Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlutverk æðri yfirvalda

Hlutverk æðri yfirvalda

Hlutverk æðri yfirvalda

„Þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu ottast.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 13:4.

1, 2. Hvernig hafa margir í kristna heiminum blandað sér í byltingarstarfsemi?

 FYRIR tæplega þrem árum þinguðu biskupar í Lundúnum og kölluðu yfir sig reiðilestur í ritstjónargrein í dagblaðinu New York Post. Hér var um að ræða Lambeth-þingið sem yfir 500 biskupar anglíkana sóttu. Reiðilestur dagblaðsins var sprottinn af ályktun þingsins þar sem látinn var í ljós skilningur í garð þess fólks „sem grípur til vopnaðrar baráttu til að ná rétti sínum, eftir að hafa þrautreynt allar aðrar.“

2 Dagblaðið sagði að þarna væri í reynd verið að lýsa yfir stuðningi við hryðjuverk. En biskuparnir voru einungis að enduróma viðhorf sem á vaxandi fylgi að fagna. Afstaða þeirra var í engu ólík afstöðu kaþólska prestsins í Gana sem mælti með skæruhernaði sem fljótvirkustu, öruggustu og tryggustu leiðinni til að frelsa Afríku, eða meþódistabiskupsins í Afríku sem strengdi þess heit að „heyja frelsisstríð allt út í rauðan dauðann,“ eða margra trúboða kristna heimsins sem hafa barist með uppreisnarmönnum gegn stjórnvöldum í Asíu og Suður-Ameríku.

Sannkristnir menn ‚veita yfirvöldum ekki mótstöðu‘

3, 4. (a) Hvaða meginreglur hafa svonefndir kristnir menn, sem beita sér fyrir byltingu, brotið? (b) Hvað uppgötvaði maður í sambandi við votta Jehóva?

3 Á fyrstu öld sagði Jesús um fylgjendur sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:14) Sérhver svokallaður kristinn maður, sem beitir sér fyrir byltingu, er sannarlega mjög virkur hluti af heiminum. Hann er ekki fylgjandi Jesú og ekki ‚undirgefinn yfirvöldum.‘ (Rómverjabréfið 13:1) Hann ætti að taka til sín aðvörun Páls postula þess efnis að „sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn.“ — Rómverjabréfið 13:2.

4 Ólíkt mörgum í kristna heiminum hafa vottar Jehóva engin afskipti af vopnuðu ofbeldi. Evrópumaður uppgötvaði það. Hann skrifaði: „Er ég sá hvað trúarbrögð og stjórnmál hafa gefið af sér helgaði ég mig því að kollvarpa rótgróinni þjóðfélagsgerð. Ég gekk í lið með hryðjuverkahópi og fékk þjálfun í meðferð alls konar vopna; ég tók þátt í mörgum vopnuðum ránum. Líf mitt var í stöðugri hættu. Er tímar liðu varð ljóst að barátta okkar var vonlaus. Ég var vonsvikinn maður, heltekinn algeru vonleysi. Þá bankaði vottur hjá mér. Hann sagði mér frá ríki Guðs. Ég staðhæfði að þetta væri tímasóun fyrir mig og lagði til að konan mín hlustaði. Hún gerði það og heimabiblíunám var hafið. Loks féllst ég á að vera viðstaddur námið. Orð fá ekki lýst þeim létti sem ég fann til er ég skildi hvaða afl það var sem rak mannkynið til illra verka. Hið dýrlega fyrirheit um Guðsríki hefur gefið mér varanlega von og tilgang í lífinu.“

5. Hvers vegna eru kristnir menn friðsamir þegnar yfirvalda og hve lengi verða þeir það?

5 Kristnir menn eru sendiherrar eða erindrekar Guðs og Krists. (Jesaja 61:1, 2; 2. Korintubréf 5:20; Efesusbréfið 6:19, 20) Sem slíkir halda þeir sér hlutlausum gagnvart átökum þessa heims. Jafnvel þótt sum stjórnmálakerfi virðist tryggja betri efnahag en önnur og sum veita meira frelsi en önnur halda kristnir menn ekki fram einu kerfi fremur en öðru. Þeir vita að öll kerfi eru ófullkomin. Það er „Guðs tilskipun“ að þau haldi áfram að standa uns ríki hans tekur full völd. (Daníel 2:44) Þess vegna eru kristnir menn friðsamir þegnar yfirvalda, en vinna jafnframt að eilífri velferð annarra með því að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki. — Matteus 24:14; 1. Pétursbréf 3:11, 12.

