Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugleiðum fordæmi um langlyndi

Hugleiðum fordæmi um langlyndi

Hugleiðum fordæmi um langlyndi

„Guð . . . hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 9:22.

1. (a) Hvernig er innblásið orð Guðs okkur gagnlegt? (b) Hvers vegna tökum við eiginleikann langlyndi til umfjöllunar í þessu sambandi?

 JEHÓVA Guð, skapari okkar, gaf okkur innblásið orð sitt, heilaga Biblíu. Hún á að þjóna sem ‚lampi fóta okkar og ljós á vegi okkar.‘ (Sálmur 119:105) Orð Guðs hjálpar okkur líka að verða ‚albúin og hæf til sérhvers góðs verks.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Ein af leiðum þess til að gera okkur þannig albúin er að segja frá þeim sem eru okkur góð fyrirmynd um langlyndi. Þessi eiginleiki er einn af ávöxtum anda Guðs og nauðsynlegur til að við ávinnum okkur hylli hans og eigum góð samskipti við aðra menn. — Galatabréfið 5:22, 23.

2. Hvað merkir gríska orðið sem þýtt er „langlyndi“ og hver er fremstur í því að sýna þennan eiginleika?

2 Gríska orðið, sem þýtt er „langlyndi,“ merkir bókstaflega „langur í anda.“ Langlyndi hefur verið skilgreint sem „sá eiginleiki að sýna sjálfstjórn andspænis áreitni og vera ekki skjótur til að svara í sömu mynt eða refsa.“ (Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words eftir W. E. Vine, 3. bindi, bls. 12) Að vera langlyndur merkir að iðka sjálfstjórn og vera seinn til reiði. Og hver skarar fram úr í því að vera seinn til reiði og sýna langlyndi? Enginn annar er Jehóva Guð. Þannig lesum við í 2. Mósebók 34:6 að Jehóva sé „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ Á átta öðrum stöðum í Biblíunni er talað um að Jehóva sé „þolinmóður“ eða „seinn til reiði.“ — 4. Mósebók 14:18; Nehemía 9:17; Sálmur 86:15; 103:8; 145:8; Jóel 2:13; Jónas 2:2; Nahúm 1:3.

3. Hvaða eiginleikar liggja að baki langlyndi Jehóva?

3 Við væntum þess eðlilega af Jehóva Guði að hann sé langlyndur eða seinn til reiði, því að hann er óendanlegur að mætti og visku, fullkominn í réttlæti og sjálfur persónugervingur kærleikans. (5. Mósebók 32:4; Jobsbók 12:13; Jesaja 40:26; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann hefur stjórn á eiginleikum sínum svo að þeir eru í fullkomnu jafnvægi öllum stundum. Hvað upplýsir orð hans um það hvers vegna og hvernig hann hafi sýnt langlyndi gagnvart ófullkomnum mönnum?

Langlyndi sakir nafns hans

4. Af hvaða góðum ástæðum hefur Guð sýnt syndurum langlyndi?

4 Hvers vegna er Jehóva Guð langlyndur? Hvers vegna refsar hann ekki syndurum þegar í stað? Það stafar ekki af því að honum sé sama eða af því að hann sé ekki kostgæfur gagnvart réttlætinu. Jehóva hefur góðar ástæður fyrir því að vera seinn til reiði og refsa ekki mönnum án tafar. Ein ástæðan er sú að hann vill láta nafn sitt verða mönnum kunnugt. Önnur ástæða er sú að það kostaði sinn tíma að útkljá deiluna um drottinvald Guðs og ráðvendni mannkynsins sem uppreisnin í Eden olli. Enn ein ástæðan fyrir langlyndi Guðs er sú að hún gefur villuráfandi mönnum tækifæri til að bæta ráð sitt.

5, 6. Hvers vegna sýndi Jehóva langlyndi í tengslum við uppreisn mannanna?

