Líktu eftir miskunn Guðs núna
Líktu eftir miskunn Guðs núna
„Látum oss falla í hendur [Jehóva], því að mikil er miskunn hans.“ — 2. SAMÚELSBÓK 24:14.
1. Hvað fannst Davíð um miskunn Guðs og hvers vegna?
DAVÍD KONUNGUR vissi af reynslunni að Jehóva er miskunnsamari en menn. Davíð treysti því að vegir Guðs væru bestir og þráði að læra vegu hans og ganga í sannleika hans. (1. Kroníkubók 21:13; Sálmur 25:4, 5) Er þér innanbrjósts líkt og Davíð?
2. Hvaða ráð gaf Jesús í Matteusi 18:15-17 varðandi meðhöndlun alvarlegrar syndar?
2 Biblían gefur okkur innsýn í hugsanagang Guðs, jafnvel í málum svo sem því hvað við ættum að gera ef einhver syndgar gegn okkur. Jesús sagði postulum sínum sem áttu eftir að verða kristnir umsjónarmenn síðar: „Ef bróðir þinn syndgar gegn þér, skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.“ Hið ranga, sem hér var um að ræða, var ekki smámægilegt, persónulegt ósamkomlag heldur alvarleg synd svo sem svindl eða rógur. Jesús sagði að ef ekki tækist að leysa málið með því að stíga þetta skref, og ef hægt væri að kalla til vitni, þá skyldi sá sem syndgað var gegn kalla þau til og sanna að drýgð hefði verið synd. Er það síðasta úrræðið? Nei. „Ef [syndarinn] skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ — Matteus 18:15-17.
3. Hvað átti Jesús við með því að segja að iðrunarlaus misgerðarmaður skyldi vera „sem heiðingi eða tollheimtumaður“?
3 Með því að postularnir voru Gyðingar skildu þeir hvað það merkti að koma fram við syndara ‚sem heiðingja eða tollheimtumann.‘ Gyðingar forðuðust samneyti við menn af þjóðunum og þeir fyrirlitu Gyðinga er unnu sem skattheimtumenn Rómar. * (Jóhannes 4:9; Postulasagan 10:28) Jesús var því að ráðleggja lærisveinunum að þeir ættu að hætta að hafa samneyti við syndarann ef söfnuðurinn hafnaði honum. En hvernig samræmist þetta því að Jesús hafði stundum samneyti við skattheimtumenn?
4. Hvers vegna gat Jesús, í ljósi orða sinna í Matteusi 18:17, átt samskipti við suma tollheimtumenn og syndara?
4 Lúkas 15:1 segir: „Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann.“ Það voru að sjálfsögðu ekki allir skattheimtumenn eða syndarar þarna heldur „allir“ í merkingunni margir. (Samanber Lúkas 4:40.) Hverjir? Þeir sem höfðu áhuga á að fá syndir sínar fyrirgefnar. Sumir slíkra manna höfðu áður laðast að iðrunarboðskap Jóhannesar skírara. (Lúkas 3:12; 7:29) Þegar því aðrir komu til Jesú var hann ekki að brjóta gegn leiðbeiningum sínum í Matteusi 18:17 með því að prédika fyrir þeim. Tökum eftir að „margir tollheimtumenn og bersyndugir [hlýddu á Jesú] en margir fylgdu honum.“ (Markús 2:15) Þetta voru ekki menn sem vildu halda áfram röngu líferni og afþökkuðu hjálp. Þeir heyrðu boðskap Jesú og voru snortnir í hjörtum sér. Ef þeir voru enn að syndga, þótt þeir væru trúlega að reyna að breyta sér, var „góði hirðirinn“ að líkja eftir miskunn föður síns með því að prédika fyrir þeim. — Jóhannes 10:14.
