Bænir sem er örugglega svarað
Bænir sem er örugglega svarað
TIL eru bænir sem verður örugglega svarað. Kjarni þeirra birtist í fyrirmyndarbæn sem Jesús Kristur gaf lærisveinum sínum er hann sagði: „En þannig skuluð þér biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:9-13.
Þessi orð í fyrirmyndarbæn Jesú hafa verið endurtekin mörgum milljónum sinnum. Þótt Kristur hafi ekki ætlast til að sannir fylgjendur hans einfaldlega þyldu upp slíka bæn er víst að bænum þeirra, sem tjá áþekkar tilfinningar, verður svarað. (Matteus 6:7, 8) Hvað merkir það þá að nafn Guðs helgist? Hvers vegna að biðja um að ríki hans komi? Og hvers vegna að biðja um að vilji Guðs verði gerður?
„Helgist þitt nafn“
Jehóva, „Hinn hæsti yfir allri jörðunni,“ er sá sem Jesús ávarpaði ‚föður vorn á himnum.‘ (Sálmur 83:19) Guð varð ‚faðir‘ Ísraelsmanna með því að frelsa þá úr fjötrum í Egyptalandi og bindast sáttmálasambandi við þá. (5. Mósebók 32:6, 18; 2. Mósebók 4:22; Jesaja 63:16) Smurðir kristnir menn nú á dögum bera djúpa og innilega virðingu fyrir Jehóva sem föður sínum. (Rómverjabréfið 8:15) Og félagar þeirra, sem hafa jarðneska von, biðja líka til Jehóva Guðs sem föður síns. — Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:1-9.
En hvers vegna að biðja um að nafn Guðs helgist? Nú, frá uppreisn fyrstu mannlegu hjónanna í Edengarðinum hefur nafn Guðs verið smánað mjög. Til svars við slíkri bæn mun Jehóva hreinsa burt alla þá háðung sem minningarnafn hans hefur mátt þola. (Sálmur 135:13) Hann mun gera það með því að uppræta illskuna af jörðinni. Varðandi þann tíma sagði Guð fyrir munn spámannsins Esekíels: „Ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ — Esekíel 38:23.
Jehóva Guð er heilagur og hreinn. Nafn hans ætti því að vera helgað eða haldið heilagt. Hann mun sýna heilagleika sinn með því að helga sig frammi fyrir allri sköpuninni. (Esekíel 36:23) Þeir sem þrá hylli hans og eilíft líf verða að bera djúpa lotningu fyrir Jehóva og helga nafn hans með því að halda því aðgreindu frá öllu öðru og hafa í meiri metum. (3. Mósebók 22:32; Jesaja 8:13; 29:23) Því sagði Jesús fylgjendum sínum að biðja: „Helgist þitt nafn“ sem þýðir að halda heilagt eða koma fram við sem heilagt. Við megum vera viss um að Guð svari þessum hluta fyrirmyndarbænar Jesú.
„Til komi þitt ríki“
Jesús sagði fylgjendum sínum líka að biðja: „Til komi þitt ríki.“ Bæninni um að ríki Guðs komi verður tvímælalaust svarað. Guðsríki er æðsta stjórnvald Jehóva eins og það birtist fyrir milligöngu Messíasarstjórnarinnar í höndum sonar hans, Jesú Krists, og hinna ‚heilögu‘ sem eru með honum. (Daníel 7:13, 14, 18, 22, 27; Jesaja 9:6, 7) Vottar Jehóva hafa lengi sannað út frá Ritningunni að Jesús hafi verið krýndur sem konungur á himnum árið 1914. Hvers vegna ættu menn þá að biðja um að Guðsríki „komi“?
Það að biðja um að Guðsríki komi merkir í raun að biðja um að það komi gegn öllum andstæðingum stjórnar Guðs á jörðinni. Bráðlega mun „ríki [Guðs] . . . knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Þessi atburðarás mun stuðla að því að heilagt nafn Jehóva helgist.
„Verði þinn vilji“
Jesús sagði lærisveinum sínum enn fremur að biðja: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ Þetta er bæn um það að Jehóva breyti í samræmi við vilja sinn með jörðina. Það er áþekkt yfirlýsingu sálmaritarans: „Allt, sem [Jehóva] þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum. Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans. Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur, sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans. Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga.“ — Sálmur 135:6-10.
Það að biðja um að vilji Guðs verði gerður á jörðinni er beiðni um að hann láti tilgang sinn með þessan hnött verða að veruleika. Það felur í sér að andstæðingar hans verði fjarlægðir í eitt skipti fyrir öll, eins og hann ruddi þeim úr vegi í smáum mæli til forna. (Sálmur 83:10-19; Opinberunarbókin 19:19-21) Öruggt er að Jehóva heyri bænir um að vilji hans verði gerður út um alla jörðina og alheiminn.
Þegar Guðsríki stjórnar
Hvað má búast við að komi í stað þeirrar mannvonsku sem nú gagnsýrir mannlegt samfélag, þegar ríki Guðs stjórnar og vilji Guðs er gerður á jörðu eins og á himni? Að sögn Péturs postula ‚væntum við eftir fyrirheiti Guðs nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Hinn ‚nýji himinn‘ er réttlátt, andlegt stjórnvald — Jesús Kristur og 144.000 samerfingjar hans að ríkinu á himnum. (Rómverjabréfið 8:16, 17; Opinberunarbókin 14:1-5; 20:4-6) ‚Ný jörð‘ er ekki nýr hnöttur heldur réttlátt samfélag manna sem býr á jörðinni. — Samanber Sálm 96:1.
Undir stjórn Guðsríkis verður jörðinni umbreytt í paradís um allan hnöttinn. (Lúkas 23:43) Þá mun allt hlýðið mannkyn njóta ósvikins friðar og velsældar. (Sálmur 72:1-15; Opinberunarbókin 21:1-5) Þú getur verið hluti af þessum hamingjusama manngrúa ef þú ert drottinhollur stuðningsmaður þess að Messíasarstjórnin ríki yfir hlýðnum þegnum hér á jörðu. Talsmenn slíkrar stjórnar biðja þess í einlægni að nafn Jehóva helgist, ríki hans komi og að vilji hans verði gerður. Innilegum bænum þeirra verður örugglega svarað.