Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Munt þú líkja eftir miskunn Guðs?

Munt þú líkja eftir miskunn Guðs?

Munt þú líkja eftir miskunn Guðs?

„Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:1.

1. Hvers vegna ætti það að líkja eftir öðrum að vera okkur alvarlegt umhugsunarefni?

 FLESTIR menn líkja eftir öðrum, í góðu sem illu. Þeir sem við umgöngumst geta því haft veruleg áhrif á okkur. Hinn innblásni ritari Orðskviðanna 13:20 aðvaraði: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Það er því af ærnu tilefni sem orð Guðs segir: „Breyttu ekki eftir því, sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því, sem gott er. Sá sem gott gjörir heyrir Guði til.“ — 3. Jóhannesarbréf 11.

2. Hverjum ættum við að líkja eftir og á hvaða vegu?

2 Biblían segir frá fjölda karla og kvenna sem eru verð eftirbreytni. (1. Korintubréf 4:16; 11:1; Filippíbréfið 3:17) Að sjálfsögðu ber okkur þó fyrst og fremst að líkja eftir Guði. Eftir að Páll hefur í Efesusbréfinu 4:31-5:2 vakið athygli á einkennum og athöfnum sem okkur ber að forðast hvatti hann okkur til að vera „góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum.“ Síðan kom hvatningin sem titill þessa námsefnis er sóttur í: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika.“

3, 4. Hvernig lýsti Guð sjálfum sér og hvers vegna ættum við að hugleiða nánar hvað það merkir að hann er réttvís?

3 Hverjir eru vegir Guðs og eiginleikar sem okkur ber að líkja eftir? Eins og sjá má af því hvernig Guð lýsti persónuleika sínum fyrir Móse eru persónuleiki hans og athafnir margþættar: „[Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum.“ — 2. Mósebók 34:6, 7.

4 Úr því að Jehóva „hefir mætur á réttlæti og rétti“ ber okkur að sjálfsögðu að kynnast og líkja eftir þessum þætti persónuleika hans. (Sálmur 33:5; 37:28) Hann er skaparinn og auk þess æðsti dómari og löggjafi mannkyns, þannig að hann er réttvís í viðskiptum við alla. (Jesaja 33:22) Það sést glögglega af því á hvaða hátt hann krafðist þess að réttvísinni væri framfylgt meðal þjóðar sinnar, Ísraels, og síðar innan kristna safnaðarins.

Réttvísi Guðs framfylgt

5, 6. Hvernig birtist réttvísi Guðs í samskiptum hans við Ísrael?

5 Er Guð útvaldi Ísraelsmenn sem þjóð sína spurði hann hvort þeir myndu ‚hlýða hans röddu grandgæfilega og halda hans sáttmála.‘ Þjóðin, sem var saman komin við rætur Sínaífjalls, svaraði einum munni: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.“ (2. Mósebók 19:3-8) Þetta var alvarlegt loforð! Fyrir milligöngu engla gaf Guð Ísraelsmönnum um 600 lagaákvæði er þeim var skylt að halda af því að þjóðin var vígð honum. Hvað nú ef einhver gerði það ekki? Sérfræðingur í lögmáli Guðs svaraði: ‚Orðið af englum talað reyndist stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlaut réttlátt endurgjald.‘ — Hebreabréfið 2:2.

6 Já, Ísraelsmaður, sem ekki hlýddi, átti yfir höfði sér „réttlátt endurgjald,“ ekki samkvæmt ófullkomnu réttlæti manna heldur réttlæti frá skapara okkar. Guð setti ákvæði um refsingu fyrir ýmiss konar afbrot. Avarlegasta refsingin var ‚uppræting‘ eða aftaka. Slíkan dóm hlutu menn fyrir gróf afbrot svo sem skurðgoðadýrkun, hjúskaparbrot, sifjaspell, kynmök við skepnur, kynvillu, barnafórnir, morð og misnotkun blóðs. (3. Mósebók 17:14; 18:6-17, 21-29) Hver sá Ísraelsmaður, sem af yfirlögðu ráði og iðrunarlaust braut eitthvert af lögum Guðs, átti ‚upprætingu‘ yfir höfði sér. (4. Mósebók 4:15, 18; 15:30, 31) Er þessum réttlátu dómum Guðs var fullnægt hafði það auðvitað einnig áhrif á afkomendur syndarans.