Fyrirgefning, kristin skylda
5. Hver er grundvallarafstaða Guðs hvað varðar fyrirgefningu?
5 Við erum fullvissuð hlýlega um fúsleika föður okkar til að fyrirgefa: „Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“ „Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.“ (1. Jóhannesarbréf 1:9; 2:1) Er fyrirgefning möguleg til handa burtreknum einstaklingi?
6. Hvernig getur brottrekinn einstaklingur fengið fyrirgefningu og verið tekinn inn á ný?
6 Já. Þegar einhver er gerður rækur úr söfnuðinum fyrir að iðrast ekki syndar sinnar útskýra öldungarnir, sem eru fulltrúar safnaðarins, fyrir honum að hann eigi þess kost að iðrast og öðlast fyrirgefningu Guðs. Hann má sækja samkomur í Ríkissalnum þar sem hann getur hlýtt á biblíufræðslu sem getur hjálpað honum að iðrast. (Samanber 1. Korintubréf 14:23-25.) Síðar getur hann sótt um að vera tekinn aftur inn í hinn hreina söfnuð. Er öldungarnir eiga fund með honum reyna þeir að ganga úr skugga um hvort hann hafi iðrast og snúið baki við syndugri breytni sinni. (Matteus 18:18) Ef svo er, þá má taka hann inn í söfnuðinn á ný í samræmi við fyrirmyndina í 2. Korintubréfi 2:5-8. Hafi hann verið rækur úr söfnuðinum í mörg ár þarf hann að leggja sérstaklega hart að sér til að taka framförum. Vera má að hann þarfnist einnig töluverðrar hjálpar eftir það til að byggja upp biblíuþekkingu sína og jákvætt mat á henni þannig að hann verði andlega sterkur kristinn maður.
Að snúa aftur til Jehóva
7, 8. Hvaða fordæmi til eftirbreytni setti Guð í tengslum við útlæga þjóð sína?
7 En geta öldungarnir sjálfir átt frumkvæðið að því að hafa samband við burtrekinn einstakling? Já. Biblían sýnir að miskunn birtist ekki aðeins í því að láta refsingu liggja niðri heldur oft líka í jákvæðum athöfnum. Við höfum fordæmi Jehóva fyrir því. Áður en hann sendi ótrúa þjóð sína í útlegð lét hann bera fram spádóma sem veittu von um að hún myndi snúa aftur: „Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. . . . Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig.“ — Jesaja 44:21, 22.
8 Meðan á útlegðinni stóð steig Jehóva ýmis fleiri skref þeim til hjálpar. Hann sendi spámenn, fulltrúa sína, til að hvetja Ísrael til að ‚leita sín og finna sig.‘ (Jeremía 29:1, 10-14) Í Esekíel 34:16 líkti hann sjálfum sér við fjárhirði og þjóð sinni, Ísraelsmönnum, við týnda sauði: „Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta.“ Í Jeremía 31:10 notaði Jehóva líka myndmál þar sem hann líkti sér við hirði Ísraelsmanna. Hann lýsti ekki sjálfum sér sem fjárhirði er beið í sauðabyrginu eftir að týndu sauðirnir kæmu aftur, heldur sýndi hann sjálfan sig sem hirði er leitaði hinna týndu. Tökum eftir að jafnvel meðan þjóðin í heild var iðrunarlaus og í útlegð gerði Guð ráðstafanir fyrir heimkomu hennar. Og í samræmi við Malakí 3:6 ætlaði Guð ekki, með tilkomu hins kristna skipulags, að breyta því hvernig hann kæmi fram.
9. Hvernig var fordæmi Guðs fylgt í kristna söfnuðinum?
9 Má skilja þetta svo að það geti verið tilefni til að stíga skref í átt til sumra sem eru burtreknir en kunna nú að iðrast? Munum að Páll postuli gaf leiðbeiningar þess efnis að óguðlegum manni skyldi vikið úr söfnuðinum í Korintu. Síðar hvatti hann söfnuðinn til að staðfesta kærleika sinn til mannsins vegna iðrunar hans sem leiddi til þess að hann var síðan tekinn inn í söfnuðinn á ný. — 1. Korintubréf 5:9-13; 2. Korintubréf 2:5-11.
