Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft handan við „frið og öryggi“ af mannavöldum

Horft handan við „frið og öryggi“ af mannavöldum

Horft handan við „frið og öryggi“ af mannavöldum

Sannleikurinn er sá að menn geta aldrei komið á raunverulegum, varanlegum friði. Hvers vegna ekki? Vegna þess að mennirnir eru ekki hinir raunverulegu friðarspillar, þótt þeir eigi sína sök á blóðsúthellingum sögunnar. Hinn raunverulegi friðarspillir er mönnum máttugri. Hann er enginn annar en Satan djöfullinn sem er svo lýst í Biblíunni að hann ‚afvegaleiði alla heimsbyggðina.‘ — Opinberunarbókin 12:9.

BIBLÍAN segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda [Satans].“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Til að koma á varanlegum friði hlýtur því að þurfa að víkja Satan úr vegi ásamt því heimskerfi sem hann hefur byggt upp og stjórnar svo augljóslega. (Samanber Jesaja 48:22; Rómverjabréfið 16:20) Menn geta ekki gert það.

Hvernig er þá hægt að koma á friði og öryggi? Með mætti hans sem er óendanlega sterkari en Satan. Alvaldur Guð hefur sett starfsemi Satans meðal mannkyns tímatakmörk. Þegar tíminn er úti kemur ‚snöggleg tortíming‘ yfir þann heim sem er á valdi Satans. (1. Þessaloníkubréf 5:3-7) Öll rök hníga að því að það verði bráðlega.

Friður og öryggi núna!

En hvað um nútímann? Að vissu marki er hægt að njóta friðar og öryggis núna líka. Hvernig? Ekki með því að blanda sér í stjórnmál heimsins, eins og margir trúarleiðtogar hafa reynt, heldur með því að fylgja boðum Guðs og heilræðum.

Veitir slíkt frið í raun og veru? Já, það gerir það. Vottar Jehóva hafa til dæmis sannprófað að það er í raun og veru hægt að njóta ósvikins friðar auk öryggis í nokkrum mæli. Það að fylgja boðum Guðs, eins og þau eru opinberuð í Biblíunni, hefur gert þeim kleift að koma saman sem alþjóðasamtök í fullum friði, óháð kynþætti, þjóðerni eða tungu. — Sálmur 133:1.

Hlýðnir lögum Guðs hafa þeir í táknrænni merkingu ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum og temja sér ekki hernað framar.‘ (Jesaja 2:2-4) Þeir finna sig örugga vegna kærleika Guðs og treysta að andlegir bræður þeirra láti sér annt um þá. (Rómverjabréfið 8:28, 35-39; Filippíbréfið 4:7) Ef þú efast um að þetta geti verið rétt hvetjum við þig til að gera þér ferð í Ríkissalinn þeirra og sjá það með eigin augum.

Friður og öryggi um allan heim

Þetta er þó ekki lokauppfylling fyrirheita Biblíunnar um sannan frið og öryggi. Fjarri því! Þetta er einungis forsmekkur af því hvernig þessi heimur væri ef allir fylgdu lögum Guðs. Bráðlega mun sá forsmekkur verða að veruleika.

Páll postuli sagði: „Þegar menn [þeir sem ekki þjóna Guði] segja: ‚Friður og engin hætta‘ [og halda sig loks hafa komið á friði og öryggi á sinn hátt], þá kemur snögglega tortíming yfir þá.“ (1. Þessaloníkubréf 5:3) Guð mun úrskurða að Satan hafi afvegaleitt mannkynið nógu lengi. Þá kemur að því að hann verði látinn hverfa af sjónarsviðinu, ásamt því spillta heimskerfi sem hann ræður yfir. Þá rennur upp tíminn til að uppfylla spádóm Daníels: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.

Verður þetta ósanngjörn aðgerð af hálfu Guðs? Engan veginn. Snöggleg tortíming kemur einungis yfir þá sem verðskulda hana samkvæmt dómi Guðs, staðli Guðs. Treystir þú skaparanum til að fella réttan dóm í þessu máli? Auðvitað getum við óhrædd lagt málið í hans hendur! Og hvaða árangri mun dómur hans skila? Orðskviður segir: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu.“ (Orðskviðirnir 2:21, 22) Munu einhverjir syrgja það að hinir óguðlegu fyrirfarist?

Þegar búið er að ryðja friðarspillunum úr vegi mun sannur friður og öryggi verða hlutskipti mannkyns um alla jörðina undir blessunarríkri stjórn ríkis Guðs. „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Trúir þú þessu fyrirheiti Biblíunnar? Treystir þú því að þetta muni gerast bráðlega? Ef þú hefur einhverjar efasemdir, þá hvetjum við þig til að kynna þér málið betur. Í sannleika sagt er leið Guðs eina leiðin til að mannkynið geti nokkurn tíma náð því langþráða markmiði að öðlast sannan frið og ósvikið öryggi.

[Myndir á blaðsíðu 8]

Þjónar Jehóva njóta ósvikins friðar og verulegs öryggis nú á dögum.