5 Jehóva var langlyndur við fyrstu mannlegu hjónin í Edengarðinum. Er þau brutu bann hans gegn því að neyta ávaxtarins af skilningstrénu góðs og ills hefði hann þegar í stað getað líflátið þau og fallna engilinn sem hafði blekkt Evu. Enginn vafi lék á því að gróflega hafði verið brotið gegn réttlætisvitund Jehóva og að hann var uppreisnarseggjunum þrem reiður. Hann hefði getað tekið þau af lífi þegar í stað með fullum rétti. Guð hafði aðvarað fyrsta manninn. „Af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Sama dag og Adam syndgaði krafði Guð syndarana reikningsskapar og felldi dauðadóm yfir þeim. Frá sjónarhóli réttvísinnar dóu Adam og Eva á þeim degi. Hinn langlyndi Guð okkar leyfði Adam þó að lifa í 930 ár. — 1. Mósebók 5:5.

6 Guð hafði ærið tilefni til að vera langlyndur, eða seinn til reiði, í þessu tilfelli. Ef hann hefði líflátið þessa uppreisnarseggi á stundinni hefði það ekki svarað þeirri ögrun, sem fólst í orðum og athöfnum djöfulsins, að Jehóva Guð verðskuldi ekki tilbeiðslu og geti ekki átt sér mennska þjóna er varðveiti ráðvendni við hann óháð kringumstæðum. Þá hefði einnig verið ósvarað spurningum svo sem þessum: Hverjum var það að kenna að Adam og Eva syndguðu? Skapaði Jehóva þau svo siðferðilega veikgeðja að þau gátu ekki staðist freistingu, og refsaði hann þeim síðan fyrir að gera það ekki? Svörin við þessum spurningum koma skýrt í ljós í frásögunni sem er að finna í Jobsbók 1. og 2. kafla. Með því að leyfa mannkyninu að fjölga sér gaf Jehóva mönnum tækifæri til að afsanna ásakanir Satans.

7. Hvers vegna líflét Jehóva ekki Faraó þegar í stað?

7 Er Jehóva var í þann mund að frelsa þjóna sína, Ísraelsmenn úr fjötrum í Egyptalandi, sannaði hann enn á ný langlyndi sitt. Jehóva hefði getað gereytt Faraó og her hans á augabragði. Þess í stað umbar Guð þá um tíma. Af hvaða ástæðu? Nú, með tímanum varð Faraó þverúðarfyllri í því að neita Ísraelsmönnum um fararleyfi frá Egyptalandi sem frjálsri þjóð Jehóva. Þannig sýndi hann að hann var „ker reiðinnar“ sem verðskuldaði tortímingu fyrir það að bjóða Jehóva birginn. (Rómverjabréfið 9:14-24) En það var önnur meiri ástæða fyrir því að Guð var langlyndur í þessu tilfelli. Fyrir munn Móse sagði hann Faraó: „Ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk mitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni. En þess vegna hef ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.“ — 2. Mósebók 9:15, 16.

8. Af hvaða ástæðu líflét Guð ekki uppreisnargjarna Ísraelsmenn í eyðimörkinni?

8 Jehóva hafði líka gott tilefni til að sýna langlyndi er Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni. Þeir reyndu sannarlega á þolinmæði Guðs með því að dýrka gullkálfinn og sýna ekki trú er njósnarmennirnir tíu fluttu þeim neikvæð tíðindi. En Guð afmáði þá ekki sem þjóð vegna þess að nafn hans og orðstír var í húfi. Já, Jehóva sýndi langlyndi sakir nafns síns. — 2. Mósebók 32:10-14; 4. Mósebók 14:11-20.

Langlyndi í þágu manna

9. Hvers vegna sýndi Jehóva langlyndi á dögum Nóa?

9 Jehóva hefur verið langlyndur í þágu mannkynsins alla tíð síðan Adam braut gróflega gegn öllum ófæddu afkomendum sínum með því að syndga. Langlyndi Guðs gerði það mögulegt að bæta úr þessum rangindum á þann hátt að hann gaf tíma til að iðrunarfullir menn mættu sættast við hann. (Rómverjabréfið 5:8-10) Jehóva Guð sýndi mönnum líka langlyndi á dögum Nóa. Á þeim tíma sá Jehóva „að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga.“ (1. Mósebók 6:5) Þótt Guð hefði getað afmáð mannkynið jafnskjótt og hann sá þetta ástand lýsti hann yfir að hann myndi binda enda á það eftir 120 ár. (1. Mósebók 6:3) Þetta langlyndi gaf Nóa tækifæri til að eignast þrjá syni sem höfðu tíma til að vaxa úr grasi og kvænast, og síðan gat fjölskyldan smíðað örk til bjargar sálum sínum og dýrum jarðar gegnum flóðið. Þannig gat upprunalegur tilgangur Guðs með jörðina orðið að veruleika.

