Núna er tíminn til að leita Jehóva
Núna er tíminn til að leita Jehóva
„[Jehóva] lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti [Jehóva].“ — SÁLMUR 14:2.
1, 2. (a) Hvernig líta margir á hinn sanna Guð, Jehóva? (b) Hvernig vitum við að Jehóva er kunnugt um skeytingarleysi manna?
GUÐLEYSINGJAR, guðsafneitarar, dýrkendur falsguða og milljónir manna, sem segjast trúa á Guð en afneita honum með verkum sínum, hafna nú á dögum hinum sanna Guði, Jehóva. (Títusarbréfið 1:16) Margir eru sömu trúar og þýski heimspekingurinn Nietzsche, sem uppi var á 19. öld, að „Guð sé dauður.“ Veit Jehóva ekki af þessu mikla áhugaleysi? Jú, því að hann innblés Davíð að skrifa: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: ‚[Jehóva] er ekki til.‘ Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.“ — Sálmur 14:1.
2 Davíð hélt áfram: „[Jehóva] lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti [Jehóva].“ Já, alvaldur Drottinn Jehóva veit af þeim sem leitast við að þekkja hann og þjóna honum. Þess vegna er lífsnauðsyn fyrir okkur að leita hans núna. Það ræður úrslitum um hvort við hljótum eilíft líf eða verður útrýmt að eilífu. — Sálmur 14:2; Matteus 25:41, 46; Hebreabréfið 11:6.
3. Hvaða möguleika býður framtíðin upp á?
3 Við sjáum þannig hvers vegna það er svona þýðingarmikið að hjálpa öðrum að leita Jehóva núna. Enn eru til milljónir manna sem hafa aldrei hitt einn af vottum Jehóva eða heyrt ‚fagnaðarerindið um ríkið.‘ Við vitum ekki heldur hve mikið hinum ‚mikla múgi‘ á eftir að fjölga fyrir ‚þrenginguna miklu,‘ en vissulega er tækifæri fyrir marga fleiri til að leita Jehóva Guðs og finna hann í nánustu framtíð, áður en það er um seinan. Núna er spurningin sú hvað við getum gert til að hjálpa þúsundum til viðbótar að finna Guð. — Matteus 24:14; Opinberunarbókin 7:9, 14.
4, 5. Hvað vilja margir gera í leit sinni að guði?
4 Margt manna í heiminum er að leita, en að hverju eru þeir að leita? Afar fáir eru í raun að leita hins sanna Guðs, Jehóva. Margir velja sér guð sem hæfir persónulegum löngunum þeirra og fordómum. Eins og bandaríski tölfræðingurinn George Gallup yngri sagði: „Það er í rauninni sáralítill munur á þeim sem stunda kirkju og hinum sem ekki gera það að því er varðar svindl, skattsvik og hnupl, aðallega vegna þess að þjóðfélagstrú er mjög útbreidd.“ Hann bætir við að „margir setja bara saman trú sem þeim finnst þægileg og kitlar eyru þeirra . . . Einhver kallaði þetta trú eftir pöntun.“
5 Aðrir segja: „Mín trú er nógu góð fyrir mig.“ En spurningin ætti auðvitað að vera: „Er trú mín nógu góð fyrir Guð?“ Flestir sem tilheyra kristna heiminum eða aðhyllast hindúatrú eru að vísu sáttir við að dýrka skurðgoð sín og líkneski. Flestum svonefndum kristnum mönnum finnst nafnlaus þrenningarguð nógu góður handa sér. Og yfir 900 milljónir múslíma trúa á Allah. Guðsafneitarar, sem skipta milljónum, segja hins vegar að enginn Guð sé til.
Þeir sem þarfnast hjálpar
6. Hvað hafa margir lesendur Varðturnsins uppgötvað?
6 En hvað um þau okkar sem eru fastir lesendur þessa tímarits? Við höfum leitað hins sanna Guðs og fundið hann. Við höfum sannreynt orðin í Jakobsbréfinu 4:8: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ Með virku samfélagi við kristna söfnuðinn höfum við nálægt okkur Guði og við höfum kynnst af eigin raun hvernig Jehóva nálgast okkur. — Jóhannes 6:44, 65.
