Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er sigur brátt í höfn í baráttunni við sjúkdóma og dauða?

Er sigur brátt í höfn í baráttunni við sjúkdóma og dauða?

Er sigur brátt í höfn í baráttunni við sjúkdóma og dauða?

ENGIR sjúkdómar framar, enginn dauði framar! Í eyrum flestra hljómar þetta líklega eins og óskhyggja. Wade W. Oliver, sem er læknir og prófessor í sýklafræði, segir: „Frá því sögur hófust hafa sjúkdómar haft ómælanleg áhrif á örlög mannkynsins . . . Miklar farsóttir hafa steypst yfir mannkynið með ógnarhraða . . . Veikindi hafa alltaf elt manninn á röndum.“

Er einhver ástæða til að trúa því að á þessu verði róttæk breyting í nánustu framtíð? Eru læknavísindin í þann veginn að útrýma öllum sjúkdómum og ef til vill sjálfum dauðanum?

Því verður ekki neitað að læknar og vísindamenn hafa unnið frábært starf í baráttunni við sjúkdóma. Getur nokkur upplýstur maður verið annað er þakklátur fyrir þann góða árangur sem náðist að lokum í viðureigninni við kóleru á ofanverðri nítjándu öld og fyrir tilkomu bóluefnis gegn hinni hræðilegu bólusótt? Það var Edward Jenner sem vann bóluefnið árið 1796 úr vessablöðrum af völdum hinnar hættuminni kúabólu. Árið 1806 mælti Thomas Jefferson, forseti Bandaríkjanna, fyrir munn margra er hann skrifaði Jenner: „Þér getið glatt yður við þá tilhugsun að mannkynið mun aldrei geta gleymt því að þér hafið lifað; þjóðir framtíðarinnar munu aðeins vita af spjöldum sögunnar að hin viðbjóðslega bólusótt hafi verið til.“

Enn má með þakklæti nefna brautargengi læknavísindanna í baráttunni við sjúkdóma á borð við barnaveiki og mænusótt. Og fáir geta annað en lofað þær framfarir sem orðið hafa á síðustu tímum í meðferð hjartasjúkdóma og krabbameins. En þrátt fyrir það er fólk enn að deyja af völdum hjartasjúkdóma og krabbameins. Það markmið að útrýma öllum sjúkdómum og veikindum hefur reynst býsna torsótt.

„Nýju“ sjúkdómarnir

Svo þverstæðukennt sem það er hafa okkar tímar, sem séð hafa tilkomu tölvusneiðmyndatækja og lýtalækninga, einnig séð koma fram á sjónarsviðið hersingu „nýrra“ sjúkdóma svo sem hermannaveiki, eitrunarlost og hina margumtöluðu drepsótt, eyðni.

Margir draga að vísu í efa að þessir sjúkdómar séu alls kostar nýir af nálinni. Í grein í U.S.News & World Report er bent á að í sumum tilfellum hafi sjúkdómar, sem lengi hafa verið til, einfaldlega verið greindir af meiri nákvæmni en áður og fengið ný nöfn. Hermannaveikin uppgötvaðist til dæmis fyrst árið 1976, en hugsanlegt er að hún hafi áður verið ranggreind sem veirulungnabólga. Á sama hátt má vera að eitrunarlost hafi áður verið ranglega greint sem skarlatssótt.

Þó virðist ljóst að margir sjúkdómar séu raunverulega nýir. Eyðni er vafalaust sá kunnasti í þeim hópi. Það var árið 1981 sem kennsl voru borin á þennan lamandi og banvæna sjúkdóm og honum gefið nafn. Annar „nýr“ en minna þekktur sjúkdómur er brasilíska purpurasóttin. Hún uppgötvaðist í Brasilíu árið 1984 og er dánartíðnin af hennar völdum talin vera um 50 af hundraði.

Engin lækning í sjónmáli

Þrátt fyrir góða viðleitni er full og varanleg lækning á meinum mannkyns hvergi nærri í sjónmáli. Satt er það að meðallífslíkur manna hafa lengst um hér um bil 25 ár frá síðustu aldamótum. En þessi breyting stafar aðallega af lægri dánartíðni meðal nýbura og barna. Ævilengd manna er enn svipuð því sem Biblían segir, „sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár.“ — Sálmur 90:10.