10, 11. Hvers vegna var Jehóva svona langlyndur við Ísraelsþjóðina?

10 Önnur skilgreining á langlyndi varðar einkum samskipti Guðs við fólk sitt. Langlyndi getur verið „það að umbera þolinmóðlega rangindi eða áreitni, samhliða von um að gott samband megi takast á nýjan leik.“ (Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 262; útgefið af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.) Hér er vikið að annarri ástæðu fyrir því að Guð var langlyndur við Ísraelsmenn. Þeir sneru aftur og aftur baki við Jehóva og voru hnepptir í þrælkun heiðinnar þjóða. Þrátt fyrir það sýndi hann langlyndi með því að frelsa Ísraelsmenn og gefa þeim tækifæri til að iðrast. — Dómarabókin 2:16-20.

11 Flestir konungar Ísraels leiddu þegna sína út í falsguðadýrkun. Hafnaði Guð þjóðinni þegar í stað? Nei, hann var ekki fljótur til að gefa upp vonina um að takast mætti að koma á góðu sambandi á nýjan leik. Jehóva var seinn til reiði. Hann sýndi langlyndi og gaf þeim hvað eftir annað tækifæri til að iðrast. Við lesum í 2. Kroníkubók 36:15, 16: „[Jehóva], Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum. En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði [Jehóva] við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.“

12. Hvernig bera kristnu Grísku ritningarnar vitni um orsökina fyrir langlyndi Jehóva?

12 Kristnu Grísku ritningarnar bera líka vitni um að Jehóva sýni langlyndi í því skyni að hjálpa villuráfandi mönnum. Til dæmis spyr Pál postuli kristna menn sem farnir eru af réttri braut: „Lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?“ (Rómverjabréfið 2:4) Orð Péturs eru í sama dúr: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar er hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Það er því vissulega viðeigandi að okkur skuli sagt að ‚álíta langlyndi Drottins vors vera hjálpræði.‘ (2. Pétursbréf 3:15) Þannig sjáum við að Jehóva er langlyndur, ekki vegna tilfinningasemi eða undanlátssemi, heldur vegna þess að nafn hans og tilgangur eiga hlut að máli og hann er miskunnsamur og kærleiksríkur.

Jesús var langlyndur

13. Hver er vitnisburður Biblíunnar fyrir því að Jesús Kristur hafi verið langlyndur?

13 Sonur Guðs, Messías, Jesús Kristur, er næstur á eftir Guði í því að sýna langlyndi. Hann er frábært fordæmi um það að sýna sjálfstjórn og rjúka ekki til að gjalda illt með illu er honum var ögrað. Spámaðurinn Jesaja sagði fyrir með eftirfarandi orðum að Messías myndi vera langlyndur: „Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.“ (Jesaja 53:7) Orð Péturs bera vitni um hið sama: „Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ (1. Pétursbréf 2:23) Lærisveinar Jesú hljóta að hafa reynt mjög á þolinmæði hans með endurteknum deilum sínum um það hver þeirra væri mestur! Samt sem áður sýndi hann þeim mikið langlundargeð og þolinmæði. — Markús 9:34; Lúkas 9:46; 22:24.

14. Hvað ætti fordæmi Jesú í langlyndi að koma okkur til að gera?

14 Við ættum að fylgja því fordæmi sem Jesús gaf í því að vera langlyndur. Pál skrifaði: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs. Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“ — Hebreabréfið 12:1-3.

15. Hvernig vitum við að Jesús var langlyndur og þoldi þrengingar fúslega?

15 Að Jesús hafi verið langlyndur og þolað þrengingar fúslega má sjá af viðhorfum hans er hann var handtekinn. Eftir að hafa ávítað Pétur fyrir að bregða sverði til varnar meistara sínum sagði Jesús: „Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla? Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ — Matteus 26:51-54; Jóhannes 18:10, 11.