7. Hvernig vitum við að enn eru til margir sem hafa áhuga á að verða virkir í sannleikanum?
7 En við vitum að enn eru margir sem eru hinir ánægðustu með að hafa samfélag við þjóna Jehóva en hafa enn ekki stigið markviss skref til að nálægja sig honum með vígslu og skírn. Hvernig vitum við það? Árið 1990 voru nálega 10 milljónir manna viðstaddar minningarhátíðina um dauða Jesú. En hversu margir eru það sem bera vitni um fagnaðarerindið um ríkið? Rétt liðlega fjórar milljónir. Það þýðir að við höfum um sex milljónir sem eru vinveittar sannleikanum og hafa ánægju af félagsskap okkar endrum og eins, en hafa enn ekki byrjað að nota hið hreina tungumál sannleikans með því að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Vafalaust tala þeir af og til máli Jehóva og ríkis hans en þeir hafa enn ekki lýst sig opinberlega votta Jehóva. Við viljum hjálpa þeim líka. — Sefanía 3:9; Markús 13:10.
8, 9. (a) Hvað hvetur Jehóva okkur til að gera? (b) Hvers vegna er óviturlegt að skeyta ekki um heilræði Jehóva?
8 Við viljum hvetja þessa einstaklinga til að verða hamingjusamir, virkir vottar um Jehóva núna á síðasta áfanga hins mikla starfs sem verið er að vinna um víða veröld. Taktu eftir hinni elskuríku hvatningu Jehóva í Orðskviðunum 1:23: „Snúist til umvöndunar minnar, sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín.“ (Samanber Jóhannes 4:14.) Það er mjög hvetjandi að vita að Jehóva muni bregðast við því með slíkum hætti er við stígum jákvæð skref til að kenna okkur við nafn hans og tilbeiðslu! Við viljum sannarlega ekki vera í hópi þeirra sem lýst er í Orðskviðunum 1:24, 25: „Þér færðust undan, þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina, heldur létuð [þér] öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta.“
9 Þeir sem láta hvatningu Jehóva um að leita hans meðan hann er enn að finna sem vind um eyrun þjóta og slá ákvörðun sinni á frest uns þeir sjá þrenginguna miklu brjótast út fyrir augunum á sér, munu uppgötva að þeir hafa beðið of lengi. Slík stefna bæri vitni um skort á trú og visku og lýsti fyrirlitningu á óverðskuldaðri náð Jehóva. — 2. Korintubréf 6:1, 2.
10. Hvers vegna er sinnuleysi og skeytingarleysi hættulegt?
10 Við skulum taka dæmi til að sýna fram á nauðsyn þess að láta til skarar skríða þegar í stað: Myndir þú bíða með að fylgja læknisráði uns þú værir kominn með lungnabólgu í bæði lungun eða myndir þú gera það við fyrstu merki sjúkdómsins? Hvers vegna þá að bíða lengur með það að segja skilið við sjúkan heim Satans og taka afstöðu með Jehóva og verða einn af virkum vottum hans? Afleiðingar sinnuleysis, áhugaleysis og skeytingarleysis koma skýrt fram í orðum Jehóva í Orðskviðunum 1:26-29: „Þá mun ég hlæja í ógæfu yðar, draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður, . . . þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara, þeir munu leita mín, en ekki finna mig. Vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta [Jehóva].“ Við skulum ekki lenda í þeirri aðstöðu að vera að ‚leita Jehóva‘ þegar það er um seinan!
11. Hvaða hjálp stendur til boða þeim sem sækjast eftir að þjóna Guði?
11 Sumir sem lesa þetta tímarit eru kannski enn að leita hins sanna Guðs. Það er okkur gleðiefni að þið skuluð halda leit ykkar áfram. Það er bæn okkar að biblíuþekking ykkar muni hvetja ykkur til að stíga fleiri jákvæð skref í átt til eindreginnar afstöðu með sannleikanum. Þið megið treysta að sérhver söfnuður votta Jehóva er reiðubúinn að hjálpa ykkur við leit ykkar. — Filippíbréfið 2:1-4.
Tími kostgæfni og athafna
12, 13. Hvers vegna þurfum við að tengjast sannri guðsdýrkun?
12 Hvers vegna er nauðsynlegt að við stígum öll markviss skref til að kenna okkur við Jehóva Guð og hina sönnu tilbeiðslu á honum? Vegna þess að atburðirnir í heiminum stefna allir að ákveðnu hámarki. Blöðum sögunnar er nú flett hraðar en við fáum lesið þau. Nú er ekki rétti tíminn til að tvístíga eða vera hálfvolgur. Jesús sagði skýrt og greinilega: „Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.“ Hann sagði einnig: „Þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla.“ — Matteus 12:30; Lúkas 9:26.