10. (a) Hvaða hvatir skyldu búa að baki sérhverri viðleitni til að ná sambandi við einhverja brottrekna einstaklinga? (b) Hvers vegna ættu kristnir ættingjar ekki að eiga frumkvæðið að slíku sambandi?
10 Alfræðibókin, sem áður var vitnað í, segir: ‚Grundvallarforsendan fyrir bannfæringu var sú að standa vörð um lífsstaðla hópsins: „lítið súrdeig sýrir allt deigið“ (1. Kor. 5:6). Þessi forsenda er ljós í flestum kaflabrotum úr Biblíunni og ritum utan helgiritasafns hennar, en umhyggja fyrir einstaklingnum, jafnvel eftir brottrekstur hans, var undirstaða bænar Páls í 2. Kor. 2:7-10.‘ (Leturbreyting okkar.) Það er því rökrétt að hirðar hjarðarinnar nú á dögum sýni þess konar umhyggju. (Postulasagan 20:28; 1. Pétursbréf 5:2) Fyrrum vinir og ættingjar vonast kannski til að hinn burtrekni snúi aftur, en vegna virðingar fyrir boðinu í 1. Korintubréfi 5:11 hafa þeir ekki félagsskap við burtrekinn einstakling. * Þeir eftirláta hinum útnefndu hirðum að eiga frumkvæðið að því að kanna hvort slíkur einstaklingur hefur áhuga á að snúa aftur.
11, 12. Hvers konar manngerð meðal hinna brottreknu munu jafnvel ekki öldungar vilja hafa samband við, en hvers konar fólk gætu þeir heimsótt?
11 Það væri jafnvel ekki við hæfi fyrir öldunga að eiga frumkvæðið að því að hafa samband við ákveðna burtrekna einstaklinga, eins og fráhvarfsmenn sem „flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ Slíkir menn eru ‚falskennendur sem eru að reyna að smeygja inn háskalegum villukenningum og hafa söfnuðinn að féþúfu með uppspunnum orðum.‘ (Postulasagan 20:30; 2. Pétursbréf 2:1, 3) Þar er ekki heldur nokkur biblíulegur grundvöllur fyrir því að leita uppi burtrekna einstaklinga sem eru deilugjarnir eða leitast við að hvetja aðra til rangsleitni. — 2. Þessaloníkubréf 2:3; 1. Tímóteusarbréf 4:1; 2. Jóhannesarbréf 9-11; Júdasarbréfið 4, 11.
12 Margir hinna brottreknu eru hins vegar ekki þannig. Burtrekinn maður kann að vera hættur þeirri alvarlegu rangsleitni sem olli því að hann var gerður rækur. Annar kann að hafa notað tóbak eða drukkið í óhófi hér áður, en núna reynir hann ekki að fá aðra út í ranga breytni. Minnumst þess að jafnvel áður en hinir útlægu Ísraelsmenn sneru aftur til Guðs sendi hann þeim fulltrúa sína til að hvetja þá til að koma aftur. Biblían lætur ósagt hvort Páll eða öldungarnir í söfnuðinum í Korintu hafi átt eitthvert frumkvæði að því að kanna hvernig málin stæðu hjá hinum burtrekna manni. Þegar maðurinn hafði iðrast og bundið enda á ósiðsemi sína bauð Páll söfnuðinum að taka hann inn aftur.
13, 14. (a) Hvað gefur til kynna að sumir hinna brottreknu bregðist ef til vill vel við miskunnsömu frumkvæði? (b) Hvernig getur öldungaráðið gert ráðstafanir til að haft sé slíkt samband?