Það var því fréttnæmt þegar Anna Williams dó í desember 1987, 114 ára gömul. Dálkahöfundur nokkur, sem fjallaði um dauða hennar, komst svo að orði: „Vísindamenn telja líklegt að efri aldursmörk manna séu 115 til 120 ár. En hví skyldi svo vera? Hvers vegna ætti mannslíkaminn að ganga úr sér á 70, 80 eða jafnvel 115 árum?“

Á sjöunda áratugnum uppgötvuðu vísindamenn að mannsfrumur virðast aðeins geta skipt sér um það bil 50 sinnum. Þegar þessu marki er náð virðist ekkert vera hægt að gera til að halda lífi í frumunum. Þetta stangast á við fyrri kenningar vísindamanna um að mannsfrumur geti við rétt skilyrði lifað óendanlega.

Þetta má svo tengja þeirri vitneskju að þjáningar mannkynsins eru að stórum hluta tilkomnar af mannavöldum. Vísindamaður nokkur komst að þessari skarplegu niðurstöðu: „Sjúkdómar hafa ekki verið sigraðir með líf- og læknisfræðilegum ráðum eingöngu. Saga sjúkdóma er samofin þjóðfélagslegum og siðferðilegum þáttum.“

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir: „Við höfum gert sjálfum okkur mein í þeirri trú að vísindi, læknar og spítalar myndu finna lækningu við þeim, í stað þess að koma í veg fyrir sjálfar orsakir sjúkdómanna. Að sjálfsögðu getum við ekki verið án heilbrigðisþjónustu sem hreinlega bjargar mannslífum, en við skulum gera okkur ljóst að hún bætir ekki ‚heilsu‘ okkar — hún hindrar okkur í að deyja. . . . Sjálfseyðingarhvöt reykingamannsins og drykkjumannsins, áhrif atvinnuleysis á huga og líkama — þetta eru nokkrir af hinum ‚nýju sjúkdómum.‘ Hvers vegna umberum við ‚umferðarslysafaraldurinn‘ sem rænir mannslífum og eyðir upp þjóðarauði okkar?“

Sjúkdómar, veikindi, þjáningar og dauði eru því enn snar þáttur í tilveru okkar. Samt sem áður höfum við ástæðu til að treysta að sá tími komi er bæði sjúkdómar og dauði munu heyra fortíðinni til. Og hið besta er að við höfum fulla ástæðu til að trúa að sá tími sé í nánd.

[Rammi á blaðsíðu 4]

‚HINAR EGYPSKU SÓTTIR‘

Að menn hafi frá alda öðli háð vonlausa baráttu við sjúkdóma er jafnvel nefnt í Biblíunni. Það er til dæmis athyglisvert að Móse skyldi minnast á ‚hinar vondu egypsku sóttir.‘ — 5. Mósebók 7:15.

Meðal þessara sótta voru greinilega fílaveiki, blóðkreppusótt, bólusótt, kýlapest (svartidauði) og augnbólgur. Þjóð Móse komst hjá slíkum sjúkdómum, aðallega vegna strangra heilbrigðisreglna lagasáttmálans.

Nákvæmar rannsóknir á egypskum múmíum hafa leitt í ljós sæg af öðrum ‚egypskum sóttum.‘ Má þar nefna liðagigt, hryggjaliðabólgu, kjálka- og tannsjúkdóma, botnlangabólgu og þvagsýrugigt. Fornt læknarit, þekkt undir nafninu Ebers-papýrusritið, tilgreinir jafnvel sjúkdóma á borð við æxli, kvilla í maga og lifur, sykursýki, holdsveiki, augnkvef og heyrnarleysi.

Forn-egypskir læknar gerðu sitt besta í glímunni við þessa sjúkdóma og urðu sumir þeirra allsérhæfðir á sínu sviði. Gríski sagnaritarinn Heródótus skrifaði: „Landið [Egyptaland] er fullt af læknum; einn fæst aðeins við augnsjúkdóma; annar við sjúkdóma í höfði, tönnum, kviði eða innri líffærum.“ En megnið af egypskri „læknisfræði“ var í rauninni trúarlegar skottulækningar sem höfðu ekkert með vísindi að gera.

Læknar nútímans hafa náð miklu betri árangri í baráttu sinni við sjúkdóma. Samt komst rannsóknarmaður á sviði læknavísinda, Jessie Dobson, að þessari umhugsunarverðu niðurstöðu: „Hvaða lærdóm má þá draga af rannsóknum á sjúkdómum liðinna alda? Heildarniðurstaðan af athugun á ummerkjunum virðist vera sú, að munurinn á sjúkdómum og þrautum fornaldar og þeim sem nú þekkjast sé ekki mikill . . . Það er ljóst að öll sú kunnátta og erfiði, sem lagt hefur verið í þrotlausar rannsóknir, hefur skilað litlum árangri í þá átt að uppræta sjúkdóma. — Disease in Ancient Man.