Er í alvöru að birta til?
Er í alvöru að birta til?
„Berlínarmúrinn getur orðið götóttari samfara vaxandi tengslum austurs og vesturs. En það munu líða mörg ár, jafnvel kynslóðir, áður en hann fellur. Þýsku ríkin verða aldrei sameinuð á ný.“ Svo var ritað í virtu, bandarísku fréttatímariti í marsmánuði árið 1989.
Innan við 250 dögum síðar — ekki árum og þaðan af síður kynslóðum — byrjaði múrinn að molna. Fáeinum vikum eftir það voru þúsundir brota úr honum orðin minjagripir og skrifborðaskraut um heim allan.
GEGNUMRYÐGAÐ járntjald var loks fallið og með falli þess vöknuðu vonir um að langþráður heimsfriður og öryggi væri loks í nánd. Meira að segja Persaflóastríðið megnaði ekki að draga úr voninni um að hin langvarandi samkeppni austurs og vesturs væri liðin tíð og ný heimsskipan framundan.
Opnar nýja möguleika
Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur verið hreyfing í átt til sameiningar Evrópu. Árið 1951 stofnuðu Vestur-Evrópuríki sameiginlegan kola- og stálmarkað. Í kjölfar þess kom svo Efnahagsbandalag Evrópu árið 1957. Árið 1987 settu 12 aðildarríki (með samanlagt 342 milljónir íbúa) sér það markmið að taka upp fullkomlega sameiginlegt efnahagskerfi árið 1992. Full stjórnmálaeining virðist nú jafnvel koma sterklega til greina. Þetta eru sannarlega hressandi umskipti frá þeim blóðsúthellingum sem saga Evrópu hefur löngum einkennst af!
Í ljósi nýlegra umbrota á sviði stjórnmálanna hefur árið 1992 hins vegar öðlast aukna þýðingu. Vangaveltur um það að hin fyrrverandi kommúnistaríki Austur-Evrópu kunni
líka að eiga eftir að verða hluti sameinaðrar Evrópu verða æ algengari.Stendur Guð að baki?
Sum kirkjufélög virtu meginregluna um kristið hlutleysi að vettugi og létu hina áratugalöngu kúgun, sem trúarbrögðin í Austur-Evrópu höfðu mátt sæta, etja sér út í virk afskipti af stjórnmálum. Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung lét þau orð falla að „þáttur kristinna manna í því að koma á breytingunum í austri sé óvéfengjanlegur“ og bætti síðan við að „alls ekki megi vanmeta hlut þeirra.“ Blaðið hélt áfram: „Í Póllandi, til dæmis, mynduðu trúarbrögðin bandalag með þjóðinni og kirkjan varð eindreginn andstæðingur þess flokks sem fór með völdin; í Austur-Þýskalandi var kirkjan starfsvettvangur andófsmanna sem fengu að nota kirkjubyggingar undir starfsemi sína; í Tékkóslóvakíu hittust kristnir menn og lýðræðissinnar í fangelsum, lærðu að meta hver annan og tóku síðan höndum saman.“ Jafnvel í Rúmeníu, þar sem „kirkjurnar reyndust trúir þrælar Ceauşescu-stjórnarinnar,“ var það yfirvofandi handtaka prestsins Laszlo Tökes sem hleypti byltingunni af stað.
Páfagarður átti líka hlut að máli. Tímaritið Time sagði í desember 1989: „Þótt það hafi verið sú stefna Gorbatsjovs að láta Austur-Evrópuríkin afskiptalaus sem beinlínis hleypti af stað þeirri keðjuverkun í frelsisátt, sem hefur gengið yfir Austur-Evrópu á síðastliðnum mánuðum, má að miklu leyti þakka Jóhannesi Páli það sem gerst hefur, sé til lengri tíma litið. . . . Allan níunda áratuginn hamraði hann í ræðum sínum á hugmyndinni um Evrópu er væri sameinuð allt frá Atlantshafi til Úralfjalla og örvuð af kristinni trú.“ Það var því dæmigert að páfinn skyldi, er hann heimsótti Tékkóslóvakíu í apríl 1990, láta í ljós þá von sína að heimsókn hans myndi opna nýjar dyr milli austurs og vesturs. Hann tilkynnti að í bígerð væri að halda kirkjuþing evrópskra biskupa til að leggja línurnar þannig að hugsýn hans um „sameiningu Evrópu á grundvelli kristinna róta sinna“ mætti rætast.
Má ekki búast við að sameinað Þýskaland innan ramma sameinaðrar Evrópu eigi eftir að reynast fyrirrennari fullrar sameiningar Evrópu og síðar jafnvel alls heimsins? Gefur ekki aðild kirkjufélaga til kynna að þetta sé það sem Biblían lofar? Úr því að prestar bæði í austri og vestri eru nú teknir að starfa innan stjórnmálalegs ramma friðar og öryggis, má þá ekki ætla að þetta verði bráðlega veruleiki? Við skulum kanna það nánar.
[Mynd/Kort á blaðsíðu 4]
Nikulásarkirkjan í Leipzig sem er mótmælendakirkja — tákn hinna pólitísku umbrota í Þýskalandi.
Aðildarríki Efnahagsbandalags Evrópu.