13 Á undanförnum árum hefur það komið fyrir að öldungur hafi rekist á burtrekinn einstakling. * Þar sem það hefur átt við hefur hirðirinn með fáum orðum útlistað hvaða skref þurfi að stíga til að verða tekinn inn aftur. Sumir slíkir einstaklingar hafa iðrast og og verið teknir inn aftur. Svo ánægjuleg málalok gefa til kynna að til séu einstaklingar sem hafa verið gerðir rækir úr söfnuðinum eða sjálfir sagt skilið við hann, en myndu bregðast vel við ef öldungarnir hefðu samband við þá. En hvernig gætu öldungarnir meðhöndlað þetta mál? Einu sinni á ári í mesta lagi ætti öldungaráðið að taka til athugunar hvort slíkir einstaklingar búi á safnaðarsvæðinu. * Öldungarnir munu beina athyglinni að þeim sem hafa verið í burtreknir í meira en ár. Ef kringumstæðurnar leyfa og það er við hæfi munu þeir fela tveimur öldungum (sem helst eru málinu kunnugir) að heimsækja slíkan einstakling. Ekki skal heimsækja nokkurn þann sem sýnir merki um gagnrýnið, hættulegt viðhorf eða sem hefur látið í ljós að hann vilji enga hjálp. — Rómverjabréfið 16:17, 18; 1. Tímóteusrabréf 1:20; 2. Tímóteusarbréf 2:16-18.
14 Öldungarnir tveir gætu hringt til að spyrja hvort þeir megi koma í stutta heimsókn, eða litið við hjá þessum aðila á hentugum tíma. Meðan á heimsókninni stendur þurfa þeir ekki að vera hörkulegir eða jafnvel kuldalegir heldur ættu að láta miskunn sína og umhyggju hlýlega í ljós. Í stað þess að rifja upp mál fortíðarinnar ættu þeir að ræða um ritningargreinar eins og Jesaja 1:18 og 55:6, 7 og Jakobsbréfið 5:20. Ef einstaklingurinn hefur áhuga á að snúa aftur til hjarðar Guðs gætu þeir útskýrt vingjarnlega hvaða skref hann ætti að stíga, svo sem að lesa Biblíuna og rit Varðturnsfélagsins og sækja samkomur í Ríkissalnum.
15. Hvað ættu öldungar, sem hafa samband við burtrekinn einstakling, að hafa í huga?
15 Þessir öldungar þurfa að sýna visku og góða dómgreind til að ákvarða hvort merki um iðrun séu fyrir hendi og hvort ráðlegt væri að fylgja málinu eftir með annarri heimsókn. Þeir ættu að sjálfsögðu að hafa hugfast að suma burtræka einstaklinga er ‚ógerlegt að endurnýja til afturhvarfs.‘ (Hebreabréfið 6:4-6; 2. Pétursbréf 2:20-22) Að heimsókninni lokinni munu öldungarnir tveir gefa þjónustunefnd safnaðarins stutta munnlega skýrslu. Hún mun síðan upplýsa öldungaráðið um málið á næsta fundi þess. Miskunnarríkt frumkvæði öldunganna hefur endurspeglað viðhorf Guðs: „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar — segir [Jehóva] allsherjar.“ — Malakí 3:7.
Önnur miskunnarrík hjálp
16, 17. Hvaða viðhorf ættum við að hafa til kristinna ættingja einhvers sem er brottrekinn?
16 Hvað um þau okkar sem ekki eru umsjónarmenn og eiga ekki slíkt frumkvæði að því að heimsækja burtrekna einstaklinga? Hvað getum við gert sem samrýmist þessu fyrirkomulagi og endurspeglar viðhorf Jehóva?