7. Nefndu nokkrar afleiðingar þess að réttvísinni var fullnægt meðal þjóðar Guðs til forna.

7 Refsing svo sem þessi undirstrikaði hversu alvarlegt mál það var að brjóta lög Guðs. Ef til dæmis ungur maður varð drykkjumaður og átvagl átti að leiða hann fyrir þroskaða dómara. Ef þeir komust að raun um að hann væri þverúðarfullur, iðrunarlaus syndari áttu foreldrarnir að eiga þátt í aftöku hans. (5. Mósebók 21:18-21) Þeir á meðal okkar, sem eru foreldrar, geta sjálfsagt ímyndað sér að það hafi ekki verið auðvelt. Samt sem áður vissi Guð að það væri nauðsynlegt til að illska og óguðleiki breiddist ekki út meðal sannra dýrkenda hans. (Esekíel 33:17-19) Þetta var skipan hans sem um var sagt: „Allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ — 5. Mósebók 32:4.

8. Hvernig einkenndust samskipti Guðs við kristna söfnuðinn af réttvísi?

8 Mörgum öldum síðar hafnaði Guð Ísraelsþjóðinni og útvaldi kristna söfnuðinn í staðinn. En Jehóva breyttist ekki. Hann hélt enn fast við réttlæti sitt og var lýst sem ‚eyðandi eldi.‘ (Hebreabréfið 12:29; Lúkas 18:7, 8) Jehóva gerði því enn ráðstöfun til að innræta öllum söfnuðinum guðsótta með því að gera iðrunarlausa syndara ræka. Vígðir kristnir menn, sem urðu iðrunarlausir syndarar, skyldu gerðir rækir.

9. Hvað er brottrekstur og hverju áorkar hann?

9 Hvað er fólgið í brottrekstri? Við finnum skólarbókardæmi um það í meðferð ákveðins máls á fyrstu öld. Kristinn maður í Korintu átti siðlaust sambandi við konu föður síns og iðraðist ekki þannig að Páll gaf fyrirmæli um að hann skyldi gerður rækur úr söfnuðinum. Slíkt var nauðsynlegt til að vernda hreinleika þjóna Guðs því að „lítið súrdeig sýrir allt deigið.“ Með því að gera hann rækan yrði komið í veg fyrir að óguðleg hegðun hans smánaði bæði Guð og þjóna hans. Auk þess gat hinn alvarlegi agi, sem fólst í brottrekstrinum, komið vitinu fyrir hann og vakið tilhlýðilegan guðsótta, bæði með honum og söfnuðinum. — 1. Korintubréf 5:1-13; samanber 5. Mósebók 17:2, 12, 13.

10. Hvernig eiga þjónar Guðs að bregðast við því ef einhver er gerður rækur?

10 Boð Guðs eru á þá lund að kristnir menn skulu „ekki umgangast . . . jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni,“ sem gerður er rækur fyrir óguðlega breytni. * Þannig er skorið á félagsskap hans og samveru með drottinhollum þjónum Guðs sem virða lög Guðs og vilja ganga samkvæmt þeim. Sumir þeirra gætu verið ættingjar hins brottrekna, þótt þeir væru ekki í sömu fjölskyldu, byggju ekki undir sama þaki. Það kann að vera erfitt fyrir þessa ættingja að framfylgja boðum Guðs, líkt og það var ekki auðvelt fyrir hebreska foreldra undir Móselögunum að eiga þátt í aftöku óguðlegs sonar. Eigi að síður er boð Guðs skýrt og því getum við verið viss um að brottreksturinn er réttvís. — 1. Korintubréf 5:1, 6-8, 11; Títusarbréfið 3:10, 11; 2. Jóhannesarbréf 9-11; sjá Varðturninn 1. janúar 1982, bls. 26-31; 1. október 1988, bls. 30-32.

