Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heiðraðu Jehóva – hvers vegna og hvernig?

Heiðraðu Jehóva – hvers vegna og hvernig?

Heiðraðu Jehóva – hvers vegna og hvernig?

„Ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða.“ — 1. SAMÚELSBÓK 2:30.

1. Hverjum eru veitt hin heimsfrægu nóbelsverðlaun og hvernig líta margir á þau?

 ÁRLEGA úthluta fjórar stofnanir í Skandinavíu nóbelsverðlaunum til þeirra sem hafa ‚unnið mannkyninu mest gagn á undanförnu ári.‘ Verðlaunin eru veitt fyrir árangur á sex ólíkum sviðum. Margir álíta nóbelsverðlaunin þann mesta heiður sem hægt sé að veita nokkrum manni.

2. Hvern láta þeir sem úthluta nóbelsverðlaununum sér yfirsjást og hvers vegna verðskuldar hann sérstaklega heiður?

2 Það er auðvitað ekkert rangt að heiðra menn sem verðskulda það, en skyldu þeir sem veita öðrum slíkan heiður nokkurn tíma leiða hugann að því að heiðra þann sem unnið hefur mannkyninu mest gagn? Hann hefur unnið mannkyninu gagn á ótal sviðum allt frá því að hann skapaði fyrsta manninn og konuna fyrir um það bil 6000 árum. Það hversu oft vantar á að menn sýni honum heiður minnir okkur á orð Elíhús, vinar Jobs til forna, sem sagði: „Enginn þeirra segir: ‚Hvar er Guð, skapari minn, sá er leiðir fram lofsöngva um nótt?‘“ (Jobsbók 35:10) Okkar mikli velgerðaguð heldur áfram að ‚gera okkur gott, gefa okkur regn af himni og uppskerutíðir, veita okkur fæðu og fylla hjörtu okkar gleði.‘ (Postulasagan 14:16, 17; Matteus 5:45) Jehóva er sannarlega gjafari ‚sérhverrar góðrar gjafar og sérhverrar fullkominnar gáfu.‘ — Jakobsbréfið 1:17.

Það sem það merkir að heiðra

3. Hver eru helstu hebresku og grísku orðin sem þýdd eru „heiður“ og hvað merkja þau?

3 Helsta hebreska orðið fyrir að heiðra, kavohð, merkir bókstaflega „það að vera þungt.“ Sá sem er heiðraður er því álitinn vera mikilvægur, áhrifamikill, að vera eitthvað. Þýðingu hefur að þetta hebreska orð, kavohð, er líka oft þýtt í Ritningunni sem „dýrð“ og gefur þannig enn frekar til kynna hve áhrifamikill eða mikilvægur sá er talinn sem verið er að heiðra. Annað hebreskt orð, jeqar, sem þýtt er „heiðra“ í Ritningunni, er líka þýtt „dýrmætur“ og „dýrmætir hlutir.“ Orðið að heiðra er þannig í Hebresku ritningunum tengt dýrð og dýrmæti. Á grísku er notað orðið time um það að heiðra og það gefur einnig í skyn virðingu, verðmæti, dýrmæti.

4, 5. (a) Hvað merkir það að heiðra einstakling? (b) Hvaða frásaga Esterarbókar 6:1-9 lýsir því hvað er fólgið í því að heiðra?

4 Maður heiðrar þannig aðra persónu með því að sýna henni djúpa virðingu og hafa hana í hávegum. Við skulum líta á frásögu Biblíunnar af hinum trúfasta Gyðingi Mordekai sem dæmi til að lýsa þessu. Einhverju sinni hafði Mordekai komið upp um samsæri um að ráða Ahasverus, konung Persíu til forna, af dögum. Nótt eina, er konunginum kom ekki dúr á auga, var hann minntur á hvað Mordekai hafði gert. Þá spurði hann þjóna sína: „Hverja sæmd og upphefð hefir Mordekai hlotið fyrir þetta?“ Þeir svöruðu: „Hann hefir ekkert hlotið fyrir.“ Það var skammarlegt! Mordekai hafði bjargað lífi konungs en konungur hafði ekki sýnt að hann mæti það að verðleikum. — Esterarbók 6:1-3.