Löghlýðni

6. Hvers vegna eru mörg lög manna góð þótt ‚allur heimurinn liggi í valdi hins vonda‘?

6 Ríkisstjórnir setja ýmiss konar lög og flest þeirra eru góð. Ætti það að koma okkur á óvart í ljósi þess að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“? (1. Jóhannesarbréf 5:19) Nei, Jehóva gaf upphaflegum föður okkar, Adam, samvisku, og þetta meðfædda skyn á rétt og rangt endurspeglast a marga vegu í lögum manna. (Rómverjabréfið 2:13-16) Hammúrabí, forn löggjafi Babýlonar, hafði þessi formálsorð að lögbók sinni: „Á þeim tíma var ég tilnefndur til að vinna að velferð þjóðarinnar, ég, Hammúrabí, hinn trúrækni og guðhræddi prins, til að tryggja réttvísi í landinu, til að eyða hinum óguðlegu og illu, þannig að hinir sterku skyldu ekki kúga hina veiku.“

7. Hver hefur rétt til að refsa lögbrjóti og hvers vegna?

7 Flestar ríkisstjórnir myndu lýsa tilgangi laga sinna með svipuðum hætti: þeim sé ætlað að stuðla að velferð þegnanna og góðri þjóðfélagsreglu. Þess vegna refsa þær mönnum fyrir andfélagslegar athafnir, svo sem morð og þjófnað, og setja reglur, svo sem um hraðatakmörk og hvar leggja megi bifreiðum. Hver sá sem að yfirlögðu ráði brýtur lögin stendur gegn yfirvöldum og ‚mun fá dóm sinn.‘ Dóm hvers? Ekki endilega Guðs. Gríska orðið, sem hér er þýtt dómur, getur vísað til borgaralegs réttarfars frekar en dóms af hendi Jehóva. (Samanber 1. Korintubréf 6:7.) Ef einhver brýtur lög hafa yfirvöld rétt til að refsa honum.

8. Hver verða viðbrögð safnaðarins ef einhver meðlima hans fremur alvarlegan glæp?

8 Vottar Jehóva hafa getið sér gott orð fyrir að veita mennskum yfirvöldum ekki mótstöðu. Ef það gerist að einstaklingur í söfnuðinum gerist brotlegur við lög hjálpar söfnuðurinn honum ekki að komast undan lögmætri refsingu. Ef einhver stelur, myrðir, fer með meiðyrði, svíkur undan skatti, nauðgar, dregur sér fé, neytir ólöglegra fíkniefna eða veitir lögmætum yfirvöldum mótstöðu með einhverjum öðrum hætti, þá kallar hann yfir sig harðan aga frá söfnuðinum — og hann ætti ekki að láta sér finnast sem hann sæti ofsóknum þegar veraldleg yfirvöld refsa honum. — 1. Korintubréf 5:12, 13; 1. Pétursbréf 2:13-17, 20.

Ótti við yfirvöld

9. Hvar geta kristnir menn réttilega leitað hjálpar ef löglaus öfl ógna þeim?

9 Páll heldur áfram umræðu sinni um yfirvöld og segir: „Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk. En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim.“ (Rómverjabréfið 13:3) Það eru ekki drottinhollir kristnir menn sem ættu að óttast refsingu af hendi yfirvalda heldur lögbrjótar, þeir sem vinna „vond verk,“ glæpaverk. Er slík löglaus öfl ógna vottum Jehóva geta þeir réttilega þegið lögreglu- eða hervernd yfirvalda. — Postulasagan 23:12-22.

10. Hvernig hafa vottar Jehóva ‚fengið lof‘ yfirvalda?

10 Páll segir kristnum manni, sem heldur lög yfirvalda, að hann muni „fá lofstír af þeim.“ Við skulum líta á sem dæmi nokkur bréf sem vottum Jehóva í Brasilíu bárust eftir umdæmismót þeirra. Forstöðumaður íþróttamála borgar einnar skrifaði: „Þið verðskuldið mikið hrós fyrir friðsama framkomu ykkar. Það er gleðilegt að vita að margir skuli, í okkar ólgusama heimi, enn trúa á Guð og tilbiðja hann.“ Frá forstöðumanni leikvangs: „Þótt aðsókn hafi verið afar mikil er ekki vitað um nokkuð atvik sem setti blett á þennan viðburð. Svo er óaðfinnanlegu skipulagi fyrir að þakka.“ Frá skrifstofu borgarstjóra: „Við viljum nota þetta tækifæri til að óska ykkur til hamingju með löghlýðni ykkar og frábæran, óþvingaðan aga, og við óskum ykkur velfarnaðar í framtíðinni.“

11. Hvers vegna er ekki hægt að segja að prédikun fagnaðarerindisins sé vont verk?

11 ‚Góð verk‘ vísa til hlýðni við lög hinna æðri yfirvalda. Auk þess er prédikunarstarf okkar, sem er fyrirskipað af Guði, ekki mönnum, ekki vont verk — og það er atriði sem hin pólitísku yfirvöld ættu að viðurkenna. Það er opinber þjónusta sem lyftir upp á hærra stig siðferði þeirra sem bregðast vel við. Þess vegna er það von okkar að yfirvöld standi vörð um rétt okkar til að prédika fyrir öðrum. Páll höfðaði til yfirvalda í því skyni að staðfesta prédikun fagnaðarerindisins með lögum. (Postulasagan 16:35-40; 25:8-12; Filippíbréfið 1:7) Á sama hátt hafa vottar Jehóva sótt um og fengið starf sitt viðurkennt með lögum í Austur-Þýskalandi, Ungverjalandi, Póllandi, Rúmeníu, Benín og Myanmar (Búrma) ekki alls fyrir löngu.