11. Hvernig gætu ýmsar hliðar persónuleika Guðs birst í tengslum við brottrekstur?

11 En munum þó að Guð okkar er ekki einfaldlega réttvís; hann er líka „þolinmóður og gæskuríkur, fyrirgefur misgjörðir og afbrot.“ (4. Mósebók 14:18) Orð hans sýnir greinilega að burtrekinn einstaklingur getur iðrast og leitað fyrirgefningar Guðs. Hvað þá? Reyndir umsjónarmenn geta átt fund með honum og yfirvegað vandlega og með hjálp bænarinnar hvort hann sýni merki þess að iðrast þeirrar röngu breytni sem leiddi til þess að hann var gerður rækur. (Samanber Postulasöguna 26:20.) Ef svo er má taka hann inn í söfnuðinn á ný eins og 2. Korintubréf 2:6-11 gefur til kynna að átt hafi sér stað í sambandi við manninn í Korintu. En sumir hinna burtreknu hafa verið fjarri söfnuði Guðs svo árum skiptir. Er eitthvað hægt að gera til að hjálpa þeim að rata til baka?

Réttvísi tempruð miskunn

12, 13. Hvers vegna innifelur það að líkja eftir Guði meira en að endurspegla réttlæti hans?

12 Í því sem á undan er komið hefur fyrst og fremst verið fjallað um einn af eiginleikum Guðs sem upp eru taldir í 2. Mósebók 34:6, 7. Þessi vers tíunda hins vegar margt fleira en réttlæti Guðs og þeir sem vilja líkja eftir honum einblína ekki eingöngu á það að framfylgja réttvísinni. Ef þú værir að smíða líkan af musterinu, sem Salómon reisti, myndir þú varla rannsaka bara eina súlu. (1. Konungabók 7:15-22) Það myndi tæplega gefa þér góða mynd af uppbyggingu og hlutverki musterisins. Eins er það ef við viljum líkja eftir Guði; þá þurfum við líka að líkja eftir öðrum vegum hans og eiginleikum, svo sem þeim að hann er ‚þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir.‘

13 Miskunn og fúsleiki til að fyrirgefa eru undirstöðueiginleikar Guðs eins og sjá má af samskiptum hans við Ísrael. Guð réttlætisins lét þeim ekki órefsað fyrir endurteknar syndir en sýndi samt sem áður ríkulega miskunn og fyrirgefningu. „Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín. Náðugur og miskunnsamur er [Jehóva], þolinmóður og mjög gæskuríkur. Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.“ (Sálmur 103:7-9; 106:43-46) Já, þegar litið er á það sem Guð hefur gert í aldanna rás sýnir það sig að þessi orð eru sönn. — Sálmur 86:15; 145:8, 9; Míka 7:18, 19.

14. Hvernig sýndi Jesús að hann líkti eftir miskunn Guðs?

14 Með því að Jesús Kristur „er ljómi dýrðar [Guðs] og ímynd veru hans“ hljótum við að vænta þess að hann sýni sams konar miskunn og fúsleika til að fyrirgefa. (Hebreabréfið 1:3) Það gerði hann og framkoma hans við aðra sýnir það berlega. (Matteus 20:30-34) Hann lagði líka áherslu á miskunn með orðum sínum sem við lesum í Lúkasi 15. kafla. Líkingarnar þrjár, sem þar er að finna, sanna að Jesús líkti eftir Jehóva og þær eru mjög lærdómsríkar fyrir okkur.

Áhyggjur af því sem tapað var

15, 16. Hvað kom Jesú til að segja dæmisöguna í 15. kafla Lúkasar?

15 Þessar líkingar eða dæmisögur bera vitni um miskunn Guðs gagnvart syndurum og áhuga á þeim og draga upp samstæða mynd fyrir okkur til að líkja eftir. Við skulum taka eftir við hvaða aðstæður þessar dæmisögur voru sagðar: „Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann, en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: ‚Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.‘“ — Lúkas 15:1, 2.

