Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Viðhorf biblíunnar til friðar og öryggis

Viðhorf biblíunnar til friðar og öryggis

Viðhorf biblíunnar til friðar og öryggis

Margir taka fyrirvaralaust sem góða og gilda þá þróun sem virðist eiga sér stað núna í átt til vaxandi einingar í heiminum og þess friðar og öryggis sem hún kynni að hafa í för með sér. Þeir vonast til að slík hreyfing muni skapa betri heim. En Biblían gefur til kynna að meira sé á ferðinni en virðist við fyrstu sýn.

FRIÐUR og öryggi er sérstaklega áhugavert umhugsunarefni fyrir kristna menn vegna þess sem Páll postuli skrifaði kristnum söfnuði á fyrstu öld undir innblæstri. Orð hans eru skráð í Biblíunni í 1. Þessaloníkubréfi 5:3: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ Þessi ritningargrein vekur ýmsar alvarlegar spurningar.

Friður og öryggi — undanfari hvers?

Ef þú lest samhengi orða Páls, sem vitnað er í hér að ofan, þá sérð þú að þeir sem lýsa yfir friði og öryggi eru ekki hinir vökulu kristnu menn heldur einstaklingar sem eru sofandi fyrir því sem er raunverulega að gerast. Þeir eru í hættulegri aðstöðu en gera sér ekki grein fyrir því vegna þess að þeir halda að nú sé að birta til. Páll sagði hins vegar um kristna menn: „En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað.“ (1. Þessaloníkubréf 5:1) Já, við ættum að vera vakandi fyrir þeirri stundaskrá sem Guð vinnur eftir. Hvers vegna? Vegna þess að Páll sagði að tími skyndilegrar eyðingar, kallaður ‚dagur Jehóva,‘ komi eins og „þjófur á nóttu.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:2.

En hvað er fólgið í því umtali um frið og öryggi sem spáð er? Ljóst er að það hlýtur að vera um að ræða meira en aðeins umtal. Menn hafa talað um frið næstum jafnlengi og þeir hafa háð stríð. Orð Páls hljóta að vísa til tíma er þjóðirnar virðast vera að ná einstæðum árangri í þá átt að koma á friði og öryggi. Það er þó aðeins á yfirborðinu því að svokallaður friður og öryggi, sem leiðir til skyndilegrar tortímingar, er augljóslega hvorki raunverulegur friður né ósvikið öryggi.

Jesús talaði líka um þessa skyndilegu eyðingu. Hann kallaði hana ‚þá miklu þrengingu, sem engin hefði þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og myndi aldrei verða.‘ Nokkur hundruð árum fyrir daga Jesú talaði spámaðurinn Daníel líka um hana og kallaði hana ‚svo mikla hörmungatíð að slík mun aldrei verið hafa frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma.‘ — Matteus 24:21; Daníel 12:1.

Hvort heldur hún er kölluð þrengingin mikla eða hin mikla hörmungatíð mun hún, samkvæmt spádómunum, afmá sérhvert merki um jarðneskt skipulag Satans. Í stað þess að tákna velþóknun Guðs leiðir umtalið um frið og öryggi, sem spáð er, til hins gagnstæða! — Samanber Sefanía 3:8.

Opinberun um tímann

Er sú hreyfing í átt til aukinnar einingar í heiminum, sem gætt hefur undanfarið, og vonin um frið og öryggi sem af henni leiðir, uppfylling spádóms- og varnaðarorða Páls? Eins og þetta tímarit hefur margsinnis bent á höfum við, allt frá 1914, orðið vitni að uppfyllingu fjölmargra biblíuspádóma sem tengjast himneskri nærveru Krists sem konungur. (Matteus 24. og 25. kafli, 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Opinberunarbókin 6:1-8) Jesús gaf til kynna að sumir, sem sáu upphaf þessa tímaskeiðs, verði enn á lífi er skyndileg tortíming kemur yfir hina óguðlegu. — Lúkas 21:29-33.

Páll postuli gaf líka vísbendingu um tímann. Hann sagði: „Meðan þeir eru að tala um frið og öryggi, þá kemur ógæfan allt í einu yfir þá.“ Þessi þýðing orða Páls, sem er tekin úr The New English Bible, sýnir greinilega að þrengingin mikla skellur á „meðan þeir eru að tala.“ Eins og þjófur á nóttu — alveg óvænt — dynur tortímingin yfir þegar menn síst búast við, þegar athygli flestra manna beinist að þeim friði og öryggi sem þeir vonast eftir. Þótt við getum ekki fullyrt á þessari stundu að núverandi staða friðar- og öryggismála uppfylli orð Páls — eða í hvaða mæli umræðan um frið og öryggi á enn eftir að vaxa — þá vekur sú staðreynd að umræðan um það er meiri en nokkru sinni fyrr kristna menn til vitundar um nauðsyn þess að halda sér glaðvakandi öllum stundum.

Heimsveldin takast á

Þegar spámaðurinn Daníel talaði um hörmungatíðina gaf hann einnig vísbendingar um tímann. Hann sýndi að hörmungatíðin myndi koma við lok langvarandi átaka milli tveggja þjóðafylkinga sem kallaðar eru „konungurinn norður frá“ og „konungurinn suður frá.“ (Daníel 11:5-43) Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa þessar þjóðafylkingar verið hinn kapítalíski „konungur suður frá“ og hinn sósíalski „konungur norður frá.“

Daníel spáði því að hin heiftúðuga samkeppni þessara tveggja þjóðafylkinga, eins og sést hefur síðastliðin 45 ár, myndi verða eins og átök tveggja glímukappa sem reyna að fella hvor annan. Nýlega virðist hafa dregið úr þeim átökum. Þannig lýsti sovéski utanríkisráðherrann því yfir á síðasta ári að kalda stríðinu væri lokið. Í júní vísaði tímaritið Time til leiðtogafundar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og sagði: „Sumir samninganna um takmörkun vígbúnaðar og tilrauna með kjarnorkuvopn hefðu talist ótrúlegur árangur fyrir fáeinum árum. Núna virðast þeir, jafnvel samanlagðir, lítilfjörlegir miðað við það sem á undan er gengið.“

Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort þetta vinsamlega samband, sem virðist ríkja milli stórveldanna tveggja, er stundlegt eða varanlegt. Eitt er þó ljóst. Langt er liðið á það tímabil sem Jesús nefndi. Og það sem er að gerast í heiminum gefur til kynna að við stöndum nærri þeim atburðum sem Páll postuli og spámaðurinn Daníel sögðu fyrir. Jafnvel þótt stjórnmálaþróunin undanfarið virðist að einhverju marki eiga rætur sínar að rekja til áhrifa kirkna kristna heimsins mun hún ekki leiða til varanlegs friðar. Öll rök hníga að því að hún muni leiða til hins gagnstæða fyrir þjóðir þessa heims.

[Myndir á blaðsíðu 6]

Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort hið vinsamlega samband, sem nú virðist ríkja milli stórveldanna, endist.

[Rétthafi]

USSR Mission to the UN