17 Svo lengi sem einhver er burtrekinn eða hefur skilið sig frá söfnuðinum þurfum við að fylgja leiðbeiningunum: „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ (1. Korintubréf 5:11) Þessar leiðbeiningar Biblíunnar ættu þó ekki að hafa áhrif á viðhorf okkar til kristinna fjölskyldumeðlima sem búa með burtreknum einstaklingi. Gyðingum til forna var svo illa við tollheimtumenn að þeir létu hatur sitt jafnvel ná yfir fjölskyldu hans. Jesús var ekki samþykkur því. Hann sagði að syndari, sem hafnaði hjálp, ætti að vera okkur „sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ Hann sagði ekki að kristnir fjölskyldumeðlimir ættu að fá slíka meðferð. — Matteus 18:17.
18, 19. Á hvaða hátt getum við sýnt að við erum sannkristnir menn í samskiptum okkar við trúfasta ættingja brottrekins manns?
18 Okkur ber sérstaklega að veita þeim fjölskyldumeðlimum, sem eru trúfastir kristnir menn, stuðning okkar. Vera má að þeir líði nú þegar og þurfi að yfirstíga hindranir vegna þess að þeir búa undir sama þaki og burtrekinn einstaklingur sem reynir kannski jafnvel að letja þá þess að sinna andlegum hugðarefnum sínum. Hann vill ef til vill síður að kristnir menn komi í heimsókn; eða er ekki nægilega kurteis til að draga sig í hlé og halda sér frá gestum sem koma til að hitta hina trúföstu fjölskyldumeðlimi. Hann kann einnig að standa í vegi fyrir því að fjölskyldan sækji allar kristnar samkomur og mót. (Samanber Matteus 23:13.) Kristnir menn í þessari erfiðu aðstöðu eiga sannarlega skilið miskunn okkar. — 2. Korintubréf 1:3, 4.
19 Við getum sýnt ástúðlega miskunn með því meðal annars að ‚hughreysta‘ og eiga uppörvandi samræður við slíka trúfasta einstaklinga á heimilinu. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Okkur gefast einnig góð tækifæri til að veit slíkan stuðning fyrir og eftir samkomur, á meðan við erum í boðunarstarfinu eða þegar við erum saman öðrum stundum. Við þurfum ekki að minnast á brottrekstur heldur getum rætt um margt sem er uppbyggilegt. (Orðskviðirnir 25:11; Kólossubréfið 1:2-4) Samhliða því að öldungarnir munu halda áfram að annast og gæta hinna kristnu í fjölskyldunni, má vera að við höfum tækifæri til að fara í heimsókn án þess að eiga samskipti við hinn burtrekna. Beri svo við að hinn burtrekni komi til dyra eða svari í símann getum við einfaldlega spurt eftir þeim kristna fjölskyldumeðlimi sem við leitum að. Stundum geta hinir kristnu fjölskyldumeðlimir ef til vill þegið heimboð til okkar. Mergur málsins er þessi: Þeir — ungir og aldnir — eru samþjónar okkar, elskaðir meðlimir safnaðar Guðs sem ekki ættu að vera einangraðir. — Sálmur 10:14.
20, 21. Hverjar ættu að vera tilfinningar okkar og framkoma ef einhver er tekinn inn í söfnuðinn á ný?
20 Þegar burtrekinn einstaklingur er tekinn inn aftur opnast okkur annar vettvangur þar sem við getum sýnt miskunn. Dæmisögur Jesú sýna glöggt þann fögnuð sem er á himni „yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“ (Lúkas 15:7, 10) Páll skrifaði Korintumönnum um mann sem hafði verið gerður rækur: „Því ættuð þér nú öllu heldur að fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð. Þess vegna bið ég yður að sýna honum kærleika í reynd.“ (2. Korintubréf 2:7, 8) Við skulum framfylgja þessu ráði af alvöru og kærleika á næstu dögum og vikum eftir að einstaklingur er tekinn inn á ný.