16 Allir sem hlut áttu að máli voru Gyðingar. Fræðimenn og farísear stærðu sig af réttlæti sínu samkvæmt Móselögunum því þeir töldu sig fylgja þeim út í ystu æsar. Guð viðurkenndi hins vegar ekki slíka sjálfréttvísi. (Lúkas 16:15) Ljóst er að tollheimtumennirnir, sem nefndir eru, voru Gyðingar sem innheimtu skatta fyrir Róm. Sem hópur voru skattheimtumennirnir fyrirlitnir vegna þess að margir kröfðu landsmenn sína um allt of háa skatta. (Lúkas 19:2, 8) Þeir voru flokkaðir með „syndurum“ en til þess hóps töldust siðlausir einstaklingar, jafnvel skækjur. (Lúkas 5:27-32; Matteus 21:32) En Jesús spurði trúarleiðtogana sem kvörtuðu:

17. Hvað fjallaði fyrsta dæmisaga Jesú í Lúkasi 15 um?

17 „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ‚Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.‘ Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, er ekki hafa iðrunar þörf.“ Trúarleiðtogarnir skildu þetta myndmál ágætlega því að sauðir og fjárhirðar voru algeng sjón. Umhyggjusamur skildi fjárhirðirinn hina 99 sauði eftir í haga sem þeir þekktu til að leita hins týnda. Hirðirinn gafst ekki upp fyrr en hann fann hann og bar svo skefldan sauðinn aftur til hjarðarinnar. — Lúkas 15:4-7.

18. Hvað var fagnaðarefni samkvæmt annarri dæmisögu Jesú í Lúkasi 15. kafla?

18 Jesús sagði nú aðra dæmisögu: „Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ‚Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.‘ Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“ (Lúkas 15:8-10) Drakma samsvaraði næstum daglaunum verkamanns. Drakma konunnar var kannski hluti erfðafjár eða skartgrips. Þegar hún týndist leitaði hún gaumgæfilega til að finna hana, og þegar hún fann hana gladdist hún ásamt vinkonum sínum. Hvað segir þetta okkur um Guð?

Gleði á himnum — yfir hverju?

19, 20. Um hvern fjalla fyrstu tvær dæmisögurnar í 15. kafla Lúkasar fyrst og fremst og hvaða aðalatriði undirstrika þær?

19 Jesús sagði þessar tvær dæmisögur til að svara gagnrýni, en nokkrum mánuðum áður hafði hann kallað sjálfan sig ‚góða hirðinn‘ er legði líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. (Jóhannes 10:11-15) En Jesús sagði ekki dæmisögurnar fyrst og fremst um sjálfan sig. Sá lærdómur, sem fræðimennirnir og farísearnir þurftu að læra, varðaði viðhorf Guðs og vegu. Jesús sagði þannig að það ríkti gleði á himnum yfir syndara sem iðrast. Þessir skinhelgu menn sögðust þjóna Jehóva en líktu þó ekki eftir honum. Miskunnsöm framkoma Jesú var hins vegar í samræmi við vilja föður hans. — Lúkas 18:10-14; Jóhannes 8:28, 29; 12:47-50; 14:7-11.

20 Ef ástæða var til að gleðjast yfir einum af hundrað var enn ríkari ástæða til að gleðjast yfir einum af hverjum tíu. Það er ekki erfitt fyrir okkur að skynja gleði konunnar þegar hún fann peninginn! Lexían í þessari dæmisögu varðar einnig himininn því að ‚englar Guðs‘ fagna með Jehóva „yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“ Taktu eftir síðasta orðinu, „iðrun.“ Þessar dæmisögur voru í rauninni sagðar um syndara sem iðrast. Þú sérð líka að báðar lögðu áherslu á hversu viðeigandi það væri að gleðjast yfir iðrun þeirra.

21. Hvaða lærdóm ættum við að draga af dæmisögum Jesú í Lúkasi 15. kafla?

21 Þessir vegvilltu trúarleiðtogar, sem voru ánægðir með sig yfir því að fylgja lögmálinu á yfirborðinu, létu sér yfirsjást að Guð er „miskunnsamur og líknsamur . . . fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Ef þeir hefðu líkt eftir vegum Guðs og persónuleika að þessu leyti hefðu þeir kunnað að meta miskunn Jesú gagnvart syndurum sem iðruðust. Og hvað um okkur? Tökum við þessa lexíu til okkar og förum eftir henni? Við skulum skoða þriðju dæmisöguna sem Jesús sagði.