5 Þegar vel stóð á spurði Ahasverus því forsætisráðherra sinn, Haman, hvernig best væri að heiðra mann sem konungur hefði velþóknun á. Haman hugsaði strax með sjálfum sér: „Hverjum mun konungur vilja heiður sýna öðrum en mér?“ Haman lagði því til að sá maður skyldi klæddur ‚konunglegum skrúða‘ og ríða ‚hesti sem konungur hefur riðið.‘ Hann lauk máli sínu þannig: „Skal . . . láta hann ríða hestinum um borgartorgið og hrópa fyrir honum: Þannig er gjört við þann mann, er konungur vill heiður sýna.“ (Esterarbók 6:4-9) Sá sem væri heiðraður þannig yrði mikils metinn af öllum mönnum.

Hvers vegna Jehóva verðskuldar heiður

6. (a) Hver verðskuldar öllum öðrum fremur að við heiðrum hann? (b) Hvers vegna er viðeigandi að kalla Jehóva ‚mikinn‘?

6 Út í gegnum mannkynssöguna hefur mönnum verið sýndur heiður, oft óverðugum. (Postulasagan 12:21-23) En hver verðskuldar öðrum fremur heiður? Auðvitað Jehóva Guð! Hann verðskuldar heiður okkar vegna þess hve mikill hann er. Oft er orðið „mikill“ notað um hann. Hann er hinn mikli, hinn mikli skapari, hinn mikli konungur, hinn mikli fræðari, hinn mikli húsbóndi. (Sálmur 48:2; Prédikarinn 12:1; Jesaja 30:20; 42:5; 54:5; Hósea 12:14NW) Sá sem er mikill er konunglegur, tiginn, upphafinn, göfugur, nafntogaður og vekur óttablandna lotningu. Jehóva er óviðjafnanlegur, hann á sér engan jafningja, hann er stórfenglegur. Hann ber sjálfur vitni um þá staðreynd og spyr: „Við hvern viljið þér samlíkja mér og jafna mér? Saman við hvern viljið þér bera mig sem jafningja minn?“ — Jesaja 46:5.

7. Á hve mörgum sviðum er hægt að segja að Jehóva sé einstæður og hvers vegna er hægt að segja að vald hans sé óviðjafnanlegt?

7 Jehóva Guð er óviðjafnanlegur á að minnsta kosti sjö ólíka vegu sem eru okkur, hver um sig, sérstök tilefni til að heiðra hann. Í fyrsta lagi verðskuldar Jehóva Guð mestan heiður vegna þess að vald hans er einstakt. Drottinn Jehóva er drottinvaldur alheimsins — hann er æðstur. Hann er dómari okkar, löggjafi og konungur. Allir á himni og jörð þurfa að standa honum reikningsskap gerða sinna en hann þarf engum að standa reikningsskap. Honum er vel lýst svo að hann sé „hinn mikli, voldugi og óttalegi.“ — 5. Mósebók 10:17; Jesaja 33:22; Daníel 4:35.

8. Hvers vegna má segja að Jehóva eigi engan sinn líka hvað varðar (a) stöðu? (b) eilífa tilveru?

8 Í öðru lagi verðskuldar Jehóva Guð mestan heiður vegna stöðu sinnar sem er einstök. Hann er „hinn hái og háleiti,“ hinn hæsti. Hann er óskiljanlega hátt upphafinn yfir allar jarðneskar sköpunarverur sínar! (Jesaja 40:15; 57:15; Sálmur 83:19) Í þriðja lagi ber Jehóva heiður umfram alla aðra vegna þess að hann er eilífur og á sér þar engan jafningja. Aðeins hann á sér ekkert upphaf og er frá eilífð til eilífðar. — Sálmur 90:2; 1. Tímóteusarbréf 1:17.

9. Á hvaða vegu er Jehóva óviðjafnanlegur hvað varðar (a) dýrð? (b) eiginleika?