21 Dæmisaga Jesú um glataða soninn vekur athygli á hættu sem við þurfum að forðast. Eldri bróðirinn fagnaði ekki afturhvarfi eyðsluseggsins heldur fannst sér misboðið. Við skulum ekki vera þannig, ala í brjósti okkar illvilja vegna liðinna ranginda eða telja það of gott fyrir einhvern að vera tekinn inn í söfnuðinn aftur. Öllu heldur ætti markmið okkar að vera það að líkjast föðurnum sem var ljóslifandi dæmi um viðbrögð Jehóva. Faðirinn var glaður að sonur hans, sem var týndur og virtist sama og dauður, væri fundinn eða lifnaður á ný. (Lúkas 15:25-32) Þar af leiðandi munum við óhikað tala við bróðurinn sem tekinn hefur verið inn á ný og uppörva hann á annan hátt. Já, við ættum að láta koma greinilega fram að við sýnum miskunn, eins og himneskur faðir okkar gerir sem bæði fyrirgefur og sýnir miskunn. — Matteus 5:7.
22. Hvað er fólgið í því að líkja eftir Jehóva Guði?
22 Það orkar ekki tvímælis að viljum við líkja eftir Guði okkar þá verðum við að sýna miskunn í samræmi við fyrirmæli hans og réttlæti. Sálmaritarinn lýsir honum þannig: „Náðugur og miskunnsamur er [Jehóva], þolinmóður og mjög gæskuríkur. [Jehóva] er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.“ (Sálmur 145:8, 9) Svo sannarlega er hann kærleiksrík fyrirmynd fyrir kristna menn að líkja eftir!
[Neðanmáls]
^ „Gyðingarnir, sem byggðu Palestínu, fyrirlitu sérstaklega skattheimtumenn. Fyrir því voru nokkrar ástæður: (1) þeir söfnuðu fé fyrir erlent stórveldi sem hersat Ísraelsland og voru þannig óbeint að styðja þessa svívirðingu; (2) þeir voru alræmdir fyrir að vera samviskulausir og auðgast á kostnað samlanda sinna og (3) með starfi sínu voru þeir í tíðum tengslum við heiðingja þannig að þeir voru trúarlega óhreinir. Fyrirlitning á skattheimtumönnum birtist bæði í Nýjatestamentinu og ritum rabbína . . . Samkvæmt síðarnefndu ritunum átti hatrið einnig að ná til fjölskyldu skattheimtumannsins.“ — The International Standard Bible Encyclopedia.
^ Ef burtrekinn ættingi er á kristnu heimili er hann eftir sem áður þátttakandi í hinum daglegu athöfnum og verkefnum heimilisins. Það gæti falið í sér að vera viðstaddur þegar fjölskyldan ræðir andleg málefni. — Sjá Varðturninn 1. júní 1989, bls. 31-32.
^ Sjá Árbók votta Jehóva 1991, blaðsíðu 53-4.
^ Ef einhver vottur rekst á burtrekinn einstakling í prédikunarstarfinu hús úr húsi eða fréttir af því með öðrum hætti að hann búi á svæðinu, ætti hann að láta öldungana vita af því.
Tókstu eftir þessum atriðum?
◻ Hvernig komu Gyðingar fram við tollheimtumenn og syndara en hvers vegna átti Jesús samskipti við suma slíka?
◻ Á hvaða biblíulegum grundvelli er hægt að sýna miskunn og eiga frumkvæðið að því að hafa samband við marga sem týndir eru?
◻ Hvernig geta öldungaráð átt slíkt frumkvæði og gagnvart hverjum?
◻ Hvernig ættum við að sýna miskunn þeim sem teknir eru inn á ný og fjölskyldum brottrekinna?
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 29]
Hver sá sem tilheyrði eitt sinn hreinum og hamingjusömum söfnuði Guðs en er nú brottrekinn eða hefur aðgreint sig frá honum þarf ekki að halda áfram að vera það. Þess í stað getur hann iðrast og að eigin frumkvæði haft samband við öldunga safnaðarins. Leiðin til baka stendur opin.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 24]
Garo Nalbandian