Heyrir Guð bænir þínar?
Heyrir Guð bænir þínar?
„ÉG HEF aldrei fundið fyrir þeirri tilfinningu að vera bænheyrð,“ sagði kona sem býr í Hokkaido í Japan. Og hún er ekki ein um það. Mörgum finnst þeir aldrei fá bænheyrslu. Vera má að þú hafir líka þínar efasemdir um að Guð heyri bænir þínar.
Milljónir manna biðja óteljandi bæna til ótal guða. Hvers vegna virðist sem svo mörgum bænum sé ekki svarað? Til að leita svars við því skulum við byrja á að kanna hvers konar bænir eru bornar fram.
Um hvað biðja sumir?
Um áramótin biðja tveir þriðju Japana, nálega 80 milljónir manna, bæna sinna í helgidómum Shintótrúarinnar eða musterum Búddhatrúarmanna. Þeir leggja fram peninga sem fórn og biðja um gæfu og gengi handa fjölskyldu sinni.
Í janúar og febrúar — rétt fyrir hin þreytandi inntökupróf í háskólana — hópast stúdentar í helgidóma svo sem þann í Tokýo sem kunnur er fyrir menntaguð sinn. Þeir skrifa óskir sínar á bænaskildi úr tré og hengja þá á tréslár á lóðinni í kringum helgidómana. Að minnsta kosti 100.000 slíkir skildir skreyttu lóð velþekkts helgidóms í Tokýo á meðan inntökuprófin stóðu yfir árið 1990.
Margar bænir lúta að heilsufarsmálum. Í helgidómi í Kawasaki í Japan biður fólk um vernd gegn eyðni. Presturinn þar í helgidóminum sagði til skýringar: „Gildi þess að biðja um vernd gegn eyðni er það að það fær fólk til að sýna aðgát.“ En er það allt og sumt sem bænin hefur upp á að bjóða?
Við annan helgidóm bað öldruð kona þess að hún mætti „deyja snögglega.“ Hvers vegna? Vegna þess að hún vildi umflýja þær þjáningar sem fylgja langvarandi veikindum og vildi ekki vera fjölskyldu sinni byrði.
Í einu svonefndu kristnu landi bað fyrirliði fótboltaliðs um sigur handa sínu liði og vernd gegn meiðslum. Kaþólskir menn í Póllandi biðja sjálfum sér velfarnaðar og skreyta Maríumyndir sínar með skartgripum þegar þeir trúa því að þeir hafi hlotið bænheyrslu. Margir streyma til kirkjubygginga svo sem hinnar frægu Guadalope-kirkju í Mexíkóborg, og til Lourdes-kirkjunnar í Frakklandi og biðja um lækningu með kraftaverki.
Í austri eða vestri biður fólk bæna af mörgum og margbreytilegum, persónulegum ástæðum. Augljóst er að fólk vill hljóta bænheyrslu, vill að bænum þess sé svarað. En er raunhæft að búast við að allar bænir séu heyrðar? Hvað um þínar eigin bænir? Færð þú bænheyrslu? Heyrir Guð bænir yfirleitt?