9 Í fjórða lagi verðskuldar Jehóva mestan heiður vegna þess hve stórfengleg dýrð hans er. Hann er ‚faðir ljósanna.‘ Slíkur ljómi stafar af persónu hans að enginn maður getur séð hann og lífi haldið. Hann vekur sannarlega óttablandna lotningu. (Jakobsbréfið 1:17; 2. Mósebók 33:22; Sálmur 24:10) Í fimmta lagi skuldum við Jehóva mestan heiður vegna stórfenglegra eiginleika hans. Hann er almáttugur, vald hans er óendanlegt; hann er alvitur, viska hans er ótakmörkuð; hann er algerlega fullkominn í réttvísi og hann er sjálfur persónugervingur kærleikans. — Jobsbók 37:23; Orðskviðirnir 3:19; Daníel 4:37; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

10. Á hvaða vegu er Jehóva engum líkur (a) að því er varðar sköpunarverk og eigur? (b) að því er varðar nafn og orðstír?

10 Í sjötta lagi verðskuldar Jehóva Guð mestan heiður sem hugsast getur vegna sinna miklu sköpunarverka. Sem skapari allra hluta á himni og jörð á hann alla hluti. Við lesum í Sálmi 89:12: „Þinn er himinninn, þín er og jörðin.“ Í sjöunda lagi verðskuldar Jehóva heiður framar öllum öðrum vegna þess að hann er óviðjafnanlegur og bæði nafn hans og orðstír á sér enga hliðstæðu. Hann einn ber nafnið Jehóva sem merkir „hann lætur verða.“ — Sjá 1. Mósebók 2:4, neðanmálsathugasemd, NW.

Hvernig við getum heiðrað Jehóva

11. (a) Nefndu nokkur dæmi um hvernig við getum heiðrað Jehóva. (b) Hvernig getum við sýnt að við heiðrum Jehóva í raun og veru með því að treysta honum?

11 Hvernig getum við heiðrað Jehóva í ljósi allra eiginleika hans? Eins og við munum sjá getum við heiðrað hann með því að sýna honum ótta og lotningu, með því að hlýða honum, með því að viðurkenna hann á öllum okkar vegum, með því að gefa honum gjafir, með því að líkja eftir honum og með því að leita til hans í bæn. Við getum líka heiðrað hann með því að setja trú á hann, með því að treysta honum hvað sem fyrir kemur. Við erum hvött: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta.“ Við heiðrum því Jehóva Guð með því að taka hann á orðinu. Til dæmis segir hann: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast [af ótta], því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ (Orðskviðirnir 3:5; Jesaja 41:10) Ef við treystum honum ekki fullkomlega er það hið sama og að vanheiðra hann.

12. Hvaða hlutverki gegnir hlýðni og ótti í því að heiðra Jehóva?

12 Það að heiðra Jehóva er einnig nátengt því að hlýða honum. Og guðhræðsla, það að óttast að misþóknast Guði, er nauðsynleg til að hlýða honum. Orð Jehóva við Abraham, eftir að Abraham hafði hlýðinn í bragði nálega fórnað Ísak, syni sínum, sýnir tengslin milli guðsótta og hlýðni. „Nú veit ég, að þú óttast Guð,“ sagði Jehóva. (1. Mósebók 22:12) Er Páll postuli var að ræða hvað börn skulda foreldrum sínum kom einnig fram hjá honum að hlýðni og virðing haldast í hendur. (Efesusbréfið 6:1-3) Með því að hlýða boðum Guðs, sem eru ekki þung, erum við þannig að heiðra Jehóva. Ef við hlýðum ekki Jehóva Guði, þá vanheiðrum við hann. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

13. Hvaða áhrif mun það að við heiðrum Guð hafa á áform okkar og athafnir?

13 Enn fremur getum við sýnt Jehóva Guði verðskuldaðan heiður með því að hlýða leiðbeiningum Orðskviðanna 3:6: „Mundu til hans [já, viðurkenndu hann] á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Lærisveinninn Jakob gefur okkur góð ráð um þetta mál. Í stað þess að lifa lífinu sjálfsörugg dag frá degi og treysta á eigin hæfni ættum við að segja: „Ef [Jehóva] vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað.“ (Jakobsbréfið 4:15) Fyrir mörgum árum var það siður Alþjóðasamtaka biblíunemenda að bæta aftan við sérhver ummæli varðandi framtíðina skammstöfuninni D.V. sem stendur fyrir Deo volente en það merkir „ef Guð vill.“

14. (a) Hvaða afstöðu verðum við að hafa til viðleitni okkar ef við viljum heiðra Guð? (b) Hvaða viðhorf kemur fram í sambandi við útgáfu rita Varðturnsfélagsins?