13 Núna er rétti tíminn til kostgæfni og athafna! Við vitum í hvaða átt heimsatburðirnir stefna og það hillir undir Harmagedón við sjóndeildarhring. Þess vegna eru allir hvattir til að leita Jehóva núna meðan hann er enn að finna, áður en ‚reiðidagur hans‘ skellur á. Í þrengingunni miklu verður það of seint. — Sefanía 2:2, 3; Rómverjabréfið 13:11, 12; Opinberunarbókin 16:14, 16.
14. Hvaða ástæðu höfum við til að leita Guðs?
14 Í raun réttri ætti allt mannkynið að vera að leita hylli Guðs núna. Páll postuli lýsti því vel í Postulasögunni 17:26-28: „[Guð] skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra. Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss. Í honum lifum, hrærumst og erum vér.“ Síðustu orðin, „í honum lifum, hrærumst og erum vér,“ gefa okkur kappnóga ástæðu til að leita Guðs. Svo er óverðskuldaðri góðvild Jehóva að þakka að við þrífumst hér í hinu næfurþunna lífhvolfi á þessari agnarsmáu jörð. Ættum við ekki að vera þakklát alvöldum Drottni alheimsins? Og ættum við ekki að sýna honum þakklæti okkar í verki? — Postulasagan 4:24.
15. (a) Hvern taldi sagnfræðingurinn Arnold Toynbee vera tilgang æðri trúarbragða? (b) Hvað verðum við að gera til að geta vegsamað Guð?
15 Sagnfræðingurinn Arnold Toynbee skrifaði einu sinni: „Hinn sanni tilgangur æðri trúarbragða er sá að geisla frá sér þeim andlegu ráðum og sannindum, sem eru innsti kjarni þeirra, til eins margra sálna og þau geta náð, til að hver og ein þessara sálna geti með því uppfyllt hina raunverulegu skyldu mannsins. Hin raunverulega skylda mannsins er sú að vegsama Guð og njóta hans að eilífu.“ (An Historian’s Approach to Religion, bls. 268-9) Til að geta vegsamað Guð verðum við fyrst að leita hans og afla okkur nákvæmrar þekkingar á honum og tilgangi hans. Þess vegna er ákall Jesaja svo viðeigandi: „Leitið [Jehóva], meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva], þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.“ — Jesaja 55:6, 7.
Hvaða hagnýta hjálp getum við veitt?
16. (a) Hvaða áskorun blasir við kristna söfnuðinum? (b) Á hvaða hagnýta vegu getum við hjálpað öðrum að þjóna Jehóva?
16 Þær milljónir áhugasamra manna, sem enn eru ekki virkir boðberar, eru mikil áskorun á okkur. Hvaða hagnýta hjálp getum við sem erum öldungar, safnaðarþjónar, brautryðjendur og boðberar veitt þeim sem eru hlynntir sannleikanum, til að verða virkir þátttakendur með okkur í sannri guðsdýrkun? Ein leiðin er sú að bjóða fram hjálp, þar sem þörf gerist, og taka þá með okkur á samkomur í Ríkissalnum þannig að þeir geti líka notið góðs af anda Jehóva á reglulegum grundvelli. Heilræði Páls í Hebreabréfinu 10. kafla, 24. og 25. versi, eru jafnáríðandi núna og þau voru þá: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ Við hvetjum alla sem vilja njóta góðvildar Jehóva að eiga reglulegt samfélag við votta Jehóva í Ríkissalnum á staðnum.
17. Hvaða spurningum þarf að svara ef við eigum að geta hjálpað biblíunemendum að taka framförum í leit sinni að Jehóva?
17 Ef við nemum Biblíuna með einhverjum sem sækir reglulega samkomur, getum við þá hjálpað honum að verða hæfur sem boðberi fagnaðarerindisins? (Sjá Organized to Accomplish Our Ministry, bls. 97-9.) Og þegar hann verður óskírður boðberi, er honum þá boðið að koma með okkur reglulega í hið opinbera prédikunarstarf og í einhver biblíunám og endurheimsóknir? (Sjá Varðturninn 1. mars 1990, bls. 32.) Með öðrum orðum, þegar nýr einstaklingur verður hæfur til, uppörvum við hann þá með því að láta hann sjá af eigin raun einhvern af hinum jákvæða árangri af prédikunarstarfi okkar? — Matteus 28:19, 20.
Jehóva er þess verðugur að við leitum hans
18. Hvernig hefur Jehóva sýnt mannkyninu miskunn sína?
18 Vegna lausnarfórnar Krists Jesú lætur Jehóva okkur ekki gjalda fyrri synda okkar ef við iðrumst og iðkum trú. Tökum eftir orðum Davíðs: „Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum, heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ — Sálmur 103:10-14; Hebreabréfið 10:10, 12-14.
