubréfið 3:12-14) Biblían hvetur til iðjusemi, hreinlætis, heiðarleika, tryggðar í hjónabandi, virðingar og kærleika til náungans, og hún inniheldur mikinn heilræðasjóð um hegðun manna innan fjölskyldunnar og samfélagsins.

Ráð Biblíunnar reynast mjög gagnleg þegar þeim er fylgt. Hún leysir okkur úr fjötrum fáfræði og hjátrúar. (Jóhannes 8:32) Viska hennar er óviðjafnanleg. Hún hefur tvímælalaust að geyma visku frá Guði.

Sú staðhæfing að orð Guðs sé ‚lifandi og krögtugt‘ er í fullu samræmi við það hvernig Biblían breytir fólki. (Hebreabréfið 4:12) Milljónir nútímamanna hafa sigrast á skaðlegum persónueinkennum og breytt fyrrum illu háttarlagi til betri vegar, um leið og þeir hafa tileinkað sér staðla Biblíunnar. — Efesusbréfið 4:22.

Hvernig fer þegar stöðlum Biblíunnar er ekki fylgt? Það hefur í för með sér óhamingju og eymd, stríð, fátækt, samræðissjúkdóma og sundruð heimili. Slíkt er viðbúið vegna þess að þegar Heilög biblía er ekki virt er verið að hafna leiðsögn Guðs sem skapaði manninn og þekkir þarfir hans.

Biblían sér líka fram í tímann sem er mönnum ofviða. Spádómar Biblíunnar sögðu fyrir uppgang heimsvelda gegnum aldanna rás, frá Babýlon allt til okkar daga. (Daníel 2., 7. og 8. kafli) Eins lýsti Biblían nákvæmlega, fyrir næstum 2000 árum, því ástandi sem verða myndi í heiminum núna á tuttugustu öldinni. (Matteus 24. og 25. kafli; Markús 13. kafli; Lúkas 21. kafli; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 2. Pétursbréf 3:3, 4; Opinberunarbókin 6:1-8) Hinn langi listi uppfylltra biblíuspádóma fullvissar okkur um að við megum treysta á fyrirheit hennar um hamingjuríka framtíð.

Ábyrgð okkar

Allt eru þetta sterk sönnunargögn fyrir því að Guð hafi í raun og veru sent mönnum margvíslegan boðskap. Að vísu notaði Guð hendur ófullkominna manna til að koma boðskap sínum á framfæri, en það er engin ástæða til að telja Biblíuna síður trúverðuga en væri hún boðskapur komin orði til orðs af munni Guðs, eða afhent fyrir milligöngu engla eða þá skrifuð með undraverðum hætti á himnum og afhent síðan mönnum á jörðinni.

Það að viðurkenna að Biblían sé heilög, komin frá Guði, leggur okkur hins vegar vissa ábyrgð á herðar. Jehóva ætlast með réttu til þess af okkur að við lesum orð hans reglulega. (Sálmur 1:1, 2) Rétt viðhorf eru nauðsynleg til að biblíulestur sé árangursríkur. Við verðum að hafa hugfast að við eigum ekki að lesa Biblíuna eins og hvert annað bókmenntaverk. Við verðum að umgangast hana, ‚ekki sem manna orð heldur sem Guðs orð — eins og hún í sannleika er.‘ — 1. Þessaloníkubréf 2:13.

Sumt í Biblíunni kann að vera torskilið, en með tíðum lestri eykst skilningur manna og þeir fá skýrari heildarmynd af vilja Guðs og tilgangi hans. (Hebreabréfið 5:14) Ef til vill ert þú ekki fyllilega sannfærður enn um að Biblían sé heilagt orð Guðs, en hvernig getur þú, viljir þú vera sjálfum þér samkvæmur, sýnt trú eða vantru á Biblíuna ef þú hefur ekki kynnt þér hana vel?

Þrátt fyrir útbreiddan efa um að Biblían sé frá Guði komin hefur nákvæm rannsókn á Heilagri biblíu komið mörgum hugsandi mönnum til að taka undir orð Páls postula: „Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari“! — Rómverjabréfið 3:4.

[Tafla á blaðsíðu 4]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Núna hafa 98 af hundraði jarðarbúa aðgang að Biblíunni.

Engin önnur bók mannkynssogunnar hefur komist í námunda við útbreiðslu Biblíunnar sem talin er nema 3.000.000.000 eintaka. The New Encyclopædia Britannica segir að hún sé „sennilega áhrifamesta bókasafn mannkynssögunnar.“

[Mynd á blaðsíðu 4]

Biblían hefur haldið velli þótt önnur trúarrit séu nú eingöngu safngripir.

Að ofan: Assýrsk frásögn af flóðinu.

Til hægri: Bænir til egypska guðsins Ra.

[Rétthafi]

Báðar myndir birtar með leyfi umsjónarmanna Breska þjóðminjasafnsins.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Biblían var skrifuð af um það bil 40 ólíkum einstaklingum á 1600 ára tímabili og fylgir sama grunnstefi frá upphafi til enda. Einungis ofurmannleg, langlíf vitsmunavera gat látið rita slíka bók.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Spádómar Biblíunnar sögðu fyrir uppgang heimsvelda gegnum aldanna rás, frá Babýlon allt til okkar daga. (Daníel 2, 7, 8)

Til hægri: Ágústus keisari

[Rétthafi]

Museo della Civiltà Romana, Róm

[Mynd á blaðsíðu 6]

Fyrir nálega tvö þúsund árum spáði Biblían nákvæmlega fyrir um núverandi heimsástand. (Matteus 24, 25; Markús 13; Lúkas 21; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 2. Pétursbréf 3:3, 4; Opinberunarbókin 6:1-8) Óbrigðul nákvæmni biblíuspádómanna fullvissar okkur um að loforð Guðs um paradís á jörð rætist örugglega.

[Rétthafi]

Reuters/Bettmann Newsphotos