14 Við heiðrum líka Jehóva með því að láta í ljós auðmýkt og þakka Guði hverja þá velgengni sem við njótum. Páll postuli sagði réttilega varðandi þjónustu sína: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt sem gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur.“ (1. Korintubréf 3:6, 7) Páli var greinilega umhugað að veita Guði viðeigandi heiður, ekki sjálfum sér eða nokkrum öðrum manni. Það er af þeirri ástæðu sem rit Varðturnsfélagsins nafngreina ekki þá sem semja þau og höfundarnir forðast að láta aðra vita hvað þeir hafa skrifað. Þar með er athyglinni beint að upplýsingunum sem er ætlað að heiðra Jehóva, en ekki að einhverjum manni.

15. Hvaða atvik sýnir hve erfitt sumir eiga með að skilja hógværð votta Jehóva?

15 Mörgum kemur á óvart að menn skuli fylgja þessari stefnu að beina athyglinni að Jehóva og þar með heiðra hann. Fyrir fáeinum árum voru vottarnir að setja upp magnarakerfi fyrir opinbera ræðu sem halda átti í Central Park í New York, og þeir léku tónband með Tónlist Guðsríkis til að prófa kerfið. Velklædd hjón spurðu einn af bræðrunum hvaða tónlist þetta væri. Hann hélt að hjónin væru vottar og svaraði: „Þetta eru Söngvar Guðsríkis númer 4.“ „Nú, en hver samdi tónlistina?“ spurðu þau. Votturinn svaraði: „Tónskáldið segir ekki til nafns.“ Hjónin svöruðu: „Það semur enginn svona tónlist án þess að segja til nafns.“ Votturinn svaraði: „Jú, vottar Jehóva gera það.“ Já, þeir gera það til að Jehóva Guð fái allan heiður af!

16. Á hvaða mismunandi vegu getum við notað röddina til að heiðra Jehóva Guð?

16 Önnur leið til að heiðra Jehóva er sú að nota varir okkar til að bera vitni um hann. Ef okkur er í alvöru hugleikið að heiðra hann, þá leggjum við okkur samviskusamlega fram um að útbreiða fagnaðarerindið um Guðsríki. Við getum gert það með því að fara hús úr húsi og með því að nota sérhverja möguleika sem við höfum, einnig þann að bera óformlega vitni þegar tækifæri gefst. (Jóhannes 4:6-26; Postulasagan 5:42; 20:20) Auk þess höfum við tækifæri til að heiðra Guð með rödd okkar á safnaðarsamkomum, bæði með því að gefa athugasemdir og með því að taka undir af öllu hjarta þegar ríkissöngvarnir eru sungnir. (Hebreabréfið 2:12; 10:24, 25) Í daglegum samræðum okkar getum við líka heiðrað Jehóva Guð með vörunum. Með því að leggja okkur örlítið fram getum við beint samræðunum inn á uppbyggilegar, andlegar brautir, og það er Jehóva Guði til heiðurs. — Sálmur 145:2.

17. (a) Hvaða áhrif hefur rétt breytni á það að heiðra Jehóva? (b) Hvaða áhrif hefur röng breytni?

17 Þótt gott sé að heiðra Jehóva Guð með vörum okkar er líka nauðsynlegt að heiðra hann með breytni okkar. Jesús fordæmdi þá sem heiðruðu Guð með vörunum en hjörtu þeirra voru fjarlæg honum. (Markús 7:6) Óhjákvæmilegt er að röng breytni vanheiðri Jehóva Guð. Til dæmis lesum við í Rómverjabréfinu 2:23, 24: „Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið? Svo er sem ritað er: ‚Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna.‘“ Á síðustu árum hafa þúsundir manna verið gerðar rækar úr söfnuði þjóna Jehóva. Líklega voru enn fleiri sekir um breytni sem vanheiðraði Guð en voru ekki gerðir rækir vegna þess að þeir létu í ljós ósvikna iðrun. Allt þetta fólk hafði heiðrað Jehóva með vörum sínum en gerði það ekki í verki.

18. (a) Hverju verða þeir sem trúað hefur verið fyrir miklum sérréttindum að vera vakandi fyrir ef þeir vilja sýna Jehóva tilhlýðilegan heiður? (b) Hvernig sýnir staða sumra presta á dögum Malakís nauðsyn þess að halda vöku sinni á þessu sviði?