19. Hvaða hvatningu fá þeir sem kunna að hafa fjarlægst sannleikann?
19 Jehóva er í sannleika góðgerðarsamur og miskunnsamur Guð. Ef við komum til hans í auðmýkt og iðrun, þá fyrirgefur hann og gleymir. Hann ber ekki eilífan kala til okkar og hegnir ekki með eilífum kvölum í vítiseldi. Nei, það er eins og Jehóva sagði: „Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna.“ Hvílík uppörvun fyrir þá sem kunna að hafa fjarlægst sannleikann og vanrækt samband sitt við Jehóva! Þeir eru líka hvattir til að leita Jehóva núna og snúa aftur til samfélags við það fólk sem ber nafn hans. — Jesaja 43:25.
20, 21. (a) Hvaða hvetjandi fordæmi höfum við frá Júda fortíðarinnar? (b) Hvað urðu Júdamenn að gera til að öðlast blessun Jehóva?
20 Í þessu sambandi er Asa konungur í Júda til forna okkur uppörvandi fordæmi. Hann upprætti falska guðsdýrkun úr ríki sínu en samt voru eftir ákveðnar leifar heiðinnar tilbeiðslu. Frásagan í 2. Kroníkubók 15. kafla, 2. til 4. versi, greinir frá áminningarorðum Asarja spámanns til Asa: „[Jehóva] er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður. En langan tíma hefir Ísrael verið án hins sanna Guðs, . . . og er þeir voru í nauðum staddir, sneru þeir sér til [Jehóva], Ísraels Guðs, og leituðu hans, og hann gaf þeim kost á að finna sig.“
21 Jehóva var ekki í feluleik við Asa konung heldur ‚gaf honum kost á að finna sig.‘ Hvernig brást konungurinn við þessum boðskap? Í sama kafla, 8. og 12. versi, segir: „En er Asa heyrði orð þessi . . . þá herti hann upp hugann og útrýmdi viðurstyggðunum úr öllu landi Júda . . . en endurnýjaði altari [Jehóva], það er var frammi fyrir forsal [Jehóva]. Og [Júdamenn] bundust þeim sáttmála, að leita [Jehóva], Guðs feðra þeirra, af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni.“ Já, þeir leituðu Jehóva einlæglega „af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni.“ Hvaða afleiðingar hafði það fyrir þjóðina? Vers 15 segir okkur: „Og allur Júda gladdist yfir eiðnum, því að þeir höfðu eið unnið af öllu hjarta sínu og leitað hans af öllum huga sínum. Gaf [Jehóva] þeim því kost á að finna sig og veitti þeim frið allt um kring.“
22. Hvað hvetur okkur til að vera virkir núna í þjónustu Jehóva?
22 Er þetta ekki mikil hvatning fyrir okkur öll til að stíga jákvæð skref varðandi hina hreinu tilbeiðslu á Jehóva? Við vitum að milljónir manna til viðbótar eiga þess kost að lofsyngja Jehóva. Vafalaust eru margir þeirra að breyta lífi sínu núna til að uppfylla kröfur Ritningarinnar svo að þeir geti þjónað Jehóva. Aðrir eru að vaxa í þekkingu og trú, þannig að þeir munu bráðlega finna hvöt hjá sér til að tala hið hreina tungumál sannleikans við aðra með því að miðla þeim djúptækum skilningi á sannleikanum um Jehóva og ríki hans. Og hvers vegna er svona mikilvægt fyrir okkur öll að leita Jehóva núna meðan hann er að finna? Vegna þess að hinn fyrirheitni nýi heimur er í nánd. — Jesaja 65:17-25; Lúkas 21:29-33; Rómverjabréfið 10:13-15.
Manst þú?
◻ Hverjir eru skeytingarlausir gagnvart hinum sanna Guði, Jehóva?
◻ Að hvaða marki hefur trú áhrif á hegðun fólks?
◻ Hvaða möguleiki er á fjölgun virkra votta?
◻ Hvers vegna er núna rétti tíminn til kostgæfra verka?
◻ Hvers vegna er Jehóva þess verðugur að við leitum hans?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 11]
Margir af vinum votta Jehóva, sem sækja minningarhátíðina, eru væntanlegir þjónar Guðs.
Viðstaddir minningarhátíðina árið 1990: 9.950.058
Hámarkstala boðbera árið 1990: 4.017.213
[Mynd á blaðsíðu 13]
Á dögum Asa konungs sneri þjóðin sér til Jehóva.