„Þau eru þjónn Guðs“

12-14. Hvernig hafa yfirvöld komið fram sem þjónn (a) á biblíutímanum, (b) nú á tímum?

12 Páll heldur áfram og segir um hin veraldlegu yfirvöld: „Þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er afhefst hið illa.“ — Rómverjabréfið 13:4.

13 Yfirvöld hafa stundum verið þjónn Guðs á sérstaka vegu. Kýrus var það er hann lét boð út ganga til Gyðinga um að snúa heim frá Babýlon og endurbyggja hús Guðs. (Esra 1:1-4; Jesaja 44:28) Artaxerxes var þjónn Guðs er hann sendi Esra með framlag til endurbyggingar þessa húss og síðar er hann fól Nehemía að endurbyggja múra Jerúsalem. (Esra 7:11-26; 8:25-30; Nehemía 2:1-8) Rómversk yfirvöld þjónuðu á svipaðan hátt er þau björguðu Páli undan æstum mugi í Jerúsalem, vernduðu hann gegnum skipbrot og bjuggu svo um hnútana að hann gæti búið í eigin húsnæði í Róm. — Postulasagan 21:31, 32; 28:7-10, 30, 31.

14 Veraldleg yfirvöld hafa á lıkan hátt verið þjónn Guðs nú á tímum. Árið 1959 var einn af vottum Jehóva ákærður í Quebec fyrir að gefa út undirróður og meiðyrði. Hæstiréttur Kanada sýknaði hann og vann þannig gegn fordómum þáverandi forsætisráðherra Quebec, Maurice Duplessis.

15. Í hvaða almennum skilningi eru yfirvöld þjónn Guðs og hvaða rétt veitir það þeim?

15 Enn fremur eru ríkisstjórnir í almennum skilningi þjónn Guðs með því að halda upp lögum og reglu uns Guðsríki yfirtekur þá ábyrgð. Að sögn Páls ‚bera yfirvöldin sverðið‘ í þeim tilgangi en það táknar rétt þeirra til að refsa. Refsingin er yfirleitt fangavist eða sekt, en í sumum löndum jafnvel dauðarefsing. * Mörg ríki hafa á hinn bóginn kosið að hafa ekki dauðarefsingu og það er einnig réttur þeirra.

16. (a) Hvað hafa sumir þjónar Guðs talið viðeigandi af því að yfirvöldin eru þjónn Guðs? (b) Hvers konar starf myndi kristinn maður ekki þiggja og hvers vegna?

16 Sú staðreynd að yfirvöldin eru þjónn Guðs skýrir einnig hvers vegna Daníel, Hebrearnir þrír, Nehemía og Mordekai gátu þegið ábyrgðarstöður í babýlonsku og persnesku stjórninni. Þannig gátu þeir höfðað til ríkisvaldsins í þágu þjóna Guðs. (Nehemía 1:11; Esterarbók 10:3; Daníel 2:48, 49; 6:1, 2) Sumir kristnir menn nú á tímum vinna einnig í þjónustu ríkisins, en með því að þeir eru aðgreindir frá heiminum ganga þeir ekki í stjórnmálaflokka, sækjast ekki eftir pólitískum embættum og þiggja ekki stöður hjá politískum stofnunum sem hafa stefnumörkun í för með sér.

Trúar er þörf

17. Hvaða aðstæður geta komið sumum, sem ekki eru kristnir, til að veita yfirvöldum mótspyrnu?

17 En hvað skal segja ef yfirvöld umbera spillingu eða jafnvel kúgun? Ættu kristnir menn að reyna að víkja yfirvöldum úr vegi og veita öðrum, sem virðast skárri, brautargengi? Nú, ranglæti og spilling á sviði stjórnsýslu er ekkert nýtt. Á fyrstu öldinni lét Rómaveldi viðgangast ranglæti svo sem þrælahald. Það umbar líka spillta embættismenn. Biblían talar um svikula skattheimtumenn, ranglátan dómara og mútuþægan landstjóra. — Lúkas 3:12, 13; 18:2-5; Postulasagan 24:26, 27.