Önnur fordæmi um langlyndi

16. Hvernig sýnir Ritningin að Jósef, sonur Jakobs, var langlyndur?

16 Jafnvel ófullkomnir, syndugir menn geta sýnt langlyndi. Hebresku ritningarnar geyma dæmi um ófullkomna menn, sem þoldu rangindi þolinmóðir. Sem dæmi má nefna Jósef, son hebreska ættföðurins Jakobs. Hann umbar þolinmóður það ranglæti sem hann mátti þola af hendi hálfbræðra sinna og konu Pótífars. (1. Mósebók 37:18-28; 39:1-20) Jósef leyfði þessum þrengingum ekki að gera sig beiskan. Það var greinilegt þegar hann sagði við bræður sína: „Látið það nú ekki fá yður hryggðar, og setjið það ekki fyrir yður, að þér hafið selt mig hingað, því að til lífs viðurhalds hefir Guð sent mig hingað á undan yður.“ (1. Mósebók 45:4, 5) Jósef er gott fordæmi um langlyndi!

17, 18. Hvaða vitnisburð höfum við um langlyndi af hálfu Davíðs?

17 Davíð er annað dæmi um trúfastan þjón Guðs sem sýndi langlyndi og þolinmæði er honum var gert rangt til. Hinn afbrýðisami Sál konungur hundelti hann og tvívegis hefði Davíð getað hefnt sín með því að drepa Sál. (1. Samúelsbók 24:1-22; 26:1-25) En Davíð beið þess að Guð léti málið til sín taka eins og sjá má af orðum hans við Abísaí: „Vissulega mun annaðhvort [Jehóva] ljósta [Sál] eða dauða hans ber að hendi með náttúrlegum hætti, eða hann fer í hernað og fellur. [Jehóva] láti það vera fjarri mér að leggja hendur á [Jehóva] smurða.“ (1. Samúelsbók 26:10, 11) Já, Davíð hafði það í hendi sér að binda enda á ofsóknir Sáls gegn sér en gerði það ekki heldur kaus að sýna langlyndi.

18 Íhugum líka hvað gerðist er Davíð konungur var á flótta undan svikulum syni sínum, Absalon. Símeí, Benjamíníti af húsi Sáls, kastaði grjóti að Davíð og formælti honum og hrópaði: „Burt, burt, blóðhundurinn og hrakmennið!“ Abísaí vildi láta drepa Símeí en Davíð neitaði að hefna sín. Í stað þess að gera það sýndi hann enn á ný langlyndi. — 2. Samúelsbók 16:5-13.

Hugleiðum fordæmi Páls

19, 20. Hvernig sýndi Páll postuli sig langlyndan?

19 Í kristnu Grísku ritningunum er að finna annað gott fordæmi um langlyndi af hálfu ófullkomins manns — Páls postula. Hann sýndi þolinmæði og langlundargeð bæði í samskiptum við trúarlega fjendur sína og einstaklinga sem játuðu sig kristna. Já, Páll sýndi langlyndi þótt sumir í söfnuðinum í Korintu sögðu: „Bréfin . . . eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans.“ — 2. Korintubréf 10:10; 11:5, 6, 22-33.

20 Páll hafði því ærna ástæðu til að segja Korintumönnum: „Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist, undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum, með grandvarleik, með þekkingu, með langlyndi, með góðvild, með heilögum anda, með falslausum kærleika.“ (2. Korintubréf 6:4-6) Á svipaðan hátt gat postulinn skrifað samverkamanni sínum Tímóteusi: „Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði, í ofsóknum og þjáningum, . . . og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:10, 11) Já, Páll gaf okkur gott fordæmi í því að sýna langlyndi.

21. Hvernig getur næsta grein hjálpað okkur?

21 Ljóst er að Ritningin hefur að geyma fjölmörg dæmi um langlyndi. Jehóva og ástkær sonur hans eru fremstu fordæmin. En það er líka uppörvandi að taka eftir að ófullkomnir menn, svo sem Jósef, Davíð og Páll postuli, sýndu þennan eiginleika. Næstu grein er ætlað að hjálpa okkur að líkja eftir góðum fordæmum sem þessum.

Hverju svarar þú?

◻ Hvað merkir það að vera langlyndur?

◻ Nefndu helstu ástæðurnar fyrir langlyndi Jehóva.

◻ Á hvaða vegu sýndi Jesús að hann var langlyndur?

◻ Hvaða biblíulega sönnun höfum við fyrir því að ófullkomnir menn geti verið langlyndir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jósef, Jesús, Davíð, Páll og Job voru fyrirmyndir í því að sýna langlyndi.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Jesús sýndi langlyndi gagnvart lærisveinum sínum.