Iðrun og miskunn að verki

22. Endursegðu í stuttu máli þriðju dæmisögu Jesú í 15. kafla Lúkasar.

22 Þessi dæmisaga hefur oft verið kölluð dæmisagan um glataða soninn. Þegar þú lest hana sérðu kannski hvers vegna sumir líta á hana sem dæmisöguna um föðurást. Hún segir okkur frá yngri syninum í fjölskyldu sem fær erfðahlut sinn hjá föður sínum. (Samanber 5. Mósebók 21:17) Þessi sonur fer síðan til fjarlægs lands þar sem hann sólundar öllu í óhófsömum lifnaði og þarf síðan að þiggja starf sem svínahirðir. Svo djúpt er hann sokkinn að hann langar til að seðja sig á svínafóðrinu. En síðan kemur hann til sjálfs sín og ákveður að snúa aftur heim, fái hans aðeins að vinna sem daglaunamaður hjá föður sínum. Er hann nálgast heimili sitt stígur faðir hans það jákvæða skref að bjóða hann velkominn og heldur jafnvel veislu. Eldri bróðirinn, sem hefur búið áfram heima og unnið hjá föður sínum, bregst ókvæða við þeirri miskunn sem sýnd er. En faðirinn segir að þeir eigi að gleðjast vegna þess að sonurinn, sem var dauður, sé nú lifandi. — Lúkas 15:11-32.

23. Hvað ættum við að læra af dæmisögunni um glataða soninn?

23 Sumum fræðimannanna og faríseanna kann að hafa fundist sem verið væri að líkja þeim við eldri soninn en syndurunum við yngri soninn. En skildu þeir kjarnann í þessari dæmisögu og gerum við það? Hún leggur áherslu á áberandi eiginleika hins miskunnsama föður okkar á himnum, fúsleika hans til að fyrirgefa syndara sem í einlægni iðrast og snýr við. Hún hefði átt að koma áheyrendunum til að gleðjast yfir því að iðrunarfullir syndarar geta hlotið fyrirgefningu. Þannig lítur Guð á málin og þannig kemur hann fram, og þeir sem líkja eftir honum gera það einnig. — Jesaja 1:16, 17; 55:6, 7.

24, 25. Hvaða vegum Guðs ættum við að leitast við að líkja eftir?

24 Ljóst er að réttvísi einkennir alla vegu Guðs og þeir sem vilja líkjast Jehóva meta réttlætið mikils og keppa eftir því. En Guð okkar lætur ekki stjórnast af óhlutlægri eða strangri réttvísi. Miskunn hans og kærleikur er mikil. Hann sýnir það með fúsleika til að fyrirgefa þeim sem iðrast í einlægni. Það er því viðeigandi að Páll skyldi tengja fyrirgefningaranda af okkar hálfu því að líkja eftir Guði: „Verið . . . fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður. Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika.“ — Efesusbréfið 4:32-5:2.

25 Sannkristnir menn hafa lengi reynt að líkja eftir réttlæti Jehóva, miskunn hans og fúsleika til að fyrirgefa. Því betur sem við kynnumst honum, þeim mun auðveldara ætti það að vera fyrir okkur að líkja eftir honum að þessu leyti. En hvernig getum við hegðað okkur í samræmi við þetta gagnvart einstaklingi sem er nýbúinn að fá alvarlegan aga vegna syndar sem hann hefur stundað? Við skulum athuga það.

[Neðanmáls]

^ „Bannfæring í almennasta skilningi er yfirvegaður verknaður þar sem hópur neitar þeim sem áður var meðlimur hans og í góðu áliti um þau sérréttindi að eiga aðild að honum. . . . Bannfæring tók á hinu kristna tímabili á sig merkinguna útilokunaraðgerð fólgin í því að trúarsamfélag neitar misgerðarmanni um sakramentin, safnaðartilbeiðslu og hugsanlega hvers kyns félagslegt samneyti.“ — The International Standard Bible Encyclopedia.

Hvað hefur þú lært?

◻ Hvernig birtist réttvísi Guðs í söfnuði Ísraels og í kristna söfnuðinum?

◻ Hvers vegna ættum við að líkja eftir miskunn Guðs auk réttvísi hans?

◻ Hvert var tilefni dæmisagnanna þriggja í 15. kafla Lúkasarguðspjalls og hvaða lærdóm ættum við að draga af þeim?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Sléttan er-Raha við Sínaífjall (í bakgrunninum til vinstri).

[Rétthafi]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 22]

Garo Nalbandian

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 26]

Garo Nalbandian