Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Brátt verða sjúkdómar og dauði liðin tíð!

Brátt verða sjúkdómar og dauði liðin tíð!

Brátt verða sjúkdómar og dauði liðin tíð!

ENGINN óskar sjálfum sér veikinda eða dauða. Prófessor í lækningafélagsfræði fullyrðir: „Leitin að lengra lífi virðist nálega almenn gegnum alla sögu mannkynsins og ná til flestra þjóðfélaga. Hún er tengd þeirri frumhvöt mannsins að vernda líf sitt . . . Ponce de Leon er aðeins sá frægasti í langri halarófu manna sem eyddu ævi sinni í leitina að lengra lífi. Læknavísindin eru að mestu leyti helguð því að viðhalda langlífi með því að berjast gegn sjúkdómum og dauða.“

Dauðinn stríðir svo gegn innsta eðli okkar að þegar hann yfirbugar vini eða ættingja reynum við næstum sjálfkrafa að lina sorgina. Bókin Funeral Customs the World Over segir: „Það fyrirfinnst ekkert samfélag, allt frá því frumstæðasta til hins siðmenntaðasta, sem jarðar ekki lík meðlima sinna með hátíðlegri viðhöfn, þegar það hefur frelsi og getu til . . . Það fullnægir djúpri þörf sem er öllum sameiginleg. Að gera svo virðist vera ‚rétt‘ og að gera það ekki, sérstaklega þegar um er að ræða þá sem nátengdir eru gegnum fjölskyldu, tilfinningar, sambúð, sameiginlega reynslu eða önnur bönd, virðist vera ‚rangt,‘ ónáttúrleg vanræksla, eitthvað sem þarf að afsaka eða skammast sín fyrir. . . . [Maðurinn] er vera sem greftrar sína dánu með hátíðlegri viðhöfn.“

Uppruni sjúkdóma og dauða

Hugmyndin um að veikindum og dauða muni verða útrýmt einn góðan veðurdag er þess vegna mjög aðlaðandi, en er grundvöllur fyrir slíkri trú? Já, og hann er bæði skynsamlegur, áreiðanlegur og óskeikull. Hann er hið innblásna orð skapara okkar — heilög Biblía.

Þessi bók útskýrir á auðskilinn hátt hvernig ógæfa mannkynsins er tilkomin. Hún segir okkur að Guð hafi skapað fyrsta manninn, Adam, og sett hann í paradísargarð einhvers staðar í Miðausturlöndum. Adam var skapaður fullkominn; hann þekkti hvorki veikindi né dauða. Fljótlega var honum fengin jafnfullkomin eiginkona, og saman áttu þau möguleika á eilífu lífi á jörð. — 1. Mósebók 2:15-17, 21-24.

En þetta unaðslega ástand varði ekki lengi. Hvers vegna ekki? Vegna þess að Adam kaus í eigingirni sinni að lifa lífinu óháður Guði. Afleiðingin varð erfiði, kvöl, sjúkdómar og að lokum dauði. (1. Mósebók 3:17-19) Afkomendur hans fengu í arf sams konar óhamingjusamt líf og Adam hafði kosið sér. Rómverjabréfið 5:12 segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ Rómverjabréfið 8:22 bætir við: „Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“

Á jörðu eða himni?

Biblían fullvissar okkur þó um að Guð muni bráðlega lyfta hlýðnu mannkyni aftur upp í það hamingjuríka ástand sem Adam og Eva misstu. Opinberunarbókin 21:3, 4 segir: „Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Spámaður í fornöld sá á líkan hátt fyrir þann tíma þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ — Jesaja 33:24.

Getur þú gert þér í hugarlund heim án spítala, líkhúsa og kirkjugarða? Getur þú gert þér í hugarlund að lifa endalaust, án þess jafnvel að þurfa að óttast þjáningar og dauða? Já, loforð Guðs snertir tilfinningastreng djúpt hið innra með okkur. En hvernig getum við verið viss um að þessar dásamlegu horfur eigi við um jörðina — ekki himininn? Það sést af samhengi áðurnefndra ritningarstaða. Fyrstu versin í 21. kafla Opinberunarbókarinnar tala um „nýjan himin og nýja jörð.“ Þar segir beinlínis að Guð muni vera hjá mönnunum og þeir vera fólk hans. Á eftir loforðinu í Jesajabók um að enginn muni vera sjúkur segir: „Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.“

Þessi uppörvandi loforð eiga því við um líf á jörðinni! Og þau eru í samræmi við bæn Jesú til föður síns: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:10.

Hvers vegna bráðlega?

Vottar Jehóva hafa hjálpað milljónum manna að gera sér ljóst að þessi loforð verði uppfyllt í náinni framtíð. Hvernig geta þeir verið svona vissir um það? Það geta þeir á grundvelli yfirgnæfandi sannana um að við lifum á hinum „síðustu dögum“ núverandi kerfis eða skipulags á jörð. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Lærisveinar Jesú báðu um tákn sem sýndi hvenær endalok heimskerfisins myndu eiga sér stað. Í svari sínu sagði Jesús fyrir í smáatriðum þá stigmögnun heimsviðburðanna sem átt hefur sér stað síðan fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914. * Síðan bætti hann við: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ Því munu sumir af þeirri kynslóð, sem var uppi árið 1914, lifa það að sjá endalok núverandi heimskerfis. — Matteus 24:33, 34.

Þá mun Jehóva Guð veita syni sínum, Jesú Kristi, umboð til að ganga fram og eyða af yfirborði þessarar fögru reikistjörnu, Jarðarinnar, öllu því sem veldur þjáningum og óhamingju. Biblían talar um útrýmingu hins illa sem ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14, 16.

Mikill fjöldi fólks sem óttast Guð mun lifa af þessa ógnþrungnu heimsatburði og lifa það að sjá friðarríki Jesú hefjast. (Opinberunarbókin 7:9, 14; 20:4) Þó að stjórn hans verði á himnum munu allir þeir sem lifa á jörðu njóta hins góða árangurs hennar — bæði þeir sem lifa af Harmagedónstríðið og þær milljónir sem verða eftir það reistar upp frá dauðum. Þá mun þetta loforð uppfyllast: „Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur honum. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ — 1. Korintubréf 15:25, 26.

Við getum því með vissu sagt: ‚Brátt verða sjúkdómar og dauði liðin tíð!‘ Þetta eru hvorki draumórar né óskhyggja. Þetta er öruggt loforð sem Jehóva Guð, „sá er ekki lýgur,“ hefur gefið. Munt þú setja traust þitt á þessa von? Það getur verið þér til eilífs gagns! — Títusarbréfið 1:2.

[Neðanmáls]

^ Ítarlegri sannanir um að mannkynið lifi á hinum síðustu dögum er að finna í 18. kafla bókarinnar Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Í stað sjúkdóma og dauða mun bráðlega koma heilbrigði og líf — að eilífu.