18, 19. (a) Hvernig bregðast kristnir menn við spillingu opinberra embættismanna eða misbeitingu valds? (b) Hvernig hafa kristnir menn bætt hlutskipti einstaklinga samanber orð sagnfræðings?

18 Kristnir menn hefðu getað reynt að binda enda á slík rangindi á þeim tíma en þeir gerðu það ekki. Páll prédikaði til dæmis ekki afnám þrælahalds og sagði ekki kristnum þrælaeigendum að veita þrælum sínum frelsi. Öllu heldur ráðlagði hann þrælum og þrælaeigendum að sýna kristna samkennd í samskiptum hver við annan. (1. Korintubréf 7:20-24; Efesusbréfið 6:1-9; Fílemonsbréfið 10-16; sjá einnig 1. Pétursbréf 2:18.) Kristnir menn létu ekki heldur draga sig inn í byltingarstarfsemi. Þeir voru of uppteknir af að prédika „fagnaðarboðin um frið.“ (Postulasagan 10:36) Árið 66 settist rómverskur her um Jerúsalem en hvarf síðan á braut. Í stað þess að dveljast áfram í borginni með uppreisnarmönnunum, sem vörðu hana, flúðu kristnir Hebrear til fjalla, hlýðnir hvatningu Jesú. — Lúkas 21:20, 21.

19 Frumkristnir menn bjuggu við ástandið eins og það var og reyndu að bæta hluskipti einstaklinga með því að hjálpa þeim að fylgja meginreglum Biblíunnar. Sagnfræðingurinn John Lord segir í bók sinni The Old Roman World: „Hinn raunverulegi sigur kristninnar fólst í því að gera gott fólk úr þeim sem játuðu kenningar hennar, í stað þess að breyta á yfirborðinu vinsælum stofnunum, stjórnum eða lögum.“ Ættu kristnir menn nú á tímum að breyta öðruvísi?

Þegar ríkið vill ekki hjálpa

20, 21. (a) Nefndu dæmi um að veraldleg yfirvöld hafi ekki komið fram sem þjónn Guðs til góðs. (b) Hvernig ættu vottar Jehóva að bregðast við ofsóknum sem njóta blessunar stjórnvalda?

20 Í september árið 1972 skullu hatrammar ofsóknir á vottum Jehóva í landi í Mið-Afríku. Þúsundir manna voru rændar öllum eigum sínum og máttu þola önnur ódæðisverk, svo sem barsmíðar, pyndingar og morð. Ræktu yfirvöldin þá skyldu sína að vernda vottana? Nei! Þess í stað hvöttu þau til ofbeldis og neyddu þessa friðsömu kristnu menn til að flýja til grannlandanna.

21 Ættu ekki vottar Jehóva að rísa upp í reiði gegn slíkum kvölurum? Nei. Kristnir menn ættu að umbera slíka vanvirðu með þolinmæði og líkja auðmjúkir eftir Jesú: „Hann . . . hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ (1. Pétursbréf 2:23) Þeir mundu að Jesús ávítaði lærisvein sem kom honum til varnar með sverði er hann var handtekinn í Getsemanegarðinum, og að hann sagði Pontíusi Pílatusi síðar: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ — Jóhannes 18:36; Matteus 26:52; Lúkas 22:50, 51.

22. Hvaða gott fordæmi sýndu vottar í Afríku er þeir máttu þola harðar ofsóknir?

22 Með fordæmi Jesú í huga höfðu þessir afrísku vottar hugrekki til að fylgja leiðbeiningum Páls: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir [Jehóva].‘“ (Rómverjabréfið 12:17-19; samanber Hebreabréfið 10:32-34.) Afrískir bræður okkar hafa sett okkur öllum hvetjandi fordæmi. Jafnvel þegar yfirvöld neita að vera heiðvirð og réttsýn hvika sannkristnir menn ekki frá meginreglum Biblíunnar.

23. Hvaða spurningar eru óræddar?

23 En hvers geta yfirvöldin vænst af kristnum mönnum? Eru því einhver takmörk sett sem yfirvöld geta réttilega krafist? Um það er fjallað í greininni sem fylgir.

[Neðanmáls]

^ Löggjöf Guðs til Forn-Ísraels kvað á um dauðarefsingu fyrir gróf afbrot. — 2. Mósebók 31:14; 3. Mósebók 18:29; 20:26; 4. Mósebók 35:30.

Getur þu svarað?

◻ Nefndu nokkur dæmi um hvernig menn geta ‚veitt yfirvöldum mótstöðu.‘

◻ Hver er „Guðs tilskipun“ varðandi yfirvöld?

◻ Á hvaða hátt þurfa menn „að óttast yfirvöldin“?

◻ Hvernig þjóna jarðneskar ríkisstjórnir sem „þjónn Guðs“?

[Spurningar]