18 Þeir sem eru önnum kafnir á ólíkum sviðum í þjónustu í fullu starfi — hvort heldur er á Betel, í farand- eða trúboðsstarfi eða brautryðjandastarfi — njóta mikillar blessunar að geta unnið að því að heiðra Jehóva. Það er skylda þeirra að gera sitt allra besta í hverju því starfi sem þeim er falið, að vera trúir ‚í því smæsta jafnt sem í miklu.‘ (Lúkas 16:10) Að sumu leyti má líkja heiðursstöðu þeirra við stöðu prestanna og Levítanna í Ísrael, þótt hún hafi ekki táknað hana. Vegna vanrækslu sumra af prestunum á dögum Malakís sagði Jehóva við þá: „Sé ég nú faðir, hvar er þá heiðurinn sem mér ber, og sé ég húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber?“ (Malakí 1:6) Þessir prestar fyrirlitu nafn Guðs með því að færa blindar, haltar og sjúkar skepnur að fórn. Ef þeir sem fara með sérstök þjónustusérréttindi nú á dögum leitast ekki við að gera sitt albesta, þá geta þeir verðskuldað sams konar ákúrur og Jehóva Guð veitti þessum prestum. Þeim myndi mistakast að heiðra Guð.

19. (a) Hvernig getum við enn fremur heiðrað Jehóva samkvæmt Orðskviðunum 3:9? (b) Nefndu aðra mikilvæga leið til að heiðra Jehóva.

19 Önnur leið til að heiðra Jehóva Guð er sú að gefa fé til stuðnings hinu alþjóðlega prédikunarstarfi sem hann hefur fyrirskipað. „Tigna [Jehóva] með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,“ erum við hvött. (Orðskviðirnir 3:9) Enginn ætti að láta sér yfirsjást þau sérréttindi að heiðra Jehóva Guð með slíkum framlögum. Við getum líka heiðrað Jehóva Guð í bænum okkar með því að lofa hann og þakka honum. (1. Kroníkubók 29:10-13) Reyndar erum við að heiðra Jehóva með því einu að ganga fram fyrir hann í auðmýkt og djúpri virðingu í bæn.

20. (a) Hverja heiðra menn í heiminum yfirleitt og hvernig? (b) Með því að hlýða hvaða boði getum við heiðrað Jehóva enn frekar?

20 Margt nútímafólk, einkum unglingar, heiðrar þá sem það dáist að með því að líkja eftir þeim — með því að tala líkt og þeir og bera sig að líkt og þeir. Oft eru þeir að líkja eftir átrúnaðargoðum í heimi íþrótta eða skemmtanalífs. Við sem erum kristnir menn ættum aftur á móti að heiðra Jehóva Guð með því að gera okkur far um að líkjast honum. Páll postuli hvatti okkur til þess er hann sagði: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika.“ (Efesusbréfið 5:1, 2) Já, við getum heiðrað Jehóva með því að leitast við að líkjast honum.

21. (a) Hvað gerir okkur hæf til að veita Jehóva dýrð og heiður? (b) Hvernig umbunar Jehóva þeim sem heiðra hann?

21 Við getum og ættum að gefa Guði heiðurinn á marga vegu. Við skulum aldrei gleyma að við verðum hæfari til að heiðra Guð ef við nærumst reglulega á orði hans og kynnumst honum betur og betur. Hvaða umbun hefur það í för með sér? „Ég heiðra þá, sem mig heiðra,“ segir Jehóva. (1. Samúelsbók 2:30) Jehóva mun að lokum heiðra dýrkendur sína með því að veita þeim eilíft líf og hamingju, annaðhvort á himni sem meðstjórnendur sonar síns, Jesú Krists, eða á jörð sem verður paradís.

Manst þú?

◻ Hverja heiðra menn yfirleitt og hvern vanrækja þeir að jafnaði að heiðra?

◻ Hvað merkir það að heiðra einhvern og á hvaða vegu er hægt að gera það?

◻ Nefndu helstu ástæðurnar fyrir því að Guð verðskuldar heiður.

◻ Nefndu nokkrar leiðir til að heiðra Jehóva.

◻ Á hvaða vegu heiðrar Jehóva þá sem heiðra hann?

[Spurningar]